Gamla testamentið 2022
14.–20. mars. 1. Mósebók 42–50: „Guð sneri því til góðs“


„14.–20. mars. 1. Mósebók 42–50: ‚Guð sneri því til góðs,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„14.–20. mars. 1. Mósebók 42–50,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022

Jósef frá Egyptalandi

Teikning af Jósef frá Egyptalandi, eftir Robert T. Barrett

14.–20. mars

1. Mósebók 42–50

„Guð sneri því til góðs“

Lestur ritninganna býður andanum heim. Hlýðið á hvatningu hans við lesturinn, jafnvel þótt hún virðist ekki tengjast beint efninu sem þið lesið.

Skráið hughrif ykkar

Liðin voru um 22 ár frá því að bræður Jósefs seldu hann til Egyptalands. Hann leið mikla erfiðleika, meðal annars var hann ranglega ásakaður og fangelsaður. Þegar hann loks sá bræður sína aftur var Jósef landsherra yfir öllu Egyptalandi, aðeins faraó var hærra settur. Hann hefði hæglega geta hefnt sín á þeim og miðað við það sem þeir höfðu gert honum gæti það virst skiljanlegt. Þrátt fyrir það fyrirgaf Jósef bræðrum sínum. Hann lét það ekki nægja, heldur sýndi hann þeim einnig himneskan tilgang þjáningar sinnar. „Guð sneri því til góðs“ (1. Mósebók 50:20), sagði hann við þá, því það kom honum í stöðu til að bjarga „öllum ættmennum föður síns“ (1. Mósebók 47:12) frá hungursneyð.

Líf Jósefs er að mörgu leiti samsvarandi lífi Jesú Krists. Þó að syndir okkar hafi valdið frelsaranum mikilli þjáningu, býður hann okkur fyrirgefningu sem frelsar okkur öll frá enn verri örlögum en hungursneyð. Hvort sem við þurfum að öðlast eða bjóða fram fyrirgefningu, þá þurfum við á einhverjum tímapunkti að gera hvort tveggja. Fordæmi Jósefs leiðir okkur til frelsarans, hinnar sönnu uppsprettu lækningar og sáttar.

táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

1. Mósebók 45:1–8; 50:20

„Guð hefur sent mig hingað á undan ykkur til þess að halda við kyni ykkar.“

Þegar þið lásuð um Jósef, tókuð þið þá eftir samlíkingum í sögu hans og friðþægingarverki Jesú Krists? Þið gætuð hugleitt á hvaða hátt hlutverk Jósefs í fjölskyldu hans er líkt hlutverki frelsarans í fjölskyldu Guðs. Hvaða hliðstæður sjáið þið í raunum Jósefs og þjónustu frelsarans, sem var sendur okkur „til mikils hjálpræðis“? (1. Mósebók 45:7).

1. Mósebók 45; 50:15–21

Fyrirgefning færir lækningu.

Þegar þið lesið um Jósef fyrirgefa bræðrum sínum fyrir þá hræðilegu hluti sem þeir gerðu honum, þá gætuð þið fundið ykkur knúin til að hugsa um einhvern sem þið eigið erfitt með að fyrirgefa. Mögulega eigið þið von á erfiðri prófraun sem þarfnast þess að þið veitið fyrirgefningu. Hvernig sem fer gæti það hjálpað að hugleiða ástæðu þess að Jósef var mögulegt að fyrirgefa. Hvaða vísbendingar um manngerð og viðhorf Jósefs finnið þið í 1. Mósebók 45; 50:15–21? Hvernig gæti lífsreynsla hans hafa hjálpað honum að verða fúsari til fyrirgefningar? Hvað gefur fordæmi Jósefs til kynna um hvernig þið getið orðið fúsari til að fyrirgefa með hjálp frelsarans?

Gætið líka að þeim blessunum sem fjölskylda Jósefs hlaut vegna fyrirgefningar hans. Hvaða blessunum hafið þið tekið eftir vegna fyrirgefningar? Finnið þið hvatningu til að ná til einhvers sem hefur beitt ykkur órétti?

Sjá einnig 1. Mósebók 33:1–4; Kenningu og sáttmála 64:9–11; Larry J. Echo Hawk, „Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra,“ aðalráðstefna, apríl 2018.

1. Mósebók 49

Hver er hin táknræna merking blessana Jakobs?

Blessanir Jakobs til niðja hans hafa að geyma lifandi myndmál, en einhverjir lesenda gætu átt erfitt með að skilja það. Til allrar hamingju, þá sér hið endurreista fagnaðarerindi okkur fyrir frekari skilningi. Þegar þið lesið um blessanirnar sem Jósef hlaut í 1. Mósebók 49:22–26, lesið þá líka eftirfarandi vers og sjáið hvaða innsýn þau veita: 1. Nefí 15:12; 2. Nefí 3:4–5; Jakob 2:25; Kenning og sáttmálar 50:44.

Þegar þið lesið um blessunina sem Júda hlaut í 1. Mósebók 49:8–12, minnist þess þá að bæði Davíð konungur og Jesús Kristur eru afkomendur Júda. Hvaða orð og orðtök í þessum versum minna ykkur á frelsarann? Þegar þið lærið um blessun Júda, gæti líka verið gott að lesa Opinberunarbókina 5:5–6, 9; 1. Nefí 15:14–15; Kenningu og sáttmála 45:59; 133:46–50.

Ef þið viljið læra meira um syni Jakobs og ættkvíslir Ísraels sem frá þeim komu, er útskýring um hverja ættkvísl í Leiðarvísi að ritningunum (ChurchofJesusChrist.org/study/scriptures/gs?lang=isl).

1. Mósebók 50:24–25; Þýðing Josephs Smith, 1. Mósebók 50:24–38.

„Sjáanda mun Drottinn Guð minn upp vekja.“

Fyrir tilverknað drauma Jósefs (sjá 1. Mósebók 37:5–11) og ráðningar hans á draumum annarra (sjá 1. Mósebók 40–41), opinberaði Drottinn hluti sem gerast áttu eftir marga daga eða mörg ár í ókominni framtíð. Drottinn opinberaði líka Jósef hvað gerast myndi mörgum öldum síðar. Hann lærði einkum um spámannleg hlutverk Móse og Josephs Smith. Þegar þið lesið orð Jósefs í 1. Mósebók 50:24–25 og Þýðingu Josephs Smith á 1. Mósebók 50:24–38, spyrjið ykkur þá hvernig sú vitneskja gæti hafa blessað Jósef og Ísraelsmenn. Hvers vegna teljið þið að Drottni hafi verið mikilvægt að koma aftur fram með þennan spádóm fyrir tilstilli Josephs Smith? (sjá einnig 2. Nefí 3).

Hvernig hefur Joseph Smith uppfyllt spádómana í Þýðingu Josephs Smith, 1. Mósebók 50:27–28, 30–33? (sjá Kenningu og sáttmála 1:17–23; 20:7–12; 39:11; 135:3).

Jósef frá Egyptalandi sér sýn af Joseph Smith taka á móti gulltöflunum

Teikning af Jósef frá Egyptalandi, eftir Paul Mann

táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

1. Mósebók 42–46.Fjölskylda ykkar gæti haft gaman af því að leika söguna af því þegar Jósef sameinaðist bræðrum sínum aftur. („Bræður Jósefs í Egyptalandi,“ í Sögur úr Gamla testamentinu gæti komið til hjálpar.) Skemmtið ykkur yfir þessu – notið búninga eða leikmuni ef þið viljið. Hvetjið fjölskyldumeðlimi til að reyna að skilja tilfinningar og sjónarmið sögupersónanna. Þið gætuð lagt sérstaka áherslu á tilfinningar Jósefs gagnvart bræðrum sínum og hvernig þeim gæti hafa liðið þegar hann fyrirgaf þeim. Þetta gæti leitt til umræðu um hvernig fyrirgefning getur blessað fjölskyldu ykkar.

Á hvaða hátt sýndu bræður Jósefs að þeir höfðu breyst þegar Jósef hitti þá aftur eftir fjölmörg ár? Hvað getum við lært um iðrun af upplifun þeirra?

1. Mósebók 45:3–11; 50:19–21.Jósef sá, þrátt fyrir erfiða reynslu sína í Egyptalandi, að „Guð sneri [henni] til góðs“ (1. Mósebók 50:20). Hefur fjölskylda ykkar upplifað erfiðleika sem Drottinn sneri upp í blessanir?

Sálmur um góðvild Guðs á tímum erfiðleika (eins og „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál,“ [Sálmar, nr. 21]) gæti aukið gildi umræðunnar. Hvað hliðstæður eru í upplifunum Jósefs og því sem sálmurinn kennir?

1. Mósebók 49:9–11, 24–25.Hvaða lærdóm má draga af þessum versum um hlutverk og þjónustu Jesú Krists? (Sjáið efnið um 1. Mósebók 49 í „Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi,“ til að skilja betur orðtökin í þessum versum.)

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál,“ Sálmar, nr. 21.

Bæta kennslu okkar

Notið tónlist. Hjálpið fjölskyldumeðlimum að uppgötva sannleika fagnaðarerindisins í texta sálmanna og barnasöngvanna. Leitið leiða til að helg tónlist sé reglubundinn þáttur í ritningarnámi ykkar.

Jakob blessar syni sína

Jakob blessar syni sína, eftir Harry Anderson