Aðalráðstefna
Greyið litlu skinnin
Aðalráðstefna apríl 2021


Greyið litlu skinnin

Hver deild og grein þarf á öllum að halda – þeim sem sterkir eru og þeim sem ef til vill erfiða. Allir eru nauðsynlegir.

Ég man eftir því sem drengur, að vera í bíl með föður mínum og sjá einstaklinga í vegarkantinum, sem voru í erfiðum aðstæðum eða þörfnuðust hjálpar. Faðir minn hafði á orði og sagði: „Pobrecito,“ sem þýðir „greyið litla skinnið.“

Stundum fylgdist ég áhugasamur með er faðir minn hjálpaði mörgum slíkum, einkum er við ferðuðumst til Mexíkó til afa míns og ömmu. Oftast fann hann einhvern í neyð og fór á laun til að veita nauðsynlega hjálp. Ég komst að því síðar að hann hjálpaði þeim að skrá sig í skóla, kaupa mat eða sá fyrir velferð þeirra á einhvern annan hátt. Hann þjónaði „greyið litlu skinnunum“ sem á vegi hans urðu. Á uppvaxtarárum mínum man ég satt að segja ekki eftir því að við höfðum ekki einhverja heimilisgesti sem þurftu þak yfir höfuðið meðan þeir urðu sjálfbjarga. Að fylgjast með þessu, vakti mér anda samúðar með meðbræðrum mínum og systrum og hinum þurfandi.

Í Boða fagnaðarerindi mitt segir: „Þú ert umkringdur fólki. Þú mætir því á götum úti, kemur inn á heimili þess og ferðast með því. Öll eru þau börn Guðs, bræður þínir og systur. … Mörg þeirra leita að tilgangi lífsins. Þau hafa áhyggjur [af framtíð sinni] og fjölskyldu“ (Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu [2005], 1).

Í þjónustutíð minni í kirkjunni, hef ég reynt að leita þeirra sem þarfnast hjálpar, bæði stundlega og andlega. Ég heyrði oft rödd föður míns segja, „Pobrecito,“ greyið litla skinnið.

Í Biblíunni er að finna dásamlegt dæmi um að annast greyið lítið skinn:

„Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna.

Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins sem nefndar eru Fögrudyr til að beiðast ölmusu af þeim er inn gengu í helgidóminn.

Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn baðst hann ölmusu.

Þeir horfðu fast á hann og Pétur sagði: ,Lít þú á okkur.’

Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim.

Pétur sagði: ,Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!’

Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir“ (Postulasagan 3:1–7; leturbreyting hér).

Þegar ég las þessa frásögn, var ég hugfanginn af notkun orðsins fast. Orðtakið að horfa fast á þýðir að beina augum eða hugsunum ákveðið að einhverju (sjá „fasten,“ Dictionary.com). Pétur horfði á þennan mann og sá hann á annan hátt en aðrir. Hann horfði framhjá vangetu hans til að ganga og veikleikum hans og skildi að trú hans nægði honum til lækningar og inngöngu í musterið til að meðtaka hans þráðu blessanir.

Ég veitti því athygli að hann tók í hægri hönd hans og reisti hann upp. Þegar hann aðstoðaði manninn á þennan hátt, læknaði Drottinn hann undursamlega og „fætur hans og ökklar [urðu] styrkir“ (Postulasagan 3:7). Elska hans til mannsins og þrá til að aðstoða hann, urðu þess valdandi að geta veika mannsins jókst.

Þegar ég þjónaði sem svæðishafi Sjötíu, tók ég öll þriðjudagskvöld frá til að fara í þjónustuheimsóknir með stikuforsetunum á mínu svæði. Ég bauð þeim að mæla sér mót við þá sem þörfnuðust helgiathafna fagnaðarerindis Jesú Krists eða þá sem ekki héldu sáttmálana sem þeir höfðu gert. Með stöðugri og ásettri hirðisþjónustu, efldi Drottinn framtak okkar og við fundum einstaklinga og fjölskyldur sem þörfnuðust hjálpar. Þetta voru „greyið litlu skinnin“ sem bjuggu í ýmsum stikum þar sem við þjónuðum.

Eitt sinn fór ég í þjónustuheimsóknir með Bill Whitworth, forseta Sandy Utah Canyon View-stikunnar. Í bænaranda leitaði hann þeirra sem heimsækja skyldi og reyndi að upplifa það sama og Nefí, en „andinn leiddi [hann], og [hann] vissi ekki fyrirfram, hvað gjöra skyldi“ (1. Nefí 4:6). Hann sýndi að þegar við þjónum, ættum við að láta opinberun leiða okkur til þeirra sem mest eru þurfandi, í stað þess að fylgja gátlista eða vitja einstaklinga á kerfisbundinn hátt. Við ættum að láta kraft innblásturs leiða okkur.

Ég man eftir að hafa komið á heimili ungra hjóna, Jeffs og Heather og sonar þeirra, Kai. Jeff ólst upp sem virkur meðlimur í kirkjunni. Hann var afar hæfileikaríkur íþróttamaður og átti fyrirheit um farsælan feril. Hann byrjaði að fara frá kirkjunni á unglingsárunum. Síðar lenti hann í bílslysi, sem breytti gangi lífs hans. Þegar við komum á heimili þeirra og kynntumst, spurði Jeff af hverju við vildum hitta fjölskyldu hans. Við svöruðum að um 3000 meðlimir byggju innan stikumarkanna. Ég spurði síðan: „Jeff, af öllum þeim heimilum sem við hefðum getað heimsótt, segðu okkur af hverju Drottinn sendi okkur hingað.“

Jeff varð meyr og miðlaði okkur áhyggjum sínum og vandamálum, sem þau sem fjölskylda glímdu við. Við tókum að miðla hinum ýmsu reglum fagnaðarerindis Jesú Krists. Við buðum þeim að gera nokkra sértæka hluti sem gætu virst erfiðir í fyrstu, en myndu veita mikla hamingju og gleði er fram liði. Því næst veitti Whitworth forseti Jeff prestdæmisblessun, til að hjálpa honum að sigrast á erfiðleikum. Jeff og Heather samþykktu að gera það sem við buðum þeim.

Um ári síðar voru það forréttindi að sjá Jeff skíra eiginkonu sína, Heather, meðlim Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þau búa sig nú undir að fara í musterið til að innsiglast sem fjölskylda um tíma og eilífð. Heimsókn okkar breytti lífsstefnu þeirra, bæði stundlega og andlega.

Drottinn sagði:

„Ver þess vegna trúr. Gegn því embætti, sem ég hef útnefnt þér. Styð þá óstyrku, lyft máttvana örmum og styrk veikbyggð kné“ (Kenning og sáttmálar 81:5).

„Og með því að gjöra svo munt þú þjóna meðbræðrum þínum á bestan veg og auka dýrð hans, sem er Drottinn þinn“ (Kenning og sáttmálar 81:4).

Bræður og systur, Páll postuli kenndi lykilhugtak sem á við þjónustu okkar. Hann kenndi að við erum öll „líkami Krists og limir hans hvert um sig“ (1. Korintubréf 12:27) og að hver limur líkamans er nauðsynlegur til að tryggja að líkaminn í heild sinni sé uppbyggður. Svo kenndi hann máttugan sannleika sem snerti mig í hjartastað, þegar ég las hann. Hann sagði: „Miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir sem virðast vera í veikbyggðara lagi. Og þeim sem okkur virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum við því meiri sæmd“ (1. Korintubréf 12:22–23; skáletrað hér).

Því þarf hver deild og grein á öllum að halda – þeim sem sterkir eru og þeim sem ef til vill erfiða. Allir eru nauðsynlegir við hina ómissandi uppbyggingu „líkama Krists“ í heild. Ég velti því oft fyrir mér hverju við missum af í söfnuðum okkar, sem myndi styrkja okkur og gera okkur heilsteypt.

Öldungur D. Todd Christofferson kenndi: „Í kirkjunni lærum við ekki einungis guðlega kenningu, við upplifum líka framkvæmd hennar. Sem líkami Krists, þá þjóna þegnar kirkjunnar hver öðrum í raunveruleika daglegs lífs. Öll erum við ófullkomin. … Í líkama Krists, þá verðum við að fara út fyrir hugmyndir og upphafin orð og takast á við raunverulegar aðstæður, er við lærum ‚að búa saman í kærleika.‘ [Kenning og sáttmálar 42:45]“ („Hvers vegna kirkjan,“ aðalráðstefna, október 2015).

Draumur Brighams Young

Árið 1849, dreymdi Brigham Young að hann sæi spámanninn Joseph Smith, þar sem hann smalaði stórri hjörð kinda og geita. Sum dýranna voru stórvaxin og fögur; önnur voru smá og skítug. Brigham Young mundi eftir að hafa horft í augu spámannsins Joseph Smith og sagt: „Joseph, þú átt furðulegasta söfnuð … sem ég hef nokkurn tímann séð; hvað ætlar þú þér með hann?“ Spámaðurinn, sem virtist engar áhyggjur hafa af óstýrilátum söfnuði sínum, svaraði einfaldlega: „[Brigham,] þau eru öll góð þar sem þau eru.“

Þegar Young forseti vaknaði, skildi hann að á meðan kirkjan myndi safna saman alls konar „kindum og geitum,“ þá var það á hans ábyrgð að ná til allra og fá sérhvern þeirra til að skilja alla möguleika sína, er þeir tækju stöður sínar í kirkjunni. (Unnið upp úr Ronald W. Walker, „Brigham Young: Student of the Prophet,“ Ensign, febrúar 1998, 56–57.)

Bræður og systur, uppruna ræðu minnar má rekja til djúpra hugsana um nokkurn sem ekki er nú virkur í kirkju Jesú Krists. Ég vil í andartak tala til allra slíkra. Öldungur Neal A. Maxwell kenndi að „slíkir einstaklingar haldi sig í nálægð kirkjunnar – en taki ekki fullan þátt í henni. Þeir stíga ekki fæti inn í kirkjubygginguna, en fara heldur ekki frá innganginum. Þetta eru þeir sem þarfnast kirkjunnar og þörf er fyrir, en þeir sem að hluta ‚lifa án Guðs í heiminum‘ [Mósía 27:31]“ („Why Not Now?Ensign, nóvember 1974, 12).

Ég vil endurtaka boð ástkærs forseta okkar, Russells M. Nelson, þegar hann fyrst talaði til meðlima kirkjunnar. Hann sagði: „Við alla meðlimi kirkjunnar segi ég: Haldið ykkur á sáttmálsveginum. Skuldbinding ykkar um að fylgja frelsaranum, með því að gera sáttmála við hann og síðan að halda þá sáttmála, mun ljúka upp dyrum sérhverrar andlegrar blessunar og forréttinda, fyrir karla, konur og börn hvarvetna.“

Hann biðlaði því næst: „Ef þið hafið farið af þeim vegi, þá hvet ég ykkur af allri hjartans von, að snúa aftur á hann. Hverjar sem áhyggjur ykkar eru eða áskoranir, þá er staður fyrir ykkur hér í kirkju Drottins. Þið sjálf og komandi kynslóðir munuð hljóta blessun af viðleitni ykkar til að fara aftur á sáttmálsveginn“ („Er við sækjum áfram saman,“ Líahóna, apríl 2018; leturbreyting hér).

Ég ber vitni um hann, já, Jesú Krist, hinn mesta þjón og frelsara okkar allra. Ég býð hverju og einu okkar að leita að „pobrecitos,“ „greyið litlu skinnunum“ á meðal okkar sem eru hjálpar þurfi. Það er von mín og bæn í nafni Jesú Krists, amen.