Aðalráðstefna
Minnist leiðarinnar heim
Aðalráðstefna apríl 2021


Minnist leiðarinnar heim

Við höfum fullkomið fordæmi Jesú Krists til að fylgja og ferðin til okkar eilífu heimkynna er aðeins möguleg sökum kenninga hans, lífs og friðþægingarfórnar.

Árið 1946 var hinn ungi Arthur Hasler á göngu meðfram fjallalæk nærri æskuheimili sínu, er hann upplifði nokkuð sem leiddi til merkilegrar uppgötvunar um hvernig fiskur finnur leiðina til baka að hrygningarstöðvum sínum.

Í fjallgöngu, með eftirlætis æskufossinn sinn úr augsýn, vaknaði skyndilega löngu gleymd minning í huga Hasler. Hann sagði: „Þegar svöl golan, sem bar með sér angan af mosa og smáblómum, lék um klettótta hæðina, stóð hvert smáatriði fossins og staðsetning hans í fjallinu skyndilega fyrir hugskotssjónum mínum.“1

Ilmur þessi vakti æskuminningar og minnti hann á heimahagana.

Ef lykt gæti vakið honum minningar, þá ályktaði hann að ef til vill gæti lykt verið jafn mikil minning fyrir laxinn, sem væri að snúa aftur til hrygningarstöðvanna, eftir að hafa verið árum saman í úthafinu.

Byggt á þessari upplifun, tóku Hasler og aðrir rannsóknarmenn að sýna fram á að lax gæti munað eftir lykt, sem gerði honum kleift að rata þúsundir kílómetra á leið sinni til baka frá úthafinu.

Frásögn þessi fékk mig til að hugsa, að það mikilvægasta sem við gætum gert í þessu lífi, er að minnast leiðarinnar heim til föðurins á himnum og standast í hollustu og gleði meðan á ferðalaginu stendur.

Ég hugsaði um fjórar áminningar sem geta endurvakið tilfinningar sem tengjast okkar himneska heimili, ef við tileinkum okkur þær stöðugt.

Í fyrsta lagi getum við minnst þess að við erum börn Guðs

Við búum að guðlegri arfleifð. Vitandi að við erum börn Guðs og að hann vilji að við snúum aftur í návist hans, er eitt fyrsta skrefið á ferðalaginu til okkar himnesku heimkynna.

Minnið ykkur sjálf á þessa arfleifð. Styrkið andlega ónæmiskerfið ykkar reglulega með því að minnast þeirra blessana sem þið hafið hlotið frá Drottni. Treystið þeirri leiðsögn sem þið hafið fengið frá honum, frekar en að snúa ykkur eingöngu að heiminum til að meta eigið virði og ná áttum.

Nýlega heimsótti ég ástkæra vinkonu eftir að hún hafði verið á spítala. Hún sagði mér af geðshræringu að allt sem hún þráði, meðan hún lá í sjúkrarúminu, var að einhver syngdi sönginn: „Guðs barnið eitt ég er.“ Þessi hugsun ein og sér, sagði hún, veitti henni þann frið sem hún þarfnaðist á þessari þjáningarstundu.

Að vita hver þið eruð, breytir því hvað þið skynjið og hvað þið gerið.

Að skilja hver þið raunverulega eruð, býr ykkur betur undir að þekkja og minnast leiðarinnar heim til okkar himnesku heimkynna og þrá okkar að vera þar.

Í öðru lagi getum við minnst undirstöðunnar sem verndar okkur

Við hljótum styrk er við erum réttlát, sönn og trúföst föður okkar á himnum og Jesú Kristi, jafnvel þó að aðrir hafni að mestu boðorðunum og reglum sáluhjálpar.2

Í Mormónsbók kenndi Helaman sonum sínum að minnast þess að þeir verði að byggja undirstöðu sína á Jesú Kristi, til að búa að nægum styrk til að standast freistingar andstæðingsins. Hinir máttugu vindar og stormar Satans bylja á okkur, en hafa engan kraft til draga okkur niður, ef við setjum traust okkar á öruggasta staðinn – á Jesú Krist.3

Ég veit af eigin reynslu að ef við kjósum að hlýða á rödd hans og fylgja honum, þá munum við hljóta liðsinni hans. Við hljótum meira víðsýni yfir aðtæður okkar og dýpri skilning á tilgangi lífsins. Við munum skynja andleg áhrif sem munu leiða okkur til okkar himnesku heimkynna.

Í þriðja lagi getum við minnst þess að vera bænheit

Við lifum á tíma er við getum, með einni snertingu eða raddskipun, leitað svara við nánast hverju sem er í víðáttu rafrænt geymdra og skipulagðra upplýsinga og flókinna tölvunetkerfa.

Á hinn bóginn höfum við hlotið þau einföldu boð að byrja að leita svara frá himnum. „Bið ávallt og ég mun úthella anda mínum yfir þig.“ Drottinn lofar síðan: „Og mikil verður blessun þín – já, jafnvel meiri en þó að þú hlytir fjársjóði á jörðu.“4

Guð þekkir vel sérhvert okkar og hlustar fúslega á bænir okkar. Þegar við munum eftir því að biðja, finnum við kærleiksríkan stuðning, og því meira sem við biðjum til föðurins á himnum, í nafni Krists, því meira færum við frelsarann í líf okkar og því meira munum við kannast við veginn sem hann hefur markað til himneskra heimkynna okkar.

Í fjórða lagi getum við minnst þess að þjóna öðrum

Þegar við kappkostum að fylgja Jesú Kristi með því að þjóna öðrum og sýna þeim vinsemd, gerum við heiminn að betri stað.

Verk okkar geta blessað aðra í kringum okkur og okkur sjálf á áhrifaríkan hátt. Að þjóna af elsku, eykur tilgang í lífi bæði gefanda og þiggjanda.

Ekki vanmeta getu ykkar til að hafa jákvæð áhrif á aðra, bæði með þjónustuverkum og fyrirmynd að þjónustu.

Kærleiksrík þjónusta við aðra leiðir okkur áleiðis á veginum til himneskra heimkynna okkar – veginum að verða líkari frelsaranum.

Sökum borgarastyrjaldar árið 1975, urðu Arnaldo og Eugenia Teles Grilo, ásamt börnum sínum, að yfirgefa heimili sitt og allt sem þau höfðu byggt upp með erfiðisvinnu áratugum saman. Í heimalandi sínu, Portúgal, stóðu bróðir og systir Teles Grilo frammi fyrir þeirri áskorun að byrja upp á nýtt. Mörgum árum síðar, eftir að hafa gengið í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sögðu þau: „Við misstum allt sem við áttum, en það var gott, því við það neyddumst við til að íhuga mikilvægi eilífra blessana.“5

Þau misstu jarðneska heimili sitt, en fundu leiðina til baka til himneskra heimkynna sinna.

Hvaðeina sem þið þurfið að skilja eftir til að fylgja veginum til ykkar himnesku heimkynna, mun dag einn virðast sem alls engin fórn.

Við höfum hið fullkomna fordæmi Jesú Krists til að fylgja og ferðin til okkar eilífu heimkynna er aðeins möguleg sökum kenninga hans, lífs og friðþægingarfórnar – þar með talið dauða hans og upprisu.

Ég býð ykkur að upplifa gleðina af því að minnast þess að við erum börn Guðs og að svo elskaði hann heiminn, að hann sendi son sinn6 til að sýna okkur leiðina. Ég býð ykkur að muna eftir að vera staðföst, að snúa lífi ykkar að frelsaranum og byggja undirstöðu ykkar á honum. Munið að vera bænheit á ferðalagi ykkar og að þjóna öðrum á leiðinni.

Kæru bræður og systur, á þessum páskasunnudegi ber ég vitni um að Jesús Kristur er lausnari og frelsari heimsins. Hann er sá eini sem getur vísað okkur að borði gleðiríks lífs og leitt okkur á ferðalaginu. Munum eftir honum og fylgjum honum heim. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Arthur Davis Hasler, í Gene E. Likens, „Arthur Davis Hasler: 5. janúar 1908 – 23. mars 2001,“ í National Academy of Sciences, Biographical Memoirs, bindi 82 (2003), 174–75.

  2. Sjá Book of Mormon Student Manual (2009), 268–73.

  3. Sjá Helaman 5:6–12.

  4. Kenning og sáttmálar 19:38.

  5. Sjá Don L. Searle, „Discovering the Gospel Riches of Portugal,“ Ensign, okt. 1987, 15.

  6. Sjá Jóhannes 3:16.