Ég má til musterisins gá
Það er í musterinu sem við getum tekið á móti fyrirheitinu um ástkær fjölskyldusambönd, sem ná út fyrir mörk dauðans og vara eilíflega.
Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessum fyrsta hluta aðalráðstefnu. Ræðumennirnir, tónlistin og bænin hafa fært okkur andann – ásamt tilfinningu ljóss og vonar.
Sú tilfinning hefur endurvakið minningar um fyrsta daginn sem ég gekk inn í Salt Lake musterið. Ég var ungur piltur. Foreldrar mínir voru einu förunautar mínir þann daginn. Þau stöldruðu augnablik við innandyra, til að heilsa þar musterisþjóni. Ég gekk á undan þeim og var aleinn í smástund.
Lítil, hvíthærð kona í fallegum hvítum musteriskjól heilsaði mér. Hún leit upp á mig og brosti og sagði svo ljúflega: „Velkominn í musterið, bróðir Eyring.“ Í andartak hélt ég að hún væri engill, þar sem hún þekkti mig með nafni. Ég hafði ekki tekið eftir því að litlu spjaldi með nafninu mínu hafði verið komið fyrir á boðungi jakka míns.
Ég steig framhjá henni og stansaði. Ég leit upp á hátt, hvítt loftið, sem olli því að herbergið var svo bjart að það virtist næstum opnast til himins. Á því augnabliki komu þessi skýru orð í huga mér: „Ég hef áður verið í þessu bjarta rými.“ Samstundis komu í huga mér önnur orð, ekki með minni raust: „Nei, þú hefur ekki komið hingað áður. Þú minnist stundar fyrir fæðingu þína. Þú varst á helgum stað sem þessum.“
Utan á musteri okkar setjum við þessi orð: „Heilagleiki til Drottins.“ Ég veit það sjálfur að þessi orð eru sönn. Musterið er heilagur staður þar sem opinberun berst okkur auðveldlega, ef hjarta okkar er opið fyrir henni og við verðug hennar.
Síðar, þennan fyrsta dag, fann ég aftur sama andann. Musterisathöfnin hefur að geyma orð sem vöktu brennandi tilfinningu í hjarta og staðfestingu um að það sem sýnt var væri satt. Það sem ég fann fyrir var persónulegt varðandi framtíð mína og raungerðist 40 árum síðar, með köllun frá Drottni til að þjóna.
Ég upplifði sömu tilfinningu þegar ég giftist í Logan-musterinu í Utah. Spencer W. Kimball forseti framkvæmdi innsiglunina. Meðal þeirra fáu orða sem hann sagði, var þetta ráð: „Hal og Kathy, hagið lífi ykkar þannig að þegar kallið kemur, þá getið þið gengið auðveldlega í burtu frá því.“
Þegar hann sagði þessi orð, sá ég greinilega í huga mér og í lit, bratta hæð og veg sem lá upp á topp. Hvítt grindverk var vinstra megin meðfram veginum og hvarf í trjáþyrpingu efst á hæðinni. Hvítt hús var lítt greinanlegt á milli trjánna.
Einu ári síðar bar ég kennsl á hæðina, þegar tengdafaðir minn ók eftir þessum vegi. Þetta var í öllum atriðum það sem ég sá þegar Kimball forseti gaf ráð sitt í musterinu.
Þegar við komum upp á hæðina, stansaði tengdafaðir minn hjá hvíta húsinu. Hann sagði sig og eiginkonu sína vera að festa kaup á eigninni og vildi að dóttir sín og ég byggjum í gestahúsinu. Þau myndu búa í aðalbyggingunni, örfáa metra í burtu. Á þeim 10 árum sem við bjuggum í þessu indæla fjölskylduumhverfi, sögðum eiginkona mín og ég næstum daglega: „Við skulum njóta þess því við verðum ekki lengi hér.“
Ég fékk símtal frá embættismanni menntamála fyrir kirkjuna, Neal A. Maxwell. Viðvörunin sem Kimball forseti hafði gefið, um að „ganga auðveldlega í burtu“ varð að veruleika. Þetta var köllun um að yfirgefa það sem voru friðsælar aðstæður, til að þjóna í verkefni á stað sem ég vissi ekkert um. Fjölskylda okkar var reiðubúin að skilja við þennan blessaða tíma og stað, vegna þess að spámaður í heilögu musteri, stað opinberana, sá fyrir viðburð í framtíðinni sem við yrðum þá undirbúin fyrir.
Ég veit að musteri Drottins eru helgir staðir. Tilgangur minn með því að ræða musteri í dag, er til að auka þrá ykkar og mína til að vera verðug og reiðubúin fyrir þau auknu tækifæri sem munu berast okkur til upplifunar í musterinu.
Mesta hvatning mín til að vera verðugur musterisupplifana er það sem Drottinn hefur sagt um heilög híbýli sín:
„Og reisi fólkið mér hús í nafni Drottins og láti ekkert óhreint inn í það koma, svo að það vanhelgist ekki, skal dýrð mín hvíla á því –
Já, og návist mín mun vera þar, því að ég mun koma inn í það, og allir hjartahreinir, sem inn í það koma, skulu sjá Guð.
En verði það vanhelgað mun ég ekki inn í það koma og dýrð mín mun ekki vera þar, því að ég kem ekki inn í vanheilög musteri.“1
Russell M. Nelson forseti gerði okkur það ljóst að við getum „séð“ frelsarann í musterinu, á þann máta að hann verður okkur ekki lengur ókunnugur. Nelson forseti sagði þetta: „Við skiljum hann. Við skiljum verk hans og dýrð. Við byrjum að finna fyrir takmarkalausum áhrifum óviðjafnanlegs lífs hans.“2
Ef við færum ekki nægilega hrein í musterið, fengjum við ekki skilið, fyrir mátt heilags anda, hina andlegu kennslu um frelsarann sem við getum hlotið í musterinu.
Þegar við erum þess verðug að meðtaka slíka kennslu, geta von, gleði og bjartsýni dafnað í lífi okkar, vegna musterisupplifunar okkar. Þessi von, gleði og bjartsýni hljótast aðeins með því að taka við helgiathöfnum, gerðum í heilögum musterum. Það er í musterinu sem við getum tekið á móti fyrirheitinu um ástkær fjölskyldusambönd, sem ná út fyrir mörk dauðans og vara eilíflega.
Fyrir mörgum árum, er ég þjónaði sem biskup, afþakkaði ungur og myndarlegur piltur boð mitt um að vera verðugur þess að lifa með Guði í eilífum fjölskyldum. Með yfirgangi sagði hann mér frá skemmtilegum stundum sem hann átti með vinum sínum. Ég leyfði honum að tala. Hann sagði mér svo frá stund í einni veislunni, í miðjum ærslafengnum hávaðanum, þegar hann áttaði sig skyndilega á því að hann var einmana. Ég spurði hann hvað hafði gerst. Hann sagði að hann hafi munað eftir að hafa setið í fangi móður sinnar, sem lítill drengur, umvafinn örmum hennar. Þegar hann sagði þessa sögu, táraðist hann í augnablik. Ég sagði honum frá því sem ég veit að er satt: „Eina leiðin sem þú getur upplifað tilfinningar þessa fjölskyldufaðmlags að eilífu, er að vera sjálfur verðugur og hjálpa öðrum að taka á móti helgiathöfnum innsiglunar í musterinu.“
Við þekkjum ekki smáatriði fjölskyldusambanda í andaheiminum eða hvað gerist eftir upprisuna. Við vitum þó að spámaðurinn Elía kom, eins og heitið var, til að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna.3 Við vitum að eilíf hamingja okkar er háð því að við gerum okkar besta til að bjóða þessa sömu ævarandi hamingju eins mörgum skyldmennum og við getum.
Ég hef sömu þrá til að bjóða lifandi fjölskyldumeðlimum að vekja þrá til að verða verðug þess að taka á móti helgiathöfnum innsiglunar í musterinu og virða þær. Þetta er hluti fyrirheitsins um samansöfnun Ísraels á síðustu dögum, beggja vegna hulunnar.
Eitt besta tækifærið er þegar fjölskyldumeðlimir okkar eru ungir. Þeir fæðast með ljós Krists sem gjöf. Það gerir þeim kleift að greina gott frá illu. Þess vegna getur það að sjá musterið eða mynd af musteri, jafnvel vakið hjá börnum þrá til að vera verðug og njóta þeirra forréttinda að ganga þangað inn, einn daginn.
Síðan kemur dagurinn þegar þau, á unglingsárunum, öðlast musterismeðmæli til að framkvæma staðgengilsskírnir í musterinu. Þegar þau upplifa þetta, getur sú tilfinning vaxið að helgiathafnir musterisins vísa ávallt á frelsarann og friðþægingu hans. Þegar þau skynja að þau eru að bjóða einstaklingi í andaheiminum þann möguleika að hreinsast af synd, mun sú tilfinning vaxa að þau séu að hjálpa frelsaranum í helgu verki hans við að blessa barn himnesks föður.
Ég hef séð mátt þess háttar upplifunar breyta lífi ungrar manneskju. Fyrir mörgum árum fór ég síðdegis með dóttur minni í musterið. Hún var sú síðasta til að þjóna sem staðgengill við skírnir. Dóttir mín var spurð hvort hún gæti verið lengur til að ljúka helgiathöfnunum fyrir allt fólkið, hvers nöfn höfðu verið undirbúin. Hún sagði já.
Ég fylgdist með þegar litla dóttir mín steig í skírnarfontinn. Skírnirnar hófust. Vatn streymdi niður andlit litlu dóttur minnar í hvert skipti sem henni var lyft upp úr vatninu. Aftur og aftur var hún spurð: „Getur þú gert meira?“ Í hvert sinn sagði hún já.
Sem umhyggjusamur faðir, tók ég að vona að henni yrði hlíft frá því að gera meira. Ég man þó enn eftir ákveðni hennar þegar hún var spurð hvort hún gæti meira og hún svaraði með lítilli, ákveðinni röddu: „Já.“ Hún hélt áfram þar til síðasti einstaklingurinn á listanum þann daginn hafði meðtekið blessun þess að skírast í nafni Jesú Krists.
Þegar ég gekk út úr musterinu með henni þetta kvöld, dáðist ég að því sem ég hafði séð. Barni hafði verið lyft upp og umbreytt fyrir augum mínum, með því að þjóna Drottni í húsi hans. Ég man enn eftir tilfinningu ljóss og friðar, þegar við gengum saman frá musterinu.
Mörg ár hafa liðið. Hún svarar spurningu Drottins enn með jái, hvort hún muni gera meira fyrir hann, þegar það er afar erfitt. Þetta er það sem musterisþjónusta getur gert til að breyta okkur og lyfta. Þess vegna er mín von fyrir ykkur og ástkæra fjölskyldu ykkar, að þið vaxið í þrá og ákveðni til að vera verðug þess að ganga í hús Drottins eins oft og ykkar aðstæður leyfa.
Hann vill taka á móti ykkur þar. Ég bið þess að þið reynið að efla þrá í hjörtum barna himnesks föður að fara þangað, þar sem þau geta verið nærri honum og að þið munið einnig bjóða áum ykkar að búa sig undir að geta verið með honum og ykkur að eilífu.
Orð þessi geta verið okkar:
Ég má í æsku minni
til musterisins gá.
Þar helgan texta‘ að heyra,
þar helgan anda‘ að sjá,
því musterið er herrans hús,
þar helgidómar bíða.
Ég undirbý mig æskufús
þess ákalli að hlýða.4
Ég ber hátíðlegt vitni um að við erum börn elskuríks himnesks föður. Hann valdi sinn elskaða son, Jesú Krist, til að vera frelsara okkar og lausnara. Eina leiðin til að snúa aftur til lífs með þeim og fjölskyldum okkar er með helgiathöfnum heilags musteris. Ég ber vitni um að Russell M. Nelson forseti hefur og notar alla lykla prestdæmisins, sem gerir eilíft líf mögulegt fyrir öll börn Guðs. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.