Aðalráðstefna
Koma til Krists – Lifa líkt og Síðari daga heilagir
Aðalráðstefna apríl 2020


2:3

Koma til Krists – Lifa líkt og Síðari daga heilagir

Við getum gert það sem erfitt er og hjálpað öðrum að gera það sama, því við vitum á hvern við getum sett traust okkar.

Þakka þér, öldungur Soares, fyrir hinn kröftuga og sámannlega vitnisburð um Mormónsbók. Nýlega gafst mér það sérstaka tækifæri að halda á síðu úr upprunalega handriti Mormónsbókar. Á þessari ákveðnu síðu voru þessi djörfu orð Nefís fyrst rituð í þessari ráðstöfun: „Ég mun fara og gjöra það, sem Drottinn hefur boðið, því að ég veit, að Drottinn gefur mannanna börnum engin fyrirmæli án þess að greiða þeim veg til að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið þeim.“ 1

Síða úr upprunalegu handriti Mormónsbókar

Þegar ég hélt á þessari síðu, fylltist ég djúpu þakklæti fyrir framlag hins 23 ára Josephs Smith, sem þýddi Mormónsbók „með gjöf og krafti Guðs.“ 2 Ég fann líka til þakklætis fyrir orð hins unga Nefís, sem hafði verið boðið að framkvæma hið afar erfiða verk að ná í látúnstöflur Labans.

Nefí vissi að ef hann héldi áfram að einblína á Drottin, myndi honum takast að framfylgja því sem Drottinn bauð honum. Hann einblíndi alla ævi á frelsarann, þótt hann þoldi freistingar, líkamlegar raunir og væri svikinn af sumum í fjölskyldu sinni.

Nefí vissi á hvern hann gat sett traust sitt. 3 Stuttu eftir að hann hrópaði: „Ó, ég aumur maður! Já, hjarta mitt hryggist vegna holds míns,“ 4 sagði hann: „Guð minn hefur verið stoð mín. Hann leiddi mig út úr þrengingum mínum í óbyggðunum, og hann hefur varðveitt mig á vötnum hins mikla dýpis.“ 5

Okkur, sem fylgjendum Krists, er ekki hlíft við áskorunum og raunum lífsins. Oft er okkur boðið að gera það sem erfitt er og væri yfirþyrmandi og jafnvel ómögulegt, ef við gerðum það einsömul. Þegar við tökum á móti boði frelsarans „komið til mín,“ 6 mun hann veita okkur nauðsynlegan stuðning, huggun og frið, líkt og hann veitti Nefí og Joseph. Við getum, jafnvel mitt í okkar erfiðustu raunum, fundið umlykjandi elsku hans, er við treystum honum og meðtökum vilja hans. Við getum upplifað gleðina sem veitist hinum trúföstu lærisveinum, því „Kristur er gleði.“ 7

Árið 2014, þegar ég þjónaði í fastatrúboði, upplifði fjölskylda okkar óvænta atburðarás. Þegar yngsti sonur okkar var á ferð niður bratta hlíð á hjólabretti, datt hann illa og skaddaðist lífshættulega á heila. Þegar ástand hans fór versnandi, fór læknaliðið í flýti með hann í bráðaaðgerð.

Fjölskyldan kraup á gólf sjúkrastofunnar, sem ella var tóm, og við úthelltum hjörtum okkar til Guðs. Á þessari ruglingslegu og sársaukafullu stundu, fylltumst við elsku og friði himnesks föður.

Við vissum ekki hvað framtíðin bæri í skauti sér eða hvort við sæjum son okkar aftur lifandi. Við vissum þó fyrir víst að líf hans var í höndum Guðs og að útkoman yrði bæði honum og okkur til góðs, út frá sjónarhorni eilífðar. Fyrir gjöf andans vorum við fyllilega reiðubúin að sætta okkur við hvaða niðurstöðu sem var.

Það var ekki auðvelt! Þetta slys leiddi af sér tveggja mánaða sjúkrahúsvist, meðan við vorum í forsæti 400 fastatrúboða. Sonur okkar missti minnið að þó nokkru marki. Bati hans fólst í langri og erfiðri líkams- og talþjálfun og faglegri iðjuþjálfun. Áskoranir koma enn fram, en í tímans rás höfum við orðið vitni að kraftaverki.

Okkur er fyllilega ljóst að allar raunir munu ekki enda að eigin óskum. Þegar við hins vegar einblínum á Krist, munum við finna frið og sjá kraftarverk Guðs, hver sem þau verða, á hans tíma og hans hátt.

Það munu verða stundir þar sem við fáum engan veginn séð að núverandi ástand endi vel og við gætum jafnvel sagt með Nefí: „Hjarta mitt hryggist vegna holds míns.“ 8 Þeir tímar kunna að koma að eina von okkar er á Jesú Krist. Hve mikil blessun að eiga þá von og treysta honum. Kristur er sá sem alltaf mun halda loforð sín. Hvíld hans er öllum þeim vís sem koma til hans. 9

Leiðtogar okkar þrá innilega að allir finni friðinn og huggunina sem þeim veitist sem treysta og einblína á frelsarann Jesú Krist.

Okkar lifandi spámaður, Russell M. Nelson forseti, hefur tjáð okkur sýn Drottins fyrir heiminn og meðlimi kirkju Krists: „Boðskapur okkar til heimsins er einfaldur og einlægur. Við bjóðum öllum börnum Guðs, báðum megin hulunnar, að koma til frelsara síns, taka á móti blessunum hins heilaga musteris, njóta varanlegrar gleði og vera hæf fyrir eilíft líf.“ 10

Þetta boð, um að „koma til Krists,“ hefur sérstaka merkingu fyrir Síðari daga heilaga. 11 Við, sem meðlimir kirkju frelsarans, höfum gert sáttmála við hann og erum andlega getin synir hans og dætur. 12 Okkur hefur líka gefist það tækifæri að starfa með Drottni við að bjóða öðrum að koma til hans.

Þegar við störfum með Kristi, ættum við að einbeita okkur sérstaklega innan heimila okkar. Þeir tímar koma er fjölskyldumeðlimir og nánir vinir munu standa frammi fyrir áskorunum. Raddir heimsins, og jafnvel eigin þrár, gætu fengið þau til að efast um sannleikann. Við ættum að gera allt sem við getum til að hjálpa þeim að finna bæði elsku frelsarans og elsku okkar. Ég minnist ritningarversins sem hefur orðið að kærum sálmi okkar, „Elskið hver annan,“ sem kennir: „Þá sést að þér eruð mínir lærisveinar, ef að þér elskið hver annan.“ 13

Óvinur allrar gleði gæti, vegna elsku okkar til þeirra sem efast um sannleikann, reynt að fá okkur til að trúa að við höfum svikið þá sem við elskum, ef við sjálf höldum áfram að lifa eftir fyllingu fagnaðarerindisins og kenna sannleika þess.

Hæfni okkar til að hjálpa öðrum að koma eða koma aftur til Krists, mun að mestu ákvarðast af því fordæmi sem við setjum með eigin skuldbindingu um að vera á sáttmálsveginum.

Ef við sannlega þráum að bjarga ástvinum okkar, þá verðum við sjálf að vera staðföst í Kristi, með því að taka á móti kirkju hans og fyllingu fagnaðarerindis hans.

Svo við snúum okkur aftur að frásögn Nefís, þá vitum við að þá tilhneigingu Nefís að setja traust sitt á Drottin, mátti rekja til þeirra áhrifa foreldra hans að treysta Drottni og fordæmis við að halda sáttmála sína. Þetta er skýrt með fallegu dæmi í sýn Lehís um lífsins tré. Eftir að Lehí hafði neytt af hinum gleðiríka ávexti trésins „leit [hann] í kringum [sig] í von um að koma auga á fjölskyldu [sína].“ 14 Hann sá Saríu, Sam og Nefí standa „rétt eins og þau vissu ekki, hvert halda skyldi.“ 15 Lehí sagði síðan: „Og svo bar við, að ég veifaði til þeirra og hrópaði einnig hárri röddu, að þau skyldu koma til mín og neyta af ávextinum, sem eftirsóknarverðari væri öllum öðrum ávöxtum.“ 16 Gætið að því að Lehí fór ekki frá lífsins tré. Hann dvaldi andlega hjá Drottni og bauð fjölskyldu sinni að koma þangað sem hann var að neyta ávaxtarins.

Óvinurinn myndi lokka suma til að segja skilið við gleði fagnaðarerindisins, með því að aðskilja kenningar Krists frá kirkju hans. Hann myndi telja okkur trú um að við gætum verið staðföst á sáttmálsveginum ein og óstudd, að eigið andríki dygði, óháð kirkju hans.

Kirkja Krists var endurreist á þessum síðari tímum til að hjálpa sáttmálsbörnum Krists að vera á sáttmálsvegi hans.

Í Kenningu og sáttmálum lesum við: „Sjá, þetta er mín kenning – hver, sem iðrast og kemur til mín, hann er mín kirkja.“ 17

Fyrir kirkju Krists, erum við styrkt með upplifunum okkar sem samfélag heilagra. Við heyrum rödd hans fyrir meðalgöngu spámanna hans, sjáenda og opinberara. Mikilvægast er, að fyrir kirkju hans er okkur séð fyrir öllum nauðsynlegum blessunum friðþægingar Krists, sem aðeins eru mögulegar með þátttöku í helgiathöfnum.

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er kirkja Krists á jörðunni, endurreist á þessum síðari dögum, öllum börnum Guðs til blessunar.

Ég ber vitni um að þegar við „komum til Krists“ og lifum sem Síðari daga heilagir, munum við blessuð með aukinni elsku hans, gleði hans og friði. Við getum, líkt og Nefí, gert það sem erfitt er og hjálpað öðrum að gera það sama, því við vitum á hvern við getum sett traust okkar. 18 Kristur er ljósið okkar, lífið okkar og hjálpræðið okkar. 19 Í nafni Jesú Krists, amen.