Menning Krists
Við getum haldið upp á það besta úr jarðneskri menningu okkar sjálfra og samt verið fullir þátttakendur í hinni eilífu sem kemur með fagnaðarerindi Jesú Krists.
Hvílíkur dásemdarheimur sem við lifum í og deilum, heimili fjölbreytilegs mannfólks, tungumála, siða og sögu – útbreitt í hundruðum löndum og þúsundum hópum, sérhver þeirra rík að menningu. Margt er það sem mannkynið má vera stolt af og halda upp á. En þó að áunnin hegðun – hlutir sem haldið er að okkur í þeirri menningu sem við ölumst upp í – geti verið mikill styrkur í lífi okkar, getur hún á öðrum tímum einnig verið mikil hindrun.
Svo virðist sem menning sé svo rótgróin hugsunarhætti okkar og hegðun, að ómögulegt er að breyta henni. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er mikill hluti þess sem við skynjum einmitt það sem skilgreinir okkur og auðkennir. Áhrifin geta verið svo sterk, að við fáum vart greint hina manngerðu veikleika eða galla í menningu okkar, sem veldur því að við erum treg til að segja skilið við sumar „erfikenningar feðranna.“ Ofuráhersla á eigin menningararf getur leitt til þess að maður hafnar gagnlegum – jafnvel guðlegum – hugmyndum, eiginleikum og breytni.
Ég þekkti dásamlegan herramann fyrir ekki svo mörgum árum, sem hjálpar að sýna þessa algildu reglu um menningarþröngsýni. Ég hitti hann fyrst í Singapúr er ég fékk það verkefni að vera heimiliskennari fjölskyldu hans. Hann var upprunninn frá suðurhluta Indlands og var nafntogaður prófessor í sanskrit og tamílmáli. Hin dásamlega eiginkona hans og tveir synir voru meðlimir kirkjunnar, en hann hafði aldrei gengið í kirkjuna eða hlustað af alvöru á kenningar fagnaðarerindisins. Hann var ánægður með það hvernig eiginkona hans og synir þroskuðust og studdi þau heilshugar í ábyrgðarstörfum þeirra í kirkjunni.
Þegar ég bauðst til að kenna honum grundvallarreglur fagnaðarerindisins og deila með honum trú okkar, færðist hann undan til að byrja með. Það tók mig tíma að komast að ástæðunni; honum fannst að með því yrði hann svikari gagnvart fortíð sinni, fólki sínu og sögu! Eins og hann hugsaði það, þá myndi hann afneita öllu sem hann væri, öllu sem fjölskylda hann hafði kennt honum að vera, jafnvel allri indverskri arfleifð sinni. Á næstu mánuðum gafst okkur kostur á að ræða þessi mál. Ég var dolfallinn (þó ekki hissa) yfir því hvernig fagnaðarerindi Jesú Krists gat opnað augu hans fyrir nýju sjónarhorni.
Finna má í flestum manngerðum menningum eitthvað gott og slæmt, uppbyggjandi og eyðileggjandi.
Mörg heimsvandamál eru bein afleiðing af árekstrum milli mismunandi hugmynda og siða sem eiga uppruna sinn í menningunni. En hreinlega allir árekstrar og ringulreið myndu fljótt hverfa ef veröldin myndi aðeins meðtaka sína „upphaflegu menningu,“ sem við öll bjuggum við fyrir ekki all löngu. Sú menning á rætur að rekja til fortilveru okkar. Hún var menning Adams og Enoks. Hún var menningin sem grundvallaðist á kenningu frelsarans á hádegisbaugi tímans og stendur öllum konum og körlum á ný til boða í dag. Hún er einstök. Hún er „mest allra menninga“ og kemur úr hinni miklu sáluhjálparáætlun sem Guð skapaði og Kristur var talsmaður fyrir. Hún sameinar, en slítur ekki sundur. Hún læknar, en skaðar ekki.
Fagnaðarerindi Jesú Krists kennir okkur að tilgangur sé með jarðlífinu. Tilvera okkar hér er ekki bara stór slembilukka eða mistök alheimsins! Það er tilgangur með veru okkar hér.
Menning þessi er grundvölluð á þeim vitnisburði að himneskur faðir okkar lifir, að hann er raunverulegur og elskar sérhvert okkar einstaklingsbundið. Við erum „verk [hans] og dýrð.“1 Þessi menning aðhyllist reglu jafnvirðis. Hún viðurkennir ekki erfðastéttir eða stéttaskiptingu. Við erum jú bræður og systur, bókstaflega andabörn okkar himneska föður. Það eru engir fordómar eða „við á móti þeim“ hugsunarháttur í hinni „æðstu allra menninga.“ Við erum öll „við.“ Við erum öll „þau.“ Við trúum því að öll séum við ábyrg gagnvart okkur sjálfum, hverju öðru, kirkjunni og heiminum. Ábyrgð og reikningsskil eru mjög mikilvægir þættir í vexti okkar.
Kærleikur, hin sanna kristilega umönnun, er grunnklettur þessarar menningar. Við látum okkur raunverulega annt um þarfir náunga okkar, stundlegar sem andlegar, og breytum eftir því. Þetta hrekur burt sleggjudóma og hatur.
Við njótum menningar opinberana, sem grundvallast á orði Guðs eins og það er meðtekið af spámönnum (og með heilögum anda getur sérhvert okkar hlotið persónulega staðfestingu á því). Gjörvallt mannkyn getur þekkt vilja og huga Guðs.
Menning þessi upphefur reglu sjálfræðis. Getan til að velja er gríðarlega mikilvæg fyrir framþróun okkar og hamingju. Nauðsynlegt er að velja viturlega.
Þetta er menning lærdóms og náms. Við leitumst eftir þekkingu og visku og hins allra besta í öllum hlutum.
Þetta er menning trúar og hlýðni. Trú á Jesú Krist er fyrsta grundvallarregla menningar okkar og hlýðni við kenningar og boðorð hans er það sem af því leiðir. Þetta leiðir til sjálfstjórnar.
Þetta er menning bænahalds. Við trúum því að Guð muni ekki aðeins heyra bænir okkar, heldur einnig liðsinna okkur.
Þetta er menning sáttmála og helgiathafna, hárra siðgæðisstaðla, fórna, fyrirgefningar og iðrunar, og þess að láta sér annt um líkamann sem musteri okkar. Allt vitnar þetta um hollustu okkar við Guð.
Þetta er menning sem stjórnast af prestdæminu, valdsumboðinu til að starfa í nafni Guðs, krafti Guðs börnum hans til blessunar. Hún byggir upp og gerir fólk að betri manneskjum, leiðtogum, feðrum og félögum – og hún helgar heimilið.
Sönn kraftaverk eru ríkuleg í þessari elstu allra menninga og eiga sér stað vegna trúar á Jesú Krist, kraft prestdæmisins, bænir, sjálfsbetrun, sönnum trúskiptum og fyrirgefningu.
Þetta er menning trúboðsstarfs. Verðmæti sálna er mikið.
Í menningu Krists eru konur upphafnar til síns rétta og eilífa staðar. Þær eru ekki undirgefnar körlum, eins og fyrir kemur í mörgum menningum heimsins í dag, heldur eru að fullu leyti jafnir félagar hér og í næsta lífi.
Menning þessi viðurkennir helgi fjölskyldunnar. Fjölskyldan er grundvallareining eilífðarinnar. Fullkomleiki fjölskyldunnar er allra fórna verður, vegna þess að „enginn sigur á öðru sviði getur bætt fyrir ósigur á heimilinu,“ eins og kennt hefur verið.2 Heimilið er sá staður þar sem bestu verk okkar eru unnin og þar sem mestu hamingjuna er að fá.
Í menningu Krists er víðsýni – og eilífðaráhersla og stefna. Menning þessi tekur á hlutum sem hafa eilíft gildi! Hún kemur úr fagnaðarerindi Jesú Krists, sem er eilíft, og útskýrir „hvers vegna“ og „hvert“ varðandi tilvist okkar. (Hún meðtekur alla og útilokar engan). Þar sem menning þessi á rætur í því að lifað er eftir kenningum frelsarans, veitir hún okkur græðandi smyrsl sem heimur okkar hefur svo mikla þörf fyrir.
Hvílík blessun það er að vera hluti af þessum mikla og göfuga lífshætti! Að eiga hlutdeild í þessari æðstu menningu allra, krefst breytinga. Spámennirnir hafa kennt nauðsyn þess að segja skilið við hvaðeina í okkar gömlu menningu sem er í ósamræmi við menningu Krists. Það merkir þó ekki að við þurfum að segja skilið við allt. Spámennirnir hafa einnig lagt áherslu á að okkur er öllum boðið, hverjum og einum, að koma með trú okkar og hæfileika og þekkingu – allt sem er gott í lífi okkar og menningu – og leyfa kirkjunni að „bæta þar við“ með boðskap fagnaðarerindisins.3
Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er varla „vestrænt“ samfélag eða amerískt menningarfyrirbæri. Hún er alþjóðleg kirkja, eins og hún átti alltaf að vera. Það sem meira er, hún er guðleg. Nýir meðlimir alls staðar að úr heimi koma með glæsileika, fjölbreytni og spennandi hluti í hina ört stækkandi fjölskyldu okkar. Síðari daga heilagir hvarvetna halda enn upp á og heiðra arfleifð sína og hetjur, en núna eru þeir einnig hluti af einhverju mun æðra. Menning Krists hjálpar okkur að sjá hvernig við raunverulega erum og, þegar horft er í gegnum sjóngler eilífðar, mildað með réttlæti, eykur það getu okkar til að uppfylla hina miklu sæluáætlun.
Hvað varð svo um vin minn? Honum voru sem sé kenndar lexíurnar og hann gekk í kirkjuna. Frá þessu hefur fjölskylda hans verið innsigluð um tíma og eilífð í Sydney-musterinu, Ástralíu. Hann sagði skilið við lítið – og öðlaðist möguleika á öllu. Hann uppgötvaði að hann gat enn haldið upp á sögu sína, enn verið stoltur af forfeðrum sínum, tónlist sinni og dansi og bókmenntum, mat sínum, landi og fólki sínu. Hann komst að því að ekkert mál var að færa það besta úr staðbundinni menningu hans sjálfs yfir í hinna æðstu menningu allra. Hann uppgötvaði, að ef hann kæmi með það úr gamla lífinu sem samræmdist sannleika og réttlæti inn í hið nýja líf, auðgaði það eingöngu félagsskap hans við hina heilögu og hjálpaði við að sameina allt í samfélagi himinsins.
Í raun getum við öll haldið upp á það besta úr jarðneskri menningu okkar sjálfra og samt verið fullir þátttakendur í hinni elstu menningu – hinni upphaflegu, hinni endanlegu, hinni eilífu, sem kemur með fagnaðarerindi Jesú Krists. Hvílík dásemdar arfleifð sem við eigum öll saman. Í nafni Jesú Krists, amen.