2010–2019
Velja viturlega
október 2014


Velja viturlega

„Hafna hinu illa og velja hið góða“ (Jes 7:15).

Kæru bræður, í kvöld ætla ég að veita ykkur leiðsögn um ákvarðanir og valkosti.

Þegar ég var ungur lögfræðingur í San Francisco Bay Area, vann lögmannastofa okkar að verkefni fyrir fyrirtæki sem framleiddi Charlie Brown holiday sjónvarpsþættina. 1 Ég varð aðdáandi Charles Shultz og afurða hans – Peanuts, með Charlie Brown, Lucy, Snoopy og fleiri frábærra sögupersóna.

Einn uppáhalds grínþáttur minn var með Lucy. Eins og ég man það, þá var hornaboltalið Charlies Brown í mikilvægum leik – Lucy lék hægra megin á vellinum og hár bolti kom svífandi í áttina að henni. Hornaboltastöðvarnar voru fullskipaðar og þetta var síðasta lotan af níu. Ef Lucy næði að grípa boltann, mundi liðið hennar sigra. Ef Lucy missti af boltanum, mundi hitt liðið sigra.

Eins og aðeins á sér stað í grínþætti, þá þyrptust allir í liðinu umhverfis Lucy þegar boltinn kom svífandi niður. Lucy hugsaði: „Ef ég gríp boltann, verð ég hetjan. Ef ég ég geri það ekki, verð ég sökudólgurinn.“

Boltinn kom svífandi og liðsmenn hennar horfðu spenntir á og Lucy missti af boltanum. Charlie Brown fleygði hanskanum á jörðina af bræði. Lucy leit þá á liðsmenn sína, setti hendur á mjaðmir og sagði: „Hvernig getið þið ætlast til þess að ég grípi boltann þegar ég hef áhyggjur af utanríkisstefnu landsins?“

Þetta var einn af mörgum boltum sem Lucy missti af yfir árin og í hvert sinn kom hún með nýja afsökun.2 Lucy var alltaf fyndin og afsakanir hennar voru sjálfsréttlætingar. Þetta voru falskar afsakanir fyrir því að hafa ekki gripið boltann.

Thomas S. Monson forseti hefur oft í þjónustutíð sinni kennt að ákvarðanir móti örlögin.3 Leiðsögn mín í kvöld er í þeim anda, án sjálfsréttlætingar, sem kemur í veg fyrir að við getum tekið réttlátar ákvarðanir, einkum hvað varðar þjónustu okkar við Jesú Krist. Í Jesaja er okkur sagt að við verðum að „hafna hinu illa og velja hið góða.“4

Ég trúi að afar mikilvægt sé að við íhugum valkosti okkar og ákvarðanir vandlega, til að samræma þær markmiðum okkar og játuðum lífstilgangi, á tíma er Satan vekur reiði í hjörtum manna, á svo margbrotinn og slóttugan hátt.. Við þurfum ótvíræða skuldbindingu við boðorðin og skilyrðislausa hollustu við helga sáttmála. Ef við leyfum að sjálfsréttlæting haldi okkur frá musterisgjöf okkar, verðugu trúboði og musterisgiftingu, veldur það miklum skaða. Það er sorglegt ef við játum trú á þau markmið og vanrækjum svo þá daglegu breytni til að þeim verði náð.5

Sumt ungt fólk játar þau markmið að giftast í musterinu, en á þó ekki stefnumót við þá sem verðugir eru musterisins. Ef satt skal segja, þá fara sumir hreint ekki á stefnumót! Þið, ungu menn, því lengur sem þið eruð einhleypir, eftir að ákveðnu aldursskeiði og þroska er náð, fer ykkur að finnast það þægilegt. Því óþægilegra ætti ykkur þá einmitt að líða! Starfið af kappi6 að andlegu og félagslegu starfi, sem samræmist þeim markmiðum ykkar að giftast í musterinu.

Sumir fresta hjónabandi þar til þeir hafa menntað sig og fengið atvinnu. Þótt heimurinn telji það almennt gott, þá felst ekki trú í slíkri hugsun og hún samræmist hvorki leiðsögn nútíma spámans, né hinni traustu kenningu.

Nýlega hitti ég góðan pilt á unglingsaldri. Hann hafði að markmið að fara í trúboð, afla sér menntunar, giftast í musterinu og eignast góða og trúfasta fjölskyldu. Ég var afar ánægður með markmiðin hans. Þegar dró á samræður okkar, kom það hinsvegar berlega í ljós að breytni hans og ákvarðanir samræmdust ekki markmiðum hans. Mér fannst hann einlæglega vilja fara í trúboð og forðast alvarlegar syndir, sem kæmu í veg fyrir trúboð, en hans daglega breytni bjó hann ekki undir þá líkamlegu, tilfinningalegu, félagslegu, vitsmunalegu og andlegu áskoranir sem hann ætti eftir að takast á við.7 Honum hafði ekki lærst að leggja sig fram. Hann tók hvorki skólann, né trúarskólann alvarlega. Hann sótti kirkju, en hafði ekki lesið Mormónsbók. Hann varði heilmiklum tíma við tölvuleiki og félagsmiðla. Hann virtist halda að nægilegt væri að mæta þegar kæmi að trúboði. Ungu menn, tileinkið ykkur verðuga breytni og raunverulegan undirbúning, til þess að verða sendiboðar Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists.

Ég hef ekki aðeins áhyggjur af þeim ákvörðunum sem örlagaríkastar eru, heldur líka hinum veigaminni – þeim sem við verjum mestum tíma í og eru hversdagslegar og almennar. Hvað þær varðar, þá þurfum við að tileinka okkur hófsemi, jafnvægi og einkum visku. Mikilvægt er að rísa yfir sjálfsréttlætingu og ákveða það sem best er.

Gott dæmi um þörf á hófsemi, jafnvægi og visku er notkun Alnetsins. Það má nota til að gera trúboðsverk, aðstoða við prestdæmisskyldur, finna dýrmæta áa fyrir helgiathafnir musterisins og margt fleira. Möguleikarnir til góðra verka eru þar gríðarlegir. Okkur er líka ljóst að það getur sent til okkar margt það sem illt er, svo sem klám og rafrænt ofbeldi,8 og nafnlaust blaður. Það getur líka geymt heimskulegt efni. Bróðir Randall L. Ridd ræddi um Alnetið og kenndi áhrifaríkt á síðustu aðalráðstefnu: „Þið getið vafrað endalaust um á netinu, um lítilsgilt efni og sóað þannig tíma ykkar og dregið úr möguleikum ykkar.“9

Afþreyingarefni og það sem andstætt er réttlætinu, er ekki aðeins á Alnetinu, heldur allsstaðar. Það hefur ekki aðeins áhrif á æskuna, heldur okkur alla. Við lifum í heimi sem bókstaflega er í upplausn.10 Hvarvetna umhverfis er stöðug framsetning „leikja og skemmtana“ og ósiðlegs og óreglulegs lífernis. Það er sett fram í flestum fjölmiðlum sem eðlilegur lifnaður.

Öldungur David A. Bednar hvatti meðlimi nýlega til að vera áreiðanlegir er þeir nota félagsmiðla.11 Kunnur hugmyndaleiðtogi, Arthur C. Brooks, hefur fjallað um þann málaflokk. Hann hefur veitt athygli að þegar fólk notar félagsmiðla, þá hneigist það til að útvarpa því gleðilega í eigin lífi, en ekki erfiðleikum í skóla eða atvinnu. Við lýsum ófullgerðu lífi – sem stundum er sjálfs-upphefjandi eða falsað. Við deilum þessari lífsmynd og tökum síðan á móti „næstum algjörri lífsfölsun vina okkar á félagsmiðlunum.“ Brooks fullyrðir: „Hvernig getur annað verið en að ykkur fari að líða illa við að verja miklum tíma lífs ykkar í að látast vera hamingjusamari en þið í raun eruð og síðan að fylgjast með því hve aðrir virðast miklu hamingjusamari en þið eruð.“12

Stundum er eins og við séum að drukkna í hégóma og heimsku,heimskulegum kliði og áframhaldandi ágreiningi. Þegar við drögum niður í hávaðanum og skoðum kjarnan, þá er afar lítið í þessu sem gerir hina eilífu ferð okkar auðveldari í átt að réttlátum markmiðum. Faðir einn brást viturlega við stöðugum fyrirspurnum barna sinna um að fá að taka þátt í slíkri afþreyingu. Hann spurði einfaldlega: „Gerir þetta þig að betri einstaklingi?“

Þegar við réttlætum rangar ákvarðanir, stórar eða smáar, sem samræmast ekki hinu endurreista fagnaðarerindi, missum við nauðsynlegar blessanir og vernd og látum oft veiða okkur í snöru syndar eða töpum einfaldlega áttum.

Ég hef einkum áhyggjur af heimsku13 og að vera táldreginn af „öllu nýjabrumi.“ Í kirkjunni tökum við fagnandi á móti og eflum sannleika og þekkingu af öllum toga. Þegar menning, þekking og félagsleg siðferðisgildi verða aðskilin frá hamingjuáætlun Guðs og hinu mikilvæga hlutverki Jesú Krists, verður sundrung hinsvegar óhjákvæmileg í samfélagi.14 Á okkar tíma hafa nauðsynleg grunngildi horfið og dregið hefur úr almennri hamingju og velferð, þrátt fyrir fordæmislausar framfarir á mörgum sviðum, einkum í vísindum og samskiptum.

Þegar Páli postula var boðið að tala á Aserarhæð í Aþenu, ræddi hann að nokkru um álíka vitsmunalega sýndarmennsku og fjarlægingu frá sannri visku og á sér stað á okkar tíma.15 Um það getum við lesið í Postulasögunni: „En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.“16 Páll lagði megin áherslu á upprisu Jesú Krists. Þegar mannfjöldanum varð ljóst að boðskapur hans var trúarlegs eðlis, tóku sumir að hæðast að honum og aðrir einfaldlega leiddu hann hjá sér og sögðu: „Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.“17 Páll fór frá Aþenuán árangurs. Dean Frederic Farrar ritaði um þessa heimsókn: „Í Aþenu stofnaði hann enga kirkju, ekkert bréf skrifaði hann til Aþenubúa og þótt hann hefði oft átt leið hjá Aþenu, þá fór hann þangað aldrei aftur.“18

Ég trúi að hinn innblásni boðskapur öldungs Dallin H. Oaks, þar sem „gott, betra, best“ er skilgreint, sé áhrifaríkur þegar meta þarf valkosti og forgangsröðun.19 Margir valkostir eru ekki af illum meiði, en ef þeir taka allan okkar tíma og halda okkur frá bestu valkostunum, eru þeir lúmskir.

Góð verk þarf jafnvel að meta til að ákveða hvort þau dragi okkur frá okkar bestu markmiðum. Ég átti minnisstæðar samræður við föður minn þegar ég var unglingur. Honum fannst margt ungt fólk ekki einblína á og búa sig undir mikilvæg langtímamarkmið – líkt og atvinnu og uppihaldi fjölskyldu.

Faðir minn mælti ætíð með að innihaldsríkur lærdómur og undirbúningur væru í forgangi. Hann mat mikils athafnasemi utan námsskrár, líkt og kappræðunámskeið og nemendaráðsstöður, sem gætu orðið gagnleg fyrir sum mikilvægustu markmiðin mín. Hann var ekki jafn viss um þann tíma sem ég varði við að leika fótbolta, körfubolta, hornbolta og fara í gönguferðir. Hann viðurkenndi að íþróttir gætu stuðlað að styrk, þoli og liðsheild, en hélt því fram að betra væri kannski að einbeita sér að einni íþróttagrein í styttri tíma. Í þessu ljósi, voru íþróttir góðar, en töldust þó ekki með því besta hvað mig varðaði. Hann hafði áhyggjur af því að íþróttir væru notaðar til að byggja upp stjörnur og orðstír á kostnað mikilvægra langtíma markmiða.

Í ljósi þessarar frásagnar, þá er ein ástæða þess að mér finnst þátturinn um Lucy við hornboltaleik skemmtilegur, sú að faðir minn hafði þá skoðun að ég hefði frekar átt að læra utanríkismál, heldur en að eltast við að grípa bolta. Ég ætti að taka skýrt fram að móðir mín hafði unun af íþróttum. Það hefði tekið sjúkrahúsvist til að hún missti af einum leikja minna.

Ég hafði tekið þá ákvörðun að fara að ráðum föður míns um að taka ekki þátt í háskólaíþróttum í framhaldsskóla. Þá kom háskólaþjálfari okkar að máli við mig og sagði að fótboltaþjálfarinn í Stanford vildi bjóða mér og Merlin Olsen til hádegisverðar. Þið sem yngri eruð kannist kannski ekki við Merlin. Hann var frábær fótboltamaður í Logan háskólaliðinu, þar sem ég var leikstjórnandi, og varnar- og sóknarmaður. Í menntaskóla var Merlin eftirsóttur meðal flestra fótboltaliða víða um landið. Í háskóla var honum veitt verðlaun fyrir bestu framistöðuna í sinni leikmannsstöðu á vellinum. Merlin var að lokum sá þriðji leikmaður allra háskólaliðanna sem var valinn í úrvalsdeildina og hann lék frábærlega í 14 úrslitaleikjum í atvinnumannadeildinni.. Árið 1982 var hann valinn meðal bestu atvinnumanna í Frægðarhöllinni.20

Hádegisverðurinn með þjálfara Standford var í Bluebird veitingahúsinu í Logan, Utah. Eftir að við tókumst í hendur, horfði hann aldrei beint framan í mig. Hann ræddi beint við Merlin, en hunsaði mig alveg. Við hádegisverðarlok snéri hann sér loks að mér, en mundi ekki eftir nafni mínu. Hann sagði síðan við Merlin: „Ef þú velur Stanford og vilt að vinur þinn komi með þér, væri líklega hægt að koma því við, þar sem einkunnir hans eru næglega góðar.“ Þessi reynsla staðfesti að ég ætti að fara að góðum ráðum föður míns.

Ætlun mín er ekki að letja ungt fólk til að nota Alnetið eða taka þátt í íþróttum eða öðrum góðum og skemmtilegum athöfnum. Þetta eru athafnir sem krefjast meðalhófs, jafnvægis og visku. Þær auðga lífið, ef við tökum þátt af skynsemi.

Ég hvet hins vegar alla, bæði unga og aldna, til að endurskoða markmið og viðfangsefni og reyna að sýna meiri sjálfsstjórn. Okkar daglega breytni og val ætti að vera í samhljóm við markmið okkar. Við þurfum að forðast sjálfs-réttlætingu og takmarka afþreyingu. Það er einkar mikilvægt að velja það sem er í samhljóm við sáttmála okkar um að þjóna Jesú Kristi í réttlæti.21 Af þeim bolta megum við ekki taka augun eða missa af honum fyrir nokkurn mun..

Tilgangur þessa lífs er að búa okkur undir að mæta Guði.22 Við erum hamingjusamt og glaðvært fólk. Við metum góða kímnigáfu og frjálsan tíma með vinum og vandamönnum. Við þurfum samt að vera meðvitaðir um þann mikilvæga tilgang sem verður að hafa forgang í verkum og öllu vali. Afþreyingar og sjálfs-réttlætingar sem takmarka framþróun okkar gera nægan skaða, en ef þær skerða trú á Jesú Krist og kirkju hans, valda þær hörmungum.

Bæn mín er sú að breytni okkar sem samfélag prestdæmishafa, verði í samhljóm við hinn göfuga tilgang sem af þeim er krafist sem eru í þjónustu meistarans. Við ættum að minnast þess í öllu, að það að vera„hugdjarfir í vitnisburðinum um Jesú“ er mesta prófraunin, þar sem skilið getur á milli himneska ríkisins og yfirjarðneska ríkisins.23 Við viljum sjá okkur þeim megin sem himneska ríkið er. Ég, sem einn af postulum hans, ber innilega vitni um raunveruleika friðþægingar og guðleika Jesú Krists, frelsara okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Lee Mendelson-Bill Melendez Production TV Specials.

  2. Lusy réttlætti alltaf sjálfa sig frá því að missa af boltanum, allt frá því að vera trufluð af tunglum Sartúnusar til þess að hanskinn hennar væri eitraður.

  3. Sjá „Decisions Determine Destiny,” kafli 8 í Pathways to Perfection:Discourses of Thomas S. Monson(1973), 57–65.

  4. Jes 7:15.

  5. „Ef jafn auðvelt væri að framkvæma hið góða og að þekkja það, yrðu kapellur að kirkjum og hreysi fátækra að höllum“ (William Shakespeare, The Merchant of Venice) leikþáttur 1, sviðsmynd 2, línur 12–14).

  6. Kenning og sáttmálar 58:27.

  7. Sjá Adjusting to Missionary Life (smárit), 23–49.

  8. Sjá Stephanie Rosenbloom, „Dealing with Digital Cruelty,“ New York Times, Sunday Review, 24. ágúst 2014, SR1.

  9. Randall L. Ridd, „The Choice Generation,“ Ensign eða Liahona, maí 2014, 56.

  10. Sjá Kenning og sáttmálar 45:26.

  11. Sjá David A. Bednar, „To Sweep the Earth as with a Flood“ (ræða haldin í BYU Campus Education Week, 19. ágúst 2014); lds.org/prophets-and-apostles/unto-all-the-world/to-sweep-the-earth-as-with-a-flood.

  12. Arthur C. Brooks, „Love People, Not Pleasure,“ New York Times, 20. júlí 2014, SR1.

  13. Því miður er það svo að ein dægrastyttingin sem aukist hefur er hrein heimska. Þegar frelsarinn taldi upp nokkuð af því sem getur spillt mönnum, tilgreindi hann heimsku (sjá Mark 7:22).

  14. Þetta gerðist í Grikklandi og Róm til forna, sem og í menningarsamfélögum í Mormónsbók.

  15. Sjá F. W. Farrar, The Life and Work of St. Paul (1898), 302. Það voru heimspekingar af öllum toga, þar á meðal veraldarsinnar, æðruleysingjar, andstæðar fylkingar, sem sumir sögðu vera farísea og saddúkear í hinum heiðna heimi. Sjá einnig Quentin L. Cook, „Looking beyond the Mark,“ Ensign, mars 2003, 41–44; Liahona, mars 2003, 21–24.

  16. Post 17:21.

  17. Post 17:32.

  18. Farrar, The Life and Work of St. Paul, 312.

  19. Sjá Dallin H. Oaks, „Good, Better, Best,“ Ensign eða Liahona, nóv. 2007, 104–8.

  20. Merlin Olsen var valinn sem fótboltamaður í Hall of fame og hann var leikari og NFL fréttaskýrandi. Hann fékk Outland verðlaunin við að spila fótbolta fyrir Utah State háskólann. Hann lék atvinnumannafótbolta fyrir Los Angeles Rams. Í sjónvarpi lék hann Jonathan Garvey á móti Michael Landon í Little House on the Prairie og var með eigin sjónvarpsþátt, Father Murphy. Merlin er nú látinn (11. mars 2010), og hans er sárt saknað.

  21. Sjá Kenning og sáttmálar 76:5.

  22. Sjá Alma 34:32.

  23. Kenning og sáttmálar 76:79.