2010–2019
Gerið iðkun trúar að forgangi í lífi ykkar
október 2014


Gerið iðkun trúar að forgangi í lífi ykkar

Þrátt fyrir allar neikvæðar upplifanir í lífi okkar, þá verðum við að gefa okkur tíma til að iðka trú okkar ötullega.

Þegar Adam og Eva voru í garðinum Eden þá var þeim ríkulega séð fyrir öllum þeirra daglegu þörfum. Þau þurftu ekki að takast á við erfiðleika, áskoranir eða sársauka Þar sem þau höfðu aldrei upplifað erfiðar stundir vissu þau ekki að þau gætu verið hamingjusöm. Þau höfðu aldrei reynt ringulreið svo þau gátu ekki skynjað frið.

Um síðir brutu Adam og Eva lögmálið að neyta ekki af ávexti skilningstrés góðs og ills. Með því að gera svo voru þau ekki lengur í ástandi sakleysis. Þau hófu að upplifa lögmál mótlætis. Þau kynntust sjúkdómum sem veiktu heilsu þeirra Þau fóru að upplifa sorg ásamt gleði.

Með því að Adam og Eva neyttu af hinum forboðna ávexti var heimurinn kynntur fyrir þekkingunni á hinu góða og illa. Ákvörðun þeirra gerði okkur það mögulegt að koma til jarðar og vera reynd.1 Við erum blessuð með valfrelsi, sem gerir okkur kleift að taka ákvarðanir og vera ábyrg fyrir þær ákvarðanir.. Fallið gerði það mögulegt að upplifa bæði tilfinningar hamingju og sorgar í lífi okkar. Við getum skilið frið því við skynjum ringulreið.2

Faðir okkar á himnum vissi að þetta myndi gerast. Þetta er allt hluti af hinni fullkomnu hamingjuáætlun hans. Í gegnum líf og friðþægingarfórn hins fullkomlega hlýðna sonar hans, þá undirbjó hann leið fyrir okkur til að sigrast á öllum þeim erfiðleikum sem við gætum reynt í lífi okkar.

Við lifum á ófriðartímum. Við þurfum ekki að telja upp rót alls hins illa í heiminum. Það er ekki nauðsynlegt að lýsa öllum mögulegum áskorunum og því hugarangri sem er hluti af lífi okkar. Hvert og eitt okkar er vel meðvitað um eigin báráttu við freistingar, sársauka og sorg.

Okkur var kennt í fortilverunni að tilgangur okkar hér á jörðinni væri að vera reynd, prófuð og á okkur teygt.3 Við vissum að við myndum standa frammi fyrir vonsku andstæðingsins. Stundum yrðum við kannski meira meðvituð um neikvæðu hliðar lífsins en þær jákvæðu. Spámaðurinn Lehí kenndi, „Því að andstæður eru nauðsynlegar í öllu.“4 Þrátt fyrir allar þær neikvæðu áskoranir sem við tökumst á í lífinu, þá verðum við að gefa okkur tíma til þess að iðka trú okkar ötullega. Slík iðkun býður hinum jákvæða, trúarfyllta krafti friðþægingarfórnar Jesú Krists í líf okkar.

Faðir okkar á himnum hefur veitt okkur verkfæri til þess að hjálpa okkur við að koma til Krists og iðka trú á friðþægingu hans. Þegar þessi verkfæri verða undirstöðu-venjur þá sjá þær okkur fyrir auðveldustu leiðinni til að finna frið í mótlæti lífsins. Í dag hef ég valið að ræða fjögur þessara verkfæra Er ég tala, íhugið þá að meta ykkar persónulegu notkun hvers verkfæris, leitið síðan leiðsagnar Drottins við að ákvarða hvernig þið getið betur nýtt þau.

Bæn

Fyrsta verkfærið er bæn. Veljið að ræða reglulega við föður ykkar á himnum. Takið frá tíma á hverjum degi til að deila hugsunum ykkar og tilfinningum með honum. Segið honum hvað íþyngir ykkur. Hann hefur áhuga á mikilvægustu þáttum lífs ykkar jafnt og þeim hversdagslegustu. Deilið með honum öllu tilfinningar- og reynslusviði ykkar.

Himneskur faðir mun aldrei neyða ykkur til að biðja til hans því hann virðir valfrelsi ykkar. Er þið iðkið það valfrelsi og gerið hann að hluta ykkar daglega lífs, þá munu hjörtu ykkar byrja að fyllast af gleðilegum friði. Þessi friður mun beina eilífu ljósi á baráttu ykkar. Hann mun hjálpa ykkur að takast á við þessar áskoranir frá eilífu sjónarmiði.

Foreldrar, hjálpið til við að verja börn ykkar með því að brynja þau kvölds og morgna með krafti fjölskyldubæna. Daglega dynur á börnunum illska losta, græðgi, hroka og fjöldi annarrar syndsamlegrar hegðunar. Verndið börn ykkar frá daglegum áhrifum heimsins með því að brynja þau með þeim kröftugu blessunum sem leiða af fjölskyldubænum. Fjölskyldubænir ættu að vera ófrávíkjanlegur forgangur í daglegu lífi ykkar.

Ritningarnám

Annað verkfærið er að nema orð Guðs í ritningunum og í orðum lifandi spámanna. Við tölum við Guð í gegnum bæn. Hann svarar okkur oftast í gegnum skrifað orð sitt. Til að vita hvernig rödd hins guðlega hljómar og hvernig við skynjum hana, lærið ritningarnar og íhugið þær. 5 Gerið þær að óaðskiljanlegum hluta daglegs lifs. Ef þið viljið að börn ykkar læri að þekkja, skilja og breyta samkvæmt hvatningu andans þá verðið þið að læra ritningarnar með þeim.

Ekki falla fyrir lýgi Satans að þið hafið ekki tíma til að læra ritningarnar. Veljið að taka tíma til þess að læra þær. Að endurnærast af orði Guðs daglega er mikilvægara en svefn, heimalærdómur, vinna, sjónvarpsþættir, tölvuleikir eða samfélagsmiðlar. Þið gætuð þurft að endurforgangsraða til að veita ykkur tíma til að læra orð Guðs. Ef svo, gerið það!

Spámennirnir hafa veitt okkur mörg loforð varðandi blessanir daglegs ritningalesturs.6

Ég bæti mínu loforði við þetta loforð: er þið helgið tíma daglega fyrir það að læra orð Guðs, bæði persónulega og með fjölskyldunni, þá mun friður ríkja í lífi ykkar. Sá friður mun ekki koma frá heiminum. Friðurinn mun koma innan frá heimilum ykkar, frá fjölskyldum ykkar og hjörtum ykkar. Það verður gjöf andans. Hann mun geisla frá ykkur og hafa áhrif á heiminn í kringum ykkur. Þið munið vera að gera eitthvað mikilvægt til að bæta við uppsafnaðan frið heimsins.

Ég held því ekki fram að þið munið hætta að mæta áskorunum í lífi ykkar. Munið að þegar Adam og Eva voru í garðinum þá voru þau án áskorana, samt gátu þau ekki upplifað hamingju, gleði og frið.7 Áskoranir eru mikilvægur þáttur af jarðlífinu. Þið munið finna frið frá ringulreiðinni í kringum ykkur í gegnum daglegan, reglulegan ritningarlestur og fá styrk til að standast freistingar. Þið munið þróa sterka trú á náð Guðs og vita að í gegnum friðþægingu Jesú Krists verður allt leiðrétt, samkvæmt tímasetningu Guðs.

Fjölskyldukvöld

Á sama tíma og þið vinnið að því að styrkja fjölskyldur ykkar og rækta frið, munið þá að þriðja verkfærið er vikuleg fjölskyldukvöld. Varið ykkur á því að gera fjölskyldukvöldið ekki að bakþanka eftir annasaman dag. Ákveðið að á mánudagskvöldum sé fjölskylda ykkar heima, saman. Ekki láta kröfur vinnunnar, íþrótta, tómstundaiðkana, heimanáms eða nokkurs annað verða mikilvægara en sá tími sem þið eigið saman heima, með fjölskyldu ykkar.

Uppbygging kvöldsins er ekki eins mikilvæg og sá tími sem settur er í verkið. Kenna ætti fagnaðarerindið á bæði formlegan og óformlegan máta. Sjáið til þess að þetta verði þýðingarmikil reynsla fyrir hvern fjölskyldumeðlim. Fjölskyldukvöld eru dýrmætur tími til að bera vitnisburð í öruggu umhverfi, til að læra kennslu-, áætlana- og skipulagshæfni; til að styrkja fjölskylduböndin; til að þróa fjölskylduhefðir; til að tala saman og það sem mikilvægast er, að eiga dásamlegan tíma saman!

Á síðustu aprílráðstefnu sagði systir Linda S. Reeves umbúðalaust: „Ég [verð] að vitna um þær blessanir sem daglegt ritningarnám, bæn og fjölskyldukvöld færa. Þetta eru þær athafnir sem fjarlægja streitu, veita okkur stefnu í lífinu og auka heimilisverndina.”8 Systir Reeves er mjög vitur kona. Ég hvet ykkur eindregið til að ávinna ykkur ykkar eigin vitnisburð um þessa þrjár þýðingarmiklu venjur.

Musterissókn

Fjórða verkfærið er musterissókn. Við vitum öll að það er ekki til friðsælli staður á jörðunni en musteri Guðs. Ef þið eruð ekki með musterismeðmæli. vinnið að því að vera verðug þeirra. Þegar þið hafið meðmæli, notið þau oft.9 Skipuleggið reglulega tíma til að fara í musterið. Ekki leyfa neinu eða neinum að koma í veg fyrir að þið farið þangað.

Þegar þið eruð í musterinu, hlustið á orð helgiathafnanna, íhugið þau, biðjið varðandi þau og leitist til að skilja merkingu þeirra. Musterið er einn besti staðurinn til að fá skilning um kraft friðþægingar Jesú Krists. Leitið hans þar. Munið að margfalt fleiri blessanir hljótast af því að færa nöfn ykkar eigir fjölskyldu til musterisins.

Þessi fjögur verkfæri eru undirstöðu-venjur þess að tryggja líf ykkar í krafti friðþægingar Jesú Krists. Munið að frelsari okkar er friðarhöfðinginn. Friður í þessu jarðlífi kemur frá friðþægingarfórn hans. Þegar við biðjum stöðugt, kvölds og morgna, lærum ritningarnar daglega, höfum vikuleg fjölskyldukvöld og förum reglulega í musterið þá erum við að bregðast ötullega við boði hans um að „koma til hans.“ Því meira sem við þróum þessar venjur, því áfjáðari verður Satan að skaða okkur, en því veikari verður kraftur hans til þess. Með því að nota þessi verkfæri þá nýtum við valfrelsi okkar til að meðtaka að fullu gjafir friðþægingarfórnar hans.

Ég er ekki að segja að allir erfiðleikar lífsins muni hverfa er þið gerið þessa hluti. Við komum til jarðar nákvæmlega til þess að læra af raunum og reynslum. Áskoranir hjálpa okkur við að verða líkari himneskum föður og friðþægingarfórn Jesú Krists gerir okkur kleift að þola þessa erfiðleika.10 Ég ber vitni um að ef við vinnum ötullega að því að koma til hans þá getum við sigrast á hverri freistingu, hjartasorg og áskorun sem við stöndum frammi fyrir, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá HDP Móse 5:11.

  2. Sjá HDP Móse 4–5.

  3. Sjá Abraham 3:25.

  4. 2 Ne 2:11.

  5. Sjá Kenning og sáttmálar 18:36; sjá einnig vers 34–35.

  6. Sum dæmi innihalda:Thomas S. Monson forseti sagði: „Þegar við lesum og hugleiðum ritningarnar, munum við heyra andann hvísla ljúflega í sál okkar. Við getum fundið svör við spurningum okkar. Við lesum um þær blessanir sem hlýðni við boðorð Guðs veita. Við öðlumst öruggan vitnisburð um himneskan föður og frelsara okkar Jesú Krist og kærleika þeirra til okkar. Þegar ritningarnám tengist bænum okkar, getum við vitað með fullvissu að fagnaðarerindi Jesú Krists er sannleikur. … Um leið og við minnumst bænarinnar og tökum okkur tíma til að snúa til ritninganna, þá hljótum við óendanlegar blessanir og byrði okkar verður léttari.” („We Never Walk Alone,“ Ensign eða Liahona, nóv. 2013, 122).Gordon B. Hinckley sagði: „Ég segi ykkur án nokkurs fyrirvara, að ef hvert og eitt ykkar fer eftir þessu einfalda boði, burt séð frá hversu oft þið hafið áður lesið Mormónsbók, mun andi Drottins vera í ríkari mæli á heimili ykkar og í lífi ykkar, þið verðið einbeittari við að halda boðorð hans og hljótið sterkari vitnisburð um raunveruleika hins lifandi sonar Guðs“ („A Testimony Vibrant and True,“ Ensign eða Liahona, ágúst 2005, 6).Howard W. Hunter forseti sagði: „Fjölskyldur eru blessaðar stórkostlega þegar vitrir feður og mæður safna börnum sínum saman í kringum þau, lesa saman af blaðsíðum ritningana og ræða svo opið um hinnar fallegu sögur og hugsanir, eftir skilningi hvers og eins.“ Æskan og börnin hafa oft ótrúlegt innsæi og innsýn inn í grunnbókmenntir trúarinnar“ („Reading the Scriptures,“ Ensign, nóv. 1979, 64).Ezra Taft Benson forseti sagði: „Oft leggjum við hart að okkur til að auka starfsárangur í stikum okkar. Við vinnum ötullega að því að hækka hundraðshluta þeirra sem mæta á sakramentissamkomur. Við vinnum að því að fá hærri hundraðshluta pilta til að fara í trúboð. Við keppumst við að auka fjölda þeirra sem giftast í musterinu. Allt er þetta virðingarvert og mikilvægt fyrir vöxt ríkisins. En þegar einstakir kirkjuþegnar og fjölskyldur sökkva sér reglubundið niður í ritningarnar, nást þessi önnur athafnasvið af sjálfu sér. Vitnisburðir aukast. Skuldbindingar styrkjast. Fjölskyldur eflast. Persónulegar opinberanir munu flæða“ („The Power of the Word,“ Ensign, maí 1986, 81).Spencer W. Kimball forseti sagði: „Ég finn, þegar ég verð kærulaus í samskiptum mínum við guðdóminn, að svo virðist sem ekkert guðlegt eyra hlusti og engin guðleg rödd mæli, og ég hef fjarlægst mjög. að þegar ég sökkvi mér niður í ritningarnar, minnkar fjarlægðin og andríkið eykst. Ég hef komist að því að ég elska þá heitar, sem mér ber að elska af öllu hjarta, huga og mætti, og þegar ég elska þá heitar, reynist mér auðveldar að hlíta leiðsögn þeirra. (Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 67).Marion G. forseti sagði: „Ég er þess fullviss að ef foreldrar munu á heimilum sínum lesa Mormónsbók reglubundið, í bænaranda, bæði í einrúmi og með börnum sínum, mun andi þeirrar stórkostlegu bókar fylla heimili okkar og gagntaka alla sem þar dvelja. Andi lotningar mun aukast, sem og gagnkvæm virðing og hugulsemi. Andi deilna mun á brott hverfa. Foreldrar munu leiðbeina börnum sínum af aukinni ástúð og visku. Börnin verða næmari og móttækilegri fyrir leiðsögn foreldra sinna. Réttlæti mun aukast. Trú, von og kærleikur – hin hreina ást Krists – verða ríkjandi á heimilum okkar og lífi og vekja með okkur frið, gleði og hamingju“ („The Book of Mormon,“ Ensign, maí 1980, 67).Boyd K. Packer forseti sagði: „Sönn kenning, og skilningur á henni, breytir viðhorfi og hegðun. Nám á kenningum fagnaðarerindisins mun bæta hegðun hraðar en hegðunarnám mun bæta hegðun“ („Do Not Fear,“Ensign eða Liahona, maí 2004, 79)Öldungur David A. Bednar sagði: „Hver fjölskyldubæn, hvert atvik fjölskyldu ritningarlesturs og hvert fjölskyldukvöld er eitt einstakt penslafar á striga sálna okkar. Enginn einn atburður virðist vera tilkomumikill eða eftirminnilegur. En rétt eins og gulu, gylltu og brúnu penslaförin bæta hvert annað upp og mynda tilkomumikið meistaraverk, þá mun það, að vera samkvæm sjálfum sér í smáu sem stóru, á sama hátt leiða til mikilsverðs andlegs árangurs“ („More Diligent and Concerned at Home,“ Ensign eða Liahona, nóv. 2009, 19–20).

  7. Sjá 2 Ne 2:13.

  8. Linda S. Reeves, „Protection from Pornography—a Christ-Focused Home,“ Ensign eða Liahona, maí 2014, 16–17.

  9. Howard W. Hunter forseti sagði: „Í þeim anda vil ég biðja Síðari daga heilaga að líta á musteri Drottins sem hið mikla tákn aðildar okkar. Það er dýpsta hjartans þrá mín að hver einasti kirkjuþegn sé verðugur þess að fara í musterið. Það myndi vekja velþóknun Drottins, ef sérhver fullorðinn kirkjuþegn yrði verðugur þess að hafa - og bæri á sér - musterismeðmæli. Það sem við verðum að gera og forðast að gera til að vera verðug musterismeðmæla er einmitt það sem tryggir hamingju okkar sem einstaklinga og sem fjölskyldur. Verum musterissækið fólk. Sækjum musterið heim eins oft og persónulegar aðstæður leyfa. Hafið mynd af musterinu á heimili ykkar þar sem börn ykkar geta séð hana. Kennið þeim tilgang húss Drottins. Fáið þau á unga aldri til að ráðgera að fara þangað og vera verðug slíkrar blessunar“ („Exceeding Great and Precious Promises,“ Ensign, nóv. 1994, 8).

  10. Sjá 2 Ne 2:2.