Aðalráðstefna
Þetta er okkar tími!
Aðalráðstefna apríl 2021


Þetta er okkar tími!

Guð hefur sent okkur hingað, einmitt núna, á þessum þýðingarmikla tíma í sögunni.

Árið 1978 stóð ég á ruðningsvelli, á troðfullum leikvangi með 65.000 áhorfendum. Fyrir framan mig voru nokkrir afar stórir andstæðingar, sem litu út fyrir að vilja afhöfða mig. Þetta var fyrsti leikurinn minn í byrjunarliðinu sem leikstjórnandi í NFL-deildinni og við lékum við ríkjandi Ofurskálarmeistara. Ef ég á að vera heiðarlegur, þá var ég í vafa um hvort ég væri nógu góður til að vera á vellinum. Ég bakkaði til að senda mína fyrstu sendingu og þegar ég sleppti boltanum, var ég tæklaður fastar en nokkru sinni áður. Á því augnabliki, þar sem ég lá undir hrúgu af risavöxnum íþróttamönnum, spurði ég mig hvað ég væri að gera þarna. Ég þurfti að taka ákvörðun. Myndi ég láta efasemdirnar taka yfir eða myndi ég hafa hugrekki og styrk til að standa upp og halda áfram?

Fyrsta sendingin:

Associated Press

Ég skildi ekki á þeirri stundu hvernig þessi upplifun myndi búa mig undir tækifæri í framtíðinni. Ég þurfti að læra að ég get verið sterkur og hugrakkur í erfiðum aðstæðum.

Ruðningsleikur er ekki nærri jafn mikilvægur og þær áskoranir sem þið munuð standa frammi fyrir. Í flestum tilfellum er ekki leikvangur fullur af fólki að horfa á. Hugdjarfar ákvarðanir ykkar munu hafa eilífa merkingu.

Kannski finnst okkur við ekki alltaf geta sigrast á áskorunum. Himneskur faðir okkar lítur þó á okkur sem óttalausa byggingamenn ríkis hans. Þess vegna sendi hann okkur hingað á þessum úrslitatíma í sögu heimsins. Þetta er okkar tími!

Hlýðið á það sem Russell M. Nelson forseti sagði, stuttu eftir að hann varð forseti kirkjunnar: „Frelsari okkar og lausnari, Jesús Kristur, mun framkvæma einhver sinna máttugustu verka, frá þessum tíma fram að endurkomu sinni. Við munum sjá undursamlegar vísbendingar um að Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, ríkja yfir þessari kirkju í hátign og dýrð“ („Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018).

Máttugustu verk? Undursamlegar vísbendingar? Hvernig mun það líta út? Hvaða hlutverk munum við eiga og hvernig munum við vita hvað við eigum til bragðs að taka? Ég veit ekki öll svörin, en veit þó að Drottinn þarfnast þess að við séum reiðubúin! Verðug notkun prestdæmiskraftsins hefur aldrei verið eins áríðandi.

Trúum við spámanni Guðs? Getum við fundið og uppfyllt örlög okkar? Já, við getum það og já, við þurfum að gera það, því þetta er okkar tími!

Þegar við heyrum frásagnir af miklum þjónum Guðs sem á undan okkur komu – eins og Móse, Maríu, Moróní, Alma, Ester, Jósef og mörgum öðrum – virðast þeir öllum mikilvægari. Þau voru þó ekki ólík okkur. Þau voru venjulegt fólk sem glímdi við áskoranir. Þau treystu Drottni. Þau tóku réttar ákvarðanir á mikilvægum augnablikum. Með trú á Jesú Kristi, framkvæmdu þau verkin sem krafist var á þeirra tíma.

Spámaðurinn Jósúa

Goodsalt

Íhugið söguhetjuna Jósúa í Gamla testamentinu. Hann var tryggur fylgjandi Móse, eins mesta leiðtoga sögunnar. Eftir að Móse lést var komið að Jósúa. Hann átti að leiða Ísraelsmenn til fyrirheitna landsins. Hvernig færi hann að því? Jósúa hafði fæðst og vaxið úr grasi í þrældómi í Egyptalandi. Hann átti enga handbók eða fræðslumyndbönd sér til aðstoðar. Hann átti ekki einu sinni snjallsíma! Það sem hann átti var fyrirheit Drottins:

„Ég mun vera með þér eins og ég var með Móse. Ég mun hvorki bregðast þér né yfirgefa þig.

Vertu djarfur og hughraustur“ (Jósúabók 1:5–6).

Þegar ég var nýr og reynslulítill í sveit hinna Sjötíu, fékk ég áríðandi símtal frá skrifstofu Æðsta forsætisráðsins, þar sem ég var beðinn að vera fulltrúi spámannsins og vitja tafarlaust pilts, sem var á sjúkrahúsi. Nafn piltsins var Zach. Hann var að búa sig undir trúboð, en hafði lent í slysi og var með alvarlega höfuðáverka.

Þegar ég ók til sjúkrahússins, fór hugur minn á flug. Í erindagjörðum spámannsins – ertu að grínast? Hverju mun ég standa frammi fyrir? Hvernig get ég liðsinnt þessum pilti? Hef ég nóga trú? Innileg bæn og vitneskjan um að ég hefði vald hins heilaga prestdæmis urðu haldreipi mitt.

Þegar ég kom, lá Zach í sjúkrarúmi. Sjúkraliði var tilbúinn til að þjóta með hann á skurðstofuna svo læknarnir gætu dregið úr þrýstingnum á heila hans. Ég horfði á tárvota móður hans og óttasleginn ungan vin standa nærri og vissi vel að Zach þyrfti á prestdæmisblessun að halda. Vinur hans hafði nýlega tekið við Melkísedeksprestdæminu, því bað ég hann um að hjálpa mér. Ég fann fyrir krafti prestdæmisins þegar við gáfum Zach blessun af auðmýkt. Þessu næst var hann drifinn í burtu til að gangast undir aðgerðina og friðsæl tilfinning staðfesti að frelsarinn myndi haga öllu eftir sinni visku.

Heilbrigðisstarfsfólkið tók enn eina röntgenmynd áður en fyrsti skurðurinn var gerður. Sér til undrunar uppgötvaði það að ekki væri þörf á skurðaðgerð.

Eftir mikla meðferð lærði Zach að ganga og tala aftur. Hann þjónaði í velheppnuðu trúboði og á nú fallega fjölskyldu.

Þetta er auðvitað ekki alltaf niðurstaðan. Ég hef veitt fleiri prestdæmisblessanir með sömu trú og Drottinn læknaði ekki til fullrar heilsu í þessu lífi. Við treystum tilgangi hans og látum honum eftir niðurstöðurnar. Við getum ekki alltaf valið afleiðingar gjörða okkar, en við getum valið að vera reiðubúin að framkvæma.

Mögulega biður Æðsta forsætisráðið ykkur aldrei að vera erindreki þeirra þegar líf er í hættu. Við erum þó öll kölluð til að gera lífsbreytandi hluti, sem fulltrúar Drottins. Hann mun ekki yfirgefa okkur. Þetta er okkar tími!

Pétur, aðalpostuli frelsarans, var í báti úti á sjó þegar hann sá Jesú ganga á vatninu. Hann vildi slást í för með honum og frelsarinn sagði: „Kom þú!“ Af hugdirfsku sté Pétur úr öryggi bátsins og gekk á undursamlegan hátt til móts við frelsarann. Þegar Pétur sá rokið, brast honum trú. „Hann [varð] hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: ‚Drottinn, bjarga þú mér!‘ Jesús rétti þegar út höndina [og] tók í hann.“ (Sjá Matteus 14:22–33.)

Jesús teygir sig

Á hvað einblínum við þegar stormar geisa í lífi okkar? Hafið hugfast að það eru alltaf til ein áreiðanleg upptök styrks og hugrekkis. Hendur Jesú eru útréttar til okkar, líkt og þær voru útréttar Pétri. Þegar við æskjum hans hjálpar, mun hann ástúðlega bjarga okkur. Við erum hans. Hann sagði: „Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn“ (Jesaja 43:1). Hann mun ríkja í lífi ykkar, ef þið leyfið honum það. Valið er ykkar. (Sjá Russell M. Nelson, „Lát Guð ríkja,“ aðalráðstefna, október 2020.)

Við ævilok sín, grátbað Jósúa fólk sitt: „Kjósið … í dag hverjum þið viljið þjóna … en ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni“ (Jósúa 24:15). Vegna ákvörðunar sinnar um að þjóna Drottni, varð Jósúa mikill leiðtogi á hans tíma. Kæru vinir, þetta er okkar tími! Ákvarðanir okkar munu ráða örlögum okkar (sjá Thomas S. Monson, „Decisions Determine Destiny“ [kvöldvaka í Brigham Young háskóla, 6. nóv. 2005], speeches.byu.edu).

Þegar ég þjónaði sem biskup, átti deildin okkar sér einkunnarorðin: Góðar ákvarðanir jafngilda gleði – eilíflega. Þegar unglingarnir gengu framhjá mér á ganginum, sögðu þeir: „Biskup, ég tek góðar ákvarðanir!“ Þetta er draumur hvers biskups!

Hvað er átt við með, „góðum ákvörðunum“? Eitt sinn spurði einhver Jesú: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Hann svaraði:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Matteus 22:36–39).

Ég veit ekki með ykkur, en þegar ég les þessi tvö æðstu boðorð, þá finnst mér þriðja boðorðið gefið í skyn: að elska ykkur sjálf.

Hafið þið nokkurn tíma hugsað um það sem boðorð, að elska ykkur sjálf? Getum við sannlega elskað Guð og börn hans ef við elskum ekki okkur sjálf?

Vitur leiðtogi leiðbeindi nýlega manni, sem reyndi að sigrast á margra ára slæmum ákvörðunum. Maðurinn skammaðist sín og efaðist um að hann væri verðugur elsku nokkurs.

Leiðtogi hans sagði við hann: „Drottinn þekkir þig, elskar þig og er glaður [með] þig og þau hugdjörfu skref sem þú tekur.“ Hann bætti svo við: „Þú þarft að heyra boðorðið að elska sjálfan þig, svo þú getir fundið fyrir elsku Guðs og elskað aðra.“

Þegar bróðirinn heyrði þessa leiðsögn leit hann líf sitt nýjum augum. Hann sagði síðar: „Ég hef varið öllu lífi mínu í leit að friði og viðurkenningu. Ég hef leitað þessa á mörgum röngum stöðum. Aðeins í elsku himnesks föður og frelsarans, finn ég huggun. Ég veit þeir vilja að ég elski sjálfan mig; í raun er það mín eina leið til að finna elsku þeirra til mín.“

Himneskur faðir okkar vill að við elskum sjálf okkur – ekki að við verðum dramblát eða sjálfselsk, heldur að við lítum á okkur á sama hátt og hann gerir: við erum kær börn hans. Þegar þessi sannleikur skýtur rótum djúpt í hjarta okkar, vex elska okkar til Guðs. Þegar við höfum einlæga sjálfsvirðingu er hjarta okkar opið fyrir því að koma líka fram við aðra á sama hátt. Því betur sem við þekkjum guðlegt verðmæti okkar, því betur fáum við skilið þennan guðlega sannleika: Guð hefur sent okkur hingað, einmitt núna, á þessum þýðingarmikla tíma í sögunni, svo við getum gert sem mest úr þeim hæfileikum sem við höfum. Þetta er okkar tími! (Sjá Russell M. Nelson, „Becoming True Millennials“ [heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 10. jan. 2016], broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.)

Joseph Smith kenndi að allir spámenn á öllum öldum hafi „horft með gleði og eftirvæntingu fram til okkar tíma; og … sungið, ritað og spáð um þennan tíma okkar; … [að við séum] útvalið fólk Guðs til að leiða fram dýrð síðari daga“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 183).

Þegar þið standið andspænis ykkar daglegu áskorunum, minnist þá hughreystingar öldungs Jeffreys R. Holland: „Það hvílir mikið á herðum okkar, en það verður dýrleg og árangursrík upplifun. … Sigurinn í þessari lokaorrustu hefur nú þegar verið ákveðin. Sigurinn er nú þegar í sögubókunum … , ritningunum!“ („Be Not Afraid, Only Believe“ [ræða flutt fyrir trúarkennara Fræðsludeildar kirkjunnar, 6. feb. 2015], broadcasts.ChurchofJesusChrist.org).

Þessa dásamlegu páskahelgi býð ég okkur öllum að biðja þess að þekkja og meðtaka hlutverk okkar, er við undirbúum okkur fyrir hinn dýrlega dag þegar frelsarinn kemur aftur. Drottinn elskar okkur meira en við fáum skilið og hann mun svara bænum okkar! Hvort sem við séum á ruðningsvelli, í sjúkrahússherbergi eða á öðrum stað, þá getum við verið mikilvægur hluti þessara markverðu atburða – vegna þess að þetta er okkar tími! Í nafni Jesú Krists, amen.