Aðalráðstefna
Persónulegur frelsari okkar
Aðalráðstefna apríl 2021


8:30

Persónulegur frelsari okkar

Sökum friðþægingar sinnar, hefur frelsarinn mátt til að hreinsa, lækna og styrkja hvert og eitt okkar.

Ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessum dásamlega páskamorgni. Þegar ég leiði hugann að páskunum, finnst mér dásamlegt að fara með orð englanna til þeirra sem voru við gröfina í garðinum í huga mér: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn.“1 Ég ber vitni um að Jesús frá Nasaret var reistur upp og að hann lifir.

Hvað virðist ykkur um Krist?

Fyrir 34 árum hittu ég og trúboðsfélagi minn mikinn menntamann, sem við kenndum, sem skrifaði greinar í staðarblað í Davao-borg á Filippseyjum. Við nutum þess að kenna honum, þar sem hann hafði mikið af spurningum og bar virðingu fyrir trú okkar. Minnisstæðasta spurningin sem hann spurði okkur var: „Hvað virðist ykkur um Krist?“2 Við miðluðum auðvitað spenntir tilfinningum okkar og gáfum vitnisburð um Jesú Krist. Síðar birti hann grein um sama efni, sem hafði að geyma dásamleg orð og orðtök um frelsarann. Ég man eftir að hafa hrifist, en ekki endilega fyllst andagift. Greinin hafði að geyma góðar upplýsingar en var innantóm og skorti andlegan kraft.

Að kynnast honum í vaxandi mæli

„Hvað virðist ykkur um Krist?“ Ég hef áttað mig á því að hve náið ég þekki frelsarann skiptir sköpum fyrir getu mína til að hlýða á hann og bregðast við. Fyrir nokkrum árum spurði öldungur David A. Bednar eftirfarandi spurninga í ræðu sinni: „Vitum við einungis af frelsaranum eða erum við í vaxandi mæli að kynnast honum? Hvernig getum við kynnst Drottni?“3

Þegar ég lærði og íhugaði, uppgötvaði ég að þekking mín á frelsaranum var mikið meiri en hve náið ég þekkti hann í raun. Ég ákvað þá að leggja meira á mig til að kynnast honum. Ég er afar þakklátur fyrir ritningarnar og vitnisburði hinna trúföstu lærisveina Jesú Krists, bæði karla og kvenna. Ferð mín síðustu árin hefur leitt mig á marga vegi náms og uppgötvunar. Ég bið þess að heilagur andi flytji ykkur æðri boðskap í dag en vanmáttug orð mín fá gert.

Í fyrsta lagi, verðum við að gera okkur grein fyrir að mikilvægasta iðja lífs okkar er að þekkja frelsarann. Hún ætti að vera í forgangi.

„En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“4

„Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“5

„Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“6

Í öðru lagi, þegar við kynnumst frelsaranum í vaxandi mæli, verða ritningargreinar og orð spámannanna svo persónuleg og þýðingarmikil að þau verða hluti af okkur sjálfum. Þetta snýst ekki um að líkja eftir orðum, tilfinningum og upplifunum annarra, heldur að kynnast því sjálf á okkar einstaka hátt, gjöra tilraun með orðið7 og taka á móti vitni heilags anda. Líkt og spámaðurinn Alma kenndi:

„Gjörið þér ekki ráð fyrir, að mér sé þetta sjálfum kunnugt? Sjá, ég ber yður þess vitni, að mér er vel kunnugt um, að það, sem ég hef talað um, er sannleikur. Og hvernig haldið þér, að ég viti með vissu, að það er satt?

Sjá, ég segi yður, að hinn heilagi andi Guðs hefur kunngjört mér það. Sjá, ég hef fastað og beðið í marga daga til að öðlast vitneskju um þetta sjálfur. Og nú veit ég sjálfur, að það er sannleikur, því að Drottinn Guð hefur opinberað mér það með sínum heilaga anda. Og þetta er andi opinberunar, sem í mér býr.“8

Í þriðja lagi, aukinn skilningur á því að friðþæging Jesú Krists eigi við um okkur persónulega og muni hjálpa okkur, hverju fyrir sig, að þekkja hann. Oft er auðveldara að hugsa og tala um friðþægingu Krists á almennan hátt, en að bera kennsl á persónulegt mikilvægi hennar í lífi okkar. Friðþæging Jesú Krists er algjör og eilíf og alltumlykjandi í breidd og dýpt, en fullkomlega persónuleg og einstaklingsbundin í virkni sinni. Sökum friðþægingar sinnar, hefur frelsarinn mátt til að hreinsa, lækna og styrkja hvert og eitt okkar.

Eina þrá frelsarans, eini tilgangur hans frá upphafi, var sá að gjöra vilja föðurins. Vilji föðurins var sá að hann skyldi hjálpa við „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“9 með því að verða „[málsvari] hjá föðurnum.“10 Þar af leiðandi: „Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði.“11

„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. …

Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans … og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn … svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.

… Sonur Guðs [þjáist] að hætti holdsins til að geta tekið á sig syndir fólks síns og þurrkað út lögmálsbrot þess í krafti frelsunarverks síns.”12

Ég vil deila einfaldri upplifun sem lýsir baráttunni sem við verðum stundum að heyja, til að meðtaka persónulegt eðli friðþægingar Drottins.

Fyrir mörgum árum, við boð leiðtoga míns, las ég Mormónsbók frá upphafi til enda og merkti við versin sem minntust á friðþægingu Drottins. Leiðtogi minn bað mig líka að útbúa einnar blaðsíðu samantekt um það sem ég hafði lært. Ég sagði við sjálfan mig: „Eina blaðsíðu? Sjálfsagt, það er ekkert mál.“ Mér til undrunar var verkefnið afar erfitt viðureignar og mér misheppnaðist.

Mér hefur síðan skilist að mér mistókst, því ég missti marks og hafði rangar forsendur. Í fyrsta lagi, þá bjóst ég við að samantektin yrði öllum innblástur. Samantektin var ætluð mér og engum öðrum. Henni var ætlað að vekja tilfinningar mínar um frelsarann og það sem hann hefur gert fyrir mig, svo að í hvert sinn sem ég læsi, þá kæmu dásamlegar, áhrifamiklar og persónulegar andlegar upplifanir upp í hugann.

Í öðru lagi, bjóst ég við að samantektin yrði tilkomumikil og ítarleg, innihéldi stór orð og orðtök. Hún snerist aldrei um stóru orðin. Henni var ætlað að vera skýr og einföld játning sannfæringar. „Því að sál mín hefur unun af hreinskilni, því að eftir hennar leiðum vinnur Drottinn Guð meðal mannanna barna. Því að Drottinn Guð veitir skilningnum ljós.“13

Í þriðja lagi, þá bjóst ég við að samantektin yrði endanleg og fullkomin – að hvorki mætti né ætti að bæta við hana – í stað þess að vera verk í vinnslu sem ég gæti bætt við orði eða orðtaki hér og þar, eftir því sem skilningur minn á Jesú Kristi yrði meiri.

Vitnisburður og boð

Sem ungur piltur, lærði ég mikið af samtölum mínum við biskupinn minn. Á þessum viðkvæmu árum lærði ég að elska þessi orð í kærum sálmi:

Um Jesú ég hugsa og undrast hans ást til mín,

með endurlausn sinni hann leiðir mig heim til sín.

Mig angrar að mín vegna kvalinn á krossi var,

en kærleikur hans mér við spurningum veitir svar.

Ó, hvílík dásemd að hann skyldi hugsa‘ um mig.

Og hann dó fyrir mig.

Ó, hve dásamleg dýrð, dýrð hans fyrir mig.14

Spámaðurinn Moróní veitti okkur boð: „Og nú býð eg yður að leita þessa Jesú, sem spámennirnir og postularnir hafa ritað um.“15

Russell M. Nelson forseti lofaði að „ef [við] höldum áfram að læra allt sem [við] getum um Jesú Krist, … mun geta [okkar] aukast til að snúa baki við synd. Þrá [okkar] að halda boðorðin mun færast í vöxt.“16

Á þessum páskasunnudegi, megum við, líkt og frelsarinn sem birtist úr steingröfinni, vakna úr andlegu móki og rísa ofar skýjahjúpi efasemda, úr greipum ótta, vímu drambsemi og deyfð andvaraleysis. Jesús Kristur og himneskur faðir lifa. Ég ber vitni um fullkomna elsku þeirra fyrir okkur. Í nafni Jesú Krists, amen.