Aðalráðstefna
Keppa að markinu
Aðalráðstefna apríl 2021


Keppa að markinu

Það sem við glímum við í lífinu er síður mikilvægara en hvað úr okkur verður.

Þegar ég les í Postulasögunni og bréfum Páls, dáist ég að Páli, sem var drifinn áfram af elsku og þakklæti í þjónustu, kennslu og vitnisburði um Jesú Krist. Hvernig getur slíkur maður þjónað af slíkri elsku og þakklæti, einkum er við hugum að miklum þjáningum hans? Hvað hvatti Pál til þjónustu? „[Ég] keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.“1

Að keppa að markinu, er að sækja trúföst fram á hinum „krappa og þrönga vegi, sem liggur til eilífs lífs“2 með frelsara okkar og föður okkar á himnum. Páll leit á þjáningar sínar sem þær væru „ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur mun opinberast.“3 Bréf Páls til Filippímanna, sem hann skrifaði í fangelsi, er bréf yfirþyrmandi gleði og fagnaðar og hvatning til okkar allra, sérstaklega á þessum erfiðu óvissutímum. Við þurfum öll á hugrekki Páls að halda: „[Ég] met … allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp til þess að ég geti áunnið Krist.“4

Á meðan við lítum á þjónustu Páls, erum við hvött og upplyft af eigin „Pálum“ á okkar tíma, sem einnig þjóna, kenna og vitna af elsku og þakklæti, mitt í eigin áskorunum lífs síns og lífi ástvina sinna. Fyrir níu árum upplifði ég nokkuð, sem hjálpaði mér að skilja mikilvægi þess að keppa að markinu.

Árið 2012, er ég gekk í fyrsta skipti inn á leiðtogafund aðalráðstefnu, komst ég ekki hjá því að það þyrmdi yfir mig og ég fyndi til vanmáttar. Í huga mínum hljómaði rödd, sem sagði í sífellu: „Þú átt ekki heima hér! Gerð hafa verið alvarleg mistök!“ Þegar ég gekk um og reyndi að finna laust sæti, kom öldungur Jeffrey R. Holland auga á mig. Hann kom til mín og sagði: „Edward, það er gott að sjá þig hér,“ og klappaði mér blíðlega á vangann. Mér leið eins og ungabarni! Elska hans og faðmlag buðu mig velkominn og hjálpuðu mér að finna anda samkenndar, anda bræðralags. Næsta dag fylgdist ég með þegar öldungur Holland gerði slíkt hið sama og klappaði þáverandi öldungi Dallin H. Oaks, sem er honum starfsreyndari, blíðlega á vangann!

Á því augnabliki fann ég fyrir elsku Drottins, vegna mannanna sem við styðjum sem spámenn, sjáendur og opinberara. Öldungur Holland, með sínum góðhjörtuðu, eðlislægu gjörðum, hjálpaði mér að sigrast á sjálfhverfu minni og vanmáttartilfinningu. Hann hjálpaði mér að einbeita mér að hinu helga og gleðiríka verki, sem ég hafði verið kallaður til – að leiða sálir til Krists. Hann, líkt og Páll, benti mér á að keppa að markinu.

Reyndar brýnir Páll fyrir okkur að við sækjum fram á sama tíma og hann hvetur okkur til að gleyma því sem liðið er – það sem við óttuðumst, einblíndum á, mistök okkar og sorgir. Hann býður okkur, líkt og kær spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, „[nýja] og helgari leið.“5 Fyrirheit frelsarans er raunverulegt: „Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það.“6

Í fyrstu ráðstefnuræðu minni, miðlaði ég minningu af móður minni, er hún kenndi mér að vinna á akrinum. „Horfðu aldrei til baka,“ sagði hún. „Horfðu fram, á það sem við eigum enn eftir að gera.“7

Þegar það styttist í endalok lífs móður minnar og hún glímdi við krabbamein, bjó hún hjá Naume og mér. Kvöld eitt heyrði ég hana gráta í svefnherbergi sínu. Hún þjáðist mikið, jafnvel eftir að hafa tekið sinn síðasta daglega morfínskammt tveimur klukkustundum áður.

Ég gekk inn í herbergið hennar og grét með henni. Ég bað upphátt fyrir henni, að hún fengi tafarlaust líkn frá sársaukanum. Þá gerði hún það sama og hún hafði gert á akrinum fyrir mörgum árum: hún hætti og kenndi mér lexíu. Ég mun aldrei gleyma andliti hennar á þessu augnabliki: viðkvæmu, veiklulegu og kvöldu og starandi með samúð á syrgjandi son sinn. Hún brosti gegnum tárin, horfði beint í augu mín og sagði: „Það er ekki undir þér eða nokkrum öðrum komið, heldur Guði, hvort sársaukinn hverfi eða ekki.“

Ég settist hljóðlega upp. Hún settist líka hljóðlega upp. Minningin er enn skýr í huga mínum. Þetta kvöld, fyrir tilstilli móður minnar, kenndi Drottinn mér lexíu sem ég mun varðveita að eilífu. Þegar móðir mín lýsti yfir sátt sinni við vilja Guðs, mundi ég eftir ástæðu þess að Jesús Kristur þjáðist í Getsemanegarðinum og á krossinum á Golgata. Hann sagði: „Sjá, ég hef gefið yður fagnaðarerindi mitt, og þetta er fagnaðarerindið, sem ég hef gefið yður – að ég kom í heiminn til að gjöra vilja föður míns, vegna þess að faðir minn sendi mig.“8

Kristur í Getsemane

Ég velti fyrir mér spámannlegum spurningum okkar ástkæra spámanns, Nelsons forseta, á síðustu ráðstefnu. Nelson forseti spurði: „Ert þú fús til að láta Guð ríkja í lífi þínu? Ert þú fús til að láta Guð vera áhrifaríkastan alls í lífi þínu? Vilt þú leyfa að rödd hans sé … í forgangi alls annars metnaðar? Ert þú fús til að gefa eftir vilja þinn og láta innbyrðast í vilja hans?“9 Móðir mín hefði svarað með tilfinningaríku, en ákveðnu „jái“ og aðrir trúfastir meðlimir kirkjunnar um heiminn hefðu einnig svarað með tilfinningaríku, en ákveðnu „jái.“ Nelson forseti, takk fyrir að veita okkur innblástur og upplyftingu með þessum spurningum.

Nýlega átti ég samtal við biskup í Pretoríu, Suður-Afríku, sem hafði jarðsungið eiginkonu sína og fullorðna dóttur sama daginn. Líf þeirra tók enda vegna kórónaveirufaraldursins. Ég spurði hvernig honum vegnaði. Svar Teddys Thabethe biskups efldi mig í staðfestu við að fylgja orðum og ráðum spámanna, sjáenda og opinberara Drottins. Thabethe biskup svaraði að ávallt fælist von og huggun í vitneskjunni um að frelsarinn hafi sjálfur tekið á sig sársauka fólks síns, svo hann viti hvernig skuli liðsinna okkur.10 Með sterkri trú bar hann vitni: „Ég er þakklátur fyrir sáluhjálparáætlunina, sæluáætlunina.“ Hann spurði mig síðan: „Er þetta ekki það sem spámaðurinn reyndi að kenna okkur á síðustu ráðstefnu?“

Meðan áskoranir jarðlífsins leita okkur uppi á einn eða annan hátt, einblínum þá á markmið okkar að „[keppa] … að markinu,“ það er „verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur … kallað okkur til.“11

Auðmjúkt boð mitt til okkar allra er að gefast aldrei upp! Við erum kölluð til að „[létta] … af okkur allri byrði og viðloðandi synd og [þreyta] þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.“12

Það sem við glímum við í lífinu er síður mikilvægara en hvað úr okkur verður. Það felst gleði í því að keppa að markinu. Ég ber vitni um að sá sem sigraðist á öllu mun hjálpa okkur, er við lítum upp til hans. Í nafni Jesú Krists, amen.