Aðalráðstefna
Það var brauð
Aðalráðstefna október 2020


10:7

Það var brauð

Þegar við leitumst við að verða stundlega viðbúin, getum við tekist á við þrengingar lífsins af meira sjálfsöryggi.

Fyrir kyrrsetningar af völdum núverandi heimsfaraldurs var ég á leið heim eftir verkefni erlendis og þurfti að hafa viðdvöl á sunnudegi vegna tímaárekstrar. Ég hafði tíma á milli flugferða til að mæta á sakramentissamkomu á staðnum, þar sem ég átti líka kost á að miðla stuttum boðskap. Eftir samkomuna, kom áhugasamur djákni til mín og spurði hvort ég þekkti Nelson forseta og hvort ég hefði einhvern tíma fengið tækifæri til að taka í hönd hans. Ég svaraði því til að ég þekkti hann, að ég hefði tekið í hönd hans og að ég ætti fund með Nelson forseta og ráðgjöfum hans tvisvar í viku sem meðlimur í Yfirbiskupsráðinu.

Ungi djákninn settist síðan niður á stól, veifaði höndum sínum upp í loftið og hrópaði: „Þetta er besti dagur lífs míns“! Bræður og systur, ég lyfti kannski ekki höndum upp í loftið og hrópa, en ég er að eilífu þakklátur fyrir lifandi spámann og fyrir leiðsögnina sem við hljótum frá spámönnum, sjáendum og opinberurum, einkum á örðugum tímum.

Frá upphafi tímans, hefur Drottinn veitt fólki sínu leiðsögn, því til hjálpar við að undirbúa sig andlega og stundlega í gegnum þær hörmungar sem hann veit að koma munu, sem hluti af þessari jarðnesku reynslu. Þessar hörmungar geta verið einstaklingsbundnar eða almennar, en leiðsögn Drottins mun sjá okkur fyrir vernd og stuðningi, að svo miklu leyti sem við gefum gaum að og bregðumst við henni. Dásamlegt dæmi má finna í frásögn í 1. Mósebók, þar sem við lesum um Jósef í Egyptalandi og innblásna túlkun hans á draumi Faraós.

„Þá mælti Jósef við Faraó: … Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann boðað Faraó. …

Sjá, sjö ár munu koma. Munu þá verða miklar nægtir um allt Egyptaland.

En eftir þau munu koma sjö hallærisár. Munu þá gleymast allar nægtirnar í Egyptalandi og hungrið eyða landið.“1

Faraó hlustaði á Jósef og brást við því sem Guð hafði sýnt honum í draumi og fór strax að undirbúa það sem koma skyldi. Ritningarnar segja síðan:

„Afrakstur landsins var afar mikill sjö nægtarárin.

Þá safnaði hann saman öllum vistum þeirra sjö ára. …

Og Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströndu, … þar til hann hætti að telja, því að tölu varð eigi á komið.“2

Þegar sjö ár gnægðar höfðu liðið, er okkur sagt að „[hallærisárin sjö hefðu gengið] í garð, eins og Jósef hafði sagt. Var þá hallæri í öllum löndum, en í öllu Egyptalandi var brauð.“3

Á okkar tíma erum við blessuð að vera leidd af spámönnum sem skilja nauðsyn þess að við búum okkur undir hörmungarnar „er koma munu“4 og sem sjá fyrir höftin eða hömlurnar sem við gætum upplifað er við reynum að fylgja leiðsögn þeirra.

Það er vel ljóst að Kóvíd-19, sem og hrikalegar náttúruhamfarir, gera engan mannamun og fara yfir öll þjóðernisleg, félagsleg og trúarleg mörk í öllum heimsálfum. Störf hafa tapast og tekjur minnkað vegna tímabundinna uppsagna og lög og heilsufarsáskoranir hafa haft áhrif á starfsgetu.

Við sýnum öllum skilning og umhyggju sem hafa orðið illa úti í þessum aðstæðum og erum sannfæðir um að betri dagar séu framundan. Þið hafið verið blessuð með biskupum og greinarforsetum sem leita uppi meðlimi safnaða sinna með stundlegar þarfir og sem hafa aðgang að tækjum og úrræðum sem geta hjálpað ykkur að endurskipuleggja líf ykkar og leiða ykkur til sjálfsbjargar, er þið beitið reglum um viðbúnað.

Í umhverfi nútímans, með heimsfaraldur sem hefur eyðilagt heilu hagkerfin og líf einstaklinga, myndi það ekki samræmast hinum samúðarfulla frelsara að leiða hjá sér þann veruleika að margir eigi erfitt og biðja þá að koma sér upp varasjóði og matarbirgðum fyrir komandi tíð. Það merkir þó ekki að við ættum algjörlega að leiða hjá okkur reglur viðbúnaðar – aðeins að beita þeim reglum „með visku og reglu,“5 svo við gætum sagt í framtíð, líkt og Jósef í Egyptalandi: „[Það] var brauð.“6

Drottinn væntir þess ekki að við gerum meira en við getum, en hann væntir þess að við gerum það sem við getum, þegar við getum það. Líkt og Nelson forseti sagði á síðustu ráðstefnu: „Drottinn hefur unun af erfiði.“7

Fjárhagsbæklingur á ýmsum tungumálum

Kirkjuleiðtogar hafa oft hvatt Síðari daga heilaga „til að búa sig undir mótlæti lífsins með því að hafa matarforða og vatn og einhvern varasjóð.“8 Samhliða því erum við hvött til að „sýna skynsemi“ og „láta öfga ekki ráða“9 í þeirri viðleitni okkar að koma okkur upp forðabúri og varasjóði. Efni sem heitir Personal Finances for Self-Reliance [Eigið fjármagn til sjálfsbjargar], var gefið út árið 2017 og er nú tiltækt á vefsíðu kirkjunnar á 36 tungumálum, hefst á þessari orðsendingu frá Æðsta forsætisráðinu:

„Drottinn hefur lýst yfir: ‚Ég [hef] ákvarðað að sjá um mína heilögu‘ [Kenning og sáttmálar 104:15]. Þessi opinberun er loforð frá Drottni um að hann muni sjá okkur fyrir stundlegum blessunum og gera okkur kleift að vera sjálfbjarga. …

… Ef þið lifið eftir þessum reglum, þá mun ykkur reynast auðveldar að meðtaka þær stundlegu blessanir sem Drottinn hefur lofað.

Við hvetjum ykkur til að læra og tileinka ykkur þessar reglur af kostgæfni og kenna þær fjölskyldu ykkar. Ef þið gerið það, munuð þið verða blessuð … [því] þið eruð börn föður okkar á himnum. Hann elskar ykkur og mun aldrei yfirgefa ykkur. Hann þekkir ykkur og er fús til að veita ykkur andlegar og stundlegar blessanir sjálfsbjargar.“10

Í þessu efni má m.a. finna kafla um gerð fjárhagsáætlunar og hvernig lifa á innan hennar, hvernig vernda á fjölskyldu ykkar gegn erfiðleikum, hvernig takast skal á við fjárhagskreppu og fjárfesta til framtíðar og er öllum tiltækt á vefsíðu kirkjunnar eða hjá staðarleiðtogum ykkar.

Þegar við íhugum regluna um viðbúnað, getum við horft tilbaka til Jósefs í Egyptalandi til að fá innblástur. Að vita hvað myndi gerast, hefði ekki dugað til að koma þeim í gegnum „mögru“ árin, án einhverrar fórnar á árum gnægðar. Fremur en að neyta alls þess sem þegnar Faraós framleiddu, voru takmörk sett og þeim framfylgt, til að sjá þeim fyrir nauðþurftum nú og um framtíð. Það nægði ekki að vita að erfiðir tímar kæmu. Þeir urðu að bregðast við og „[það] var brauð“ vegna erfiðis þeirra.“11

Þetta leiðir til mikilvægrar spurningar: „Þess vegna, hvað?“ Gott er að byrja á því að skilja að allt er andlegt fyrir Drottni „og aldrei“ hefur hann gefið okkur „stundlegt lögmál.“12 Allt vísar því á Jesú Krist, sem þeirrar undirstöðu sem við verðum að byggja á, já, okkar stundlega viðbúnað.

Að vera stundlega viðbúin og sjálfbjarga, merkir að „trúa að fyrir náð eða virkjandi kraft, Jesú Krists, og okkar eigið erfiði, getum við öðlast allar andlegar og stundlegar nauðsynjar lífsins sem við þörfnumst fyrir okkur sjálf og fjölskyldu okkar“13.

Frekari þættir andlegrar undirstöðu til stundlegs viðbúnaðar eru m.a. að bregðast við „með visku og reglu,“14 sem gæti falið í sér að koma sér smám saman, yfir tíma, upp forðabúri og varasjóði og einnig að gera það með hinu „smáa og einfalda,“15 sem sýnir trú á að Drottinn muni efla okkar smáa og stöðuga framlag.

Með setta andlega undirstöðu, getum við með góðum árangri tileinkað okkur tvo mikilvæga þætti stundlegs viðbúnaðar – fjármálastjórnun og forðabúr á heimilinu.

Helstu reglur fjármálastjórnunar fela í sér greiðslu tíundar og fórna, að greiða niður og forðast skuldir, gera fjárhagsáætlun og lifa innan hennar og leggja fyrir til framtíðar.

Helstu reglur um forðabúr á heimilinu fela í sér geymslu matvæla, geymslu vatns, sem og annarra nauðsynja, eftir þörfum einstaklinga og fjölskyldna, allt vegna þess að „besta forðabúrið“16 er á heimilinu, sem er „aðgengilegasta forðabúrið á tímum neyðar.“17

Þegar við tökum á móti andlegum reglum og leitum innblásturs frá Drottni, munum við leidd til að þekkja vilja Drottins fyrir okkur, sem einstaklinga og fjölskyldna, og hvernig best sé að fylgja mikilvægum reglum stundlegs viðbúnaðar. Mikilvægasta skref allra er að hefjast handa.

Öldungur Bednar kenndi þessa reglu þegar hann sagði: „Að láta verkin tala, er að iðka trú. … Sönn trú einblínir á Drottin Jesú Krist og leiðir ætíð til réttlátrar breytni.“18

Bræður og systur, í síbreytilegum heimi verðum við að búa okkur undir óvissu. Við vitum, jafnvel þótt betri tími sé framundan, að hæðir og lægðir jarðlífsins munu verða áfram. Þegar við leitumst við að verða stundlega viðbúin, getum við tekist á við þrengingar lífsins af meira sjálfsöryggi, með frið í hjörtum okkar og, líkt og Jósef í Egyptalandi, getum við, jafnvel í krefjandi aðstæðum, sagt: „[Það] var brauð.“19 Í nafni Jesú Krists, amen.