Komið og sjáið
Kirkja Jesú Krists hefur ætíð verið og munu ætíð verða trúboðskirkja.
Boðskapur minn er einkum fyrir þá sem ekki eru meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég ætla að fjalla um mikilvæga spurningu, sem brunnið getur á mörgum ykkar: „Af hverju eru Síðari daga heilagir svo áhugasamir um að segja mér frá trú sinni og bjóða mér að læra um kirkjuna sína?“
Ég bið þess að andi Drottins hjálpi mér að mæla áhrifaríkt og ykkur að skilja berlega, er ég svara þessari mikilvægu spurningu.
Guðlegt boð
Trúfastir lærisveinar Jesú Krists hafa ætíð verið og munu ætíð verða hugdjarfir trúboðar. Trúboði er fylgjandi Krists, er vitnar um hann sem frelsara og boðar sannleik fagnaðarerindis hans.
Kirkja Jesú Krists hefur ætíð verið og munu ætíð verða trúboðskirkja. Hver meðlimur kirkju frelsarans hefur meðtekið þá helgu ábyrgð að leggja sitt af mörkum við að uppfylla hið guðlega boð sem Drottinn gaf postulum sínum, líkt og skráð er í Nýja testamentinu:
„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,
og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Amen“ (Matt 28:19–20).
Síðari daga heilagir taka þá ábyrgð alvarlega að kenna íbúum allra þjóða um Drottin Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi hans. Vér trúum að sama kirkjan og frelsarinn stofnaði til forna hafi verið endurreist af honum á jörðu, á þessum síðari dögum. Kenning, reglur, prestdæmisvald, helgiathafnir og sáttmálar fagnaðarerindis hans eru í kirkjuhans á okkar tíma.
Þegar við bjóðum ykkur að koma í kirkju eða að læra með trúboðunum, erum við ekki að selja ykkur eitthvað. Við, sem meðlimir kirkjunnar, fáum ekki verðlaun eða kaupauka í himneskri keppni. Við erum ekki bara að reyna að auka meðlimafjölda kirkjunnar. Það sem mikilvægara er, þá erum við ekki að þrýsta á ykkur að trúa því sem við trúum. Við erum einfaldlega að bjóða ykkur að hlýða á hinn endurreista sannleika fagnaðarerindis Jesú Krists, svo þið getið lært, íhugað, beðist fyrir og komist að því sjálf hvort það sem við miðlum ykkur sé sannleikur.
Sum ykkar kunna að svara: „En ég trúi þegar á Jesú og lifi eftir kenningum hans,“ eða „ég er ekki viss um hvort Guð er til.“ Með boði okkar reynum við ekki að gera lítið úr trúarhefð ykkar eða lífsreynslu. Dragið fram allt það sem þið vitið að er satt, gott og lofsvert – og látið reyna á boðskap okkar. Á sama hátt og Jesús sagði „komið og sjáið“ við tvo lærisveina sinna (Jóh 1:39), þá hvetjum við ykkur til að koma og sjá hvort hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists fái ekki auðgað og bætt við það sem þið trúið nú þegar að sé sannleikur.
Vissulega er það okkur helg ábyrgð að færa öllum, þjóðum, kynkvíslum og tungum þennan boðskap. Það er einmitt það sem við gerum í dag með öflugri sveit 88.000 trúboða, sem starfa í yfir 150 fullvalda ríkjum víða um heim. Þessir undursamlegu menn og konur, hjálpa meðlimum kirkjunnar að framfylgja því guðlega boði og þeirri persónulegu ábyrgð okkar allra að boða hið ævarandi fagnaðarerindi Jesú Krists (sjá K&S 68:1).
Meira en andleg skylda
Áhugi okkar á því að færa öðrum þennan boðskap byggist ekki aðeins á andlegri skyldu. Löngun okkar til að miðla ykkur hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists sýnir öllu heldur hve þessi sannleikur er okkur mikilvægur. Ég held að best sé að útskýra hvers vegna okkur er svo umhugað að segja ykkur frá trú okkar með því að segja ykkur frá reynslu sem ég og eiginkona mín áttum fyrir mörgum árum með tveimur sonum okkar.
Kvöld eitt stóðum ég og Susan við glugga á heimili okkar og horfðum á litlu drengina okkar leika sér úti. Meðan á leik þeirra stóð, meiddi sá yngri sig lítilsháttar af slysni. Við sáum fljótt að hann var ekki alvarlega meiddur og ákváðum að hinkra aðeins með aðstoðina. Við vildum fylgjast með því hvort kennsla okkar um bróðurlegan kærleika hefði skilað einhverjum árangri. Það sem gerðist næst var bæði áhugavert og fræðandi.
Eldri bróðirinn huggaði yngri bróður sinn og hjálpaði honum inn í húsið. Ég og Susan höfðum komið okkur fyrir nærri eldhúsinu, svo við gætum fylgst með því sem næst gerðist, og vorum í viðbragðsstöðu, ef einhver önnur meiðsli ættu sér stað eða alvarlegra slys væri fyrirsjáanlegt.
Eldri bróðirinn dró stól að eldhúsvaskinum. Hann klifraði upp á hann, hjálpaði bróður sínum upp á stólinn, skrúfaði frá vatninu og tók að hella miklu magni af þvottalegi á skrámaðan handlegg litla bróður síns. Hann gerði sitt besta við að þvo í burtu óhreinindin. Viðbrögðum yngri drengsins við þessum gjörning verða best lýst með því að vísa í orð í ritningunum: „Og þeim gefast tilefni til að kvarta, gráta, kveina og gnísta tönnum“ (Mósía 16:2). Þessi litli snáði kveinaði svo sannarlega!
Eftir að þvottinum var lokið, var handleggurinn vandlega þerraður með handklæði. Öskrin hættu loks. Eldri bróðirinn klifraði þessu næst upp á eldhúsborðið, opnaði einn skápinn og fann nýja túpu af sárasmyrsli. Þó að skrámur litla bróðurins væru hvorki miklar, né djúpar, bar sá eldri næstum allt innihald túpunnar á særða handlegginn. Öskrin héldu ekki áfram, því hinn yngri kunni mun betur að meta deyfandi áhrif smyrslsins, en hreinsandi áhrif þvottalögsins.
Eldri bróðirinn fór aftur upp í skápinn þar sem hann hafði fundið smyrslið og náði nú í nýjan kassa af sáraumbúðum. Hann opnaði hann og vafði sáraumbúðum vandlega utan um handlegg bróður síns – allt frá úlnlið upp að olnboga. Litlu drengirnir tveir höfðu brugðist við bráðatilvikinu, með sápulöginn, smyrslið og umbúðirnar út um allt eldhúsið, og þeir hoppuðu niður af stólnum brosandi af einskærri gleði.
Það sem er mikilvægast gerðist næst. Sá bróðirinn sem var meiddur tók saman það sem eftir var af sáraumbúðunum, næstum tóma túpuna og fór aftur út með allt saman. Hann leitaði uppi vini sína og tók að maka smyrsli á handleggi þeirra og vefja þá sáraumbúðum. Ég og Susan furðuðum okkur bæði á einlægum áhuga hans og skjótum viðbrögðum.
Hvers vegna gerði litli snáðinn þetta? Gætið að því að hann vildi þegar í stað og án umhugsunar gefa vinum sínum það sem hafði hjálpað honum þegar hann fann til. Það þurfti hvorki að hvetja, né reka hann til þessa verknaðar. Löngun hans til að miðla öðrum var eðlileg afleiðing mjög svo gagnlegrar persónulegrar upplifunar.
Mörg okkar, sem erum fullorðin, gerum einmitt nákvæmlega þetta þegar við uppgötvum meðferðir eða lyflækningar sem draga úr langvarandi sársauka, eða hljótum leiðsögn sem gerir okkur kleift að takast af hugrekki og þolinmæði á við erfiðleika og vandamál. Það er alls ekkert óvenjulegt að miðla öðrum því sem okkur er afar dýrmætt eða hefur verið okkur gagnlegt.
Sú sama breytni er einkar augljós sé um að ræða mikilvæga andlega hluti og afleiðingar þeim tengdum. Frásögn ritningar, sem kunn er sem Mormónsbók, dregur til að mynda fram draum sem forn leiðtogi og spámaður hlaut að nafni Lehí. Miðpunktur draums Lehís er tré lífsins – sem er „elska Guðs,“ sem er „eftirsóknarverðust af öllu“ og „færir sálinni mestu gleði“ (1 Ne 11:22–23; sjá einnig 1 Ne 8:12, 15).
Lehí útskýrði:
„Og svo bar við, að ég sté fram og neytti af ávexti þess. Og ég fann að hann var mjög gómsætur, sætari en allt annað, sem ég hafði nokkru sinni áður bragðað. Já, og ég sá, að ávöxtur þessi var hvítur, hvítari en allt annað, sem ég hafði nokkru sinni áður séð.
„Og þegar ég neytti af ávexti þess, varð sál mín gagntekin ákaflega miklum fögnuði. Ég tók því að þrá, að fjölskylda mín mætti einnig neyta hans“ (1 Ne 8:11–12; skáletrað hér).
Undursamlegasta birtingarform kærleika Guðs til barna hans, er jarðnesk þjónusta, friðþægingarfórn og upprisa Drottins Jesú Krists. Ávöxt trésins má hugsa sér sem táknrænan fyrir blessanir friðþægingar frelsarans.
Um leið og Lehí hafði meðtakið af ávexti trésins og upplifað mikla gleði, þráði hann enn heitar að miðla honum fjölskyldu sinni og þjóna henni. Þegar hann því snéri sér að Kristi, snéri hann sér um leið út á við í kærleika og þjónustulund.
Annað mikilvægt atvik í Mormónsbók lýsir því sem gerðist fyrir mann að nafni Enos, eftir að hann hafði beðið heitt og innilega og verið bænheyrður af Guði.
Hann sagði:
„Sál mína hungraði, og ég kraup niður frammi fyrir skapara mínum og ákallaði hann í máttugri og auðmjúkri bæn fyrir sálu minni, og allan liðlangan daginn ákallaði ég hann. Já, og þegar kvölda tók, hrópaði ég enn hátt, svo að rödd mín næði himnum.
Og rödd kom til mín og sagði: Enos, syndir þínar eru fyrirgefnar, og þú munt blessaður verða.
Ég, Enos, vissi, að Guð gat ekki farið með lygi, og því var sekt minni sópað burtu.
Og ég spurði: Drottinn, hvernig má það vera?
Og hann svaraði mér: Vegna trúar þinnar á Krist, sem þú hefur aldrei fyrr heyrt eða séð. … Far því nú, trú þín hefur gjört þig heilan.
Nú bar svo við, að þegar ég hafði hlýtt á þessi orð, vaknaði hjá mér heit þrá eftir velfarnaði bræðra minna, Nefíta. Því opnaði ég alla sál mína í bæn til Guðs fyrir þeim“ (Enos 1:4–9; skáletrað hér).
Þegar Enos snéri sér að Drottni „af hjartans einlægni“ (2 Ne 31:13), tók umhyggja hans fyrir velferð fjölskyldu hans og vina og vandamanna um leið að aukast.
Sú varanlega lexía sem við fáum lært af þessum tveimur frásögnum, er mikilvægi þess að upplifa sjálf blessanir friðþægingar Jesú Krists, áður en við látum í té hjartnæma og einlæga þjónustu, sem er meira en aðeins „umhugsunarlaus gjörningur.“ Líkt og Lehí, Enos og litli drengurinn minn, sem ég sagði frá, þá höfum við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, upplifað þær kvalir sem fylgja andlegu óöryggi og synd. Við höfum líka upplifað hreinsunina, samviskufriðinn, þá andlegu lækningu, endurnýjun og leiðsögn, sem aðeins er fengin með því að læra og tileinka okkur reglur fagnaðarerindis frelsarans.
Friðþæging Jesú Krists sér okkur fyrir þeim hreinsilegi sem nauðsynlegur er til að hreinsast, því smyrsli sem græðir andleg sár og tekur burtu sektarkennd og þeirri vernd sem gerir okkur kleift að vera trúföst bæði á góðum og slæmum tímum.
Til er algildur sannleikur
Ég hef reynt að útskýra fyrir ykkur, fjölskyldumeðlimir og vinir, sem ekki eruð meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, megin ástæður þess að við erum trúboðar.
Til er algildur sannleikur í heimi sem í síauknum mæli forsmáir og hafnar hinu algilda. Á einhverjum tímapunkti framtíðar mun „hvert kné beygja sig“ og „játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn“ (Fil 2:10–11). Jesús Kristur er vissulega eingetinn sonur Guðs, hins eilífa föður. Við, sem meðlimir kirkju hans, berum vitni um að hann lifir og að kirkja hans hefur verið endurreist í fyllingu sinni á þessum síðari dögum.
Boðið sem færum ykkur um að kynna ykkur og láta reyna á boðskap okkar á rætur að rekja til þeirra jákvæðu áhrifa sem fagnaðarerindi Jesú Krists hefur haft á líf okkar. Stundum getum við verið vandræðaleg, kjánaleg eða jafnvel ýtin í tilraunum okkar til þess. Við þráum samt aðeins að miðla ykkur sannleikanum sem okkur er afar hjartnæmur.
Sem einn af postulum Drottins og af öllum sálarkröftum, þá ber ég vitni um guðleika hans og raunveruleika. Ég býð ykkur: „Komið og sjáið,“ (Jóh 1:39) í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.