Joseph Smith
Jesús Kristur valdi heilagan mann, réttlátan mann, til að fara fyrir endurreisn fyllingar fagnaðarerindis síns. Hann valdi Joseph Smith.
Í fyrstu vitjun engilsins Morónís til spámannsins Josephs Smith, þegar hann var 17 ára, nefndi hann Joseph með nafni og sagði sig vera sendiboða úr návist Guðs og að Guð hefði verk fyrir hann að vinna. Ímyndið ykkur hvernig Joseph hefur liðið þegar engillinn sagði honum að nafn hans yrði talið „tákn góðs og ills með öllum þjóðum, kynkvíslum og tungum.“1 Kannski hefur undrunarsvipur Josephs valdið því að Moróní endurtók og sagði að bæði gott og illt yrði sagt um nafn hans meðal allra manna.2
Góða umtalið um Joseph gerðist smám saman, en illa umtalið þegar í stað. Joseph ritaði: „Hve einkennilegt það [er], að ókunnur drengur … skyldi teljast nógu mikilvægur til að vekja … grimmilegustu [ofsóknir] og [lastmæli].“3
Á meðan kærleikurinn til Josephs fór vaxandi, þá gerði fjandskapurinn það líka. Þegar hann var 38 ára, var hann myrtur af múgi 150 manna, sem málað höfðu andlit sín.4 Þótt spámaðurinn hefði endað líf sitt skyndilega, var hið góða og illa umtal um Joseph rétt að hefjast.
Ættum við að furða okkur á því illa sem um hann er sagt? Páll postuli var sagður óður og firrtur viti.5 Okkar ástkæri frelsari, sonur Guðs, var stimplaður mathákur, vínsvelgur og haldinn illum öndum.6
Drottinn sagði Joseph frá örlögum hans:
„Endimörk jarðar munu spyrjast fyrir um nafn þitt, heimskingjar munu hæða þig og hel fara hamförum gegn þér–
„En hinir hjartahreinu og hyggnu, … og dyggðugu munu stöðugt leita … blessana af hendi þér.“7
Hvers vegna leyfir Drottinn að þeir sem illt mæla eltist við hið góða? Ein ástæða þess er að andstaða gegn því sem Guðs er, fær sannleiksleitendur til að beygja kné í leit að svörum.8
Joseph Smith er spámaður endurreisnarinnar. Hið andlega verk hans hófst með birtingu föðurins og sonarins, og fjölda himneskra vitjana í kjölfarið. Hann var verkfæri í höndum Guðs við að leiða fram helga ritningu, gleymda kenningu og endurreisn prestdæmsins. Verk Josephs er af slíku mikilvægi að það krefst meira en vitsmunalegrar íhugunar; það krefst þess að við, líkt og Joseph, „[spyrjum] Guð.“9 Andlegar spurningar krefjast andlegra svara frá Guði.
Margir þeir sem afskrifa verki endurreisnarinnar, trúa einfaldlega ekki að himneskar verur tali til manna á jörðu. Ómögulegt, segja þeir, að gulltöflur hafi verið gefnar af engli og þýddar með krafti Guðs. Af þeirri vantrú hafna þeir strax vitnisburði Josephs og einhverjir leggjast svo lágt að rægja líf og persónuleika spámannsins.
Það hryggir okkur innilega þegar þeir sem áður dáðu Joseph Smith hverfa frá eigin sannfæringu og taka að ófrægja spámanninn.10
„Að læra um kirkjuna … eftir skilningi fráhverfinga,“ sagði öldungur Neal A. Maxwell eitt sinn, er „eins og að eiga viðtal við Júdas, til að skilja Jesú. Fráhverfingar segja alltaf meira um sig sjálfa, heldur en um það sem þeir hafa skilið við.“11
Jesús sagði: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“12 Við skulum sýna þeim góðvild sem gagnrýna Joseph Smith og varðveita þá vitneskju í hjarta okkar að hann var spámaður Guðs og láta huggast af því sem Moróní sagði fyrir um.
Hvernig ættum við að bregðast við einlægri fyrirspurn þess sem er áhyggjufullur yfir staðhæfingum sem hann eða hún hefur heyrt um spámanninn Joseph Smith. Auðvitað tökum við alltaf fegins hendi á móti einlægum spurningum.
Við fyrirspurnum um persónuleika Josephs, þá gætum við miðlað orðum þeirra þúsunda sem þekktu hann persónulega og gáfu eigið líf í þágu þess verks sem hann aðstoðaði við að koma á fót. John Taylor, sem var skotinn fjórum sinnum af múgnum sem myrti Joseph, sagði síðar: „Ég ber vitni frammi fyrir Guði og mönnum, um að [Joseph] var góður, heiðarlegur [and] dyggðugur maður – [and] að persóna hans í einkalífi og opinberu lífi var flekklaus – og að hann lifði og dó sem maður Guðs.“13
Við gætum minnt þann einlæga fyrirspyrjanda á að upplýsingar Alnetsins færu ekki í gegnum „sannleikssíu.“ Sumar upplýsingarnar væru einfaldlega ekki sannar, þótt afar sannfærandi séu.
Fyrir nokkrum árum las ég grein í tímaritinu Time, sem sagði frá bréfi sem fannst og átti að vera skrifað af Martin Harris, og var í andstöðu við frásögn Joseph Smith um hvernig hann fékk gulltöflur Mormónsbókar.14
Nokkrir meðlimir yfirgáfu kirkjuna út af þessu skjali.15
Því miður þá var það heldur snemmt. Mánuðum síðar komust sérfræðingar að því að bréfið var hreinn uppspuni (og falsarinn játaði).16 Þið getið skiljanlega efast um það sem sagt er í fréttum, en þið þurfið aldrei að efast um vitnisburð spámanna Guðs.
Við gætum minnt fyrirspyrjandann á að sumar upplýsingar um Joseph gætu verið sannar, en teknar algjörlega úr samhengi hans tíma og aðstæðna.
Öldungur Russell M. Nelson útskýrði þetta: Hann sagði: „Ég var að þjóna sem ráðgjafi fyrir ríkisstjórn Bandaríkjanna í Landsmiðstöð fyrir sjúkdómavarnir í Atlanta, Georgíu. Eitt sinn, er ég beið eftir leigubíl til að komast á flugvöllinn, eftir fundarlok, rétti ég úr mér á grasinu, til að njóta sólarinnar, áður en vetur skylli á í Utah. … Síðar barst mér ljósmynd í pósti, sem tekin var af ljósmyndara með aðdráttarlinsu, þar sem ég sást njóta sólarinnar á flötinni. Neðan við myndina stóð: ‚Ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í Landssmiðstöð fyrir sjúkdómavarnir.‘ Ljósmyndin var ófölsuð og texti hennar réttur, en hér var sannleikurinn notaður til að koma á framfæri falskri hugmynd.“17 Við höfnum ekki einhverju sem við þegar vitum, fyrir það sem við enn ekki skiljum.
Við getum minnt fyrirspyrjandann á að Joseph hafi ekki verið einn við vitjanir engla.
Vitni Mormónsbókar rituðu: „Við lýsum því yfir í fullri alvöru, að engill Guðs sté niður af himni, og … við litum og sáum [töflurnar].“18 Við gætum líka vitnað í fleiri.19
Einlægur fyrirspyrjandi ætti að sjá útbreiðslu hins endurreista fagnaðarerindis sem ávöxt af verki Drottins fyrir tilverknað spámannsins.
Á þessum tíma eru söfnuðir yfir 29.000 og trúboðar, sem kenna fagnaðarerindið út um allan heim, yfir 88.000 að tölu. Milljónir Síðari daga heilagra leitast við að fylgja Jesú Kristi, lifa heiðarlegu lífi, annast fátæka og gefa af eigin tíma og hæfileikum til að hjálpa öðrum.
Jesús sagði:
„Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. …
… Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.“20
Þessar útskýringar eru sannfærandi, en hinn einlægi fyrirspyrjandi ætti að ekki að reiða sig aðeins á þær í leit sinni að sannleikanum.
Allir trúaðir þurfa að fá andlega staðfestingu um guðlegt hlutverk og persónuleika spámannsins Josephs Smith. Það á við um allar kynslóðir. Andlegar spurningar, verðskulda andleg svör frá Guði.
Þegar ég var nýlega á austurströnd Bandaríkjanna, ræddi fyrrverandi trúboði við mig um vin sinn, sem hafði látið blekkjast af upplýsingum sem hann fékk um spámanninn Joseph Smith. Þeir höfðu ræðst við nokkrum sinnum og trúboðinn virtist sjálfur hafa einhverjar efasemdir eftir umræðurnar.
Ég hafði þó vonað hann gæti styrkt vin sinn, en hafði nú áhyggjur af vitnisburði hans. Bræður og systur, ég ætla að gefa ykkur aðvörun: Þið getið ekki hjálpað öðrum að neinu marki, ef ykkar eigin trú er ekki vandlega rótföst.
Fyrir nokkrum vikum fór ég um borð í flugvél til Suður-Ameríku. Flugþjónninn beindi sjónum okkar að myndbandi um öryggismál. Við vorum aðvöruð: „Ólíklegt er að þrýstingur falli í farþegarýminu, en ef það gerist mun lúga opnast ofan við sætið ykkar og súrefnisgríma falla þar niður.“ Ef það gerist, togið þá grímuna að ykkur. Setjið hana yfir nef og munn. Smeygið teygjunni yfir höfuðið og strekkið á henni ef nauðsyn krefur.“ Síðan kom þessi aðvörun: „Gætið þess vandlega að setja grímuna á ykkur sjálf, áður en þið aðstoðið aðra.“
Hinar neikvæðu upplýsingar um spámanninn Joseph Smith munu aukast fram að Síðar komu frelsarans. Ekkert lát mun verða á hálf-sannleika og lúmskum blekkingum. Fjölskyldumeðlimir og vinir koma til með að þarfnast hjálpar okkar. Okkur ber einmitt nú að setja á okkur okkar eigin andlegu súrefnisgrímu, svo við verðum undir það búin að hjálpa öðrum sem leita sannleikans.21
Vitnisburður um spámanninn Joseph Smith getur verið mismunandi meðal okkar allra. Hann kemur kannski með því að þið krjúpið í bæn og biðjið Guð um að staðfesta fyrir ykkur að hann sé sannur spámaður. Hann kann að koma við lestur frásagnar spámannsins um fyrstu sýnina. Vitnisburður getur fyllt sál ykkar við síendurtekinn lestur Mormónsbókar. Hann kann að koma þegar þið gefið ykkar eigin vitnisburð um spámanninn eða þar sem þið eruð í musterinu og ykkur verður ljóst að hið helga innsiglunarvald var endurreist á jörðu.22 Vitnisburður ykkar um spámanninn Joseph Smith mun styrkjast með trú og einlægum ásetningu. Þið getið stundum blotnað af stöðugum fjölda vatnsblaðra frá hliðarlínunni, en þær mun aldrei slökkva trúareld ykkar.
Unga fólkinu, sem á hlýðir í dag eða les þessi orð, ætla ég að að gefa áskorun fyrir næstu daga: Sækist eftir persónulegum vitnisburði um spámanninn Joseph Smith. Látið rödd ykkar hljóma spámanninum til góðs, til uppfyllingar hinum spámannlegu orðum Morónís. Hér eru tvær ábendingar: Finnið fyrst ritningargreinar í Mormónsbók, sem ykkur finnst og þið vitið að séu sannar. Miðlið þeim síðan til fjölskyldu og vina á fjölskyldukvöldi, í trúarskólanum og í námsbekkjum Piltafélagsins og Stúlknafélagsins, með því að staðfesta að Joseph hafi verið verkfæri í höndum Guðs. Lesið þessu næst vitnisburð spámannsins Josephs Smith í Hinni dýrmætu perlu eða í þessum bæklingi, nú á 158 tungumálum. Þið finnið hann á netinu á LDS.org eða hjá trúboðunum. Þetta er vitnisburður Josephs, um það sem raunverulega átti sér stað. Lesið hann oft. Íhugið að nota eigin röddu og taka upp vitnisburð Josephs Smith, og hlusta á hann reglubundið og miðla honum til vina ykkar. Að hlusta á vitnisburð spámannsins, gefinn með eigin röddu, auðveldar ykkur að hljóta þá staðfestingu sem þið sækist eftir.
Það eru miklir og dásamlegir dagar framundan. Thomas S. Monson forseti sagði: „Þessi mikli málstaður … mun halda áfram að vaxa og hafa áhrif á og blessa aðra. … Enginn kraftur hvergi í heiminum fær stöðvað verk Guðs. Hver sem ógnin verður, þá mun þessi mikli málstaður ná fram að ganga.“23
Ég ber ykkur vitni um að Jesús er Kristur, frelsari okkar og lausnari. Hann valdi heilagan mann, réttlátan mann, til að fara fyrir endurreisn fyllingar fagnaðarerindis síns. Hann valdi Joseph Smith.
Ég ber vitni um að Joseph Smith var heiðarlegur og dyggðugur maður, lærisveinn Drottins Jesú Krists. Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, birtust honum vissulega. Hann þýddi Mormónsbók fyrir gjöf og kraft Guðs.
Í samfélagi okkar handan hulu dauðans, munum við auðveldlega skilja helga köllun og guðlegt hlutverk spámannsins Josephs Smith. Á þeim degi, sem ekki er svo fjarri, munum við öll, ásamt „milljónum annarra, þekkja aftur ‚bróður Joseph.‘“24 Í nafni Jesú Krists, amen.