Aðalráðstefna
Afar göfug köllun
Aðalráðstefna apríl 2020


2:3

Afar göfug köllun

Sem trúaðar konur, getum við nýtt okkur lögmál sannleikans frá reynslu Josephs Smith, sem veitir innsýn til að meðtaka okkar eigin opinberanir.

Í þakklæti beini ég orðum mínum að áframhaldandi hlutverki kvenna í endurreisninni. Það er greinilegt að konur hafa átt sinn sess í áætlun himnesks föður í gegnum söguna. Nelson forseti sagði: „Það væri vonlaust að meta þau áhrif sem … konur hafa, ekki bara á fjölskyldur, heldur á kirkju Drottins, sem eiginkonur, mæður og ömmur, sem systur, frænkur, sem kennarar og leiðtogar og sérstaklega sem fyrirmyndir og trúfastir verndarar trúarinnar.“ 1

Joseph Smith ráðlagði konunum í Líknarfélaginu á upphafsárunum í Nauvoo, fyrir 178 árum, að „lifa samkvæmt forréttindum [þeirra].“ 2 Þeirra fordæmi kenna okkur í dag. Þær fylgdu rödd spámannsins í samheldni og lifðu í stöðugri trú á Jesú Krist, er þær hjálpuðu til við að leggja þann grunn sem við stöndum á í dag. Systur, það er komið að okkur. Við göngum erinda Drottins og trúfast, einstakt framlag okkar er mikilvægt.

Spencer W. Kimball forseti sagði: „Að vera réttlát kona á lokavettvangi þessarar jarðar, fyrir síðari komu frelsara okkar, er afar göfug köllun.“ Styrkur og áhrif hinnar réttlátu móður okkar tíma getur margfaldast á friðsælli tímum.“ 3

Nelson forseti hefur sagt nokkuð líkt þessu: „Svo í dag sárbæni ég systur mínar í [kirkjunni] … að stíga fram. Takið réttmæta og nauðsynlega stöðu ykkar á heimilunum, í samfélögum ykkar og í ríki Guðs, í ríkari mæli en þið hafið nokkru sinni gert áður. 4

Nýlega naut ég þeirra forréttinda að eiga fund með Russell M. Nelson forseta og hópi Barnafélagsbarna, í eftirlíkingu af heimili Smith fjölskyldunnar í Palmyra, New York. Hlustið er okkar ástkæri spámaður kennir börnunum það sem þau geta gert til til að stíga fram.

1:55

Systir Jones: „Ég er forvitin að vita hvort ykkur langar að spyrja Nelson forseta einhvers. Þið sitjið hér með spámanninum. Er eitthvað sem ykkur hefur alltaf langað að spyrja spámann um? Já, Pearl.“

Pearl: „Er erfitt að vera spámaður? Ertu mjög upptekinn?“

Nelson forseti: „Að sjálfsögðu er það erfitt. Allt sem felst í því að verða líkari frelsaranum er erfitt. Þegar Guð vildi t.d. gefa Móse borðorðin tíu, hvert sagði hann þá Móse að fara? Upp á fjallstind, upp á Sínífjallið. Móse þurfti því að klífa upp á fjallstind til að ná í boðorðin tíu. Himneskur faðir hefði getað sagt: ,Móse, þú byrjar þar og ég byrja hér og við hittumst á miðri leið.‘ Nei, Drottinn ann erfiði, því erfiði veitir umbun sem ekki fæst án þess. Hafið þið t.d. lært á píanó?“

Börn: „Já.“

Pearl: „Ég læri á fiðlu.“

Nelson forseti: „Þurfið þið að æfa ykkur?“

Börn: „Já.“

Nelson forseti: „Hvað gerist ef þið æfið ykkur ekki?“

Pearl: „Við gleymum.“

Nelson forseti: „Já, þið náið ekki árangri, ekki satt? Svarið er því já, Pearl. Það krefst erfiðis, mikllar vinnu og náms og það tekur aldrei enda. Það er gott! Það er gott, því við erum alltaf að læra. Jafnvel í næsta lífi höldum við áfram að læra.“

Svar Nelsons forseta til þessara hjartfólgnu barna á líka við um hvert okkar. Drottinn metur erfiði og erfiði færir umbun. Við höldum áfram að iðka. Við höldum áfram að þroskast svo lengi sem við kappkostum að fylgja Drottni. 5 Hann ætlast ekki til fullkomnunar í dag. Við höldum áfram að klífa okkar persónulega Sínaífjall. Eins og fyrr á tímum, þá krefst ferðalag okkar sannlega erfiðis, mikillar vinnu og náms, en skuldbinding okkar til framþróunar færir okkur eilífa umbun. 6

Hvað meira lærum við af endurreisninni og spámanninum Joseph Smith varðandi erfiði, mikla vinnu og nám? Fyrsta sýnin veitir okkur leiðsögn í okkar einstöku áframhaldandi hlutverkum. Sem trúaðar konur, getum við nýtt okkur lögmál sannleikans frá reynslu Josephs Smith, sem veitir innsýn til að meðtaka okkar eigin opinberanir. Dæmi:

  • Við vinnum við erfiðar aðstæður.

  • Við snúum okkur að ritningunum til að meðtaka visku til að framkvæma.

  • Við sýnum trú okkar og traust á Guð.

  • Við beitum kröftum okkar til að biðja til Guðs um hjálp, til að beina burt áhrifum andstæðingsins.

  • Við leggjum þrár okkar fram fyrir Guð.

  • Við leyfum ljósi hans að leiðbeina ákvörðunum lífs okkar og að hvíla á okkur er við snúum okkur til hans.

  • Við vitum að hann þekkir hvert okkar með nafni og ætlar okkur að framfylgja persónulegu hlutverki. 7

Auk þess, endurreisti Joseph Smith þá þekkingu að við búum yfir guðlegum möguleikum og eilífu verðgildi. Vegna þessa sambands við himneskan föður okkar, trúi ég að hann ætlist til þess að við meðtökum opinberanir frá honum.

Drottinn bauð Emmu Smith að „meðtaka heilagan anda,“ læra mikið, „leggja til hliðar það sem þessa heims er, … leita þess, sem betra er,“ og „[halda] fast við … sáttmála [hennar]“ við Guð. 8 Lærdómur er ómissandi hluti af framþróun, sérstaklega þegar hinn stöðugi förunautur, heilagur andi, kennir okkur það sem okkur er nauðsynlegt að leggja til hliðar – það sem gæti truflað okkur eða hægt á framþróun okkar.

Nelson forseti sagði: „Ég hvet ykkur eindregið til að auka andlegt atgervi ykkar til að hljóta opinberun.“ 9 Orð spámanns okkar eru ávallt með mér er ég hugleiði hæfni kvenna til að stíga fram. Hann hvetur okkur eindregið, sem gefur í skyn forgang. Hann er að kenna okkur hvernig við eigum að þrauka andlega í syndugum heimi með því að meðtaka og framkvæma í samræmi við opinberun. 10 Þegar við gerum það, með því að heiðra og halda boðorð Drottins, þá er okkur lofað, rétt eins og Emmu var lofað, „kórónu réttlætisins.“ 11 Spámaðurinn Joseph Smith talaði um mikilvægi þess að vita að sá vegur sem við fylgjum í þessu lífi sé Guði þóknanalegur. Án þeirrar vitneskju munum við „þreytast eða formyrkvast í huga.“ 12

Á þessari ráðstefnu munum við heyra sannleika sem mun innblása okkur að breytast, bæta okkur og hreinsa líf okkar. Í gegnum persónulega opinberun, getum við hindrað það sem sumir kalla „yfirþyrmandi aðalráðstefnu“ – þegar við förum svo ákveðin í að gera þetta allt strax. Konur bera marga hatta, en það er ómögulegt og óþarfi að bera þá alla samtímis. Andinn hjálpar okkur að ákveða að hvaða verki við einbeitum okkur í dag. 13

Kærleiksrík áhrif Drottins í gegnum heilagan anda hjálpar okkur að þekkja forgangsröð hans fyrir framþróun okkar. Að hlýta persónulegri opinberun, leiðir að persónulegri framþróun. 14 Við hlustum og bregðumst við. 15 Drottinn sagði: „Biðjið til föðurins í mínu nafni í trú, og í trú á að yður muni hlotnast, og þér skuluð hafa heilagan anda, sem opinberar allt það, sem mannanna börnum er æskilegt.“ 16 Áframhaldandi hlutverk okkar er að meðtaka áframhaldandi opinberannir.

Er við öðlumst meiri færni í að gera svo, getum við meðtekið meiri kraft í persónulegum þjónustuhlutverkum okkar og framkvæmt verk sáluhjálpar og upphafningar – að sannlega „leggja til hliðar það, sem þessa heims er, og leita þess, sem betra er.“ 17 Við getum þá enn frekar innblásið komandi kynslóðir til að gera slíkt hið sama.

Bræður og systur, við leitum öll máttar Guðs í lífi okkar. 18 Það er falleg eining milli karla og kvenna í því að takast á við verk Guðs í dag. Við höfum aðgang að krafti prestdæmisins í gegnum sáttmála, fyrst gerða í skírnarvatninu og svo að lokum innan veggja hinna heilögu mustera. 19 Nelson forseti kenndi okkur: „Hver kona og karl sem gerir sáttmála við Guð og heldur þá sáttmála og tekur verðuglega þátt í helgiathöfnum prestdæmisins, hefur beinan aðgang að krafti Guðs.“ 20

Persónuleg játning mín hér í dag er sú að ég gerði mér ekki alltaf grein fyrir því áður í lífi mínu, að ég hefði aðgang að krafti prestdæmisins, sem kona. 21 Systur, ég bið þess að við munum bera kennsl á og meta kraft prestdæmisins er við „[höldum] fast við … sáttmála [okkar],“ 22 umföðmum sannleika ritninganna og hlítum orðum lifandi spámanna okkar.

Lýsum djarflega yfir hollustu okkar við himneskan föður og frelsara okkar með „óbifanlega trú á hann og með því að treysta í einu og öllu á verðleika hans , sem máttinn hefur til að frelsa.“ 23 Höldum fagnandi áfram á þessari leið, að okkar mestu andlegu möguleikum, og hjálpum þeim sem í kringum okkur eru til að gera slíkt hið sama, með kærleika, leiðtogastörfum, þjónustu og samúð.

Öldungur James E. Talmage minnti okkur blíðlega á: „Heimsins besti talsmaður kvenna og kvendóms er Jesús Kristur.“ 24 Í lokagreiningu á áframhaldandi hlutverkum kvenna í endurreisninni, og fyrir okkur öll, hvert þeirra er þá mest áberandi? Ég ber vitni um að það er að hlýða á hann, 25 að fylgja honum, 26 að treysta honum 27 og að verða framlenging á elsku hans. 28 Ég veit að hann lifir. 29 Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.