Kom, fylg mér 2024
6.–12. maí: „Með Drottins styrk.“ Mósía 7–10


„Mósía 6–12: ‚Með Drottins styrk.‘ Mósía 7–10,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„6.–12. maí. Mósía 7–10,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ammon kennir Limí konungi

Minerva Teichert (1888–1976), Ammon frammi fyrir Limí konungi, 1949–1951, olía á masonítplötu, 35 15/16 x 48 tommur. Listasafn Brigham Young-háskóla, 1969.

6.–12. maí: „Með Drottins styrk“

Mósía 7–10

Meðan fólk Mósía konungs hafði „óslitið notið friðar“ í Sarahemla (Mósía 7:1), tók það að hugsa um annan hóp Nefíta, sem fyrir mörgum árum hafði farið í burtu til dvalar í Lehí–Nefílandi. Kynslóðir höfðu liðið og fólk Mósía hafði ekkert frá þeim heyrt. Mósía bað því Ammon að vera í forsvari leitarhóps til að finna Nefítana sem farið höfðu. Leitarhópurinn uppgötvaði að þessir Nefítar væru í ánauð Lamanítanna „vegna misgjörða“ (Mósía 7:24). Koma Ammons og bræðra hans veitti þó skyndilega nýja von um björgun.

Stundum erum við þjökuð af synd, líkt og þessir nefísku þrælar, og veltum fyrir okkur hvort við munum nokkurn tíma finna frið aftur. Stundum erum við eins og Ammon, finnum hvatningu til að liðsinna öðrum og komumst svo að því að viðleitni okkar hefur innblásið þá til að „[lyfta höfði, fagna og treysta Guði]“ (Mósía 7:19). Burtséð frá aðstæðum okkar, þá þurfum við öll að iðrast og „[snúa] til Drottins með einlægum ásetningi“ og trúa að „[hann muni leysa okkur]“ (Mósía 7:33).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Mósía 7:14–33

Jesús Kristur hefur kraftinn til að frelsa mig.

Vonarneisti vaknaði hjá Limí konungi þegar hann hitti Ammon og hann vildi vekja fólki sínu þessa sömu von. Þessi orð geta ef til vill líka vakið ykkur von. Fyrir samhengið, íhugið þá að rifja upp aðstæður fólks Limís konungs í Mósía 7:20–25. Hugleiðið þessar spurningar við lestur Mósía 7:14–33:

  • Hvað sagði Limí til að styrkja trú og von fólks síns?

  • Hvaða orðtök hjálpa ykkur að finna von? (sjá vers 19, 33).

  • Hvaða upplifanir hafa hjálpað ykkur að reiða ykkur á að Guð getur og mun koma ykkur til bjargar?

Sjá einnig „Nú Ísraels lausnari,“ Sálmar, nr. 26.

Mósía 7:26–27

Ég var skapaður/sköpuð „í Guðs mynd.“

Í Mósía 7:26–27 útskýrði Limí nokkur þeirra sanninda sem Abinadí kenndi. Hvaða sannindi getið þið borið kennsl á í þessum versum? Hvernig hafa þessi sannindi áhrif á það hvernig þið sjáið Guð og ykkur sjálf?

Sjá einnig Russell M. Nelson, „Your Body: A Magnificent Gift to Cherish,“ Liahona, ágúst 2019, 50–55.

Mósía 8:13–19

trúarskólatákn
Drottinn sér mannkyni fyrir spámönnum, sjáendum og opinberurum því til farsældar.

Þegar Limí hlýddi á vitnisburð Ammons um að Drottinn hefði vakið upp sjáanda, þá „gladdist [Limí] ákaft [og] færði Guði þakkir“ (Mósía 8:19). Af hverju haldið þið að honum hafi liðið þannig? Hvað lærið þið af orðum Ammons um sjáendur í Mósía 8:13–19?

Á okkar tíma styðjum við meðlimi Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar sem spámenn, sjáendur og opinberara. Hvernig hafa þeir orðið ykkur „að miklu liði“? (Mósía 8:18). Hvað hafa þeir kennt ykkur um Jesú Krist?

Hvernig getið þið, eins og Ammon gerði, talað djarflega um þörfina fyrir spámenn, sjáendur og opinberara? (sjá Mósía 8:13–18). Hverju gætuð þið t.d. miðlað fjölskyldu ykkar eða á samfélagsmiðlum um:

  • Sannleika sem hefur verið endurreistur á okkar tíma af Joseph Smith og öðrum spámönnum Drottins (svo sem eðli Guðs, guðlega sjálfsmynd okkar eða eilífan sannleika um fjölskylduna). Upprifjun á „Endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists“ eða „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ (Gospel Library) gæti hjálpað ykkur að hugsa um einhver þessara sanninda.

  • Blessanir boðorða eða helgiathafna (svo sem Vísdómsorðsins, skírlífislögmálsins eða innsiglun fjölskyldna).

Í síðasta mánuði hlýddum við á spámenn, sjáendur og opinberara á aðalráðstefnu. Hvaða boðskapur innblés ykkur? Hvað mynduð þið gera öðruvísi, byggt á því sem þið lærðuð? Hvað sögðu sjáendur Drottins um „óorðna hluti“? (Mósía 8:17).

Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Spámenn,“ Gospel Library.

Mósía 9–10

Ég get tekist á við áskoranir mínar „með Drottins styrk.“

Seniff viðurkenndi að mistök hans hefðu komið fólki hans í erfiðar aðstæður. Þegar hann hins vegar fór síðar til orrustu við Lamanítana, hjálpaði hann fólki sínu að takast á við áskoranir sínar í trú á Drottin. Þegar þið lesið Mósía 9–10, gætið þá að því sem fólk Seniffs gerði til að sýna trú. Hvernig styrkti Guð fólkið? Hvernig hefur hann styrkt ykkur? Hver finnst ykkur vera merking þess að sækja fram „með Drottins styrk“? (Mósía 9:17; 10:10–11).

Mósía 10:11–17

Ákvarðanir mínar geta haft áhrif á kynslóðir.

Þegar þið lesið Mósía 10:11–17, berið þá kennsl á það hvernig breytni og viðhorf fyrri kynslóða Lamaníta hafði áhrif á síðari kynslóðir. Hvernig geta ákvarðanir ykkar haft áhrif á aðra, samkvæmt þessu – til góðs eða ills – og líka fólk sem enn er ekki fætt?

Hafið sýnikennslu. Sýnikennsla gerir námið skemmtilegt og minnisstætt. Röð af dómínókubbum gæti sýnt hvernig ákvarðanir fólk geta haft áhrif á afkomendur þess (sjá Mósía 10:11–17).

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Mósía 7:19

Guð hjálpaði fólki í ritningunum og hann getur hjálpað mér.

  • Limí konungur miðlaði ritningarversum til að styrkja trú fólks síns þegar það átti í erfiðleikum. Spyrjið börn ykkar um ritningarsögur eða einstaklinga sem hafa hjálpað þeim að sýna trú. Þið gætuð síðan lesið Mósía 7:19 fyrir þau og rifjað upp sögurnar sem getið er um í þessu versi (sjá „Páskahátíð Gyðinga“ og „Ísraelsmenn í eyðimörkinni“ í Sögur úr Gamla testamentinu). Börn ykkar myndu ef til vill vilja leika þær. Hvernig hjálpaði Drottinn fólkinu í þessum sögum? Hvernig getur hann hjálpað okkur?

  • Fyrir dæmi um það hvernig Drottinn hjálpar okkur, getið þið valið nokkur vers í „Sögur Mormónsbókar“ eða „Nefí hinn hugrakki“ (Barnasöngbókin, 62 og 64) til að syngja með börnum ykkar. Hjálpið þeim að bera kennsl á það hvernig Drottinn hjálpaði fólki í Mormónsbók – og hvernig hann getur hjálpað okkur.

Mósía 8:16–18

Guð hefur séð okkur fyrir spámönnum, sjáendum og opinberurum.

  • Ein leið til að kenna um sjáendur er að líkja þeim við það sem hjálpar okkur að sjá betur, eins og gleraugu, sjónauka eða smásjá. Þegar þið síðan lesið Mósía 8:17 fyrir börn ykkar, gætu þau sett hendur fyrir augu eins og þau væru að horfa í gegnum sjónauka í hvert sinn sem þau heyra orðið „sjáandi“ (sjá einnig HDP Móse 6:35–36). Ræðið við þau um það sem Drottinn hjálpar spámönnum að „sjá,“ sem við getum ekki séð. Hvaða hafa spámenn eða sjáendur, eins og Joseph Smith, opinberað okkur?

  • Eftir að hafa lesið Mósía 8:16–18 með börnum ykkar, gætuð þið hjálpað þeim að íhuga hvernig ljúka mætti setningu eins og Sjáandi er eins og … sem hjálpar okkur að … . Dæmi: Sjáandi er eins og umferðarskilti sem vísar okkur til Jesú.

  • Þið gætuð líka búið til fótspor úr pappír og boðið börnum ykkar að teikna myndir á þau af því sem spámenn, sjáendur og opinberarar hafa hvatt okkur til að gera. Látið fótsporin mynda veg í herberginu og látið börn ykkar ganga eftir fótsporunum. Hvernig getur sjáandi orðið okkur „að miklu liði“? (sjá Mósía 8:17–18).

Mósía 9:14–18; 10:10–11

Þegar ég er veikburða getur Drottinn styrkt mig.

  • Þegar börn standa frammi fyrir áskorunum, finnst þeim stundum að þau séu veikburða og hjálparvana. Hvernig munið þið hjálpa börnum ykkar að reiða sig á styrk Drottins? Þið gætuð spurt þau að því hvað við gerum til að hljóta líkamlegan styrk. Hver er merking þess að vera „mannlegs máttar“? (sjá Mósía 10:11). Hver er merking þess að hafa „Drottins styrk“? (sjá Mósía 9:17–18; 10:10). Hvernig hljótum við styrk Drottins? Börn ykkar gætu teiknað mynd af því sem hjálpar þeim að hljóta styrk Drottins.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Joseph Smith með Moróní

Sýn veitist Joseph Smith, eftir Clark Kelley Price