Aðalráðstefna
Hvers vegna sáttmálsvegurinn?
Aðalráðstefna apríl 2021


Hvers vegna sáttmálsvegurinn?

Munur sáttmálsvegarins og annarra vega er einmuna og eilíflega þýðingarmikill.

Í þjónustu sinni hefur Russell M. Nelson forseti rannsakað og kennt um sáttmála Guðs við börn hans. Hann er sjálfur skínandi dæmi um nokkurn, sem gengur sáttmálsveginn. Í fyrsta boðskap sínum sem forseti kirkjunnar, sagði Nelson forseti:

Skuldbinding ykkar um að fylgja frelsaranum, með því að gera sáttmála við hann og halda síðan þá sáttmála, mun ljúka upp dyrum sérhverrar andlegrar blessunar og forréttinda, fyrir karla, konur og börn hvarvetna.“

… Helgiathafnir musterisins og sáttmálarnir sem þið gerið þar, eru lykilinn að því að styrkja eigið líf, hjónaband ykkar og fjölskyldu og gera ykkur hæf til að standast árásir óvinarins. Tilbeiðsla ykkar í musterinu og þjónustan þar í þágu áa ykkar, mun blessa ykkur með fleiri persónulegum opinberunum og auknum friði og veita ykkur styrk til að haldast á sáttmálsveginum.“1

Hvað er sáttmálsvegurinn? Það er eini vegurinn sem liggur til hins himneska ríkis Guðs. Við förum inn á þann veg við hlið skírnar og „[sækjum svo] fram, [staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna [hin tvö æðstu boðorð] … allt til enda.“2 Á leið sáttmálsvegarins (sem reyndar nær út fyrir jarðlífið), hljótum við allar helgiathafnir og sáttmála sem tilheyra sáluhjálp og upphafningu.

Sáttmálshollusta okkar er í stórum dráttum sú að gera vilja Guðs „og hlýða öllum þeim boðorðum, sem hann gefur okkur.“3 Að fylgja reglum og boðorðum fagnaðarerindis Jesú Krist dag hvern, er gleðiríkasta og mest gefandi viðfangsefni lífsins. Fyrir það fyrsta, þá forðar það einstaklingum frá mörgum vandamálum og eftirsjá. Ég vil líkja þessu við íþróttir. Í tennis er til nokkuð sem kallast óþvinguð mistök. Þetta er t.d. þegar vel sláanlegur bolti er sleginn í netið eða tvisvar er gefin röng uppgjöf. Óþvinguð mistök eru rakin til glappaskots leikmanns, fremur en hæfni andstæðingsins.

Vandamál okkar eða áskoranir eru of oft sjálfsköpuð, afleiðing slæmra ákvarðana eða við gætum sagt afleiðing „óþvingaðra mistaka.“ Þegar við fylgjum sáttmálsveginum af kostgæfni, forðumst við sjálfkrafa mörg „óþvinguð mistök.“ Við víkjum okkur undan ýmsum tegundum fíknar. Við föllum ekki í gryfju óheiðarlegs framferðis. Við förum yfir hyldýpi ósiðsemi og saurlifnaðar. Við sneiðum hjá fólki og hlutum, sem myndu stefna líkamlegri og andlegri heilsu okkar í hættu, þótt vinsælir séu. Við forðumst þá valkosti sem skaða aðra eða eru þeim til trafala og venjum okkur þess stað í á sjálfsaga og þjónustu.4

Öldungur J. Golden Kimball á að hafa sagt: „Ég hef ekki [alltaf] gengið hinn beina og þrönga veg, en ég [reyni] að fara yfir hann eins oft og ég [get].“5 Á alvarlegra augnabliki er ég viss um að bróðir Kimball hefði fallist á að viðvera á sáttmálsveginum, en ekki aðeins yfirferð, sé okkar helsta von, annars vegar til að hlífa okkur við óþarfa vesæld og hins vegar til að takast betur á við óhjákvæmilegar raunir lífsins.

Sumir gætu sagt: „Ég get tekið góðar ákvarðanir með eða án skírnar; ég þarf ekki sáttmála til að vera heiðvirður og farsæll einstaklingur.“ Vissulega eru margir sem með eigin breytni endurspegla ákvarðanir og atferli þeirra sem eru á sáttmálsveginum, þótt þeir séu ekki á honum sjálfir. Hægt væri að segja að slíkir njóti blessana þess að ganga „samræmdan sáttmálsveg.“ Hvað er þá öðruvísi við sáttmálsveginn?

Munurinn er í raun einmuna og eilíflega þýðingarmikill. Hann felur í sér eðli hlýðni okkar, skuldbindingu Guðs við okkar, hið guðlega liðsinni sem við hljótum, blessanirnar sem tengjast því að koma saman sem sáttmálslýður og það mikilvægasta, eilífa arfleifð okkar.

Skuldbundin hlýðni

Fyrst er eðli hlýðni okkar við Guð. Við gerum meira en að hafa góðan ásetning, við skuldbindum okkur hátíðlega til að lifa eftir hverju orði sem fram gengur af Guðs munni. Við fylgjum þannig fordæmi Jesú Krists, sem með því að skírast „sýndi … mannanna börnum, að í holdinu auðmýkti hann sig fyrir föðurnum og vitnaði fyrir föðurnum að hann vildi hlýða honum og halda boðorð hans.“6

Með sáttmálum, einetjum við okkur meira en bara að forðast mistök eða taka skynsamar ákvarðanir. Við finnum til ábyrgðar gagnvart Guði vegna ákvarðana okkar og lífs. Við tökum á okkur nafn Krists. Við einblínum á Krist – að vera hugdjörf í vitnisburðinum um Jesú og þróa með okkur eiginleika Krists.

Með sáttmálum, verður hlýðni við reglur fagnaðarerindisins rótgróin sál okkar. Ég kannast við hjón sem giftu sig á tíma þar sem eiginkonan var óvirk í kirkjunni og eiginmaðurinn hafði aldrei verið meðlimur kirkjunnar. Ég vísa til þeirra sem Mary og John, í stað raunverulegra nafna þeirra. Þegar þau eignuðust börn, fann Mary sterka þörf til að ala þau upp líkt og ritningin segir: „Með aga og fræðslu um Drottin.“7 John studdi þetta. Mary færði mikilvægar fórnir til að vera heima og kenna fagnaðarerindið jöfnum höndum. Hún sá til þess að fjölskyldan nýtti sér til fullnustu tilbeiðslu og viðburði í kirkjunni. Mary og John urðu fyrirmyndar foreldrar og börnin þeirra (allt skörulegir drengir) uxu að trú og hollustu við reglur og staðla fagnaðarerindisins.

Foreldrar Johns, amma og afi drengjanna, voru ánægð með uppbyggilegt líferni og afrek barnabarnanna, en þar sem þau höfðu nokkra óbeit á kirkjunni, vildu þau eigna foreldrahæfni Johns og Mary hinn góða árangur. Þótt John væri ekki meðlimur kirkjunnar, lét hann þetta mat ekki óátalið. Hann hélt því eindregið fram að þau væru vitni að ávöxtum kenninga fagnaðarerindisins – því sem synir hans upplifðu í kirkjunni og því sem átti sér stað á heimilinu.

John varð sjálfur fyrir áhrifum andans, vegna elsku og fordæmis eiginkonu sinnar og hvatningar sona sinna. Þegar fram liðu stundir var hann skírður, meðlimum deildarinnar og vinum til mikillar gleði.

Þótt lífið hafi ekki verið án áskorana fyrir Mary og John og syni þeirra, staðfestu þau heilshugar að í raun var það sáttmáli fagnaðarerindisins sem var upphafið að blessunum þeirra. Þau hafa orðið vitni að uppfyllingu orða Drottins til Jeremía í lífi barna sinna, sem og í eigin lífi: „Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn.“8

Bundin Guði

Önnur sértæk hlið sáttmálsvegarins er samband okkar við Guðdóminn. Sáttmálarnir sem Guð býður börnum sínum, gera meira en að leiðbeina okkur. Þeir binda okkur honum og bundin honum, getum við sigrast á öllum hlutum.9

Ég las eitt sinn grein eftir illa upplýstan blaðamann, sem sagði frá því að við framkvæmdum skírnir fyrir hina látnu með því að dýfa rúllum af örfilmum í vatn. Þá teldust öll þau nöfn skírð, sem birtust á örfilmunni. Þessi nálgun væri afkastamikil, en hún lítur framhjá óendanlegu verðmæti hverrar sálar og gríðarlegu mikilvægi persónulegs sáttmála við Guð.

„[Jesús] sagði … : Gangið inn um þrönga hliðið, því að þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir eru þeir, sem finna hann.“10 Þetta hlið er í óeiginlegri merkingu svo þröngt að þar fer aðeins einn í gegn í einu. Hver og einn skuldbindur sjálfan sig Guði og tekur í staðinn á móti persónulegum sáttmála frá honum, með nafni, sem hann eða hún getur skilyrðislaust treyst á um tíma og eilífð. Með helgiathöfnum og sáttmálum „opinberast … kraftur guðleikans“ í lífi okkar.11

Guðlegt liðsinni

Þetta leiðir okkur til umhugsunar um þriðju sérstöku blessun sáttmálsvegarins. Guð veitir nánast óskiljanlega gjöf sem hjálpar þeim sem gera sáttmála að halda sáttmála: Gjöf heilags anda. Þessi gjöf er rétturinn að stöðugu samfélagi við heilagan anda, vernd hans og leiðsögn.12 Heilagur andi, sem líka er þekktur sem huggarinn, „fyllir oss von og fullkominni elsku.“13 Hann „veit alla hluti og ber vitni um föðurinn og soninn,“14 hvers vitni við skuldbindum okkur til að vera.15

Á sáttmálsveginum finnum við einnig nauðsynlega blessun fyrirgefningar og hreinsunar frá synd. Þetta liðsinni veitist aðeins með guðlegri náð, fyrir þjónustu heilags anda. „En þetta er boðorðið,“ segir Drottinn. „Iðrist, öll endimörk jarðar og komið til mín og látið skírast í mínu nafni, svo að þér megið helgast fyrir móttöku heilags anda og þér fáið staðið flekklaus frammi fyrir mér á efsta degi.“16

Komið saman með sáttmálsfólki

Í fjórða lagi, þeir sem fylgja sáttmálsveginum, finna einnig sérstakar blessanir á ýmsum guðlega tilnefndum samkomum. Spádómar um bókstaflega samansöfnun hinna dreifðu ættkvísla Ísraels til erfðalands þeirra, eru hvarvetna í ritningunum.17 Uppfylling þessara spádóma og fyrirheita á sér nú stað með samansöfnun sáttmálsfólks í kirkjuna, ríki Guðs á jörðu. Nelson forseti útskýrir: „Þegar við tölum um samansöfnunina, erum við einfaldlega að staðhæfa þennan sannleika: Öll börn okkar himneska föður, … verðskulda að hlýða á boðskap hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists.“18

Drottinn býður meðlimum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu: „Rísið og látið ljós yðar skína, svo að það verði þjóðunum tákn, … [svo] að samansöfnunin á landi Síonar og í stikum hennar megi verða vörn og athvarf fyrir storminum og hinni heilögu reiði, þegar henni verður skilyrðislaust úthellt yfir gjörvalla jörðina.“19

Vikulega er einnig samkoma sáttmálsfólksins í bænahúsi á Drottins degi, svo að við getum „enn betur haldið [okkur] óflekkuðum frá heiminum.“20 Það er samkoma til að meðtaka sakramenti brauðs og vatns til minningar um friðþægingu Jesú Krists og tími „til að fasta og biðja og ræða hvert við annað um sálarheill [okkar].“21 Á unglingsárunum var ég eini meðlimur kirkjunnar í menntaskólabekknum mínum. Ég naut félagsskapar margra góðra vina í skólanum, en reiddi mig mikið á vikulegu hvíldardagssamkomuna til að endurnærast og endurnýjast andlega, jafnvel líkamlega. Við höfum fundið mjög fyrir missi þessarar reglubundnu sáttmálssamkomu í núverandi faraldri og væntum óðfús þess tíma þegar við getum komið aftur saman, eins og áður.

Sáttmálsfólkið kemur líka saman í musterinu, húsi Drottins, til að taka á móti helgiathöfnum, blessunum og opinberun sem eingöngu þar er að finna. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Hver er tilgangur þess að safna … fólki Guðs saman á hvaða veraldartíma sem er? … Megin tilgangurinn er sá að reisa Drottni hús þar sem hann getur opinberað fólki sínu helgiathafnir húss síns og dýrð ríkis síns og kennt því leið sáluhjálpar, því að ákveðnar helgiathafnir og reglur er aðeins mögulegt að kenna og iðka í húsi sérstaklega byggðu í þeim tilgangi.“22

Erfið sáttmálsfyrirheitin

Að endingu, þá erfum við aðeins blessanir Abrahams, Ísaks og Jakobs með því að fylgja sáttmálsveginum, æðstu blessanir sáluhjálpar og upphafningar, sem aðeins Guð getur veitt.23

Oft er vísað til þess í ritningunum að sáttmálslýður merki bókstaflega afkomendur Abrahams eða „Ísraelsættar.“ Sáttmálslýður á þó líka við um alla þá sem meðtaka fagnaðarerindi Jesú Krists.24 Páll útskýrði:

„Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. …

Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.“25

Þeir sem trúir eru sáttmálum sínum „munu [koma] fram í upprisu hinna réttvísu.“26 Þeir eru „fullkomnir gjörðir fyrir Jesú, meðalgöngumann hins nýja sáttmála. … Þetta eru þeir, sem eiga himneska líkama, og dýrð þeirra er sem sólarinnar, já, dýrð Guðs, hins æðsta alls.“27 „Þess vegna eru allir hlutir þeirra, hvort heldur líf eða dauði, það sem er eða það sem koma skal, allt er þeirra og þeir eru Krists og Kristur er Guðs.“28

Við skulum hlýða kalli spámannsins um að fylgja sáttmálsveginum. Nefí sá okkur og okkar tíma og ritaði: „Ég, Nefí, sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“29

„Sál mín hefur … unun af [sáttmálum Drottins],“ líkt og Nefí.30 Á þessum páskasunnudegi, ber ég vitni um Jesú Krist, en upprisa hans er von okkar og fullvissa um allt það sem okkur er heitið á sáttmálsveginum og við enda hans. Í nafni Jesú Krists, amen.