2010–2019
Gjör braut fóta þinna slétta
október 2014


Gjör braut fóta þinna slétta

Þegar við lítum til Jesú sem fyrirmyndar okkar, og fylgjum í fótspor hans, getum við snúið örugg til okkar himneska föður.

Kæru bræður og systur, ég stend auðmjúkur frammi fyrir ykkur í dag. Ég bið um trú ykkar og bænir, er ég miðla ykkur boðskap mínum.

Öll hófum við dásamlega og nauðsynlega ferð, þegar við yfirgáfum andaheiminn og komum í þetta, oft svo vandasama svið, sem nefnist jarðlífið. Megin tilgangur tilveru okkar á jörðinni, er að hljóta líkama af holdi og beinum, að hljóta reynslu, sem aðeins var hægt með aðskilnaði himneskra foreldra okkar og til að láta á það reyna hvort við héldum boðorðin. Í Bók Abrahams, þriðja kapítula, lesum við: „Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.“1

Þegar við komum til jarðarinnar, höfðum við með okkur hina undursamlegu gjöf – Já, sjálfræði okkar. Við njótum þeirra forréttinda að geta valið ótal hluti fyrir okkur sjálf. Hér lærum við af hinum mikla harðstjóra, reynslunni. Við greinum á milli hins góða og illa. Við skiljum á milli hins beiska og sæta. Við lærum að ákvarðanir móta örlögin.

Ég er viss um að við fórum frá föðurnum með djúpa þrá til að koma aftur til hans, að við mættum hljóta upphafninguna sem hann ráðgerði fyrir okkur og sem við sjálf þráðum svo heitt. Þótt okkur væri ætlað að finna veginn aftur til föður okkar á himnum og fylgja honum, sendi hann okkur ekki hingað án leiðsagnar. Hann hefur öllu heldur veitt okkur allt það sem við þurfum og mun aðstoða okkur, þegar við leitum hjálpar hans og gerum allt í okkar valdi til að standast allt til enda og hljóta eilíft líf.

Við höfum orð Guðs og sonar hans í hinum helgu ritningum, okkur til leiðsagnar. Við höfum ráðgjöf og kenningar spámanna Guðs. Afar mikilvægt er að okkur hefur verið séð fyrir fullkomnu fordæmi – já, Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists – og okkur er boðið að fylgja í hans fótspor. Frelsarinn sjálfur sagði: „Fylg mér.“2 „þau verk, sem þér hafið séð mig vinna, þau skuluð þér einnig vinna.“3 Hann lagði fram þessa spurningu: „Hvers konar menn ættuð þér því að vera?“ Hann kom síðan með svarið: „Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er.“4 „Hann sýndi veg og veitti leið.“5

Þegar við lítum til Jesú sem fyrirmyndar okkar, og fylgjum í fótspor hans, getum við snúið örugg til ævarandi dvalar hjá okkar himneska föður. Spámaðurinn Nefí sagði: „Fylgi maðurinn ekki staðfastlega fordæmi sonar hins lifanda Guðs allt til enda, getur hann ekki frelsast.“6

Í hvert sinn er kona nokkur vísaði til þess sem hún upplifði á ferðalagi um Landið helga, sagði hún: „Ég gekk þar sem Jesús gekk!“

Hún hafði verið á þeim stöðum sem Jesús lifði og kenndi. Kannski hefur hún staðið á sama bjargi og hann stóð á eða horft yfir fjallsgarð sem hann horfði yfir. Þessi upplifum var í sjálfu sér hrífandi fyrir hana, en að vera í eigin persónu þar sem Jesús gekk um, er ekki jafn mikilvægt og að gera eins og hann gerði. Að tileina sér breytni hans og lifa að fyrirmynd hans, er mun mikilvægar er að rekja þær slóðir sem hann fór um í jarðlífi sínu.

Þegar Jesú bauð ákveðnum ríkum manni: „Fylg mér,“7 var hann ekki aðeins að meina að sá ríki maður fylgdi sér um hæðir og hóla landsins.

Við þurfum ekki að ganga um strandir Galíleuvatns eða hæðir Júdeu, til að feta í fótspor Jesú. Við getum öll gengið með honum, ef við ákveðum að fylgja í fótspor hans í ferð okkar um jarðlífið og leyfum að orð hans hljómi í eyrum okkar, andi hans fylli hjörtu okkar og kenningar hans leiði líf okkar . Fordæmi hans lýsir upp veginn. Hann sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“8

Þegar við rýnum á veginn sem Jesús fór um, sjáum við að hann upplifði margt af því sama og við sjálf gerum í lífi okkar.

Jesús fór til að mynda um veg vonbrigða. Hann upplifði oft vonbrigði, og ein þau sárustu sýndu sig í harmakveini hans yfir Jerúsalem, er hann lauk þjónustu sinni meðal almennings. Ísraelsmenn höfðu hafnað boði hans um öryggi undir verndarvæng hans. Þegar hann horfði yfir borgina, sem brátt yrði eyðilögð, fylltist hann djúpri og sárri sorg. Af mikilli sorg hrópaði hann: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú, sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hænan ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.“9

Hann fór um veg freistinga. Lúsífer, hinn illi, beitti öllum sínum styrk, sínum sannfæringarmætti, til að freista hans, sem hafði fastað í 40 daga og 40 nætur. Jesús lét ekki undan, en stóðst hverja freistingu. Skilnaðarorð hans voru: „Vík brott, Satan!“10

Jesús fór um veg sársauka. Hugsið um Getsemane, þar sem „hann komst í dauðans angist og … sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.“11 Ekkert okkar fær heldur gleymt þjáningum hans á miskunnarlausum krossinum.

Öll munum við fara um veg vonbrigða, kannski vegna glataðra tækifæra, valdsmisbeitingar, vali ástvinar eða okkar eigin. Öllum munum við líka fara um veg freistinga. Við lesum í 29. kafla í Kenningu og sáttmálum: „Og þess vegna hlaut svo að verða, að djöfullinn freistaði mannanna barna, ella væri ekki um neitt sjálfræði þeirra að ræða.“12

Við munum líka fara um veg sársauka. Við, sem þjónar hans, getum ekki vænst annars en meistarinn, sem fullnaði skeið sitt í jarðlífinu, aðeins eftir mikinn sársauka og þjáningar.

Þótt á vegi okkar verði hin beiska sorg, þó munum við líka upplifa mikla hamingju.

Við getum farið með Jesú um veg hlýðni. Það mun ekki alltaf reynast auðvelt, en tökum einkunnarorð okkar í arf frá Samúel: „Hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“13 Við skulum minnst þess að áþján og dauði hljótast af óhlýðni, en frelsi og eilíft líf verða launin fyrir hlýðni.

Við getum, líkt og Jesús, farið um veg þjónustu. Þegar Jesús þjónaði meðal manna, var líf hans líkt og leiðarljós gæskunnar. Hann lífgaði limi hinna lömuðu, veitti blindum sýn og daufum heyrn.

Jesús fór um veg bænar. Hann kenndi okkur að biðja, með því að gefa okkur hina dásamlegu bæn, sem við þekkjum sem bæn Drottins. Hver fær gleymt bæn hans í Getsemane: „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“14

Önnur fræðsla, sem frelsarinn hefur séð okkur fyrir, er innan seilingar og finnst í hinum helgu ritningum. Í fjallræðu sinni, býður hann okkur að vera miskunnsöm, auðmjúk, réttlát, hrein í hjarta og friðsöm. Hann býður okkur að vera hugrökk og standa fast á trú okkar, jafnvel þótt við verðum spottuð og ofsótt. Hann býður okkur að láta ljós okkar skína, svo aðrir sjái það og finna þrá til að vegsama föðurinn á himnum. Hann býður okkur að vera siðferðislega hrein, bæði í hugsun og verkum. Hann segir að mikilvægara sé að safna fjársjóði á himni, en á jörðu.15

Dæmisögur hans kenna með krafti og valdi. Með dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, kennir hann okkur að elska náungann og þjóna honum.16 Með dæmisögunni um talenturnar, kennir hann okkur að bæta okkur og keppa að fullkomnun.17 Með dæmisöguna um glataða sauðinn, býður hann okkur að bjarga þeim sem hafa horfið af veginum og villst frá.18

Þegar við reynum að hafa Krist að þungamiðju lífs okkar, með því að læra orð hans, lifa eftir kenningum hans og feta í fótspor hans, lofar hann að gefa okkur eilíft líf, sem hann gerði að veruleika með dauða sínum. Enginn tilgangur er æðri þessum, að við veljum ögun hans og að við verðum lærisveinar og gerum verk hans alla okkar ævidaga. Ekkert annað, ekkert annað sem við veljum, megnar að gera okkur að því sem hann getur gert.

Þegar mér verður hugsað um þá sem sannlega hafa reynt að fylgja fordæmi frelsarans, og fylgt í fótspor hans, koma strax í huga minn nöfnin Gustav og Margarete Wacker – tveir af þeim kristilegustu einstaklingum sem ég hef kynnst. Þau voru innfæddir Þjóðverjar og innflytjendur í Austur-Kanada, sem ég kynntist í þjónustu minni þar sem trúboðsforseti. Bróðir Wacker vann fyrir sér sem rakari. Þótt eigur þeirra væru fábrotnar, þá gáfu þau allt sem þau áttu. Barnalán var ekki þeirra blessun, en þau hlúðu að öllum sem á heimili þeirra komu. Karlar og konur, vel menntuð og forfrömuð, leituðu til þessara auðmjúku, ómenntuðu þjóna Guðs og töldu sig lánsöm að geta varið einni klukkustund í návist þeirra.

Útlit þeirra var venjulegt, enskan þeirra bjöguð og nokkuð erfið að skilja og heimili þeirra fábrotið. Þau áttu hvorki bíl, né sjónvarp, eða gerðu nokkuð af því sem heimurinn er yfirleitt upptekinn af. Samt tróðu trúfastir slóð að dyrum þeirra til þess að meðtaka af andanum sem þar var. Heimili þetta var himinn á jörðu, og andinn sem af þeim ljómaði var sannur friður og gæska.

Við getum líka haft þann anda og miðlað honum heiminum, er við förum veg frelsara okkar og fylgjum hans fullkomna fordæmi.

Í Orðskviðunum lesum við þessa áminningu: „Gjör braut fóta þinna slétta.“19 Þegar við gerum það, munum við hafa trú, já, þrá, til að fara þann veg sem Jesús fór um. Við munum ekki efast um að við séum á þeim vegi sem himneskur faðir vill að við séum á. Fyrirmynd frelsarans sér okkur fyrir öllu því sem við þurfum að gera, og orð hans er óbrigðull leiðarvísir. Vegur hans mun leiða okkur örugg heim. Megi það verða blessun okkar, í nafni Jesú Krists, sem ég elska, þjóna og vitna um, amen.