2010–2019
Verið í bátnum og haldið ykkur fast!
október 2014


Verið í bátnum og haldið ykkur fast!

Ef við beinum augum okkar að Drottni, er okkur lofað óviðjafnanlegum blessunum.

Nýlega fór vinur minn í ferð með son sinn niður Koloradó-ánna, í gegnum Cataract-gilið, í suðaustur Utah. Gilið er þekkt fyrir sína 23 kílómetra af frussandi flúðum, sem geta verið einkar áhættusamar.

Til að búa sig undir ævintýrið, höfðu þeir skoðað þjónustuvefsíðu þjóðgarðsins vandlega, sem hafði að geyma mikilvægar upplýsingar um undirbúning og almennar leyndar hættur.

Í upphafi ferðarinnar, fór reyndur leiðsögumaður yfir mikilvægar öryggisreglur og lagði áherslu á þrjár megin reglur til að tryggja örugga ferð hópsins í gegnum flúðirnar. „Fyrsta reglan: Verið í bátnum! Önnur reglan: Verið alltaf í björgunarvesti! Þriðja reglan: Haldið ykkur fast með báðum höndum!“ Hann sagði síðan aftur, með enn meiri áherslu: „Munið fyrst og fremst eftir fyrstu reglunni: Verið í bátnum!“

Þetta ævintýri fær mig til að hugsa um okkar jarðnesku ferð. Flest höfum við upplifað tímabil í lífi okkar, þar sem við kunnum að meta stillt og friðsælt vatnið.. Á öðrum stundum upplifum við frussandi flúðir, sem líkja mætti við þær flúðir sem taka við 24 kílómetra niður með Cataract-gilinu – aðstæður sem gætu valdið líkamlegum skaða, dauða ástvinar, gert út um drauma og vonir og – fyrir suma – jafnvel trúarkreppu, þegar staðið er frammi fyrir vanda, spurningum og efasemdum lífsins.

Drottinn hefur af góðsemi séð okkur fyrir hjálp, þar á meðal bát, nauðsynlegum tækjum, líkt og björgunarvesti og reyndum leiðsögumanni, sem gefur fyrirmæli um öryggis- og ferðarreglur, til að auðvelda okkur leiðina niður lífsins á, að ákvörðunarstað okkar.

Íhugum fyrstu regluna: Verið í bátnum!

Brigham Young forseti líkti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu við „gamla Síonarskipið.“

Hann sagði eitt sinn: „Við erum langt út á hafi. Stormur skellur á og líkt og sjóarar segja: Skipið veltur eins og tunna. ‚Ég ætla ekki að dvelja hér,‘ segir einn, ‚ég trúi ekki að þetta sé „Síonarskipið.“‘ ‚En við erum út á miðju hafi.‘ ‚Mér er sama, ég verð ekki hér.‘ Hann tekur af sér stakkinn og lætur sig hverfa fyrir borð. Drukknar hann ekki? Jú. Það mun líka gerast fyrir þá sem hverfa frá þessari kirkju. Þetta er ‚gamla Síonarskipið,‘ svo verum um borð.“1

Í annað skipti sagðist Young forseti líka hafa áhyggjur af því að menn misstu áttir þegar þeir væru blessaðir – þegar lífið léki við mann: „Veðrið er stillt þar sem gamla Síonarskipið siglir við mildan andvara, og þegar allt er gott uppi á dekki, vilja sumir bræðranna fara út á árabátunum, til að … taka sundsprett, og sumir drukkna, aðrir fljóta í burtu og enn aðrir komast aftur upp í skipið. Við skulum vera í gamla skipinu, og það mun sigla með okkur í [örugga] höfn.“2

Young forseti segir svo að lokum: „Við erum á gamla Síonarskipinu. … [Guð] er við stjórnvölinn, og verður þar áfram. … Allt er eins og vera ber. Syngið lofsöng, því Drottinn er hér. Hann leiðir og fer fyrir okkur. Ef fólkið mun hafa algjört traust á Guði sínum, hverfa aldrei frá sáttmálum sínum eða Guði, mun hann koma því í höfn.“3

Hvernig höldum við okkur í gamla Síonarskipinu, í öllum áskorunum okkar tíma?

Svona gerum við það. Við þurfum að upplifa stöðuga umbreytingu, með því að auka trú okkar á Jesú Krist og trúfesti okkar við fagnaðarerindi hans, alla okkar ævi – ekki aðeins einu sinni, heldur reglubundið. Alma spurði: „Og sjáið nú, ég segi yður, bræður mínir [og systur], ef þér hafið fundið umbreytingu í hjörtum yðar og hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt nú?“4

Líkja má hinum reynda leiðsögumanni við postula og spámenn kirkjunnar, og innblásna leiðtoga prestdæmis og aðildarfélaga. Þeir hjálpa okkur að komast örugg á ákvörðunarstaðar.

Nýlega talaði ég á námskeiði fyrir nýja trúboðsforseta og veitti þeim leiðsögn:

„Beinið augliti trúboðsins að leiðtogum kirkjunnar. … Við hvorki munum, né … getum leitt [ykkur] afvega.

Þegar þið kennið trúboðum ykkar að beina augliti sínu að okkur, kennið þeim þá líka að fylgja aldrei þeim sem halda að þeir viti betur um það hvernig stjórna eigi kirkjunni, en … himneskur faðir og Drottinn Jesús Kristur gera, með prestdæmisleiðtogum sínum, sem hafa lykla til að vera í forsæti.

Ég hef komist að því í þjónustu minni, að þeir sem leiðast afvega [og] verða ráðvilltir, eru oftast þeir sem … gleymt hafa að þegar Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin mæla einróma, er um að ræða rödd Drottins á þeim tíma. Drottinn áminnir okkur: ‚Hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu‘ [K&S 1:38].“5

Með öðrum orðum, þeir hverfa frá gamla Síonarskipinu – yfirgefa það og verða fráhverfir. Oft upplifa þeir skammtíma og að endingu langtíma óviljandi afleiðingar, ekki aðeins sjálfir, heldur líka fjölskylda þeirra.

Líkja má svæðisleiðtogum kirkjunnar við lífsreynda leiðsögumenn, sem hafa notið þjálfun og kennslu postula og spámanna og annarra embættismanna kirkjunnar, og það sem mestu skiptir, Drottins sjálfs.

Við annað tilefni á þessu ári, talaði ég til unga fólksins í kirkjunni, á maí trúarsamkomu Fræðsludeildar kirkjunnar: Ég sagði:

„Ég hef heyrt að sumir telji leiðtoga kirkjunnar ekki í sambandi við raunveruleikann. Þeir gleyma því að við erum karlar og konur rík að reynslu, höfum búið á ótal stöðum og starfað með fjölda fólks af ólíkum bakgrunni. Í núverandi starfi förum við um allan heim, þar sem við ræðum við heimsleiðtoga í stjórnmálum, viðskiptum, mannúðarmálum. Þótt við höfum heimsótt [leiðtoga í] Hvíta húsinu í Washington, D.C. og leiðtoga þjóða [og trúarbragða] um allan heim, þá höfum við líka heimsótt auðmjúkustu [fjölskyldur og menn] á jörðunni ….

Ef þið ígrundið líf okkar og þjónustu, þá yrðuð þið líklega sammála um að við sjáum og upplifum veröldina á þann hátt sem fæstir gera. Þið munuð komast að því að við erum í betri sambandi við raunveruleikann er flestir aðrir. …

… Það er eitthvað varðandi visku hins einstaka [leiðtoga kirkjunnar], sem og sameinaða visku þeirra, er verða ætti til nokkurrar huggunnar. Við höfum upplifað þetta allt, þar á meðal afleiðingar almennra laga og reglugerða, vonbrigði, hörmungar og dauðsföll í eigin fjölskyldu. Við vitum hvað þið eruð að upplifa í lífi ykkar.“6

Minnist fyrstu reglunnar, eins og ég hef útskýrt hana, og líka annarrar og þriðju reglu: Verið alltaf í björgunarvesti og haldið fast með báðum höndum. Orð Drottins, eru að finna í ritningunum og í kenningum postulanna og spámannanna. Þeir veita leiðsögn og handleiðslu, sem eru líkt og björgunarvesti, ef við hagnýtum þau, og gera okkur kleift að vita hvernig við getum haldið fast báðum höndum.

Við þurfum að verða líkt og synir Mósía, sem „höfðu styrkst í þekkingu sinni á sannleikanum.“ Við getum orðið karlar og konur „[gædd] heilbrigðum skilningi.“ Því verður aðeins áorkað með því að „[kynna] sér ritningarnar af kostgæfni til þess að öðlast þekkingu á orði Guðs.“7

Þegar við kynnum okkur ritningarnar og orð liðinna og lifandi postula og spámanna, ættum við að leggja áherslu á að læra, lifa eftir og unna kenningu Krists.

Auk þess að venja sig á að lesa ritningarnar persónulega, þurfum við að verða eins og synir Mósía sem höfðu „beðið mikið og fastað.“8

Svo virðist sem þetta, sem ekki er auðvelt að mæla, sé afar mikilvægt. Einblínið á þessa einföldu hluti og látið ekki trufla ykkur.

Ég hef veitt athygli að margir þeir sem ég þekki og hafa ekki verið um kyrrt í bátnum og ekki haldið sér með báðum höndum þegar erfiðleikar og raunir steðja að, eða þeir sem ekki hafa verið um kyrrt í bátunum þegar nokkuð stillt er, hafa misst sjónar á megin sannleika fagnaðarerindisins – ástæðu þess að þeir gengu í kirkjuna, ástæðu þess að þeir voru fyllilega skuldbundnir og virkir í því að lifa eftir fagnaðarerindinu og blessa aðra með trúfastri þjónustu, og hvernig kirkjan hefur verið þeim „staður andlegrar næringar og vaxtar.“9

Joseph Smith kenndi þennan grundvallar sannleika: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins; og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“10

Ef við beinum augum okkar að Drottni, er okkur lofað óviðjafnanlegum blessunum: „Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.”11

Stundum taka Síðari daga heilagir og einlægir trúarnemar upp á því að einblína á „viðauka,“ í stað grundvallarreglna. Það er að segja, Satan reynir að draga athygli okkar frá hinum einfalda og skýra boðskap hins endurreista fagnaðarerindis. Þeir sem þannig láta truflast, gefast oft upp á því að meðtaka sakramentið, því þeir hafa sett auglit sitt á, eða jafnvel helgað sig alveg, minna mikilvægri ástundun eða kenningum.

Aðrir kunna að einblína á spurningar og efasemdir sem þeir upplifa. Auðvitað þýðir það ekki að trúfastur lærisveinn geti ekki upplifað efasemdir og vantrú. Nýlega sagði ráð Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar: Við skiljum að stundum vakni spurningar hjá kirkjumeðlimum um kenningar, sögu eða verklag kirkjunnar. Meðlimum er ætíð frjálst að spyrja slíkra spurninga og af einlægni reyna að auka skilning sinn.“12

Minnist þess að Joseph Smith sjálfur hafði spurningar sem leiddu til upphafs endurreisnarinnar. Hann var leitandi og, líkt og Abraham, þá fann hann svör við lífsins mikilvægustu spurningum.

Þær spurningar snúast um það sem mestu skiptir – áætlun himnesks föður og friðþægingu frelsarans. Leit okkar ætti að leiða til þess að við verðum ljúf, mild, ástúðleg, fús til að fyrirgefa, þolinmóð og trúfastir lærisveinar. Við verðum að vera fús, líkt og Páll kenndi, til að „[Bera] hver annars byrðar og [uppfylla] þannig lögmál Krists.“13

Að bera hver annars byrðar, er að aðstoða, styðja og skilja alla, þar á meðal sjúka, veikburða, fátæka í anda og á líkama, leitendur og hrjáða og líka aðra meðlimi –lærisveina – þar með talið kirkjuleiðtoga, sem hafa verið kallaðir af Drottni til að þjóna tímabundið.

Bræður og systur, verið í bátnum, notið björgunarvesti og haldið ykkur með báðum höndum. Forðist að láta truflast! Hafi eitthvert ykkar fallið frá borði, munum við ná til ykkar, finna og þjóna ykkur og draga ykkur örugglega upp í gamla Síonarskipið aftur, þar sem Guð faðirinn og Drottinn Jesús Kristur eru við stjórn og leiða okkur örugglega. Um það vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young (1997), 82–83.

  2. Brigham Young, „Discourse,“ Deseret News, 27. jan. 1858, 373.

  3. Brigham Young, „Remarks,“ Deseret News, 18. nóv 1857, 291.

  4. Alma 5:26.

  5. M. Russell Ballard, „Mission Leadership“ (ræða haldin á námskeiði fyrir nýja trúboðsforseta, 25. júní 2014), 8.

  6. M. Russell Ballard, „Be Still, and Know That I Am God“ (trúarsamkoma Fræðsludeildar kirkjunnar, 4. maí 2014); lds.org/broadcasts.

  7. Alma 17:2.

  8. Alma 17:3.

  9. Bréf frá Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni, 28. júní 2014.

  10. Joseph Smith, Elders’ Journal, júlí 1838, 44.

  11. 2 Ne 31:20.

  12. Bréf frá Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni, 28. júní 2014.

  13. Gal 6:2.