Aðalráðstefna
Hjörtu tengd böndum
Aðalráðstefna apríl 2021


Hjörtu tengd böndum

Þegar þið auðsýnið vingjarnleika, umönnun og samúð, lofa ég ykkur að þið munið lyfta máttvana örmum og græða hjörtu.

Aðfaraorð

Er ekki heillandi að uppgötvanir í vísindum eru stundum innblásnar af einföldum atburðum, eins og þegar epli fellur úr tré?

Leyfið mér í dag að segja frá uppgötvun sem átti sér stað vegna úrtakshóps kanína.

Á áttunda áratugnum gerðu rannsóknarmenn tilraun til að kanna áhrif næringar á hjartaheilbrigði. Í fáeina mánuði gáfu þeir úrtakshópi kanína fituríkan mat og skráðu blóðþrýsting, hjartaslög og kólesterólmagn.

Eins og vænta mátti, fóru margar kanínur að safna fitu á innanverðum æðum. Þetta var þó ekki allt! Rannsókarmenn höfðu uppgötvað svolítið sem ekkert vit var í. Þótt allar kanínurnar höfðu safnað fitu, var einn hópur, þótt undarlegt sé, með 60 prósent minni fitu en hinar. Svo virtist sem þeir væru að horfa á tvo mismunandi hópa af kanínum.

Vísindamenn geta misst úr svefn út af slíkri niðurstöðu. Hvernig gat þetta átt sér stað? Kanínurnar voru allar af sömu kynblöndu frá Nýja Sjálandi, hér um bil með sama genamengi. Allar höfðu þær fengið jafnan skammt af sömu fæðunni.

Hvað merkir þetta?

Gerðu niðurstöður rannsóknina ómarktæka? Voru gallar á framkvæmd tilraunarinnar?

Vísindamennirnir reyndu að skilja þessa óvæntu niðurstöðu!

Að lokum sneru þeir athyglinni að rannsóknarteyminu. Var mögulegt að rannsakendur hafi gert eitthvað sem hafði áhrif á niðurstöðuna? Þegar þeir grennsluðust fyrir um þetta, uppgötvuðu þeir að allar kanínur með minni fitu höfðu verið í umsjá eins rannsakanda. Hún hafði gefið kanínunum sömu fæðu og allir hinir. En, eins og einn vísindamaðurinn skráði: „Hún var óvenjulega ljúf og nærgætin manneskja.“ Þegar hún gaf kanínunum að éta „talaði hún við þær, tók þær í fangið og strauk þeim. … ‚Hún gat ekki að því gert. Hún bara var þannig manneskja.‘“1

Rannsóknarmanneskja sem var góð við kanínur.

Hún gerði meira en bara að gefa kanínunum fæðu. Hún sýndi þeim kærleika!

Í fyrstu virtist ólíklegt að þetta væri ástæðan fyrir þessum mikla mun, en rannsóknarteymið kom ekki auga á neinn annan möguleika.

Þeir endurtóku því tilraunina – að þessu sinni fylgdust þeir með sérhverjum breytileika. Þegar þeir greindu niðurstöður, gerðist það sama! Kanínurnar í umsjá hinnar kærleiksríku rannsóknarkonu voru merkjanlega heilbrigðari.

Vísindamennirnir birtu niðurstöður þessarar rannsóknar í hinu virta tímariti Science.2

Árum síðar eru niðurstöður þessarar tilraunar enn áhrifavaldur innan læknasamfélagsins. Nýlega gaf Kelli Harding læknir út bók sem heitir The Rabbit Effect, sem dregur nafn af tilrauninni. Niðurstaða hennar: „Fáðu þér kanínu með óheilbrigðan lífstíl. Talaðu við hana. Haltu á henni. Veittu henni alúð. … Sambandið gerir gæfumuninn. … Að lokum,“ sagði hún: „Það sem hefur hvað mest áhrif á heilsu okkar, hefur jafn mikið að gera með það hvernig við komum fram við hvert annað, hvernig við lifum og hvað við álítum að felist í því að vera manneskja.“3

Í veraldlegum heimi virðast brýr á milli vísindanna og sannleika fagnaðarerindisins vera fáar og langt á milli þeirra. Sem kristið fólk, fylgjendur Jesú Krists, Síðari daga heilagir, virðist niðurstaða þessarar vísindarannsóknar þó vekja meira innsæi en furðu. Mér finnst hún leggja enn ein stein í undirstöðu vingjarnleika, sem mikilvæga og græðandi reglu fagnaðarerindisins – sem megnar að lækna hjörtu tilfinningalega, andlega og, eins og sýnt var fram á, jafnvel líkamlega.

Hjörtu tengd böndum

Þegar frelsarinn var spurður: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ svaraði hann: „Elska skalt þú Drottinn, Guð, af öllu hjarta þínu.“ Þessu fylgdi: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“4 Svar frelsarans styrkir himneska skyldu okkar. Fornir spámenn buðu að „engar deilur skyldu vera [okkar] á milli, heldur [skyldum við] horfa fram á við einhuga, í einni trú, í einni skírn, og hjörtu [okkar] skyldu tengd böndum einingar og elsku hver til annars.“5 Ritningarnar kenna ennfremur að „valdi eða áhrifum … ætti að beita … með umburðarlyndi, með mildi, … án flærðar.“6

Ég trúi að þessi regla hafi almennt gildi fyrir alla Síðari daga heilaga; fullorðna, unglinga og börn.

Með þetta í huga, vil ég stundarkorn tala beint til ykkar, sem eruð á Barnafélagsaldri.

Þið vitið nú þegar hve mikilvægt það er að vera vingjarnlegur. Viðlag sálmsins „Mig langar að líkjast Jesú“ í Barnasöngbókinni kennir:

Elskum hver annan sem elskaði hann,

iðkandi vinsemd við hvern og einn mann,

og vinnum af alúð að velferð hvers manns,

því þetta var kenningin hans.7

Samt sem áður er þetta stundum erfitt. Hér er saga um Barnafélagsdreng að nafni Minchan Kim frá Suður-Kóreu, sem gæti hjálpað ykkur. Fjölskylda hans gekk í kirkjuna fyrir rétt um sex árum.

Minchan Kim

„Dag einn í skólanum voru nokkur skólasystkin mín að gera grín að öðrum nemanda með því að uppnefna hann. Það virtist gaman, svo að ég tók þátt í þessu í fáeinar vikur.

Nokkrum vikum síðar sagði drengurinn mér, þótt hann léti sem honum væri sama, að hann væri djúpt særður af orðum okkar og að hann gréti allar nætur. Ég grét næstum því er hann sagði þetta. Mér þótti þetta mjög leitt og vildi hjálpa honum. Daginn eftir fór ég til hans, setti handlegg yfir axlir hans og baðst afsökunar: ‚Mér þykir leitt að ég skyldi hafa gert grín að þér.‘ Hann kinkaði kolli við orð mín og augu hans fylltust tárum.

Hinir krakkarnir voru þó enn að gera grín að honum. Ég mundi síðan hvað ég hafði lært í Barnafélaginu: Að velja hið rétta. Ég bað því bekkjarsystkinin að hætta þessu. Flest þeirra ákváðu að hætta ekki og voru mér reið. En einn drengjanna sagði að honum þætti þetta leitt og við þrír urðum góðir vinir.

Þótt fáeinir gerðu enn grín að honum, leið honum betur, því hann átti okkur að.

Ég vel hið rétta með því að hjálpa vini í nauð.“8

Mynd af Minchan Kim

Er þetta fordæmi ekki gott fyrir ykkur til að reyna að líkjast Jesú?

Til ykkar, piltar og stúlkur: Það getur verið hættulegt að gera grín að öðrum er þið vaxið úr grasi. Kvíði, þunglyndi og ýmislegt verra eru oft fylgifiskar eineltis. „Þótt einelti sé ekki nýtt af nálinni, þá hafa samfélagsmiðlar og tæknin farið með það enn lengra. Það er orðið stöðugra, sífelld ógnun – neteinelti.“9

Andstæðingurinn er greinilega að nota þetta til að skaða þessa kynslóð. Ekkert rúm er fyrir slíkt í netheimi ykkar, hverfum, skólum, sveitum eða bekkjum. Vinsamlega gerið allt sem þið getið til að gera slíka staði vinalegri og öruggari. Ef þið fylgist með eða takið þátt í einhverju af þessu, veit ég ekki um betra ráð, en öldungur Dieter F. Uchtdorf hefur áður gefið:

„Sé um að ræða óvild, baktal, hunsun, háðung, kala eða tilhneigingu til að skaða, gerið þá vinsamlega eftirfarandi:

Hættið strax!“10

Heyrðuð þið þetta? Hættið strax! Þegar þið auðsýnið vingjarnleika, umönnun og samúð, jafnvel rafrænt, lofa ég ykkur því að þið munið lyfta máttvana örmum og græða hjörtu.

Eftir að hafa talað við börn í Barnafélaginu og til ungmennanna, vil ég nú beina máli mínu til hinna fullorðnu í kirkjunni. Frumskylda okkar er að gefa tóninn og vera fyrirmynd að vingjarnleika, hæversku og að taka öllum opnum örmum – stöðugt að kenna upprennandi kynslóð kristilega hegðun með því sem við segjum og gerum. Þetta er sérlega áríðandi er við sjáum skýr merki í samfélaginu um stjórnmálalega aðgreiningu, stéttaskiptingu og nær alla aðra manngerða mismunun.

M. Russell Ballard forseti hefur einnig kennt að Síðari daga heilagir ættu ekki aðeins að vera vingjarnlegir við hver annan, heldur einnig við alla umhverfis. Hann sagði: „Fyrir kemur að ég heyri um trúsystkin sem hafa misboðið þeim sem eru annarrar trúar með því að líta fram hjá þeim og sniðganga þá. Þetta gerist einkum í samfélögum þar sem kirkjuþegnar okkar eru í meirihluta. Ég hef heyrt um þröngsýna foreldra sem banna börnum sínum að leika við ákveðið barn í nágrenninu, einfaldlega vegna þess að fjölskylda þess tilheyrir ekki kirkju okkar. Slík hegðun er ekki í samræmi við kenningar Drottins Jesú Krists. Ég fæ ekki skilið hvers vegna nokkur í kirkju okkar leyfir slíku að gerast. Ég hef aldrei heyrt að meðlimir þessarar kirkju væru hvattir til neins annars en að sýna vinum sínum og nágrönnum, sem eru annarrar trúar, kærleika, góðvild, umburðarlyndi og velvild.“11

Drottinn væntir þess að við kennum að það sé jákvætt fyrir einingu að allir séu kærkomnir og að sniðganga leiði til sundrungar.

Okkur, sem fylgjendum Jesú Krists, er miðboðið er við heyrum hvernig illa er farið með börn Guðs sökum kynþáttar þeirra. Við höfum verið miður okkar að heyra um nýlegar árásir á fólk sem er svart, asískt, rómanskt, amerískt eða tilheyrir öðrum hópum. Fordómar, kynþáttaerjur eða ofbeldi ættu aldrei að eiga sér stað í nágrenni okkar, samfélagi eða kirkjunni.

Við skulum gera okkar besta, sama á hvaða aldri við erum.

Elskið óvini ykkar

Þótt við leitumst við að sýna öðrum kærleika, virðingu og góðvild, munið þið eflaust verða særð eða fyrir neikvæðum áhrifum af slæmum ákvörðunum annarra. Hvað gerum við þá? Við fylgjum áminningum Drottins um að „[elska] óvini yðar … og [biðja] fyrir þeim, er misþyrma yður.“12

Við gerum síðan allt sem við getum til að sigrast á mótlætinu sem á vegi okkar verður. Við kappkostum að standast allt til enda, að biðja stöðugt um að hönd Drottins megi breyta kringumstæðum okkar. Við þökkum fyrir þá sem hann leiðir til okkar, okkur til aðstoðar.

Kraftaverk í Quincy, Illinois

Ég er hrærður yfir slíku dæmi úr sögu kirkjunnar frá fyrri tíð. Veturinn 1838, voru Joseph Smith og aðrir kirkjuleiðtogar í varðhaldi í Liberty fangelsinu meðan hinir Síðari daga heilögu voru hraktir með nauðung frá heimilum sínum í Missouri-fylki. Hinir heilögu voru bjargarlausir, vinalausir og þjáðust sárlega vegna kulda og skorts. Íbúar bæjarins Quincy í Illinois urðu varir við örvæntingu þeirra og sýndu þeim samúð og vináttu.

Wandle Mace, íbúi í Quincy, minntist síðar er hann fyrst sá hina heilögu í bráðabirgðatjöldum við Mississippi-fljótið: „Sumir breiddu út lök til að fá betra skjól fyrir vindinum, … og börnin voru skjálfandi umhverfis varðeld sem vindurinn feiktist um, svo að það hjálpaði ekki mikið. Hinir fátæku heilögu þjáðust hræðilega.“13

Er íbúar Quincy sáu þjáningar hinna heilögu, sameinuðust þeir um að hjálpa, jafnvel með því að aðstoða hina nýju vini sína með því að ferja þá yfir fljótið. Mace hélt áfram: „[Þeir] gáfu frjálslega; kaupmennirnir slógust sín á milli um hver gæti gefið mest … af … svínakjöti, … sykri, … skóm og fatnaði, öllu sem þessum fátæku útlögum höfðu svo mikla þörf fyrir.“14 Áður en langt um leið var flóttafólkið orðið fjölmennara en íbúar Quincy, sem opnuðu heimili sín og gáfu af eigin fátækt við miklar persónulegar fórnir.“15

Margir hinna heilögu lifðu þennan harða vetur af aðeins vegna samúðar og gjafmildi íbúanna í Quincy. Þessir jarðnesku englar opnuðu hjörtu sín og heimili, veittu lífsbjörg, yl og – ef til vill það sem mest er um vert – réttu hinum þjáðu heilögu vinarhönd. Þótt dvöl þeirra í Quincy væri tiltölulega skammvin, gleymdu hinir heilögu aldrei þakkarskuld sinni við hina kæru nágranna sína og Quincy varð þekkt sem „griðarstaður.“16

Þegar mótlæti og þjáningar dynja yfir okkur sökum gagnrýni, neikvæðni og jafnvel illvirkja annarra, getum við kosið að vona á Krist. Von þessi á rætur í boði hans og fyrirheiti um að „[vera vonglöð, því að hann mun leiða okkur]“17 og að hann mun helga þrengingar okkar okkur til góðs.18

Góði hirðirinn

Við skulum ljúka þar sem við byrjuðum: á hinum miskunnsama umönnunaraðili, sem sýndi góðvild í anda umhyggju, og óvæntri niðurstöðu – græðandi hjörtu dýra sem hún hafði umsjón með. Af hverju? Því hún bara var þannig manneskja!

Er við lítum í gegnum sjóngler fagnaðarerindisins, sjáum við að við erum einnig í umönnun samúðarfulls gefanda, sem gefur af góðvild og nærandi anda. Góði hirðirinn þekkir hvert okkar með nafni og „hefur persónulegan áhuga á okkur.“19 Drottinn Jesús Kristur sagði sjálfur: „Ég er góði hirðirinn og þekki mína sauði. … Ég [vil leggja] líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.“20

Finna týnda lambið

Á þessari páskahelgi finn ég varanlegan frið í því að vita að „Drottinn er minn hirðir“21 og að hann þekkir og annast sérhvert okkar af gæsku. Þegar við glímum við vind og regn, sjúkdóma og meiðsli, mun Drottinn – hirðir okkar og umönnunaraðili – liðsinna okkur af kærleik og góðvild. Hann mun græða hjörtu okkar og lífga sál okkar.

Um þetta ber ég vitni – og um Jesú Krist sem frelsara okkar og lausnara – í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Kelli Harding, The Rabbit Effect (2019), xxiii–xxiv.

  2. Sjá Robert M. Nerem, Murina J. Levesque og J. Frederick Cornhill, „Social Environment as a Factor in Diet-Induced Atherosclerosis,“ Science, útg. 208, nr. 4451 (27. júní 1980), 1475–76.

  3. Harding, The Rabbit Effect, xxiv, xxv.

  4. Sjá Matteus 22:36–39.

  5. Mósía 18:21; skáletrað hér.

  6. Kenning og sáttmálar 121:41–42.

  7. „Mig langar að líkjast Jesú,“ Barnasöngbókin, 40.

  8. Tekið úr Minchan K., „The Apology,“ Friend, jan. 2020, 35.

  9. Frances Dalomba, „Social Media: The Good, the Bad, and the Ugly,“ Lifespan, lifespan.org.

  10. Dieter F. Uchtdorf, „Hinum miskunnsama mun miskunnað verða,“ aðalráðstefna, apríl 2012.

  11. M. Russell Ballard, „Kenningin um að taka öllum jafnt,“ aðalráðstefna, október 2002.

  12. Lúkas 6:27–28.

  13. Wandle Mace autobiography, um 1890, ritsett, 32–33, Church History Library, Salt Lake City.

  14. Wandle Mace, ævisaga, 33; stafsetning færð í nútímahorf.

  15. Sjá Richard E. Bennett, „,Quincy—the Home of Our Adoptionð‘: A Study of the Mormons in Quincy, Illinois, 1838–40,“ Mormon Historical Studies, bindi 2, nr. 1 (Spring 2001), 110–11.

  16. Sjá Susan Easton Black, „Quincy–A City of Refuge,“ Mormon Historical Studies, bindi 2, nr. 1 (Spring 2001), 83–94.

  17. Kenning og sáttmálar 78:18.

  18. Sjá 2. Nefí 2:2.

  19. Sjá James E. Talmage, Jesus the Christ (1916), 417.

  20. Jóhannes 10:14, 15.

  21. Sálmarnir 23:1.