Aðalráðstefna
Verða eins og hann er
Aðalráðstefna október 2020


Verða eins og hann er

Aðeins með guðlegu liðsinni frelsarans náum við öll að þróast og verða eins og hann er.

Sú áminning frelsarans að vera „alveg eins og ég er“1, er jafnvel hinum vandaðasta námsmanni lífs og þjónustu Jesú Krists óárennileg og að því er virðist ómöguleg. Kannski eruð þið eins og ég – allt of meðvituð um eigin misbresti og mistök, svo ykkur gæti liðið hugarfarslega betur með engan mótbyr og minni vöxt. „Vissulega er þessi kenning óraunhæf og ógerleg,“ verður röksemd okkar, og því veljum við þægindi hinnar áreynslulausu leiðar og brennum þar af leiðandi færri andlegum kaloríum nauðsynlegrar breytingar.

Hvað ef það er ekki óeiginleg merking að verða „alveg eins og [hann] er,“ jafnvel í dauðlegu ástandi okkar? Hvað ef það er að einhverju leyti gerlegt í þessu lífi að ná því marki að vera með honum aftur? Hvað ef „alveg eins og ég er“ er einmitt nákvæmlega það sem frelsarinn átti við? Hvað þá? Hversu mikið værum við fús til að leggja á okkur til að öðlast hinn dásamlega mátt hans í lífi okkar, svo við fáum breytt eðli okkar?

Öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Þegar við íhugum boð Jesú um að okkur ber að vera eins og hann er, verður okkur ljóst að í núverandi aðstæðum erum við ekki endilega ranglát, heldur fremur hálfshugar og áhugalaus um málstað hans – sem er líka okkar málstaður! Við dásömum hann en líkjum sjaldan eftir honum.“2 Ungur prestur, Charles M. Sheldon, lýsti svipuðum viðhorfum á þennan hátt: „Kristindómur okkar metur vellíðan og þægindi meira en svo að hann taki upp eitthvað svo hrjúft og þungt sem kross.“3

Boðið um að verða eins og Jesús Kristur, á sama hátt og hann varð eins og faðirinn,4 er reyndar fyrir alla. Í framþróun okkar verðum við heilsteyptari, fullgerðari og fullkomnari.5 Þessi kenning er ekki byggð á túlkunum einhverra trúarhópa, heldur kemur hún beint frá meistaranum sjálfum. Það er út frá þessu sjónarhorni sem við ættum að lifa lífi okkar, haga samskiptum og rækta sambönd. Sannlega er engin önnur leið til að græða sár brostinna sambanda eða brotinna samfélaga, en að hvert okkar líki betur eftir Friðarhöfðingjanum.6

Við skulum íhuga hvernig vandlega og meðvitað má einsetja sér að byrja á því að öðlast eiginleika Jesú Krists og verða eins og hann er.

Einsetja sér og skuldbinda sig

Fyrir nokkrum árum stóðum ég og eiginkonan mín við rásmark gönguleiðar hæsta fjalls Japans, Fuji-fjalls. Þegar við hófum gönguna litum við upp á fjarlægan tindinn og veltum fyrir okkur hvort við næðum þangað.

Fuji-fjall

Þegar á leið urðum við þreytt, sár í vöðvum og fundum fyrir áhrifum hæðarinnar. Hugarfarslega var mikilvægt að við einbeittum okkur að næsta skrefi. Við sögðum: „Ég kemst kannski ekki bráðum á toppinn, en ég get tekið þetta næsta skref núna.“ Í tímans rás – og skref fyrir skref –tók þetta erfiða verkefni loks enda.

Fyrsta skrefið í því viðfangsefni að líkjast Jesú Kristi, er að þrá að líkjast honum. Gott er að skilja boðið um að verða eins og hann er, en sá skilningur þarf að vera bundinn þrá, sterkari hinum náttúrlega manni, svo við fáum breytt okkur sjálfum, skref fyrir skref.7 Við verðum að þekkja Jesú Krist til að sú þrá fái vaknað. Við verðum að þekkja einhvað af persónuleika hans8 og leita eiginleika hans í ritningunum, tilbeiðslu, þjónustu og á fleiri heilögum stöðum. Þegar við förum að þekkja hann betur, munum við sjá eiginleika hans í öðrum. Það hvetur okkur áfram, því ef aðrir geta tileinkað sér eiginleika hans að einhverju marki, þá getum við það líka.

Ef við erum heiðvirð við okkur sjálf, mun ljós Krists9 hvísla hið innra að við stöndumst ekki samanburð við hinn þráða persónuleika Krists.10 Slík einlægni er nauðsynleg á þeirri þroskabraut að verða eins og hann er. Já, einlægni er einmitt einn af eiginleikum hans.

Afmundunarspegill í skemmtihúsi

Þau okkar sem erum hugrökk, gætu hugsað sér að spyrja traustan fjölskyldumeðlim, maka, vin eða andlegan leiðtoga að því hvaða eiginleika Jesú Krists við gætum tileinkað okkur betur – og við gætum þurft að bíta á jaxlinn með viðbrögðin! Stundum sjáum við okkur sjálf eins og í afmyndunarspeglum sem annaðhvort sýna okkur miklu búsnari eða miklu rýrari en við í raun erum.

Traustir vinir og fjölskylda geta hjálpað okkur að sjá okkur sjálf í réttara ljósi, en jafnvel þau, hversu kærleiksrík og hjálpsöm þau vilja vera, gætu séð hlutina í óskýru ljósi. Af þeim sökum er nauðsynlegt að við spyrjum líka okkar kærleiksríka himneska föður hvað það er sem við þurfum og ættum að beina kröftum okkar að. Hann sér okkur í fullkomnu ljósi og mun af ástúð sýna okkur eigin veikleika.11 Ef til vill munið þið komast að því að þið þurfið aukna þolinmæði, auðmýkt, kærleika, von, kostgæfni eða hlýðni, svo eitthvað sé nefnt.12

Ekki alls fyrir löngu upplifði ég sálarþroskandi reynslu er kærleiksríkur kirkjuleiðtogi sagði afar hreinskilið að ég mætti tileinka mér betur ákveðinn eiginleika. Hann sagði þetta umbúðalaust af ástúð. Um kvöldið sagði ég eiginkonu minni frá þessari reynslu. Hún var miskunnsamlega kærleiksrík, þótt hún væri sammála ábendingu hans. Heilagur andi staðfesti fyrir mér að leiðsögn þeirra væri frá kærleiksríkum himneskum föður.

Það gæti líka verið gagnlegt að takast einlæglega á við verkefnið Kristilegir eiginleika í 6. kafla Boða fagnaðarerindi mitt.13

Þegar þið hafið lagt fram heiðarlegt mat og ákveðið að hefja gönguna upp á fjallið, þurfið þið að iðrast. Russell M. Nelson forseti kenndi ástúðlega: „Þegar við veljum að iðrast, veljum við að breytast! Við leyfum frelsaranum að breyta okkur í bestu útgáfu okkar sjálfra. Við veljum að vaxa andlega og meðtaka gleði – gleði endurlausnar hans. Þegar við veljum að iðrast, veljum við að líkjast Jesú Kristi meira.“14

Að verða eins og Jesús Kristur er, krefst þess að við breytum hjarta okkar og huga, já, sjálfum persónuleika okkar, og það er aðeins mögulegt með endurleysandi náð Jesú Krists.15

Bera kennsl á og bregðast við

Nú þegar þið hafið ákveðið að breytast og iðrast og leita leiðsagnar með bæn, einlægri íhugun og mögulega leiðsögn annara, þurfið þið að velja eiginleika sem þið einbeitið ykkur algjörlega að. Þið þurfið að skuldbinda ykkur til að beita árangursríkri viðleitni. Þessa eiginleika er ekki auðvelt að ávinna sér á stuttum tíma, en fyrir náð hans munu þeir þróast stigvaxandi meðan reynt er.

Kristilegir eiginleikar eru gjöf frá kærleiksríkum himneskum föður, okkur sjálfum og öðrum til blessunar. Viðleitni okkar til að ávinna okkur þessa eiginleika munu því krefjast einlægrar bænar um liðsinni hans. Ef við leitum þessara gjafa til að þjóna öðrum betur, mun hann blessa viðleitni okkar. Að sækjast eftir gjöf frá Guði af eigingirni, mun leiða til vonbrigða og gremju.

Þegar þið einbeitið ykkur vandlega að því að þróa einn mikilvægan eiginleika, munuð þið samhliða efla aðra eiginleika. Geta þeir ekki vaxið að ástúð og auðmýkt, sem einbeita sér vandlega að kærleika? Geta þeir ekki vaxið að kostgæfni og von, sem einbeita sér að hlýðni? Sú mikilvæga viðleitni ykkar að efla einn eiginleika verður bylgjan sem lyftir öllum bátum hafnarinnar.

Skrá og styðja

Það er mér mikilvægt, er ég leitast við að verða eins og hann er, að skrá upplifanir mínar og það sem ég læri. Þegar ég læri og hugsa vandlega um einn eiginleika hans, öðlast ég nýjan skilning á ritningum þar sem ég sé dæmi um þann eiginleika tengdum kenningum hans, þjónustu hans og lærisveinum hans. Ég tek líka að sjá og þekkja betur þann eiginleika í fari annarra. Ég hef séð dásamlega einstaklinga, bæði innan og utan kirkju, sem hafa eiginleika hans. Þau eru máttug dæmi um það hvernig dauðlegir menn geta tileinkað sér þessa eiginleika, fyrir kærleiksríka náð hans.

Þið þurfið að leggja ykkur vandlega fram til að sjá raunverulegar framfarir. Rétt eins og að klífa á fjall krefst undirbúnings og þreks og þrautseigju, svo og mun þessi ferð krefjast raunverulegrar fyrirhafnar og fórnar. Sönn kristni, þar sem við leitumst við að verða eins og meistari okkar er, hefur alltaf krafist okkar besta.16

Hér eru nokkur aðvörunarorð. Boðinu um að vera eins og hann er, er ekki ætlað að láta ykkur finna til sektar eða að þið séuð óverðug eða ekki elskuð. Öll okkar jarðneska reynsla snýst um framþróun, að reyna, mistakast og ná árangri. Líkt og ég og eiginkona mín hefðum viljað geta lokað augunum og óskað þess að vera kominn á tindinn á einhvern yfirnáttúrlegan hátt, þá er lífið einfaldlega ekki þannig.

Þið eruð vissulega góð, þið eruð elskuð, en það merkir ekki að þið séuð fullgerð. Það er verk sem vinna þarf í þessu lífi og því næsta. Aðeins með hans guðlegu hjálp getum við þróast og orðið eins og hann.

Á þeim tíma þegar „allt [virðist] í uppnámi. Og … allir [virðast] slegnir ótta,17 verður eina úrræðið og lækningin að reyna að líkjast frelsaranum,18 lausnara19 alls mannkyns, ljósi heimsins20 og leita hans sem sagði: „Ég er vegurinn.“21

Lausnarinn

Ég veit að það er mögulegt, skref fyrir skref, með hans guðlega liðsinni, að verða eins og hann er. Ef það væri ekki svo, hefði hann ekki gefið okkur þetta boð.22 Ég veit þetta – að hluta vegna þess að ég sé eiginleika hans í svo mörgum ykkar. Um þetta vitna ég, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. 3. Nefí 27:27. Um álíka boð frá frelsaranum, sjá Matteus 5:48 („Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn“); 1. Jóhannesarbréfið 2:6 („Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti.“); Mósía 3:19 („Því að hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs og hefur verið það frá falli Adams og mun verða það alltaf og að eilífu, nema hann láti undan umtölum hins heilaga anda, losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins, og verði sem barn, undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður, elskuríkur og reiðubúinn að axla allt, sem Drottni þóknast á hann að leggja, á sama hátt og barn, sem beygir sig fyrir föður sínum.“); Alma 5:14 („Og sjá. Nú spyr ég yður, bræður mínir í kirkjunni: Hafið þér fæðst andlega af Guði? Hefur mynd hans greypst í svip yðar?”); 3 Nephi 12:48 („Þess vegna vil ég, að þér séuð fullkomnir, rétt eins og ég eða faðir yðar á himni er fullkominn“).

  2. Neal A. Maxwell, Even As I Am (1982), 16.

  3. Charles M. Sheldon, In His Steps (1979), 185.

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 93:12–17.

  5. Sjá Matteus 5:48, neðanmálstilvísun b.

  6. Sjá Jesaja 9:6; 2. Nefí 19:6.

  7. Sjá 1. Korintubréfið 2:14; Mósía 3:19.

  8. Sjá Matteus 7:23; 25:12; Mósía 26:24; sjá einnig neðanmálstilvísanir í hverju ritningarversi; David A. Bednar, „Ef þér hafið þekkt mig,“ aðalráðstefna, október 2016.

  9. Sjá Kenning og sáttmálar 93:2.

  10. Sjá Moróní 7:12–19.

  11. Sjá Eter 12:27.

  12. Sjá Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu, kafli 6, „Hvernig þroska ég kristilega eiginleika?,” bls. 115. Tilvísanir í fleiri eiginleika frelsarans má finna víða í ritningunum. Nokkur dæmi eru Mósía 3:19; Alma 7:23; Trúaratriðin 1:13.

  13. Sjá Boða fagnaðarerindi, 132.

  14. Russell M. Nelson, „Við getum gert betur og orðið betri,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  15. Sjá Bible Dictionary, „Grace“; sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Náð,“ kirkjajesukrists.is.

  16. Sjá Sheldon, í hans sporum, 246: „Ef skilgreining okkar á því að vera kristinn er einfaldlega að njóta forréttinda tilbeiðslu, vera örlát án kostnaðar fyrir okkur sjálf, eiga góðan, notalegan tíma umkringd ánægjulegum vinum og þægilegum hlutum, lifa á virðingarverðan hátt og um leið forðast mikla streitu heimsins vegna synda og vandamála, því það veldur of mikilum sársauka – ef þetta er skilgreining okkar á kristni, þá erum við örugglega langt frá því að fylgja í fótspor hans sem greiddi leiðina með andvörpum og tárum og sársaukaangist vegna glataðs mannkyns; hvers sveiti var sem þungir blóðdropar, og sem hrópaði á hinum uppreista krossi: ‚Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig.‘“

  17. Kenning og sáttmálar 88:91.

  18. Sjá Jesaja 43:3.

  19. Sjá Jóhannes 19:25.

  20. Sjá Jóhannes 8:12.

  21. Jóhannes 14:6.

  22. Sjá 1. Nefí 3:7.