Í hvora áttina snýrð þú?
Að reyna að þóknast öðrum, áður en við þóknumst Guði, er andstætt fyrstu tveimur boðorðunum.
„Í hvora áttina snýrð þú?“ Boyd K. Packer forseti kom mér á óvænt með erfiðri spurningu, er við ferðuðumst saman í fyrsta verkefni mínu sem einn af hinum Sjötíu. Án þess að skilja samhengi spurningarinnar þá var ég ráðþrota. „Hinir Sjötíu,“ sagði hann, „eru ekki fulltrúar fólksins fyrir spámanninn, heldur fulltrúar spámannsins fyrir fólkið. Gleymdu aldrei í hvora áttina þú snýrð! Þetta var áhrifarík lexía.
Að reyna að þóknast öðrum, áður en við þóknumst Guði, er andstætt fyrstu tveimur boðorðunum (sjá Matt 22:37–39). Það er að gleyma í hvora áttina maður snýr. Við höfum þó öll gert þau mistök af ótta við menn. Í Jesaja aðvarar Drottinn okkur: „Óttist eigi spott manna“ (Jes 51:7; sjá einnig 2 Ne 8:7). Í draumi Lehís var þessi ótti vakinn með fingri fyrirlitningar frá hinni stóru og rúmmiklu byggingu, sem olli því að margir gleymdu í hvora áttina þeir snéru, fóru frá trénu og „blygðuðust sín“ (sjá 1 Ne 8:25–28).
Þessi þrýstingur jafnaldra, reynir að breyta viðhorfi fólks, ef ekki breytni þess, með því að vekja upp sektarkennd fyrir að vera á öndverðum meiði. Við viljum lifa í virðingu og sátt við þá sem beina að okkur fingri, en þegar slíkur ótti við menn fær okkur til að láta synd viðgangast, verður hann að „snöru,“ samkvæmt Orðskviðunum (sjá Okv 29:25). Snöru, sem getur verið svo haganlega komið fyrir, að hún vekji samúð til að umbera eða jafnvel samþykkja eitthvað sem Guð hefur fordæmt. Hún getur orðið þeim sem veikir eru í trúnni mikil hrösunarhella. Sumir ungir trúboðar bera slíkan ótta með sér út á trúboðsakurinn og láta hjá líða að tilkynna trúboðsforseta sínum svívirðilega hegðun félaga sinna, vegna þess að þeir vilja ekki misbjóða hinum óhlýðna félaga. Ákvarðanir sem krefjast siðferðisþreks eru teknar með því að hafa í huga réttan forgang æðstu boðorðanna tveggja (sjá Matt 22:37–39). Þegar þessum ráðvilltu trúboðum verður ljóst að þeir eru ábyrgir frammi fyrir Guði, en ekki félaga sínum, ættu þeir að snúa sér í hina áttina.
Þegar Joseph Smith var ungur 22 ára maður, gleymdi jafnvel hann í hvora áttina hann snéri, þegar hann bað Drottin endurtekið um að Martin Harris yrði leyft að fá handritssíðurnar 116 lánaðar. Joseph hefur kannski viljað sýna Martin þakklæti fyrir stuðning hans. Við vitum að Joseph þráði innilega að hin vitnin stæðu með sér gegn þjakandi rógburðinum og lyginni sem dreift var um hann.
Hverjar sem ástæður Josephs voru, eða réttlæting þeirra, þá varð það honum ekki til bóta og Drottinn ávítaði hann harðlega. „Hve oft þú hefur brotið boðorð … og farið að fortölum manna. Því að sjá, þú áttir ekki að óttast manninn meira en Guð“ (K&S 3:6–7; skáletrað hér). Þessi sára reynsla hjálpaði Joseph að minnast þess ætíð í hvora áttina honum bæri að snúa.
Þegar menn reyna að halda andlitinu frammi fyrir mönnum, geta þeir óafvitandi misst andlitið frammi fyrir Guði. Það er ekki hlutleysi að telja sér trú um að hægt sé að þóknast Guði um leið og maður leggur blessun yfir óhlýðni manna, heldur tvöfeldni eða að leika tveimur skjöldum eða að reyna að „[þjóna] tveimur“ (Matt 6:24; 3 Ne 13:24).
Þótt það þurfi vissulega hugrekki til að standa frammi fyrir hættum, þá er hinn sanni skjöldur hugrekkis að sigrast á ótta við menn. Bænir Daníels gerðu honum kleift að standa frammi fyrir ljónum en það sem veitti honum ljónshjarta var að bjóða Daríusi konungi byrginn (sjá Dan 6). Slíkt hugrekki er gjöf andans til hinna guðhræddu, sem flutt hafa bænir sínar. Með bænum sínum hlaut Ester drottning þetta sama hugrekki, til að standa frammi fyrir eiginmanni sínum, Ahasverus konungi, vitandi að hún hætti lífi sínu með því að gera það (sjá Ester 4:8–16).
Hugrekki er ekki bara ein af mikilvægustu dyggðunum, heldur líka það sem C. S. Lewis sagði: „Hugrekki er … tilbrigði allra dyggða á stund prófraunar. … Pílatus var miskunnsamur uns það varð áhættusamt.”1 Heródus konungur hryggðist yfir að vera beðinn um að hálshöggva Jóhannes skírara, en vildi ganga í augu „gesta sinna„ og bauð að svo skildi verða“ (Matt 14:9). Nóa konungur vildi láta Abinadí lausan, en vegna þrýstings frá hinu ranglátu prestum hans var hann á báðum áttum (sjá Mósía 17:11–12). Sál konungur óhlýðnaðist boði Drottins, með því að halda eftir herfanginu, því hann „óttaðist fólkið og lét því að orðum þess“ (1 Sam 15:24). Í þeim tilgangi að sefa hina uppreisnargjörnu Ísraelsmenn við rætur Sínaífjalls, þá lét Aron steypa gullkálf og gleymdi í hvora áttina hann snéri (sjá 2 Mós 32). Margir konungar í Nýja testamentinu „trúðu … á [Drottin], … en gengust ekki við því vegna faríseanna, svo að þeir yrðu ekki samkundurækir. Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði“ (Jóh 12:42–43). Í ritningunum eru ótal dæmi um slíkt.
Hlýðið á nokkur innblásin dæmi:
-
Mormón: „Sjá, ég tala djarflega og með valdi Guðs. Og ég óttast ekki það, sem maðurinn getur gjört, því að fullkomin elska rekur allan ótta á braut.“ (Moró 8:16; skáletrað hér).
-
Nefí: „Þess vegna skrifa ég ekki um það, sem heiminum er geðfellt, heldur um það, sem er Guði þóknanlegt og þeim, sem ekki eru af þessum heimi“ (1 Ne 6:5).
-
Moróní yfirforingi: „Sjá, ég er Moróní, yfirforingi ykkar. Ég sækist ekki eftir valdi, heldur eftir að rífa það niður. Ég leita ekki eftir heiðri heimsins, heldur eftir dýrð Guðs míns og frelsi og velfarnaði lands míns“ (Alma 60:36).
Moróní gleymdi aldrei í hvora áttina hann snéri og bjó yfir slíkri hugdirfsku að um hann var sagt: „Ef allir menn hefðu verið, væru og mundu ætíð verða eins og Moróní, sjá, þá hefði sjálfu valdi vítis verið ógnað að eilífu. Já, djöfullinn mundi aldrei hafa vald yfir hjörtum mannanna barna“ (Alma 48:17).
Í aldanna rás hefur fingri fyrirlitningar ætíð verið beint að spámönnum. Hvers vegna? Samkvæmt ritningunum, er það vegna þess að „hinum seku er sannleikurinn … sár“ (1 Ne 16:2) eða, líkt og Harold B. Lee forseti orðaði það: „skotinn fugl flögrar!“2Hin lítilsvirðandi viðbrögð þeirra er í raun tilraun til að hylma yfir eigin sektarkend, á sama hátt og Kóríhor gerði, sem að lokum játaði: „Ég vissi [alltaf], að til var Guð“ (Alma 30:52). Kóríhor lifði í þvílíkri sjálfsblekkingu að hann fór að trúa eigin lygi (sjá Alma 30:53).
Hinir lítilsvirðandi benda oft á að spámenn séu ekki í takt við 21. öldina eða að þeir séu þröngsýnir. Þeir beita fortölum og þrýsta jafnvel á kirkjuna til að hún dragi úr stöðlum Guðs og lagi þá að eigin óviðeigandi breytni, sem, svo notuð séu orð öldungs Neal A. Maxwell, „leiðir til sjálfsánægju, en ekki sjálfsbetrunar“3 og iðrunar. Að draga úr stöðlum Drottins, til að laga þá að óviðeigandi hegðun í samfélaginu, er – fráhvarf. Tveimur öldum eftir að frelsarinn hafði vitjað Nefítanna, tóku margir söfnuðir meðal þeirra að „draga úr“ gildi kenningarinnar, svo notað sé orðalag öldungs Hollands.4
Þegar þið hlýðið á eftirfarandi ritningargrein í 4. Nefí, gætið þá að hliðstæðum okkar tíma: „Og svo bar við, að þegar tvö hundruð og tíu ár voru liðin, voru margar kirkjur í landinu, já, margar kirkjur, sem sögðust þekkja Krist, en afneituðu samt mestum hluta fagnaðarerindis hans og leyfðu því alls kyns ranglæti og útdeildu því, sem heilagt var, til þess, sem óverðugur var og ekki mátti því meðtaka það.“ (4 Ne 1:27).
Endurtekning á síðari dögum! Sumum meðlimum er ekki ljóst að þeir eru að ganga í sömu gildru þegar þeir láta undan og gangast á hönd þeim svæðisbundnu eða þjóðfélagslegu„[erfikenningum] feðra þeirra“ (K&S 93:39), sem samræmast ekki menningu fagnaðarerindisins. Aðrir, sem lifa í sjálfsblekkingu og sjálfsafneitun, sárbiðja eða krefjast þess að biskupar slaki á reglum tengdum musterismeðmælum, skólameðmælum og trúboðsumsóknum . Það er ekki auðvelt að vera biskup undir slíkum þrýstingi. Líkt og frelsarinn, sem hreinsaði musterið til að vernda helgi þess (sjá Jóh 2:15–16), þá eru biskupar kallaðir á okkar tíma til að verja musterisstaðla umbúðalaust. Það var frelsarinn sem sagði: „Af miskunn mun ég opinbera mig fólki mínu í þessu húsi … ef fólk mitt heldur boðorð mín og vanhelgar ekki þetta heilaga hús“ (K&S 110:7–8).
Frelsarinn, okkar mikla fyrirmynd, snéri ætíð móti föður sínum. Hann elskaði og þjónaði samtíðafólki sínu, en sagði: „Ég þigg ekki heiður af mönnum“ (Jóh 5:41). Hann þráði að þeir sem hann kenndi fylgdu sér, en hann ávann sér aldrei hylli þeirra. Þegar hann gerði kærleiksverk, svo sem að lækna sjúka, var sú gjöf oft veitt með beiðni um að „segja þetta engum“ (Matt 8:4; Mark 7:36; Lúk 5:14; 8:56). Að hluta var það til að forðast frægðina sem honum fylgdi, þrátt fyrir viðleitni hans til að sneiða hjá henni (sjá Matt 4:24). Hann fordæmdi faríseana fyrir að gera aðeins góð verk til að hljóta athygli manna (sjá Matt 6:5).
Frelsarinn, eina fullkomna veran sem lifað hefur, var algjörlega óttalaus. Hann stóð frammi fyrir árásum ákærenda sinna, en hörfaði aldrei undan fingri fyrirlitningar. Hann er sá eini sem aldrei nokkru sinni gleymdi í hvaða átt hann snéri: „Ég gjöri ætíð það sem [föðurnum] þóknast“ (Jóh 8:29; skáletrað hér) og „ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig“ Jóh 5:30).
Frá 11. kapítula í 3. Nefí til og með 28. kapítula í 3. Nefí, vísar frelsarinn til föðurins 150 sinnum hið minnsta, og gerði Nefítum algjörlega ljóst að hann væri þar sem fulltrúi föður síns. Frá 14. kapítula í Jóhannesarguðspjalli til og með17. kapítula, vísar frelsarinn til föðurins 50 sinnum hið minnsta. Á allan mögulegan hátt var hann fullkominn lærisveinn föður síns: Hann var svo fullkomin fyrirmynd föðurins, að ef menn þekktu hann, þekktu þeir líka föðurinn. Að sjá soninn, var að sjá föðurinn (sjá Jóh 14:9). Að hlýða á soninn, var að hlýða á föðurinn (sjá Jóh 5:36). Hann hafði í raun orðið óaðgreinanlegur föður sínum. Hann og faðir hans voru eitt (sjá Jóh 17:21–22). Hann vissi nákvæmlega í hvaða átt hann snéri.
Megum við styrkjast af hinni innblásnu fyrirmynd hans, til að forðast gryfjur smjaðurs utan frá eða sjálfumgleði innan frá. Megi hún veita okkur hugrekki til að standa ákveðin þegar ógnin steðjar að. Megi hún innblása okkur til að fara um og gera gott, eins nafnlaust og við getum, án þess að leita okkur„mannlegrar upphefðar“ (K&S 121:35). Megi hans óviðjafnanlega fordæmi hjálpa okkur að hafa ætíð í huga hvert er „hið æðsta og fremsta boðorð“ (Matt 22:38). Ég bið þess að við megum ætíð hafa í huga hvers lærisveinar við erum og í hvora áttina við snúum, þegar aðrir reyna að fá okkur til að snúa gegn boðorðum Guðs, í nafni Jesú Krists, amen.