„22.–28. apríl: ‚Fyllast elsku til Guðs og allra manna.‘ Mósía 1–3,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)
„22.–28. apríl. Mósía 1–3,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)
22.–28. apríl: „Fyllast elsku til Guðs og allra manna“
Mósía 1–3
Þegar þið heyrið orðið konungur koma ef til vill kórónur, þjónustulið og hásæti upp í hugann. Í Mósía 1–3 lesið þið um öðruvísi konung. Í stað þess að lifa af vinnu fólks síns, erfiðaði [Benjamín konungur] eigin höndum“ (Mósía 2:14). Í stað þess að láta aðra þjóna sér, þjónaði hann fólki sínu „af öllum þeim mætti, huga og styrk, sem Drottinn [hafði] léð [honum]“ (Mósía 2:11). Þessi konungur vildi ekki að fólkið sitt tilbæði sig; hann kenndi því öllu heldur að tilbiðja sinn himneska konung, Jesú Krist. Benjamín konungur skildi að það er „Drottinn alvaldur, sem ríkjum ræður“ (Mósía 3:5), sem kom „niður af himni“ og var „meðal mannanna barna, … til að trúin á nafn hans færi mannanna börnum sáluhjálp“ (Mósía 3:5, 9).
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
„[Kannið ritningarnar af kostgæfni]“
Gætið að því í þessum versum hvernig hinar helgu heimildir blessuðu fólk Benjamíns konungs. Hvernig er líf ykkar betra vegna þess að þið hafið ritningarnar?
Þegar ég þjóna öðrum, er ég einnig að þjóna Guði.
Hvað haldið þið að Benjamín konungur segði ef þið spyrðuð hann að því hvers vegna hann þjónaði af öllum „mætti, huga og styrk“? (Mósía 2:11). Íhugið það við lestur Mósía 2:10–26. Hvað kenndi Benjamín konungur sem innblæs ykkur til að þjóna öðrum á innihaldsríkari hátt? Hvaða þýðingu hefur það t.d. fyrir ykkur að vita að þegar þið þjónið fólki, eruð þið einnig í þjónustu Guðs? (sjá Mósía 2:17). Leitið innblásturs til að vita hvernig þið getið þjónað einhverjum í þessari viku.
Við stöndum stundum frammi fyrir áskorunum, jafnvel þótt við vitum að okkur ber að þjóna öðrum. Önnur leið til að læra Mósía 2:10–26 er að skrá sannindi sem Benjamín konungur kenndi sem geta hjálpað ykkur að sigrast á þeim áskorunum sem gætu haldið ykkur frá því að þjóna. Hvaða upplifanir hafa sýnt ykkur að það sem Benjamín konungur kenndi er sannleikur?
Joy D. Jones forseti miðlaði áhrifamikilli upplifun sem breytti því hvað henni fannst um að þjóna öðrum. Lesið um hana í „Fyrir hann“ (aðalráðstefna, október 2018) og íhugið þau tækifæri sem þið hafið til að þjóna öðrum. Þið gætuð jafnvel skráð nokkur og hugleitt hvernig boðskapur Jones forseta og Mósía 2:17 gætu haft áhrif á það hvernig þið gefið ykkur að þeim tækifærum. Sálmur eins og „Sorgmæddi förumaðurinn“ (Sálmar, nr. 12) eða myndband eins og „The Old Shoemaker“ (Gospel Library) gæti hjálpað ykkur að íhuga og hljóta aukinn skilning.
Sjá einnig Matteus 25:40; „Faith Murray’s Story: Overcoming Adversity through Service,“ „King Benjamin Teaches about Serving God“ (myndbönd), Gospel Library; JustServe.org; Leiðarvísir að ritningunum, „Þjónusta,“ Gospel Library.
Hamingjan hlýst af því að halda boðorð Guðs.
Hvernig mynduð þið lýsa hamingjunni sem hlýst af því að hlýða Guði? Eru einhver orðtök í Mósía 2:38–41 sem gætu hjálpað ykkur að útskýra ástæður þess að þið haldið boðorð hans?
Við getum orðið heilög fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists.
Benjamín konungur vitnaði um Jesú Krist, eins og allir spámenn, svo að fólk hans gæti „fengið fyrirgefningu synda sinna og glaðst ákaft“ (Mósía 3:13). Hér eru nokkrar spurningar til íhugunar er þið lesið vitnisburð Benjamíns konungs um frelsarann í Mósía 3:1–20:
-
Hvað læri ég í þessum versum um frelsarann og ætlunarverk hans?
-
Hvað læri ég af Mósía 3:18–19 um merkingu þess að verða heilög?
-
Hvernig hefur Jesús Kristur hjálpað mér að sigrast á synd, breyta eðli mínu og að verða heilagri?
„Drottinn alvaldur …mun … stíga niður af himni.“
Hvað gerir rafmagn ykkur mögulegt að gera? Hvernig væri líf ykkar öðruvísi án þess? Þessar spurningar gætu hjálpað ykkur að hugleiða þann mikla kraft sem frelsarinn getur fært í líf ykkar.
Engillinn sem birtist Benjamín konungi vísaði til Jesú Krists sem „Drottins alvalds,“ nafns sem merkir að hann hafi allan kraft. Hvað lærið þið af Mósía 3:5–21 um það hvernig frelsarinn notar þennan kraft? Hvernig hafið þið séð kraft frelsarans í lífi ykkar sjálfra og þeirra sem umhverfis eru? Hvað gerir þessi kraftur ykkur mögulegt að gera og verða? Hvernig væri líf ykkar öðruvísi án hans?
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Þegar ég þjóna öðrum, er ég að þjóna Guði.
-
Á verkefnasíðu þessarar viku má finna einfalda kórónu sem börn ykkar geta búið til. Ef til vill gætu þau viljað skiptast á um að standa á stól og látast vera Benjamín konungur, meðan þið miðlið sumu af því sem Benjamín konungur kenndi fólki sínu í Mósía 2–3. Þið gætuð líka miðlað þeim „kafla 12: Benjamín konungur“ (Sögur úr Mormónsbók, 32–35) til að sjá þeim fyrir yfirliti af kenningum Benjamíns konungs.
-
Mósía 2:17 gæti verið gott vers fyrir börn ykkar að læra. Þið gætuð hjálpað þeim að endurtaka það orð fyrir orð. Þið gætuð líka þess í stað skrifað versin, þar sem nokkur lykilorð vantar, og beðið börn ykkar að finna þau orð. Þið gætuð síðan rætt við börn ykkar um ástæður þess að Guð vill að við þjónum hvert öðru.
-
Þið gætuð hjálpað börnum ykkar að kanna Mósía 2:11–18 til að komast að því hvað Benjamín konungur gerði til að þjóna öðrum. Börn ykkar gætu síðan skrifað á blaðræmur hvað þau geta gert til að þjóna fjölskyldumeðlimum sínum. Setjið blaðræmurnar í ílát, eins og poka eða krukku, svo að börn ykkar geti náð í eina dag hvern og innt af hendi þá þjónustu fyrir einhvern.
Allar blessanir mínar eru frá himneskum föður.
-
Þjónusta Benjamíns konungs í þágu fólks síns var innblásinn af innilegu þakklæti hans til Guðs. Hvernig munið þið innblása börnum ykkar álíka tilfinningar. Þið gætuð lesið saman Mósía 2:21 og byrjað að skrá blessanir sem himneskur faðir hefur veitt okkur. Þið gætuð síðan mögulega bætt við fleiri blessunum sem börnunum dettur í hug.
-
Hér er leikur sem þið gætuð farið í til að hjálpa börnum ykkar að bera kennsl á blessanir himnesks föður. Börnin gætu látið mynd af frelsaranum ganga á milli er þau syngja eða hlusta á söng um þakklæti (sjá „Þakklæti“ í atriðaskrá í Barnasöngbókinni). Hættið að syngja eða stöðvið tónlistina endrum og eins og bjóðið þeim sem heldur á myndinni að tilgreina blessanir sem þau eru þakklát fyrir. Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir blessanir okkar, samkvæmt Mósía 2:22–24?
Jesús Kristur mun hjálpa mér að verða líkari sér.
-
Engill sagði Benjamín konungi mikilvægan sannleika um líf og þjónustu Jesú Krists. Þið og börn ykkar gætuð ef til vill fundið myndir af einhverjum þeirra atburða sem getið er um í Mósía 3:5–10 (sjá t.d. Trúarmyndabók, nr. 30, 41, 42, 57, 59). Þegar þið lesið Mósía 3:5–10, þá gætu börn ykkar rétt upp hendur þegar þau heyra eitthvað í ritningarhlutanum sem kemur fram á einni myndanna.
-
Hafa börn ykkar einhvern tíma aðstoðað við búa til máltíð með því að nota uppskrift? Þið gætuð ef til vill rætt um þá upplifun og notað Mósía 3:19 til að búa til „uppskrift“ að því hvernig við getum orðið lík Jesú Kristi. Hvernig hjálpar Jesús okkur að verða eins og hann er?