Kom, fylg mér 2024
19.–25. febrúar: „Ó, hversu mikilfengleg er áætlun Guðs vors!“ 2. Nefí 6–10


„19.–25. febrúar: ‚Ó, hversu mikilfengleg er áætlun Guðs vors!‘ 2. Nefí 6–10,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„19.–25. febrúar. 2. Nefí 6–10,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ljósmynd
Jesús biðst fyrir í Getsemane

Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt, eftir Harry Anderson

19.–25. febrúar: „Ó, hversu mikilfengleg er áætlun Guðs vors!“

2. Nefí 6–10

Hið minnsta 40 ár höfðu liðið frá því að fjölskylda Lehís hafði yfirgefið Jerúsalem. Þau voru í ókunnu, nýju landi, óravegu frá Jerúsalem. Lehí hafði dáið og afkomendur hans höfðu þegar hafið það sem átti eftir að vera aldarlangar erjur á milli Nefítanna – „sem trúðu á viðvaranir og opinberanir Guðs“ – og Lamanítanna, sem ekki trúðu (2. Nefí 5:6). Jakob, sem var yngri bróðir Nefís og nú vígður sem prestur fyrir Nefítana, vildi að sáttmálslýðurinn vissi að Guð myndi aldrei gleyma þeim og því mætti fólkið aldrei gleyma honum. Þetta er boðskapur sem við vissulega þurfum á okkar tíma (sjá Kenning og sáttmálar 1:15–16). „Þá skulum vér minnast hans, … því að oss er ekki vísað frá. … Mikil eru fyrirheit Drottins,“ sagði Jakob (2. Nefí 10:20–21). Af þessum fyrirheitum, þá er ekkert dásamlegra en fyrirheitið um „algera [friðþægingu]“ til að sigrast á dauða og víti (2. Nefí 9:7). „Sjá,“ lauk Jakob máli sínu, „látið hjörtu yðar fagna“! (2. Nefí 10:23).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

2. Nefí 6–8

Drottinn er miskunnsamur fólki sínu og mun uppfylla sáttmála sína.

Jakob hjálpaði fólki sínu að skilja að það væri hluti af húsi Ísraels og gæti treyst Guði og loforðum hans með því að vitna í spádóma Jesaja, sem skráðir eru í 2. Nefí 6–8. Þessi boðskapur er líka ætlaður ykkur, því Síðari daga heilagir eru líka hluti af sáttmálslýð Guðs. Þegar þið lesið þessa kapítula, íhugið þá spurningar eins og þessar:

  • Hvað læri ég um endurleysandi elsku frelsarans til mín? Hvaða orð og orðtök tjá elsku hans einkar vel?

  • Hvað býður frelsarinn þeim sem leita hans?

  • Hvernig get ég „beðið“ frelsarans og hans fyrirheitnu blessana af enn meiri trúfesti?

2. Nefí 9:1–26

Ljósmynd
trúarskólatákn
Jesús Kristur frelsar mig frá synd og dauða

Ein leið til að dýpka þakklæti ykkar fyrir Jesú Krist er að hugsa um örlög okkar án friðþægingarinnar. Þegar þið lesið 2. Nefí 9:1–26, íhugið þá að skrá í dálk eða merkja við í sama lit það sem um okkur yrði án friðþægingar Jesú Krists. Notið síðan annan dálk eða lit til að merkja við það sem okkur getur hlotnast fyrir friðþægingu frelsarans. Hvernig mynduð þið útskýra af hverju við þörfnumst friðþægingar Jesú Krists, byggt á því sem þið lásuð? Hvaða sannleika finnið þið sem innblæs ykkur til að dásama „[visku] Guðs, miskunn hans og náð“? (2. Nefí 9:8).

Auk þess að kenna um það sem Jesús Kristur frelsaði okkur frá, veitti Jakob líka skilning á því hvernig hann gerði það. Íhugið að skrá það sem þið finnið í 2. Nefí 9:11–15, 20–24.

Jakob var svo uppnuminn af endurlausnaráætlun Guðs, að hann hrópaði: „Ó, hversu mikilfengleg er áætlun Guðs vors!“ Gætið að upphrópunum hans í 2. Nefí 9 (flestar þeirra eru í versum 8–20). Hvað lærið þið af þessum versum um áætlun Guðs? Hvaða upplifanir hafa hjálpað ykkur að skynja eitthvað af því sem Jakob skynjaði? Sem hluta af tilbeiðslu og námi ykkar, gætuð þið íhugað að finna sálm sem tjáir hvað ykkur finnst um hann, svo sem „Þú mikill ert“ (Sálmar, nr. 22).

Sjá einnig „Where Justice, Love, and Mercy Meet,“ „Jacob Teaches of the Resurrection“ (myndbönd), Gospel Library; Leiðarvísir að ritningunum, „Friðþæging Jesú Krists,“ Gospel Library.

2. Nefí 9:7

Friðþæging frelsarans er óendanleg.

Hvað gætuð þið gert til að skilja betur hina „algjöru friðþægingu“ Jesú Krists? (2. Nefí 9:7). Þið gætuð ef til vill virt fyrir ykkur eða hugsað um það sem virðist vera óendanlegt að fjölda – grasstrá á akri, sandkorn á ströndu eða stjörnur á himni. Hvernig er friðþæging frelsarans altæk? Hvernig er hún líka persónuleg? Hvaða orðtök í 2. Nefí 9 auka þakklæti ykkar fyrir það sem frelsarinn gerði fyrir ykkur?

2. Nefí 9:27–54

Ég get komið til Krists og fylgt áætlun Guðs.

Í 2. Nefí 9 notaði Jakob tvö áhrifamikil og andstæð orðtök: „[Hin miskunnsama] áætlun skaparans mikla“ og „hin slægvitra áætlun hins illa“ (2. Nefí 9:6, 28). Þið gætuð ef til vill teiknað veg og merkt hann Áætlun himnesks föður. Kannið síðan 2. Nefí 9:27–52. Gætið að aðvörunum og boðum sem Jakob gaf til að hjálpa okkur að fylgja þessari áætlun. Skráið það sem þið finnið við hlið vegarins. Hvernig reynir Satan að leiða okkur frá áætlun Guðs? Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera til að bregðast við þessum viðvörunum og boðum Jakobs?

2. Nefí 10:20, 23–25

Friðþæging Jesú Krists getur fært mér gleði.

Boðskapur Jakobs var gleðiboðskapur. „Ég mæli þessi orð til yðar,“ sagði hann, „til að þér megið fagna og bera höfuðið hátt að eilífu“ (2. Nefí 9:3). Hvað finnið þið sem vekur ykkur gleði við lestur 2. Nefís 10:20, 23–25? Hvað munið þið gera til að muna eftir þessu þegar þið eruð raunamædd?

Sjá einnig Jóhannes 16:33; D. Todd Christofferson, „Gleði heilagra,“ aðalráðstefna, október 2019; „Jacob Encourages the Nephites to Be Reconciled with God“ (myndband), Gospel Library.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

2. Nefí 9:6–10, 19–24

Jesús Kristur er frelsari minn.

  • Hvernig munið þið hjálpa börnum ykkar að skilja og skynja að þau þarfnast frelsarans Jesú Krists? Verkefnasíða þessarar viku gæti hjálpað við það. Á henni er einföld samlíking gryfju og stiga. Íhugið að nota 2. Nefí 9:21–22 til að ræða við börn ykkar um ástæður þess að þið eruð þakklát fyrir Jesú Krist.

  • Ein leið til að hjálpa börnum ykkar að skilja af hverju við þörfnumst frelsara, er að kenna þeim um fallið. Þið gætuð sýnt mynd af Adam og Evu, svo sem Edensgarðurinn yfirgefinn (Gospel Library) og mynd af Jesú Kristi á krossinum. Íhugið að biðja þau um að lýsa því sem er að gerast á hvorri myndinni. Hvernig erum við eins og Adam og Eva? Ef til vill getur 2. Nefí 9:6–10 hjálpað þeim að skilja hvað Jesús Kristur gerir fyrir okkur. Íhugið að bjóða börnunum að miðla tilfinningum sínum um Jesú Krist. Söngur eins og „Í faðmi frelsarans“ (Barnasöngbókin, 42) gæti hjálpað.

Kennið sannleika með sögum og dæmum. Gætið þess að sögurnar og dæmin sem þið notið kenni sannleika. Dæmi: Þegar þið notið verkefnasíðu þessarar viku, kennið þá að Jesús Kristur fór í „gryfjuna“ til að hjálpa hverju okkar skref fyrir skref er við klifrum upp úr henni.

2. Nefí 9:20, 28–29, 42–43, 49

„Hjarta mitt finnur unað í réttlæti.“

  • Til að hverja börn ykkar til að „finna unað í réttlæti,“ eða hlýða Drottni af gleði (2. Nefí 9:49), gætuð þið ef til vill miðlað dæmum þar sem barn tekur góðar eða slæmar ákvarðanir. Bjóðið börnunum að standa upp þegar valið færir hamingju og setjast niður þegar valið færir óhamingju. Hvenær höfum við verið hamingjusöm þegar við höfum valið að fylgja Jesú Kristi?

  • Líklegt er að börn ykkar muni eiga samskipti við fólk (ef þau hafa ekki þegar gert það) sem finnst boðorð Drottins vera heimskuleg eða úreld. Þið og börn ykkar gætuð ef til vill rætt hvernig útskýra mætti ástæðu þess að við finnum unað í því að halda boðorðin. Af hverju er mikilvægt að reiða sig á leiðsögn Guðs, jafnvel þótt við skiljum hana ekki til fulls? Þið gætuð hvatt þau til að kanna 2. Nefí 9:20, 28–29, 42–43 til hjálpar við að íhuga og ræða þessar spurningar.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Jesús læknar fólk

Hann læknaði marga af alls kyns sjúkdómum, eftir J. Kirk Richards

Prenta