Jesús Kristur: Sálnahirðir okkar
Er við iðrumst synda okkar einlæglega, leyfum við að friðþægingarfórn Krists verði fyllilega virk í lífi okkar.
Kæru bræður mínir og systur, á þessum ljómandi páskadagsmorgni fagnar hjarta mitt yfir því að minnast þess undraverðasta, stórkostlegasta, takmarkalausasta atburðar sem hefur gerst í allri mannkynssögunni – friðþægingarfórnar Drottins vors, Jesú Krists. Hin rómuðu orð spámannsins Jesaja magna upp mikilleika og ósérhlífni lítillætis og fórnar frelsarans fyrir hönd allra barna Guðs:
„En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan.
Hann var særður vegna vorra brota og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar erum vér heilbrigðir.“1
Með því að taka sjálfviljugur á sig syndir alls mannkyns, vera grimmilega negldur á krossinn og að sigrast á dauðanum á þriðja degi,2 gaf Jesú páskahaldi Gyðinga helgara gildi en hafði verið veitt Ísrael til forna.3 Til uppfyllingar spádóms, bauð hann sinn eigin líkama og dýrmætt blóð fyrir hina mestu og síðustu fórn,4 og staðfesti þannig hin hefðbundnu tákn sem notuð eru í hátíðarhaldi páskahátíðar Gyðinga.5 Með því upplifði Kristur líkamlegar og andlegar þjáningar sem eru óskiljanlegar hinum mannlega huga. Frelsarinn sagði sjálfur:
„Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, …
Þjáningu sem varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda – og með hrolli óskaði ég þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar–
Dýrð sé föðurnum eigi að síður, og ég tæmdi hann og lauk undirbúningi mínum fyrir mannanna börn.“6
Kristur uppfyllti vilja föðurins náðarsamlega7 í gegnum altæka og miskunnsama fórn hans. Hann sigraðist á broddi líkamlegs og andlegs dauða,8 sem heimurinn kynntist í gegnum fallið,9 og bauð okkur hinn dýrðlega möguleika eilífrar sáluhjálpar.10
Jesús var sá eini sem gat mögulega uppfyllt þessa eilífu og fullkomnu fórn fyrir okkur öll.11 Hann var valinn og forvígður á stórþinginu á himnum, jafnvel áður en að heimurinn var mótaður.12 Ennfremur erfði hann líkamlegan dauða þar sem hann fæddist af jarðneskri móður, en sem hinn eingetni sonur föðurins, erfði hann kraftinn til að leggja niður sitt eigið líf og taka það síðan upp aftur.13 Að auki lifði Kristur fullkomnu lífi sem var án galla og þar af leiðandi var hann undanþeginn kröfum um guðlegt réttlæti.14 Við eitthvað tækifæri kenndi spámaðurinn Joseph Smith:
„Sáluhjálp gat ekki komið til heimsins án milligöngu Jesú Krists.
Guð … hafði fórn til reiðu, en það var gjöf hans eigin sonar, sem á tilskildum tíma var sendur til að … ljúka upp dyrum svo að menn gætu komist í návist Guðs.“15
Þó að frelsarinn hafi skilyrðislaust fjarlægt áhrif líkamlegs dauða með fórn sinni,16 fjarlægði hann ekki þá persónulegu ábyrgð okkar að iðrast synda okkar.17 Hann veitti okkur kærleiksríkt boð um að sættast við eilífan föður okkar. Vegna Jesús Krists og friðþægingarfórnar hans, getum við upplifað mikla breytingu á hug okkar og hjarta, komið með ferskt viðhorf bæði gagnvart Guði og lífinu yfir höfuð.18 Þegar við iðrumst synda okkar einlæglega, beinum hjörtum okkar og vilja að Guði og boðorðum hans, getum við meðtekið fyrirgefningu hans og fundið áhrif heilags anda enn ríkulegar. Náðarsamlegast forðumst við að þurfa að upplifa dýpt þess sársauka sem frelsarinn þurfti að þola.19
Gjöf iðrunar er merki um góðvilja Guðs gagnvart börnum hans og sýnir okkur óviðjafnanlegan kraft hans til að hjálpa okkur að sigrast á syndum okkar. Hún er einnig sönnun á þeirri þolinmæði og því langlundargeði sem kærleiksríkur faðir okkar hefur gagnvart jarðneskum veikleikum okkar og brestum. Russell M. Nelson forseti, ástkær spámaður okkar, vísaði til þessarar gjafar: „Hún er lykill að hamingju og hugarró.“20
Kæru vinir, ég ber ykkur vitni um að er við iðrumst synda okkar einlæglega,21 leyfum við friðþægingarfórn Krists að verða fyllilega virk í lífi okkar.22 Við verðum laus við hlekki syndar, finnum gleði í jarðnesku ferðalagi okkar og verðum gjaldgeng fyrir eilífa sáluhjálp sem var undirbúin frá upphafi heimsins fyrir alla þá sem trúa á Jesú Krist og koma til hans.23
Til viðbótar við að sjá okkur fyrir konunglegri gjöf sáluhjálpar, þá býður frelsarinn okkur hjálp og huggun er við tökumst á við erfiðleika okkar, freistingar og veikleika dauðlegs lífs, þar á meðal þær aðstæður sem við höfum verið að takast á við í núverandi heimsfaraldri. Ég fullvissa ykkur um að Kristur er ávalt meðvitaður um það mótlæti sem við upplifum í jarðnesku lífi. Hann skilur allan biturleikann, angistina og líkamlegan sársaukann, ásamt þeim tilfinningalegu og andlegu áskorunum sem við tökumst á við. Brjóst frelsarans er fyllt miskunn og hann er ávalt tilbúinn að hugga okkur. Þetta er mögulegt vegna þess að hann upplifði og tók á sig sjálfan sársauka veikleika okkar og veikinda.24
Af hógværð og auðmýkt hjartans sté hann neðar öllu og sætti sig við fyrirlitningu, höfnun og auðmýkingu frá mönnum, hafandi verið særður fyrir okkar brot og misgjörðir. Hann þoldi þetta fyrir alla, er hann tók á sig syndir heimsins25 og varð þannig okkar endanlegi andlegi hirðir.
Þegar við komumst nær honum, felum okkur í andlega umsjá hans, munum við geta tekið á okkur ok hans, sem er ljúft, og byrðar hans sem eru léttar og þannig fundið hina lofuðu huggun og hvíld. Ennfremur munum við hljóta þann styrk sem við þörfnumst öll til að sigrast á erfiðleikum, veikleikum og sorgum lífsins sem er afskaplega erfitt að þola án hans hjálpar og lækningarmáttar.26 Ritningarnar kenna okkur: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“27 „Og megi þá Guð gefa, að byrðar [okkar] verði léttar fyrir gleðina yfir syni hans.“28
Í lok síðasta árs, frétti ég af fráfalli kærra hjóna, Mario og Reginu Emerick, sem voru trú Drottni og dóu með fjögurra daga millibili, vegna fylgikvilla KÓVID-19.
Einn sona þeirra, sem þjónar nú sem biskup í Brasilíu, sagði mér eftirfarandi: „Það var svo erfitt að sjá foreldra mína hverfa héðan úr heiminum í þessu ásigkomulagi, en ég gat greinilega fundið fyrir hönd Drottins í lífi mínu mitt í þessum harmleik, vegna þess að ég hlaut styrk og frið sem var ofar eigin skilningi Í gegnum trú mína á Jesú Krist og friðþægingu hans, hlaut ég guðlega aðstoð til að styrkja og hugga fjölskyldumeðlimi mína og alla þá sem hjálpuðu okkur í gegnum þessa erfiðleikatíma. Jafnvel þótt kraftaverkið sem allir vonuðust eftir, hefði ekki gerst, þá er ég persónulegt vitni um þau mörgu önnur kraftaverk sem gerðust í mínu lífi og lífi fjölskyldu minnar. Ég fann óútskýranlegan frið sem fyllti hjartað og veitti mér von og fullvissu um elsku frelsarans til mín og á hamingjuáætlun Guðs fyrir börn hans. Ég lærði að á sorgarfyllstu dögunum eru kærleiksríkir armar frelsarans ávallt útréttir þegar við leitum hans af öllu hjarta, krafti, huga og styrk.“
Kæru bræður mínir og systur, á þessum páskasunnudegi ber ég hátíðlegt vitni um að Jesús reis frá dauðum og hann lifir. Ég er ykkur vitni um að sökum hans og altækrar friðþægingar hans, hefur frelsarinn veitt okkur leið til að sigrast á dauða, bæði líkamlegum og andlegum. Til viðbótar við þessar stórkostlegu blessanir, býður hann okkur huggun og fullvissu á erfiðleikatímum. Ég fullvissa ykkur um að er við setjum traust okkar á Jesú Krist og guðlega friðþægingu hans, stöndum stöðug í trú okkar allt til enda, munum við njóta loforða ástríks himnesks föður okkar, sem gerir allt sem í hans valdi stendur til að hjálpa okkur að koma aftur í návist hans einhvern daginn. Þetta er verk hans og dýrð!29 Ég ber ykkur vitni um að Jesús er Kristur, lausnari heimsins, hinn fyrirheitni Messías, upprisan og lífið.30 Ég miðla ykkur þessum sannleika í hans heilaga nafni, hins eingetna föðurins, Drottins vors, Jesú Krists, amen.