„29. apríl–5. maí: ,Mikil breyting.‘ Mósía 4–6,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)
„29. apríl–5. maí. Mósía 4–6,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)
29. apríl–5. maí: „Mikil breyting“
Mósía 4–6
Hafið þið einhvern tíma hlýtt á einhvern tala og fundið hvatningu til að breyta eigin lífi? Ef til vill hafið þið ákveðið að haga lífi ykkar aðeins öðruvísi sökum þess sem þið heyrðuð – eða jafnvel allt öðruvísi. Prédikun Benjamíns konungs var af því taginu og sannleikurinn sem hann kenndi hafði þess konar áhrif á fólkið sem heyrði hann mæla. Benjamín konungur miðlaði fólki sínu því sem engill Drottins hafði kennt honum – að dásamlegar blessanir væru mögulegar með „friðþægingarblóði Krists“ (Mósía 4:2). Vegna boðskapar hans, breyttist viðhorf þess til sjálfs sín (sjá Mósía 4:2), andinn breytti þrá þess (sjá Mósía 5:2) og það gerði sáttmála við Guð um að gera ætíð vilja hans (sjá Mósía 5:5). Á þennan hátt höfðu orð Benjamíns konungs áhrif á fólkið hans. Hvaða áhrif hafa þau á ykkur?
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Ég get hlotið og notið fyrirgefningar synda minna fyrir tilverknað Jesú Krists.
Þið gætuð stundum átt í basli með að viðhalda þeirri tilfinningu að hafa hlotið fyrirgefningu syndanna og vera á vegi réttlætis. Benjamín konungur kenndi fólki sínu bæði hvernig öðlast á fyrirgefningu synda og njóta hennar. Þegar þið lærið kapítula 4 í Mósía, íhugið þá að spyrja spurninga eins og þessara:
-
Vers 1–8.Með hvaða skilyrðum veitir Guð fyrirgefningu synda ykkar? Hvað lærið þið um hann í þessum versum sem hvetur ykkur til iðrunar? Hvernig getið þið vitað að þið hafið iðrast?
-
Vers 11–16.Hvað gerist í lífi okkar, samkvæmt þessum versum, ef við gerum það sem greint er frá í versi 11? Hvernig hafið þið eða einhver sem þið elskið upplifað slíkar breytingar? Berið þessar breytingar saman við breytingarnar sem greint er frá í Mósía 3:19.
-
Vers 16–30.Hvernig gæti það að miðla öðrum því sem þið eigið hjálpað ykkur að öðlast fyrirgefningu synda ykkar? Hvernig getið þið tileinkað ykkur vers 27 til að verða kristilegri?
Á hvaða hátt erum við öll beiningamenn? Hvernig ber okkur að koma fram við öll börn Guðs samkvæmt þessum versum? (sjá Mósía 4:26). Hver þarfnast liðsinnis ykkar?
Sjá einnig Becky Craven, „Eiga mismuninn,“ aðalráðstefna, október 2020.
Ég trúi á og set traust mitt á Guð.
Boð Benjamíns konungs um að trúa á og treysta Guði er jafn mikilvægt á okkar tíma eins og í fornöld. Þegar þið lesið Mósía 4:5–10, gætið þá að sannleika um Guð sem gefur ykkur ástæðu til að treysta honum. Gætið að boðunum sem Benjamín konungur kemur fram með í versi 10. Af hverju er auðveldara að gera það sem Benjamín konungur býður, ef við treystum Guði?
Íhugið að kanna sum þessara viðbótarversa til að skrá eiginleika Guðs: Jeremía 32:17; 1. Jóhannesarbréf 4:8; 2. Nefí 9:17; Alma 32:22; Mormón 9:9; Eter 3:12; Kenning og sáttmálar 19:1–3; 88:41 (sjá einnig myndbandið „Christlike Attributes,“ Gospel Library). Þið gætuð notað það sem þið skráðuð til að koma fram með hinar ýmsu leiðir til að ljúka setningu eins og þessari: „Vegna þess að ég veit að Guð er , get ég treyst honum til að .“
Traust okkar á Guði styrkist er við eigum upplifanir með honum. Hvað hjálpaði fólki Benjamíns konungs í Mósía 4:1–3 að „öðlast vitneskju um gæsku Guðs“? (vers 6). Íhugið þær upplifanir sem þið hafið átt með Guði. Hvað hafa þessar upplifanir kennt ykkur um hann? Hvaða skref takið þið (eða gætuð þið tekið) til að styrkja trú ykkar og traust á Guði?
Sjá einnig Jeffrey R. Holland, „Göfgi Guðs,“ aðalráðstefna, október 2003; Leiðarvísir að ritningunum „Guð faðirinn,“ Gospel Library; „Ég veit að Guð er til,“ Sálmar, nr. 114.
Ég verð að gæta að hugsunum mínum, orðum og gjörðum.
Guð lætur okkur ekki í té lista yfir alla hugsanlega synd. Hvað gerir hann þess í stað, samkvæmt Mósía 4:29–30? Hugleiðið hvernig hugsanir ykkar, orð og gjörðir hafa áhrif á ykkur sjálf og aðra. Hvernig hefur þetta áhrif á samband ykkar við Guð? Hvernig getið þið „gætt ykkar“?
Andi Drottins getur valdið mikilli breytingu í hjarta mínu.
Algengt er að fólk segi: „Ég get ekki breyst. Ég er bara svona.“ Upplifun fólks Benjamíns konungs sýnir okkur þvert á móti hvernig andi Drottins getur sannlega breytt hjarta okkar. Þegar þið lesið Mósía 5:1–5, íhugið þá hvernig hin „[mikla breyting]“ hefur leitt til sannra trúskipta ykkar sjálfra – eða getur leitt til þeirra. Hugleiðið breytingarnar sem gerast smám saman sem og hinar „miklu“ upplifanir. Hvernig hjálpa þessar upplifanir ykkur þegar þið takist á við freistingu?
Sjá einnig Esekíel 36:26–27; Alma 5:14; „A Change of Heart,“ „The People of King Benjamin Make a Covenant“ (myndbönd), Gospel Library.
Ég tek á mig nafn Krists þegar ég geri sáttmála við hann.
Hvað lærið þið af Mósía 5:7–9 um merkingu þess að taka á sig nafn Krists? Hvað kenna sakramentisbænirnar (sjá Moróní 4–5) um þetta? Hvernig getið þið sýnt að þið „heyrið til“ frelsara okkar?
Sjá einnig D. Todd Christofferson, „Hvers vegna sáttmálsvegurinn,“ aðalráðstefna, apríl 2021.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Iðrun færir gleði.
-
Til að kenna um gleði iðrunar, gætuð þið ef til vill látið börn ykkar gera hendur sínar klístraðar eða óhreinar og gætt að því hvernig þeim líður eftir að hafa þvegið þær. Þið gætuð síðan borið það saman við það hvernig fólkinu í Mósía 4:1–3 leið fyrir og eftir að syndir þess voru fyrirgefnar. Gefið vitnisburð ykkar um kraft frelsarans til að hreinsa okkur andlega.
-
Vita börn ykkar hvernig á að iðrast fyllilega og einlæglega? Hjálpið þeim að finna það sem fólk Benjamíns konungs gerði í Mósía 4:1–3, 10. Þau gætu líka rifjað upp „Iðrast, iðrun“ í Leiðarvísi að ritningunum. Hvernig gerir frelsarinn iðrun mögulega?
Fagnaðarerindi Jesú Krists hvetur mig til að sýna öðrum elsku og góðvild.
-
Það vekur góðar tilfinningar að þjóna öðrum. Börn ykkar gætu ef til vill sagt frá atviki þar sem þau elskuðu eða þjónuðu einhverjum og hvaða tilfinningar sú upplifun vakti. Hverjar eru sumar ástæður fyrir því að fólk gæti ekki viljað þjóna öðrum? Hvað gætum við sagt við einhvern til að bjóða þeim að hjálpa fólki í neyð? Gætið að hugmyndum í Mósía 4:16–26.
-
Benjamín konungur kenndi að þegar við komum til Krists og öðlumst fyrirgefningu synda okkar, munum við „fyllast Guðselsku“ (Mósía 4:12). Það fær okkur til að sýna öðrum elsku og góðvild. Þið og börn ykkar gætuð kannað Mósía 4:13–16, 26 (eða söng eins og „Ég geng með þér,“ Barnasöngbókin, 78) og fundið orðtök sem tilgreina hvernig við getum þjónað öðrum. Þau gætu síðan leikið þetta eða teiknað myndir af því og giskað á orðtök hvers annars. Hvernig getum við sýnt elsku og góðvild á heimili okkar, í skóla eða í kirkju?
Þegar ég geri sáttmála við Guð, þá tek ég á mig nafn Krists.
-
Börn ykkar gætu notið þess að búa til nafnspjöld með nafninu „Jesús Kristur“ og sett þau á sig yfir hjartastað (sjá verkefnasíðu þessarar viku). Meðan þau gera þetta, gætuð þið lesið fyrir þau Mósía 5:12 og rætt um hvernig það að gera sáttmála eða loforð við Guð sé eins og að „varðveita ætíð [nafn Krists] í hjörtum [okkar].“