„21.–27. mars. 2. Mósebók 1–6: ‚Ég … minntist sáttmála míns,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„21.–27. mars. 2. Mósebók 1–6,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
21.–27. mars
2. Mósebók 1–6
„Ég … minntist sáttmála míns“
Hefjið nám á 2. Mósebók 1–6 með bæn og biðjið þess að finna boðskap sem tengist lífi ykkar og þjónustu í ríki Guðs.
Skráið hughrif ykkar
Boðið um að búa í Egyptalandi bjargaði fjölskyldu Jakobs bókstaflega. Eftir hundruðir ára voru afkomendur þeirra þó þrælkaðir og hrelldir af nýjum faraó „sem ekki hafði þekkt Jósef“ (2. Mósebók 1:8). Það hefði verið eðlilegt af Ísraelsmönnum að spyrja sig hvers vegna Guð hafi leyft þessu að gerast fyrir sáttmálsþjóð sína. Mundi hann eftir sáttmálanum sem hann gerði við hana? Var hún enn þjóð hans? Gat hann séð hve mikið fólkið þjáðist?
Stundum koma tímar þar sem þið gætuð hafa viljað spurt svipaðra spurninga. Þið gætuð velt fyrir ykkur hvort Guð viti hvað þið gangið í gegnum. Heyrir hann bænir okkar um hjálp? Frásögnin af frelsun Ísraels frá Egyptalandi í 2. Mósebók svara slíkum spurningum bersýnilega: Guð gleymir ekki þjóð sinni. Hann minnist sáttmálanna við okkur og mun uppfylla þá á sínum tíma og á sinn hátt (sjá Kenningu og sáttmála 88:68). „Ég ætla að frelsa ykkur með útréttum armi,“ kunngjörir hann okkur. „Ég er Drottinn, Guð ykkar, sem leiðir ykkur úr ánauð“ (2. Mósebók 6:6–7).
Til að fá yfirlit yfir 2. Mósebók, sjá þá „Exodus (Önnur Mósebók)“ í leiðarvísi að ritningunum.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Jesús Kristur er bjargvættur minn.
Eitt meginefna 2. Mósebókar er að Guð hefur vald til að frelsa þjóð sína úr ánauð. Þrælkun Ísraelsmanna, eins og henni er lýst í 2. Mósebók 1, gæti verið táknræn um þá ánauð sem snertir okkur öll vegna syndarinnar og dauðans (sjá 2. Nefí 2:26–27; 9:10; Alma 36:28). Móse, bjargvætt Ísraelsmanna, mætti sjá sem erindreka eða fulltrúa Jesú Krists (sjá 5. Mósebók 18:18–19; 1. Nefí 22:20–21). Lesið 2. Mósebók 1–2 með þessar samlíkingar í huga. Þið gætuð til dæmis tekið eftir því að bæði Móse og Jesú var bjargað frá dauða sem ungbörnum (sjá 2. Mósebók 1:22–2:10; Matteus 2:13–16) og þeir vörðu báðir tíma í óbyggðunum áður en þjónusta þeirra hófst (sjá 2. Mósebók 2:15–22; Matteus 4:1–2). Hvaða annan skilning öðlist þið um andlega ánauð í 2. Mósebók? En um björgun frelsarans?
Sjá einnig D. Todd Christofferson, „Endurlausn,“ aðalráðstefna, apríl 2013.
Guð veitir þeim vald sem hann kallar til verks síns.
Nú til dags þekkjum við Móse sem mikinn spámann og leiðtoga. Móse leit þó ekki á sjálfan sig sem slíkan þegar Drottinn kallaði hann fyrst. „Hver er ég,“ velti Móse fyrir sér, „að ég fari til faraós?“ (2. Mósebók 3:11). Drottinn vissi samt sem áður hver Móse var í raun – og hver hann gæti orðið. Takið eftir því þegar þið lesið 2. Mósebók 3–4 hvernig Drottinn fullvissaði Móse og brást við áhyggjum hans. Hvað finnið þið í þessum kapítulum sem getur uppörvað ykkur þegar ykkur finnst þið vanmáttug? Hvernig blessar Drottinn þjóna sína með auknum krafti til að framkvæma vilja hans? (sjá HDP Móse 1:1–10, 24–39; 6:31–39, 47). Hvenær hafið þið séð Guð vinna verk sitt fyrir ykkar tilstilli eða annarra?
Til að læra meira um líf og þjónustu Móse, sjá þá „Móse“ í Bible Dictionary [Uppsláttarrit Biblíunnar] eða Leiðarvísi að ritningunum.
Tilgangur Drottins verður uppfylltur á hans eigin tíma.
Þrátt fyrir að Móse hafi farið fram fyrir faraó af hugrekki, eins og Guð hafði boðið honum, og sagt honum að sleppa Ísraelsmönnum, þá neitaði faraó. Hann gerði raunar líf Ísraelsmanna erfiðara. Móse og Ísraelsmenn gætu hafa velt vöngum yfir því hvers vegna hlutirnir gengu ekki upp, jafnvel eftir að Móse hafði framkvæmt hlutina sem Guð bauð honum að gera (sjá 2. Mósebók 5:22–23).
Hefur ykkur fundist þið vera að framkvæma vilja Guðs en sjáið ekki árangurinn sem þið áttuð von á? Rifjið upp 2. Mósebók 6:1–8 og leitið eftir því sem Drottinn sagði til að hjálpa Móse við að gefast ekki upp. Hvernig hefur Drottinn hjálpað ykkur að gefast ekki upp við að framkvæma vilja hans?
Hver er Jehóva?
Jehóva er eitt nafna Jesú Krists og vísar til frelsarans í fortilverunni. Þýðing Josephs Smith útskýrir að spámennirnir Abraham, Ísak og Jakob þekktu Drottin með þessu nafni (sjá Genesis 6:3, neðanmálstilvísun c). Oftast þegar orðið „Drottinn“ kemur fyrir í Gamla testamentinu er átt við Jehóva. Titillinn „ÉG ER,“ í 2. Mósebók 3:13–15, vísar líka til Jehóva (sjá einnig Kenningu og sáttmála 38:1; 39:1).
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
2. Mósebók 1–2.Nokkrar konur gegndu afar mikilvægu hlutverki í áætlun Guðs með því að ala upp bjargvætt Ísraelsmanna. Fjölskyldan gæti lesið saman um ljósmæðurnar Sifru og Púu (2. Mósebók 1:15–20); móður Móse, Jókebed og systur hans, Mirjam (2. Mósebók 2:2–9; 4. Mósebók 26:59); dóttur faraós (2. Mósebók 2:5–6, 10); og eiginkonu Móse, Sippóru (2. Mósebók 2:16–21). Hvernig efldu þessar konur áætlun Guðs? Á hvaða hátt minnir upplifun þeirra ykkur á þjónustu Jesú Krists? Þið gætuð líka safnað saman myndum af kvenkyns ættingjum og áum og deilt sögum af þeim. Hvernig hafið þið verið blessuð af réttlátum konum? Boðskapur Russells M. Nelson forseta, „Tilmæli til systra minna“ (aðalráðstefna, október 2015), gæti auðgað umræðurnar.
-
2. Mósebók 3:1–6.Drottinn bauð Móse að fjarlægja skó sína til merkis um lotningu, þegar hann nálgaðist runnann logandi. Hvernig getum við sýnt helgum stöðum lotningu? Hvað getum við til dæmis gert til að gera heimili okkar að helgum stöðum þar sem andi Drottins fær dvalið? Hvernig getum við sýnt meiri lotningu á öðrum helgum stöðum?
-
2. Mósebók 4:1–9.Drottinn gaf Móse vald til að framkvæma þrjú kraftaverk, sem tákn fyrir Ísraelsmenn um að hann hafði sent Móse. Hvað kenna þessi tákn ykkur um Jesú Krist?
-
2. Mósebók 5:2.Hvaða þýðingu hefði það fyrir okkur að „þekkja“ Drottin? Hvernig getum við kynnst honum? (sjá t.d. Alma 22:15–18). Hvernig hefur samband okkar við hann áhrif á ósk okkar um að hlýða honum? (sjá einnig Jóhannes 17:3; Mósía 5:13).
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Lotning er kærleikur,“ Barnasöngbókin, 12.