„28. febrúar–6. mars. 1. Mósebók 28–33: ‚Sannarlega er Drottinn á þessum stað,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„28. febrúar–6. mars. 1. Mósebók 28–33,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
28. febrúar–6. mars
1. Mósebók 28–33
„Sannarlega er Drottinn á þessum stað“
Ígrundið hvað þið lærið af fordæmi Jakobs og fjölskyldu hans þegar þið lesið 1. Mósebók 28–33. Skrifið niður þau hughrif sem ykkur berast.
Skráið hughrif ykkar
Í kapítulum 28 og 32 í 1. Mósebók segir frá tveimur andlegum upplifunum spámannsins Jakobs. Hvor um sig átti sér stað í óbyggðunum, en þó við afar mismunandi aðstæður. Í fyrri upplifun Jakobs ferðaðist hann til ættjarðar móður sinnar til að leita sér eiginkonu. Á leiðinni þangað varði hann nóttinni á kodda úr steinum. Hann hafði ef til vill ekki búist við því að finna Drottin í slíkri auðn, en Drottinn opinberaði sig Jakob í draumi sem breytti lífi hans og Jakob mælti: „Sannarlega er Drottinn á þessum stað og ég vissi það ekki“ (1. Mósebók 28:16). Mörgum árum síðar var Jakob aftur í óbyggðunum. Í þetta skipti var hann á heimleið til Kanaanslands, þar sem hans beið hugsanlega lífshættulegur endurfundur við sinn reiða bróður, Esaú. Jakob vissi þó að ef hann þarfnaðist blessunar gæti hann leitað til Drottins, jafnvel í óbyggðunum (sjá 1. Mósebók 32).
Þið gætuð ef til vill sjálf lent í eigin óbyggðum, leitandi að blessun Guðs. Kannski eru óbyggðir ykkar erfið fjölskyldusamskipti, eins og hjá Jakob. Kannski finnst ykkur þið fjarlæg Guði eða að þið þarfnist blessunar. Stundum kemur blessunin óvænt, á öðrum tímum kemur hún eftir að hafa glímt við eitthvað. Hver sem þörf ykkar er, þá getið þið uppgötvað að jafnvel í óbyggðunum „er Drottinn á þessum stað.“
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Í musterinu er mér lofað blessunum Abrahams.
Á leið sinni til Harran, þar sem Jakob leitaði sér að eiginkonu, dreymdi hann stiga sem náði frá jörðu til himins og Guðs stóð þar fyrir ofan. Í draumnum endurnýjaði Guð sömu sáttmála við Jakob og hann hafði gert við Abraham og Ísak (sjá 1. Mósebók 28:10–17; sjá einnig 1. Mósebók 12:2–3; 26:1–4). Marion G. Romney forseti miðlaði hugsunum sínum um hvað stiginn gæti táknað: „Jakob gerði sér ljóst að sáttmálarnir sem hann gerði við Drottin voru tröppur stigans sem hann þurfti að klífa, svo hann gæti öðlast blessanirnar sem honum voru heitnar – blessanir sem veittu honum tilkall til þess að ganga inn í himnaríki og vera í sambandi við Drottin. … Musterin eru okkur það sem Betel var Jakob“ („Temples–The Gates to Heaven [Musterin – hlið himins],“ Ensign, mars 1971, 16).
Hvaða orð og orðtök í 1. Mósebók 28:10–22 gefa í skyn tengingu á milli upplifunar Jakobs og musterisblessana? Þegar þið lesið þessi vers, hugsið þá um sáttmálana sem þið hafið gert; hvaða hughrif berast ykkur?
Þegar þið lesið 1. Mósebók 29:1–18, íhugið þá á hvaða hátt hjónaband Jakobs og Rakelar var mikilvægt sáttmálanum sem Guð endurnýjaði Jakob í Betel („Guðs hús“; sjá 1. Mósebók 28:10–19). Hafið þetta hugfast við áframhaldandi lestur um líf Jakobs í 1. Mósebók 29–33. Hvernig hefur hús Drottins fært ykkur nær Guði?
Sjá einnig Yoon Hwan Choi, „Lítið ekki umhverfis, lítið upp!“ aðalráðstefna, apríl 2017.
Drottinn minnist mín í raunum mínum.
Þótt Rakel og Lea hafi verið uppi á öðrum tíma en við og menning þeirra hafi verið ólík okkar, þá getum við öll skilið einhverjar þær tilfinningar sem þær upplifðu. Þegar þið lesið 1. Mósebók 29:31–35 og 30:1–24, gætið þá að orðum og orðtökum sem lýsa miskunn Guðs fyrir Rakel og Leu. Íhugið á hvaða hátt Guð hefur „séð neyð [ykkar]“ og „[minnst]“ ykkar (1. Mósebók 29:32; 30:22).
Það er líka mikilvægt að muna að þótt Guð hlusti á okkur, þá gefur hann okkur ekki alltaf nákvæmlega það sem við biðjum um, sökum visku sinnar. Íhugið að læra boðskap öldungs Brook P. Hales, „Svör við bænum“ (aðalráðstefna, apríl 2019), um mismunandi leiðir himnesks föður til að svara okkur.
Frekari upplýsingar um menningarlegan bakgrunn frásagnarinnar má finna í Old Testament Student Manual: Genesis–2 Samuel [Gamla testamentið, nemendabók: 1. Mósebók – 2. Samúelsbók] (2003), 86–88.
Frelsarinn getur hjálpað okkur að sigrast á ágreiningi innan fjölskyldu okkar.
Þegar Jakob sneri aftur til Kanaanslands var hann „óttasleginn og fullur kvíða“ yfir því hvernig Esaú myndi taka á móti honum (1. Mósebók 32:7). Þegar þið lesið um endurfundi Jakobs og Esaú og tilfinningarnar í aðdraganda hans í 1. Mósebók 32–33, gætuð þið ef til vill íhugað eigin fjölskyldusambönd – ef til vill er þar sár sem græða mætti. Þessi frásögn gæti ef til vill hvatt ykkur til að liðsinna einhverjum. Þið gætuð haft þessar spurningar í huga við lesturinn:
-
Hvernig bjó Jakob sig undir að hitta Esaú?
-
Hvað vekur sérstakan áhuga ykkar við bæn Jakobs í 1. Mósebók 32:9–12?
-
Hvað lærið þið um fyrirgefningu af fordæmi Esaú?
-
Á hvaða hátt getur frelsarinn hjálpað okkur að græða fjölskyldusambönd?
Sjá einnig Lúkas 15:11–32; Jeffrey R. Holland, „Þjónusta sáttargjörðar,“ aðalráðstefna, október 2018.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
1. Mósebók 28–33.Notið „Jakob og fjölskylda hans“ (í Sögur úr Gamla testamentinu) til hjálpar börnum við að skilja atburðina í þessum kapítula. Fjölskyldumeðlimir geta staldrað við hverja mynd og tilgreint hvað sé verið að kenna, eins og mikilvægi hjónabands, sáttmála, iðjusemi og fyrirgefningar.
-
1. Mósebók 28:10–22.Þið gætuð notað stiga (eða mynd af stiga) til að ræða hvernig sáttmálar okkar séu eins og stigi. Hvaða sáttmála höfum við gert og hvernig færa þeir okkur nær Guði? Fjölskyldumeðlimir gætu haft gaman af því að teikna draum Jakobs, sem lýst er í 1. Mósebók 28:10–22.
Sálmurinn „Hærra, minn Guð til þín“ (Sálmar, nr. 32) sótti innblástur í draum Jakobs. Fjölskylda ykkar gæti sungið sálminn og rætt boðskap hvers vers.
-
1. Mósebók 32:24–32.Í fjölskyldu ykkar gæti einhver haft gaman af glímu. Hvers vegna er „glíma“ góð leið til að lýsa því hvernig sækjast skal eftir blessunum frá Guði? Hver er merking þess að „glíma … frammi fyrir Guði“ sögð geta verið, í Enos 1:1–5; Alma 8:9–10?
-
1. Mósebók 33:1–12.Eftir margra ára erfiðar tilfinningar náðu Jakob og Esaú saman aftur. Hvað myndu Jakob og Esaú segja, ef þeir gætu talað til okkar nú, okkur til hjálpar þegar upp kæmi ágreiningur í fjölskyldu okkar?
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Börnin góðu, Guð er nærri,“ nótnasett á lausum blöðum.