Rúm í gistihúsinu
Þessa páskahátíð býður Jesús okkur að verða, líkt og hann, miskunnsamir Samverjar, til að gera gistihús hans (kirkju hans) að skjóli fyrir alla.
Kæru bræður og systur, þótt liðin séu 20 ár frá andláti föður míns, þá sakna ég hans stundum. Páskarnir veita mér það loforð að ég muni sjá hann aftur.
Þegar ég var í mastersnámi í Englandi kom faðir minn í heimsókn. Föðurhjartað vissi að ég saknaði heimahaganna.
Faðir minn var ævintýragjarn, nema hvað mat varðaði. Jafnvel í Frakklandi, sem er frægt fyrir matarmenningu sína sagði hann: „Fáum okkar kínverskan mat.“ Faðir minn hafði þjónað sem patríarki í kirkjunni í mörg á og var andlegur og umhyggjusamur. Kvöld eitt, er neyðarbifreiðar keyrðu í gegnum París með háum sírenum, sagði hann: „Gerrit, þetta eru hróp særðrar borgar.“
Í þeirri ferð skynjaði ég önnur hróp og særindi. Ung kona var að selja ís úr litlum handvagni. Brauðformin pössuðu fyrir eina ískúlu. Af einhverri ástæðu réðst stór karlmaður að ungu konunni. Hrópandi og hrindandi velti hann ísvagni hennar um koll og eyðilagði brauðformin. Það var ekkert sem ég gat gert er hann braut brauðformin undir stígvélunum sínum. Ég get enn séð ungu konuna á hnjánum á götunni, reynandi að bjarga brotnum brauðformunum, með angistartár rennandi niður andlitið. Myndin sækir enn að mér, áminning um þann óvingjarnlega, hugsunarlausa misskilning sem við leggjum oft á hvert annað.
Annan eftirmiðdag, nærri París, heimsóttum við faðir minn hina miklu dómkirkju í Chartres. Malcolm Miller,1 heimsþekktur sérfræðingur í dómkirkjum, benti okkur á þrjú sett af steindum gluggum frá Chartres. Hann sagði að þeir segðu sögu.
Fyrstu gluggarnir sýndu Adam og Evu yfirgefa Edengarðinn.
Þeir næstu sögðu dæmisöguna um miskunnsama Samverjann.
Þeir þriðju sýndu síðari komu Drottins.
Saman geta þessir steindu gluggar lýst eilífðarsögu okkar. Þeir bjóða okkur að taka vel á móti öllum og veita þeim rúm í gistihúsi hans.2
Eins og Adam og Eva, komum við inn í heim þyrna og þistla.3
Á rykugum veginum til Jeríkó verðum við fyrir árás, erum særð og skilin eftir þjáð.4
Þó að okkur beri að hjálpa hvert öðru, göngum við oft framhjá hinum megin vegarins, hver sem ástæðan er.
Hinn miskunnsami Samverji staldrar þó við af samúð og býr um sár okkar með víni og olíu. Tákn sakramentisins og annarra helgiathafna, vínið og olían, beina okkur að andlegri lækningu Jesú Krists.5 Miskunnsami Samverjinn setur okkur á asna sinn eða, eins og í sumum frásögum steindra glugga, ber okkur á herðum sér. Hann færir okkur inn í gistihúsið, sem getur táknað kirkju hans. Inni í gistihúsinu segir miskunnsami Samverjinn: „Lát þér annt um hann … ég borga þér þegar ég kem aftur.“6 Miskunnsami Samverjinn, sem táknar frelsara okkar, lofar að snúa aftur og þá í veldi og dýrð.
Þessa páskahátíð býður Jesús Kristur okkur að verða, líkt og hann, miskunnsamir Samverjar, til að gera gistihús hans (kirkju hans) að skjóli frá særindum og stormum lífsins.7 Við búum okkur undir síðari komu hans þegar við dag hvern gerum „einum [hans minnsta]“8 það sem við myndum gera fyrir hann. „[Einn hans minnsti]“ erum við öll.
Þegar við komum í gistihúsið með miskunnsama Samverjanum, lærum við fimm hluti um Jesú Krist og okkur sjálf.
Til að byrja með komum við í gistihúsið eins og við stöndum, öll með veikleika og ófullkomin. Samt höfum við öll eitthvað þarft til að leggja fram. Við finnum oft veginn til Guðs saman. Við tilheyrum sameinuðu samfélagi – hvort sem við stöndum frammi fyrir heimsfaraldri, stormum, óslökkvandi eldum, þurrki eða daglegu hljóðlátu streði. Við fáum innblástur er við ráðgumst saman, hlýðum á hvern og einn, þar með taldar allar systurnar, og andann.
Þegar hjörtu okkar breytast og mynd hans hefur greypst í svip okkar,9 sjáum við hann og okkur sjálf í kirkju hans. Í honum finnum við skýrleika, ekki ósamræmi. Í honum finnum við ástæðu til að gera gott, ástæðu til að vera góð og aukna getu til að verða betri. Í honum uppgötum við stöðuga trú, frelsandi óeigingirni, umhyggjusama breytingu og traust á Guði. Í gistihúsi hans finnum við og dýpkum persónulegt samband okkar við Guð, föður okkar og Jesú Krist í gistihúsi hans.
Hann treystir okkur til að gera gistihúsið að þeim stað sem hann þarfnast að það sé. Þegar við bjóðum fram hæfileika okkar og alla krafta, munu andlegar gjafir hans einnig styrkja og blessa.10
Spænskutúlkur sagði mér: „Öldungur Gong, ég vissi með andanum hvað þú ætlaðir að segja, svo ég gat þýtt með tungutalsgjöf,“ sagði þessi trúfasti bróðir.
Gjafir trúar og fullvissu eru staðfestar á ólíkan hátt og við ólíkar aðstæður. Ein kær systir hlaut andlega huggun er eiginmaður hennar lést af völdum KÓVID–19. Hún sagði: „Ég veit að minn kæri eiginmaður og ég munum verða saman aftur.“ Í ólíkum KÓVID aðstæðum sagði önnur systir: „Mér fannst að ég ætti að sárbæna Drottin og læknana að gefa manni mínu örlítið meiri tíma.“
Í öðru lagi hvetur hann okkur til að gera gistihús sitt að stað gæsku og góðvildar, þar sem allir geta komið saman og rúm er fyrir alla. Sem lærisveinar Jesú Krists, eru allir jafnir, engir annars flokks hópar.
Öllum er velkomið að koma á sakramentissamkomu, aðra sunnudagsfundi og félagslega viðburði.11 Við tilbiðjum frelsara okkar af lotningu og sýnum hvert öðru hugulsemi og tillitsemi. Við sjáum og viðurkennum hvern einstakling. Við brosum, sitjum með þeim sem sitja einir, lærum nöfn, þ.m.t. nýrra trúskiptinga, bræðra og systra sem eru að koma aftur, stúlkna og pilta, hvers kærs Barnafélagsbarns.
Við bjóðum vini, gesti og ný aðflutta velkomna og þá sem eru önnum kafnir og sem togað er í úr öllum áttum og setjum okkur í þeirra spor. Við syrgjum, fögnum og erum til staðar fyrir hvert annað. Þegar við erum ekki eins og við myndum vilja vera og erum að flýta okkur ómeðvituð, dómhörð eða fordómafull, leitum við fyrirgefningar hjá hvert öðru og gerum betur.
Fjölskylda frá Afríku, sem býr nú í Bandaríkjunum sagði: „Kirkjumeðlimir voru vingjarnlegir og buðu okkur velkomin frá fyrsta degi. Allir hjálpuðu okkur að líða vel. Enginn horfði niður á okkur.“ Faðirinn sagði: „Hin heilaga Biblía kennir að ávextir fagnaðarerindisins koma frá rótum þess.“ „Og trúboðarnir,“ sögðu faðirinn og móðirin, „við viljum að sonur okkar og dóttir verði eins og þessir trúboðar.“ Bræður og systur, megum við bjóða alla velkomna í gistihús hans.
Í þriðja lagi lærum við að fullkomnun er í Jesú Kristi, ekki fullkomnun heimsins. Óraunveruleg og óraunhæf, getur filteruð „instagram-fullkomnun“ heimsins fengið okkur til að finnast við ónóg, ánetjuð því að fletta, læka og smella. Í mótvægi þá veit frelsari okkar Jesús Kristur allt það um okkur sem við viljum að enginn annar viti og hann elskar okkur samt. Fagnaðarerindi hans er fyrir annað og þriðja tækifæri, fyrir atbeina friðþægingarfórnar hans.12 Hann býður okkur öllum að vera miskunnsamir Samverjar, minna dómhörð og fúsari til að fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum, á sama tíma og við kappkostum að halda boðorð hans.
Við hjálpum okkur sjálfum er við hjálpum hvert öðru. Fjölskylda sem ég þekki bjó nærri mikill umferðargötu. Ferðamenn stoppuðu oft og báðu um aðstoð. Snemma einn morgun heyrði fjölskyldan þungt barið að dyrum. Þreytt og áhyggjufull yfir því hver þetta gæti verið kl 02:00 að nóttu, hugsuðu þau að núna bara í þetta sinn, gæti kannski einhver annar hjálpað. Þegar hið þunga bank hélt áfram heyrðu þau: „Eldur – það er eldur á bak við húsið ykkar!“ Miskunnsamir Samverjar hjálpa hverjir öðrum.
Í fjórða lagi munum við, í gistihúsi hans, tilheyra trúarsamfélagi með Jesú Krist að þungamiðju, grundvölluð í endurreistum sannleika, lifandi spámönnum og postulum og öðru vitni um Jesú Krist – Mormónsbók. Hann færir okkur í gistihús sitt og einnig í hús sitt – hið heilaga musteri. Hús Drottins er staður þar sem miskunnsami Samverjinn getur þvegið og klætt okkur, eins og með særða manninn á veginum til Jeríkó, búið okkur undir að snúa aftur í návist Guðs og sameina okkur fjölskyldu Guðs að eilífu. Musteri hans eru opin öllum sem lifa fagnaðarerindi hans af trú og hlýðni.
Musterisfögnuður felur í sér einingu í fagnaðarerindinu á meðal ólíkra uppruna, menningarheima, tungumála og kynslóða. Við skóflustungu musterisins í Taylorsville, Utah, miðlaði hinn 17 ára gamli Max Harker arfleifð fjölskyldutrúar sem hófst sex kynslóðum áður með ættföður hans í sjötta ættlið, Joseph Harker og eiginkonu hans Susannah Sneath. Í hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists getum við öll orðið sterkir hlekkir í ættliðum fjölskyldu okkar.
Í fimmta og síðasta lagi fögnum við því að Guð elskar börn sín í margbreytileika þeirra og aðstæðum, allra þjóða, lýða og tungna og rúm er fyrir þau öll í gistihúsi hans.
Undanfarin 40 ár hafa meðlimir kirkjunnar orðið sífellt alþjóðlegri. Frá 1988 hafa fleiri meðlimir kirkjunnar búið utan Bandaríkjanna og Kanada en innan. Við væntum þess að fyrir 2025 gætu jafnmargir meðlimir kirkjunnar búið í Suður-Ameríku og búa í Bandaríkjunum og Kanada. Samansöfnun hinna trúföstu afkomenda föður Lehís er spádómur að uppfyllast. Trúfastir heilagir eru áfram uppspretta trúrækni og þjónustu fyrir heimskirkjuna, einnig þeir sem eru brautryðjendur.
Meirihluti hinna fullorðnu meðlima kirkjunnar eru nú ógiftir, ekkjur, ekklar eða fráskildir. Þetta er merkileg breyting. Það á við um meira en helming allra Líknarfélagssystra okkar og meira en helming allra fullorðinna prestdæmishafa. Þetta lýðfræðilega mynstur hefur verið staðan í hinni heimslægu kirkju frá árinu 1992 og frá árinu 2019 í kirkjunni í Bandaríkjunum og Kanada.
Staða okkar frammi fyrir Drottni og kirkju hans snýst ekki um hjúskaparstöðu, heldur það að verða trúfastir og hugrakkir lærisveinar Jesú Krists.13 Fullorðnir vilja að komið sé fram við þá sem fullorðna og vera ábyrgir og gefa af sér sem fullorðnir. Lærisveinar Jesú Krists koma allstaða að, eru af öllum stærðum, gerðum, litablæ, aldri, sérhver gæddur hæfileikum, réttlátum þrám og mikilli getu til að blessa og þjóna. Daglega vinnum við að því að fylgja Jesú Kristi með trú til iðrunar14 og langvinna gleði.
Í þessu lífi vonum við stundum á Drottin. Ef til vill erum við ekki enn þar sem við vonumst til og óskum eftir að vera í framtíðinni. Trúföst systir segir: „Að vona trúfastlega á Drottin eftir blessunum hans er helg afstaða. Í henni felst ekki vorkunnsemi, yfirlæti eða dómharka, heldur fremur helg sæmd.“15 Á meðan lifum við, en bíðum ekki eftir því að lífið hefjist.
Jesaja lofar: „Þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir, þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“16
Miskunnsami Samverjinn okkar lofar að snúa aftur. Kraftaverk gerast er við önnumst hvert annað eins og hann myndi gera. Þegar við komum með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda,17 getum við fundið rödd í Jesú Kristi, og verið umvafin skilningsríkum og öruggum örmum hans.18 Helgiathafnir bjóða upp á að tilheyra sáttmálunum og „[kraft] guðleikans.“19 til að helga innri tilgang og framkvæmd út á við. Með kærleiksríkum góðvilja hans og langlundargeði verður kirkja hans, gistihús okkar.
Þegar við sköpum rúm í gistihúsi hans, bjóðum alla velkomna, þá getur miskunnsami Samverjinn læknað okkur á okkar rykugu, jarðnesku vegum. Af fullkomnum kærleika lofa himneskur faðir okkar og sonur hans Jesús Kristur okkur „[friði] í þessum heimi, og [eilífu lífi] í komanda heimi.20– „þar sem ég er, þar skuluð þér og vera.“21 Í einlægu þakklæti vitna ég um það í hinu helga og heilaga nafni Jesú Krists, amen.