Prestdæmi til undirbúnings
Við prestdæmisundirbúning er „sýndu mér“ mikilvægara en „segðu mér.“
Ég er þakklátur fyrir að vera hér meðal prestdæmishafa Guðs, sem eru víða um heim. Ég er þakklátur fyrir trú ykkar, þjónustu og bænir.
Boðskapur minn í kvöld er um Aronsprestdæmið. Hann er til allra sem leggja vilja sitt af mörkum til að gera loforð Drottins að veruleika í lífi þeirra sem hafa það sem ritningin segir vera „lægra prestdæmið.“1 Það er líka nefnt prestdæmi undirbúnings. Um þann dýrlega undirbúning hyggst ég ræða um í kvöld.
Undirbúningur er hvarvetna í áætlun Drottins hvað þetta verk varðar. Hann bjó okkur jörð til að takast á við prófraunir og tækifæri jarðlífsins. Ritningin segir að tíminn okkar hér sé „tími til undirbúnings“2
Spámaðurinn Alma segir frá því hversu gríðarmikilvægur sá undirbúningur sé fyrir eilíft líf, þar sem við getum lifað að eilífu með Guði föðurnum og Jesú Kristi.
Hann útskýrði nauðsyn undirbúnings á þennan hátt: „Og vér sjáum, að dauðinn kemur yfir mannkynið, já, sá dauði, sem Amúlek talaði um og er stundlegur dauði. En engu að síður var manninum veitt svigrúm til að iðrast. Þess vegna varð þetta líf reynslutími, tími til að búa sig undir að mæta Guði, tími til að búa sig undir það óendanlega ástand, sem vér höfum talað um og fylgir í kjölfar upprisu hinna dauðu.“3
Á sama hátt og okkur hefur verið gefinn tími í jarðlífinu til að búa okkur undir að mæta Guði, þá er sá tími sem okkur er gefinn til að þjóna í Aronsprestdæminu tækifæri til að læra að veita öðrum mikilvæga hjálp. Á sama hátt og Drottinn sér okkur fyrir nauðsynlegri hjálp til að standast prófraun jarðlífsins, þá hjálpar hann okkur líka við prestdæmisundirbúning okkar.
Boðskapur minn er bæði fyrir þá sem Drottinn sendir til að undirbúa þá sem hafa Aronsprestdæmið og þá sem hafa Aronsprestdæmið. Ég tala til feðra. Ég tala til biskupa. Ég tala líka til þeirra Melkísedeks-prestdæmishafa sem treyst er fyrir því að vera félagar og kennarar þessara ungu manna, sem hafa undirbúnings-prestdæmið.
Ég tala af vegsemd og þakklæti til margra ykkar út um allan heim og tíma.
Ég væri skeytingarlaus ef ég minntist ekki á greinarforseta og biskup æskuára minna. Ég varð djákni 12 ára gamall, í fámennri grein í austurhluta Bandaríkjanna. Greinin var svo fámenn að ég og bróðir minn voru einu Aronsprestdæmishafarnir, þar til faðir minn, sem var greinarforsetinn, bauð miðaldra manni að ganga í kirkjuna.
Sá nýi trúskiptingur hlaut Aronsprestdæmið og með því fylgdi sú köllun að vaka yfir Aronsprestdæminu. Ég man þetta enn, eins og það hafi gerst í gær. Ég man eftir fallegum haustlaufunum, þegar þessi nýi trúskiptingur varð samferða mér og bróður mínum til að gera eitthvað fyrir ekkju nokkra. Ég man ekki hvert verkið var, en ég man eftir að hafa fundið sameinaðan kraft prestdæmisins, er við gerðum það sem ég síðar lærði að Drottinn hafi boðið okkur að gera til að syndir okkar yrðufyrirgefnar og við gætum búið okkur undir að sjá hann.
Þegar mér verður nú litið til baka, þá finn ég til þakklætis fyrir greinarforseta sem kallaði nýjan trúskipting til hjálpar við undirbúning tveggja pilta, sem í staðinn yrðu einhvern daginn biskupar, með þá ábyrgð að annast fátæka og þurfandi og vera í forsæti undirbúningsprestdæmisins.
Ég var enn djákni þegar fjölskylda okkar flutti í fjölmenna deild í Utah. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fann fyrir krafti fullskipaðrar sveitar í Aronsprestdæminu. Reyndar var þetta í fyrsta sinn sem ég sá eina slíka. Síðar upplifði ég í fyrsta sinn kraft og blessanir biskups í forsæti prestasveitar sinnar.
Biskupinn kallaði mig til að vera fyrsti aðstoðarmaður hans í prestasveitinni. Ég minnist þess að hann kenndi sveitinni sjálfur – þótt önnum kafinn væri og hann hefði getað kallað aðra hæfileikaríka menn til þess. Í kennslustofunni lét hann stólana mynda hring. Hann lét mig setjast í stól sér til hægri handar.
Ég gat horft yfir öxl hans þegar hann kenndi. Hann leit endrum og eins á vandlega skrifaðar athugasemdir, í leðurmöppu sem hann hafði á öðru hnénu, og á mikið notaðar og undirstrikaðar ritningar á hinu hnénu. Ég man eftir hrifningu minni af frásögn hans um hugrekki Daníels í Bók Daníels og vitnisburði hans um frelsarann, Drottin Jesú Krist.
Ég mun ætíð minnast þess hvernig Drottinn kallar vandlega valda félaga fyrir prestdæmishafa sína á undirbúningsstigi.
Biskupinn minn hafði öfluga ráðgjafa og af ástæðum sem ég skildi ekki þá, hringdi hann heim til mín og sagði: „Hal, ég þarf að fá þig með mér sem félaga í heimsóknir.“ Eitt sinn var það til að fara heim til ekkju sem bjó ein og var matarlaus. Á heimleiðinni stöðvaði hann bílinn sinn og sagði mér hvers vegna hann hefði komið fram við ekkjuna líkt og hún gæti ekki aðeins séð fyrir sjálfri sér, heldur að hún ætti líka eftir að geta hjálpað öðrum í komandi framtíð.
Í annað skipti heimsóttum við mann sem ekki hafði komið í kirkju í langan tíma. Biskupinn minn bauð honum að koma aftur og vera með hinum heilögu. Ég skynjaði elsku biskupsins míns til þess sem mér virtist ástlaus og uppreisnargjarn andstæðingur.
Í enn annað skipti heimsóttum við heimili þar sem tvær litlar telpur voru sendar til dyra af áfengissjúkum foreldrum. Litlu telpurnar sögðu í gegnum netdyrnar að mamma og pabbi þeirra væru sofandi. Biskupinn hélt áfram að tala til þeirra brosandi, í um 10 mínútur eða lengur, að því að virtist, og hrósaði þeim fyrir hve góðar og hugrakkar þær væru. Þegar ég gekk í burtu við hlið hans, sagði hann hljóðlega: „Þetta var góð heimsókn. Þessar litlu telpur gleyma aldrei komu okkar.“
Tvær þeirra blessana sem eldri prestdæmisfélagi getur gefið, er traust og fordæmi um umhyggju. Það varð mér ljóst þegar syni mínum var falinn félagi sem hafði mun meiri prestdæmis-reynslu en hann sjálfur. Eldri félagi hans hafði tvisvar verið trúboðsforseti og auk þess þjónað í öðrum leiðtogastöðum.
Áður en þeir heimsóttu fyrstu tilnefndu fjölskylduna, bað þessi reyndi prestdæmisleiðtogi um að fá að heimsækja son minn. Þeir leyfðu mér að hlusta á samtalið. Eldri félaginn byrjaði með bæn og bað um hjálp. Hann sagði síðan eitthvað álíka þessu við son minn: „Ég held að við ættum að kenna lexíu sem þessari fjölskyldu finnst hljóma sem iðrunarboð.“ Ég held að þau taki því ekki vel komi það frá mér. Ég held að boðskapurinn færi betur í þau, kæmi hann frá þér. Hvað finnst þér um það?“
Ég minnist hræðslusvips sonar míns. Ég man enn eftir gleðitilfinningu þessarar stundar, þegar sonur minn meðtók traustið.
Það var ekki fyrir tilviljun að biskupinn setti þessa tvo sem félaga. Þessi eldri félagi hafði með vandlegum undirbúningi komist að tilfinningum þessarar fjölskyldu, sem þeir hyggðust nú kenna. Það var fyrir innblástur að honum fannst hann eiga að draga sig í hlé og reiða sig á óreyndan æskumann við að bjóða eldri börnum Guðs að iðrast og koma í skjól.
Ég veit ekki hvað kom út úr heimsókn þeirra, en ég veit að biskupinn, Melkísedeks-prestdæmishafinn og Drottinn voru að búa piltinn undir að verða maður prestdæmisins og biskup einhvern daginn.
Slíkar jákvæðar frásagnir um prestdæmis-undirbúning eru ykkur kunnar, af því sem þið hafið séð og upplifað í eigin lífi. Þið þekkið þær og hafið verið biskupar, félagar og foreldrar. Þið hafið séð hönd Drottins í því að búa ykkur undir þær prestdæmisskyldur ykkar, sem hann veit að framundan eru.
Okkur öllum í prestdæminu, ber skylda til að hjálpa Drottni að undirbúa aðra. Það er sumt sem við getum gert gæti skipt mestu. Það fordæmi sem við sýnum með því að lifa eftir kenningunni, er jafnvel enn áhrifaríkara orðinu sem við mælum.
Mikilvægast í prestdæmisþjónustu okkar er að bjóða öðrum að koma til Krists, með því að trúa, skírast, iðrast og taka á móti heilögum anda. Thomas S. Monson forseti hefur til að mynda haldið ræður um allar þessar kenningar til að hafa áhrif á hjörtu okkar. Breytni hans við fólk, trúboða og vini kirkjunnar, er hann var í forsæti Toronto-trúboðsins, hvetur mig til að láta verkin tala.
Við prestdæmisundirbúning er „sýndu mér“ mikilvægara en „segðu mér.“
Þess vegna eru ritningarnar svo mikilvægar í prestdæmis-undirbúningi okkar. Þar er fullt af dæmum. Mér finnst ég geta séð Alma fara að fyrirmælum engilsins og hraða sér síðan aftur til baka til að kenna hinum ranglátu íbúum Ammoníu, sem höfðu hafnað honum.4 Mér finnst ég geta fundið kuldann í fangaklefanum, þegar Guð bauð spámanninum Joseph að vera hugrakkur, því yfir honum væri vakað.5 Með þessar frásagnir ritninganna í huga, getum við verið undir það búnir að standast allt til enda í þjónustu okkar, þegar það virðist erfitt.
Faðir, biskup eða eldri félagi í heimiliskennslu, sem sýnir að hann treystir ungum prestdæmishafa, getur breytt lífi hans. Faðir minn var eitt sinn beðinn af meðlimi í Tólfpostulasveitinni um að skrifa stutta grein um vísindi og trú. Faðir minn var kunnur vísindamaður og trúfastur prestdæmishafi. Ég man enn eftir því þegar hann rétti mér blaðið sem hann hafði skrifað á og sagði: „Hér, ég vil að þú lesir þetta áður en ég sendi það hinum Tólf. Þú munt vita hvort þetta er rétt.“ Hann var 32 árum eldri en ég og óendanlega vitrari og gáfaðri.
Ég eflist enn við þetta traust frá frábærum föður og prestdæmishafa. Mér var ljóst að hann setti ekki traust sitt á mig, heldur á Guð, að hann segði mér sannleikann. Þið, eldri félagar, getið blessað unga prestdæmishafa í undirbúningi þeirra, hvenær sem þið auðsýnið þeim slíkt traust. Það mun hjálpa þeim að reiða sig á hina ljúfu tilfinningu innblásturs, þegar hún berst, daginn sem þeir munu leggja hendur yfir einhvern til að innsigla blessun um lækningu barns, sem læknar segja dauðvona. Þetta traust hefur hjálpað mér oftar en einu sinni.
Árangur okkar við að undirbúa aðra í prestdæminu, hlýst í sama hlutfalli við þá elsku sem við berum til þeirra. Það á einkum við þegar nauðsynlegt er að leiðrétta þá. Hugsið um þá stund þegar Aronsprestdæmishafa verður á mistök við framkvæmd helgiathafnar, hugsanlega við sakramentisborðið. Það er alvarlegt mál. Stundum þarf að leiðrétta mistök opinberlega, þar sem hætta er á að menn upplifi gremju, niðurlægingu og jafnvel höfnun.
Þið munið eftir þessari ráðgjöf Drottins: „Vanda um tímanlega með myndugleik, þegar heilagur andi hvetur til þess, og auðsýna síðan vaxandi kærleik þeim, sem þú hefur vandað um við, svo að hann telji þig ekki óvin sinn.“6
Hugtakið vaxandi á sér sérstaka merkingu í tengslum við undirbúning prestdæmishafa, þegar þá þarf að leiðrétta. Hugtakið vísar til vaxandi kærleika sem þegar var fyrir hendi. Hugtakið „auðsýna“ tengist sívaxandi. Þeir okkar sem undirbúa prestdæmishafa, mun örugglega sjá þá gera mistök. Áður en þið leiðréttið, þurfa þeir að hafa fundið ástúð ykkar jafnt og stöðugt. Þeir þurfa að upplifa einlægt lof ykkar, áður en þeir meðtaka leiðréttingu ykkar.
Drottinn sjálfur virti þá sem höfðu hið lægra prestdæmi og heiðraði möguleika þeirra og virði í hans huga. Hlýðið á þessi orð, sem Jóhannes skírari mælti þegar Aronsprestdæmið var endurreist: „Yður, samþjónum mínum, veiti ég í nafni Messíasar Aronsprestdæmið, sem hefur lykla að þjónustu engla og fagnaðarerindi iðrunar og niðurdýfingarskírn til fyrirgefningar syndanna. Og þetta skal aldrei aftur af jörðunni tekið, uns synir Levís færa Drottni aftur fórn í réttlæti.“7
Aronsprestdæmið er viðauki við hið æðra, Melkísedeksprestdæmið.8 Forseti kirkjunnar, sem er forseti alls prestdæmisins, er líka í forsæti prestdæmi undirbúnings. Boðskapur hans yfir árin, um að koma öðrum til bjargar, fellur algjörlega að því að færa öðrum fagnaðarerindi iðrunar og skírnar.
Sveitir djákna, kennara og presta ráðgast reglubundið um hvernig laða megi hvern sveitarmeðlim að Drottni. Forsætisráðin fela meðlimum að ná til annarra í trú og kærleika. Djáknar útdeila sakramentinu af lotningu og í trú á að meðlimir muni finna áhrif friðþægingarinnar og einsetja sér að halda boðorðin, er þeir meðtaka þessi helgu tákn.
Kennarar og prestar biðja með félögum sínum til að uppfylla þá ábyrgð að vaka yfir kirkjunni, hverjum einstaklingi. Þessir félagar biðja saman, er þeim lærist að þekkja þarfir og vonir fjölskyldunnar. Þegar þeir gera það, búa þeir sig undir þann mikilvæga tíma er þeir munu vera feður, í trú og forsvari fyrir eigin fjölskyldu.
Ég ber vitni um að allir sem þjóna saman í prestdæminu, eru að búa aðra undir komu Drottins til kirkju sinnar. Guð faðirinn lifir. Ég veit að Jesús er Kristur og að hann elskar okkur. Thomas S. Monson forseti er lifandi spámaður Drottins. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.