„26. febrúar–3. mars: ‚Hann mun kallaður … friðarhöfðingi.‘ 2. Nefí 11–19,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)
„26. febrúar–3. mars. 2. Nefí 11–19,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)
26. febrúar–3. mars: „Hann mun kallaður … friðarhöfðingi“
2. Nefí 11–19
Það er ekki auðvelt að grafa á málmtöflur og rýmið á litlu töflum Nefís var takmarkað. Af hverju lagði Nefí þá á sig að afrita svo stóran hluta af ritverki Jesaja í heimild sína? Hann gerði það því hann vildi að við tryðum á Jesú Krist. Hann sagði: „Sál mín hefur unun af að sanna þjóð minni sannleikann um komu Krists“ (2. Nefí 11:4). Nefí hafði séð hvað myndi gerast fyrir fólk hans meðal kynslóða framtíðar. Hann sá að þrátt fyrir hinar miklu blessanir, yrði það drambsamt, þrætugjarnt og veraldlegt (sjá 1. Nefí 12; 15:4–6). Hann sá líka fyrir álíka vandamál á okkar tíma (sjá 1. Nefí 14). Ritverk Jesaja varaði við slíku ranglæti. Hann veitti Nefí þó líka von um dýrðlega framtíð – endalok ranglætis, samansöfnun hinna trúföstu og „mikið ljós“ fyrir þá sem höfðu „í myrkri [gengið]“ (2. Nefí 19:2). Allt myndi þetta gerast af því að „barn [fæddist],“ sem myndi enda öll átök – og vera „friðarhöfðingi“ (2. Nefí 19:6).
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Hvernig get ég skilið betur kenningar Jesaja?
Nefí var ljóst að „[orð Jesaja liggi] ekki ljós fyrir“ (2. Nefí 25:4). Hann miðlaði líka hugmyndum til að auðvelda okkur að finna merkingu í ritverki Jesaja:
-
„[Látið] orð hans skírskota til“ ykkar sjálfra (2. Nefí 11:2). Margar kenninga Jesaja hafa margþættar mögulegar merkingar og notagildi. Dæmi: Þegar þið lesið um bólin í 2. Nefí 14:5–6, íhugið þá hvernig þessi vers eiga við heimili ykkar. Spyrjið ykkur sjálf: „Hvað vill himneskur faðir að ég læri?“
-
Gætið að því sem er táknrænt um Jesú Krist (sjá 2. Nefí 11:4). Margt í kennslu Jesaja um frelsarann er sett fram með myndlíkingum. Dæmi: Hvernig er frelsarinn táknaður í 2. Nefí 19:2? Hvað kenna þessi tákn um hann?
-
Leitist við að „[fyllast] anda spádóms“ (2. Nefí 25:4). Biðjið um andlega leiðsögn er þið lærið. Þið skiljið kannski ekki allt í einu vettvangi, en andinn getur hjálpað ykkur að læra það sem þið þurfið að vita.
Ykkur gæti líka fundist gagnlegt að nota námshjálp ritninganna, svo sem neðanmálstilvísanir, kapítulafyrirsagnir og Leiðarvísi að ritningunum. Í kennslubókum trúarskólans fyrir Mormónsbók og Gamla testamentið eru frekari upplýsingar sem geta hjálpað ykkur að læra um sögulegt samhengi kenninga Jesaja.
Jesaja bar vitni um Jesú Krist.
Vegna þess að Jesaja notaði táknrænt mál, getur verið auðvelt að horfa fram hjá hinum máttuga vitnisburði hans um Jesú Krist. Gætið að frelsaranum í 2. Nefí 13:13; 14:4–6; 15:1–7; 16:1–7; 17:14; 18:14–15; 22:2. Hvað kenna þessi vers ykkur um hann?
Spádómurinn í 2. Nefí 19:6 tilgreinir nokkra titla Jesú Krists. Hvernig hefur hann uppfyllt þessi hlutverk í lífi ykkar?
Sjá einnig Ulisses Soares, „Jesús Kristur: Sálnahirðir okkar,“ aðalráðstefna, apríl 2021.
Hinir dramblátu og veraldlegu verða auðmýktir.
Nefí sá fyrir að drambsemi yrði fall fólks hans (sjá 1. Nefí 12:19). Það er því ekki að undra að Nefí segði fólki sínu frá stöðugum aðvörunum Jesaja við drambsemi. Leitið orða í kapítulum 12 og 13, sem Jesaja notar til að lýsa drambsemi, svo sem háleitur og hroki. Gætið að táknrænu máli í 2. Nefí 15:1–24, sem lýsir afleiðingum drambs. Þið gætuð síðan reynt að gera samantekt á því sem þið lásuð með eigin orðum. Íhugið hvernig þið ákveðið að vera auðmjúk.
Sjá einnig „kafla 18: Beware of Pride“ Teachings of Presidents of the Church: Ezra Taft Benson (2014), 229–40.
Musterið er hús Drottins.
Jesaja segir musterið vera „fjall það, er hús Drottins stendur á“ (2. Nefí 12:2). Af hverju er fjall gott tákn fyrir musterið?
Hvernig mynduð þið útskýra fyrir einhverjum ástæðu þess að við þurfum musteri? Þið gætuð mögulega fundið svör í 2. Nefí 12:2–3 og í boðskap Russells M. Nelson forseta, „Musterið og ykkar andlega undirstaða“ (aðalráðstefna, október 2021). Hvað vill Drottinn að þið lærið og iðkið í hans heilaga húsi, byggt á því sem þið lesið? Hvað hafið þið upplifað þar?
Þið getið fundið spurningarnar fyrir musterismeðmæli á síðum 36–37 í Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum. Íhugið að lesa hverja þeirra og spyrja ykkur sjálf: Hvað kennir þessi spurning mér um hætti Drottins? Hvernig getur hún hjálpað mér að „ganga á hans stigum“?
Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Musteri“; „Á háum fjallsins hnjúk,“ Sálmar, nr 4.
Jesús Kristur mun endurleysa fólk sitt.
Jesaja sá ástæðu til framtíðarvonar, þrátt fyrir ranglætið sem hann sá. Íhugið að læra hvern eftirtalinna ritningarhluta. Skráið einn eða fleiri sannleika sem kennir um okkar tíma: 2. Nefí 12:1–5; 14:2–6; 15:20–26; 19:2–8. Af hverju haldið þið að mikilvægt sé fyrir okkur að skilja þessa ritningarhluta?
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Musterið er hús Drottins.
-
Jesaja segir musterið vera „fjall það, er hús Drottins stendur á.“ Börn ykkar gætu haft gaman af því að látast klífa upp fjall er þið lesið 2. Nefí 12:2–3. Hjálpið þeim að finna orðtök í þessum versum sem greina frá ástæðu þess að við höfum musteri.
-
Til að útskýra orðtakið „ganga á hans stigum“ í 2. Nefí 12:3, gætuð þið búið til stíg á gólfinu sem liggur að mynd af musterinu. Þegar börn ykkar ganga á stígnum, gætu þau nefnt eitthvað sem þau geta gert til að ganga á stigum Drottins.
-
Börn ykkar gætu ef til vill teiknað mynd af sjálfum sér á leið í musterið. Þau gætu líka sungið eða hlustað á söng um musterið, svo sem „Musterið“ (Barnasöngbókin, 99). Hjálpið þeim að finna orðtök í söngnum sem kenna hvað musterið er og hvað við gerum þar.
Jesús Kristur er frelsari minn.
-
Það eru nokkur nöfn Jesú Krists í 2. Nefí 11:4–7; 17:14; 19:6. Hjálpið börnum ykkar að finna þau og ræða merkingu þeirra. Dæmi: „Kristur“ merkir „hinn smurði“ og „Emmanúel“ merkir „Guð meðal vor.“ Hvað kenna þessi nöfn okkur um Jesú?
-
Sýnið hluta af myndbandinu „Kristsbarnið“ (Gospel Library), sem sýnir hina ýmsu einstaklinga sjá Jesús í fyrsta sinn. Gerið hlé á myndbandinu eftir þessa hluta og spyrjið börn ykkar að því hvernig þessu fólki gæti hafa liðið. Hvernig myndi okkur líða ef við værum þar? Hvernig mun okkur líða þegar við sjáum hann aftur?
Satan reynir að villa um fyrir mér varðandi gott og illt.
-
Sýnið börnum ykkar eitthvað beiskt eða súrt, svo sem sítrónusneið í sælgætisumbúðum. Lesið saman 2. Nefí 15:20. Hvernig reynir Satan að láta það virðast gott sem er illt? Þið gætuð líka sýnt fyrstu 90 sekúndur myndbandsins „You Will Be Freed“ (Gospel Library). Hvernig dulbýr veiðimaðurinn öngulinn sinn. Hvernig dulbýr Satan syndina? Hvernig hjálpar Jesús Kristur okkur að forðast blekkingar Satans?