Sækja fram
Verki Drottins miðar stöðugt áfram.
Kæru bræður og systur, hvílík gleði sem það er að vera með ykkur nú, er við hefjum 190. síðari aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég nýt þess að sameinast ykkur á heimilum ykkar, eða hvar sem þið eruð, til að hlýða saman á boðskap spámanna, sjáenda og opinberara og annarra kirkjuleiðtoga.
Hve þakklát við erum fyrir þá tækni sem gerir okkur kleift að tengjast á einni dásamlegri, heimslægri samkomu lærisveina Jesú Krists. Aðalráðstefnan í apríl síðastliðnum fékk meira áhorf en nokkur ráðstefna hefur til þessa og við gerum alveg eins ráð fyrir að það gerist aftur.
Síðustu mánuði hafa heimsfaraldur, ofsafengnir gróðureldar og aðrar náttúruhamfarir sett heiminn á annan endann. Ég syrgi með hverju ykkar sem misst hefur ástvini á þessum tíma og ég bið fyrir öllum sem þjást um þessar mundir.
Í millitíðinni miðar verki Drottins stöðugt áfram. Í yfirstandandi fjarlægðarmörkum, notkun andlitsgríma og Zoom-funda, hefur okkur lærst annað verklag og sumt er jafnvel enn skilvirkara. Óvenjulegir tímar geta leitt til óvenjulegs árangurs.
Trúboðar okkar og trúboðsleiðtogar hafa verið úrræðagóðir, óbugandi og sannlega ótrúlegir. Þótt flestir trúboðar hafi þurft að finna nýjar og frumlegar leiðir til að sinna starfi sínu, hafa mörg trúboð tilkynnt um fleiri kennslustundir en nokkru sinni áður.
Við þurftum að loka musterum um tíma og sumar byggingaframkvæmdir hafa tafist örlítið, en nú miðar þeim öllum áfram. Á almanaksárinu 2020 höfum við tekið skóflustungur að 20 nýjum musterum!
Ættarsögustarf hefur stigvaxandi aukist. Margar nýjar deildir og stikur hafa verið stofnaðar. Það er okkur ánægjuefni að tilkynna að kirkjan hefur komið að 895 verkefnum í 150 löndum í hjálparstarfi vegna heimsfaraldursins.
Aukið trúarnám á mörgum heimilum hefur skilað sér með sterkari vitnisburðum og fjölskyldusamböndum. Móðir nokkur skrifaði: „Við erum mikið nánari börnum okkar og barnabörnum, nú þegar við komum saman á Zoom á hverjum sunnudegi. Allir skiptast á við að segja frá hugsunum sínum um Kom, fylg mér. Bænir fyrir fjölskyldumeðlimum hafa breyst, þar sem við skiljum betur þarfir þeirra.“
Ég bið þess að við öll nýtum þennan sérstaka tíma til andlegs vaxtar. Við erum hér á jörðu til að verða sannreynd, til að sjá hvort við veljum að fylgja Jesú Kristi, iðrast reglulega, læra og bæta okkur. Andi okkar þráir framþróun. Það gerum við best með því að vera staðföst á sáttmálsveginum.
Í öllu þessu erum við elskuð af himneskum föður og syni hans, Jesú Kristi! Þeim er annt um okkur! Þeir og heilagir englar þeirra vaka yfir okkur.1 Ég veit að það er satt.
Þegar við komum saman til að hlýða á þau orð sem Drottinn hefur blásið þjónum sínum í brjóst, þá býð ég ykkur að íhuga loforð sem Drottinn hefur gefið. Hann kunngjörði: „Hver sem vill, getur höndlað orð Guðs, sem er lifandi og kröftugt og tætir sundur alla klæki … og brögð djöfulsins og leiðir [lærisvein] Krists á hina kröppu og þröngu braut.“2
Ég bið þess að þið munið velja að tileinka ykkur orð Guðs eins og það er kunngjört á þessari aðalráðstefnu og ég bið að þið finnið fyrir fullkominni elsku Drottins til ykkar,3 í helgu nafni Jesú Krists, amen.