Eiga mismuninn
Fyrir Jesú Krist er okkur gefinn sá styrkur að gera varanlegar breytingar. Þegar við snúum okkur til hans í auðmýkt, mun hann auka getu okkar til að breytast.
Systur, það er mér sönn gleði að vera meðal ykkar.
Ímyndið ykkur að kona fari á markað og kaupi einhvern hlut. Ef hún greiðir afgreiðslumanni með meiru en sem nemur virði hlutarins, mun hann greiða henni mismuninn til baka.
Benjamín konungur fræddi fólk sitt í Ameríku til forna um þær óumræðanlegu blessanir sem við hljótum frá frelsara okkar, Jesú Kristi. Hann skapaði himnana, jörðina og alla þá fegurð sem við njótum.1 Í gegnum kærleiksríka friðþægingu sína sér hann okkur fyrir leið til að endurleysast frá synd og dauða.2 Þegar við sýnum honum þakklæti með því að fylgja borðorðum hans dyggilega, blessar hann okkur samstundis og því erum við ávallt í skuld við hann.
Hann gefur okkur miklu meira en sem nemur því verðgildi sem við fáum nokkru sinni endurgoldið honum. Með hverju getum við þá endurgoldið honum, sem galt hið ómetanlega gjald fyrir syndir okkar? Við getum endurgoldið honum með breytingu. Við getum endurgoldið honum með því að breyta okkur sjálfum. Það gæti verið hugarfarsbreyting, ávanabreyting stefnubreyting. Drottinn biður okkur um breytingu hjartans, til endurgjalds fyrir hið ómetanlega gjald sem hann galt fyrir hvert okkar. Sú breyting sem hann krefst af okkur er ekki í hans þágu heldur okkar. Þannig að ólíkt kaupandanum á markaðnum, sem tæki við mismuninum sem væri greiddur til baka, þá býður hinn miskunnsami frelsari okkur að eiga mismuninn.
Eftir að hafa hlustað á orð Benjamíns konungs, hrópaði fólkið upp, lýsti því yfir að hjörtu þess hefðu breyst og sagði: „Því að andi Drottins almáttugs hefur valdið svo mikilli breytingu á okkur, … að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka.“3 Ritningarnar segja ekki að þau hafi strax orðið fullkomin, frekar að þrá þeirra til að breytast hafi hvatt þau til verka. Breytingin á hjörtum þeirra þýddi það að losa sig undan viðjum hins náttúrlega karls eða konu og lúta leiðsögn andans er þau kepptu að því að verða líkari Jesú Kristi.
Henry B. Eyring forseti sagði: „Sönn trúarumbreyting byggir á því að leita fúslega í trú, með mikilli áreynslu og einhverjum sársauka. Þá verður Drottni mögulegt að veita … kraftaverk hreinsunar og breytingar.4 Áreynsla okkar sjálfra og geta frelsarans til að breyta okkur munu til samans gera okkur að nýrri sköpun.
Þegar ég var yngri sá ég sjálfa mig fyrir mér, ganga eftir vegi sem lá upp á við, í átt að markmiði mínu, eilífu lífi. Í hvert skipti sem ég gerði eða sagði eitthvað rangt, fann ég hvernig ég rann niður veginn, einungis til að hefja för mína upp á nýtt. Það var eins og að lenda á slönguhaus í slönguspili og fara aftur til baka á reitinn þar sem halinn er í upphafi leiksins! Þetta var letjandi! Þegar ég fór hins vegar að skilja kenningu Krists 5 og hvernig ég gæti heimfært hana upp á daglegt líf mitt, fann ég til vonar.
Jesús Kristur hefur veitt okkur áframhaldandi ferli breytingar. Hann býður okkur að iðka trú á sig, sem hvetur okkur til að iðrast – „þeirrar trúar og iðrunar, sem umbreytir hjörtum.“6 Þegar við iðrumst og snúum hjörtum okkar til hans, öðlumst við aukna þrá til að gera og halda helga sáttmála. Við stöndumst allt til enda með því að halda áfram að hlýta þessum lögmálum allt okkar líf og bjóða Drottni að breyta okkur. Að standast allt til enda þýðir að breytast allt til enda. Ég skil núna að ég er ekki alltaf að byrja upp á nýtt í hvert skipti sem mér mistekst, heldur held ég áfram með breytingarferli mitt í hvert skipti sem ég reyni.
Það er innblásið orðtak í þema Stúlknafélagsins sem segir: „Ég … virði gjöf iðrunar og reyni dag hvern að verða betri.“7 Ég bið þess að við virðum þessa fallegu gjöf og að við séum gagngert að leitast við að breytast. Stundum tengjast þær breytingar sem við þurfum að gera alvarlegum syndum. Oftast reynum við þó að fága persónuleika okkar með því að tileinka okkur eiginleika Jesú Krists. Daglegt val okkar mun annaðhvort hjálpa eða hindra framþróun okkar. Smáar en stöðugt meðvitaðar breytingar munu hjálpa okkur að verða betri. Ekki missa þróttinn. Breyting er ævilangt ferli. Ég er þakklát fyrir að Drottinn er okkur þolinmóður í breytingarbaráttu okkar.
Fyrir Jesú Krist er okkur gefinn sá styrkur að gera varanlegar breytingar. Þegar við snúum okkur til hans í auðmýkt, mun hann auka getu okkar til að breytast.
Auk umbreytingarkrafts friðþægingar frelsarans, mun heilagur andi styðja og leiða okkur er við leggjum okkur fram. Hann getur jafnvel hjálpað okkur að vita hverju við þurfum að breyta. Við getum líka fengið hjálp og hvatningu í gegnum prestdæmisblessanir, bænir, föstu og musterissókn.
Traustir fjölskyldumeðlimir, leiðtogar og vinir geta á sama hátt veitt aðstoð í breytingarferli okkar. Þegar ég var átta ára gömul, vörðum ég og Lee, eldri bróðir minn, tíma með vinum okkar við leik í greinum trés í hverfinu. Við nutum þess að vera í félagsskap vina okkar í skugga þessa trés. Dag einn féll Lee ofan úr trénu og braut á sér handlegginn. Það að vera handleggsbrotinn gerði honum erfitt fyrir að klifra í tréinu. Lífið í trénu var samt ekki eins án hans þar. Sum okkar studdu því við bak Lees á meðan önnur toguðu í heila handlegg hans og án mikils erfiðis var hann aftur kominn upp í tréð. Handleggur hans var áfram brotinn en hann var aftur með okkur og naut félagsskaparins meðan hann gréri.
Ég hef oft hugsað um reynslu mína við leik í þessu tré og líkt henni við virkni okkar í fagnaðarerindi Jesú Krists. Í skugga trés fagnaðarerindisins njótum við margra blessana sem tengjast sáttmálum okkar. Sumir gætu hafa fallið úr öryggi sáttmála sinna og þurft aðstoð okkar við að komast aftur upp í öruggar greinar fagnaðarerindisins. Það getur reynst þeim erfitt á eigin spýtur. Getum við togað létt hér og ýtt undir smá þar til að hjálpa þeim að gróa á meðan þeir njóta félagsskapar okkar?
Ef þið þjáist af meiðslum vegna falls, leyfið þá öðrum að hjálpa ykkur að snúa aftur að sáttmálum ykkar og þeim blessunum sem þeim fylgja. Drottinn getur hjálpað ykkur að gróa og breytast umkringd þeim sem þið elskið.
Ég hitti stundum vini sem ég hef ekki séð í mörg ár. Stundum segja þeir: „Þú hefur alls ekkert breyst!“ Í hvert sinn sem ég heyri það þá bregður mér örlítið við, því ég vona að ég hafi breyst yfir árin. Ég vona að ég hafi breyst frá því í gær! Ég vona að ég sé örlítið gæskuríkari, dómmildari og umhyggjusamari. Ég vona að ég sé fljótari að bregðast við þörfum annarra og ég vona að ég sé örlítið þolinmóðari.
Ég hef mjög gaman að því að ganga á fjöll nærri heimili mínu. Ég fæ oft steinvölu í skóinn er ég geng á slóðanum. Að endingu stoppa ég og tæmi skóinn Ég furða mig þó á því hvað ég leyfi þessum óþægindum að angra mig lengi áður en ég stoppa og losa mig við þau.
Þegar við göngum sáttmálsveginn fáum við stundum steinvölur í skó okkar sem gætu verið slæmur ávani, syndir eða miður gott viðhorf. Því fljótar sem við losum okkur við þær úr lífi okkar, því gleðilegri verður jarðlífsferð okkar.
Það þarf áreynslu til að viðhalda breytingu. Ég get ekki ímyndað mér að stoppa á slóðanum bara til að setja þessa áreitandi og óþægilegu steinvölu aftur í skóinn minn. Ég myndi ekkert frekar vilja gera það en að fallegt fiðrildi óskaði sér að hverfa aftur inn í púpuna sína.
Ég ber vitni um það að vegna Jesú Krists getum við breyst. Við getum breytt ávönum okkar, hugsunum og fágað persónuleika okkar til að verða líkari honum. Með hans hjálp getum við líka varðveitt þá breytingu. Í nafni Jesú Krists, amen.