„Lát reisa þetta hús nafni mínu“
Sáttmálarnir sem tekið er á móti og helgiathafnirnar sem framkvæmdar eru í musterum, eru öllu heldur nauðsynleg til að helga hjörtu okkar og til endanlegrar upphafningar sona og dætra Guðs.
Í Lundinum helga, fyrir 200 árum, sá og talaði hinn ungi Joseph Smith við Guð, hinn eilífa föður, og son hans, Jesú Krist. Af þeim lærði Joseph um hið sanna eðli Guðdómsins og viðvarandi opinberanir, er þessi guðlega vitrun varð til að innleiða síðari daga „[fyllingu] tímans.“1
Um þremur árum síðar, sem svar við einlægri bæn að kvöldi 21. september 1823, fylltist svefnherbergi Josephs ljósi, uns birtan var orðin „meiri en um hábjartan dag.“2 Við rúmstokk hins unga pilts birtist vera, nefndi hann með nafni og lýsti yfir „að hann væri sendiboði, sem sendur væri á … úr návist Guðs og héti Moróní.“3 Hann sagði Joseph frá komu Mormónsbókar.
Moróní vitnaði síðan í Malakí í Gamla testamentinu, með örlitlum blæbrigðamun frá því máli sem notað er í útgáfu Jakobs konungs:
„Sjá, með hendi spámannsins Elía opinbera ég yður prestdæmið, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. …
Og hann mun gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin, og hjörtu barnanna munu snúa til feðra sinna. Ef svo væri ekki, mundi jörðin öll verða gjöreydd við komu hans.“4
Mikilvægt er að fyrirmæli Morónís til Josephs Smith um verkefni Elía, voru undanfari musteris- og ættarsögustarfs á síðari dögum og var lykilþáttur í því að endurreisa „alla hluti, eins og [Guð] hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.“5
Ég bið um liðsinni heilags anda, er við lærum saman um sáttmálana, helgiathafnirnar og blessanirnar sem standa okkur til boða í musterum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Endurkoma Elía
Ég byrja á því að spyrja mikilvægrar spurningar: Afhverju var endurkoma Elía mikilvæg?
„Af síðari daga opinberun vitum við að Elía hefur innsiglunarvald Melkísedeksprestdæmisins“6 og hann var „síðastur spámanna sem það gerði fyrir tíma Jesú Krists.“7
Spámaðurinn Joseph Smith útskýrði: „Andi, kraftur og köllun Elía er að við hljótum kraft til að hafa lykla … fyllingar Melkísedeksprestdæmisins. … og til að … [hljóta] … allar þær helgiathafnir sem heyra til ríkis Guðs, já, til þess að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna, jafnvel þeirra sem á himnum eru.“8
Þetta helga innsiglunarvald er nauðsynlegt, svo „hvað, sem hann bindur á jörðu, mun bundið verða á himni, og hvað, sem hann leysir á jörðu, mun leyst verða á himni.“9
Joseph sagði ennfremur: „Hvernig mun Guð koma þessari kynslóð til bjargar? Hann mun senda spámanninn Elía. … Elía mun opinbera sáttmálana til að innsigla hjörtu feðranna börnunum og barnanna feðrunum.“10
Elía birtist með Móse á fjalli ummyndunar og veitti Pétri, Jakobi og Jóhannesi þetta valdsumboð.11 Elía birtist einnig með Móse og Elíasi 3. apríl 1836, í Kirtland-musterinu og veitti Joseph Smith og Oliver Cowdery þessa sömu prestdæmislykla.12
Endurreisn innsiglunarvaldsins af hendi Elía árið 1836 var nauðsynlegt til að búa heiminn undir síðari komu frelsarans og vekja stóraukinn áhuga heimsins á ættarsögurannsóknum.
Umbreyta, snúa og hreinsa hjörtu
Orðið hjarta er notað yfir eitt þúsund sinnum í helgiritunum. Þetta einfalda en þýðingarmikla orð táknar oft innri tilfinningar einstaklings. Hjarta okkar – sem stendur fyrir allar þrár okkar, elsku, ásetning og viðhorf – ákveður hver við erum og hver við verðum. Kjarni verks Drottins er að umbreyta, snúa og hreinsa hjörtu fyrir tilstilli sáttmála fagnaðarerindisins og helgiathafna prestdæmisins.
Við reisum ekki eða förum í helg musteri einungis til að hljóta eftirminnilega upplifun, sem einstaklingur eða fjölskylda. Sáttmálarnir sem tekið er á móti og helgiathafnirnar sem framkvæmdar eru í musterum, eru öllu heldur nauðsynleg til að helga hjörtu okkar og til endanlegrar upphafningar sona og dætra Guðs.
Að gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheitið sem gefið var feðrunum – já, Abraham, Ísak og Jakobi – að snúa hjörtum barnanna til feðra sinna, stuðla að ættarsögurannsóknum og framkvæma helgiathafnir með staðgenglum í musterinu, er atferli sem blessar einstaklinga beggja vegna hulunnar. Þegar við störfum af kappi í þessu helga verki, erum við að halda boðorðin um að elska og þjóna Guði og samferðafólki okkar.13 Slík óeigingjörn þjónusta gerir okkur sannlega kleift að „[hlýða] á hann!“14 og koma til frelsarans.15
Helgustu sáttmálarnir og helgiathafnir prestdæmis eru einungis meðtekin í musterinu – húsi Drottins. Allt sem kennt og gert er í musterinu, hefur guðleika Jesú Krists að þungamiðju og hlutverk hans í hinni miklu hamingjuáætlun himnesks föður.
Innan frá og út
Ezra Taft Benson forseti lýsti mikilvægri forskrift sem frelsarinn fer eftir til að „gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“16 Hann sagði: „Drottinn vinnur innan frá og út. Heimurinn vinnur utan frá og inn. Heimurinn tekur fólk úr örbirgð. Kristur tekur örbirgðina úr fólki, sem síðan tekur sjálft sig úr örbirgðinni. Heimurinn breytir mönnum með því að breyta umhverfi þeirra. Kristur breytir mönnum sem síðan breyta umhverfi sínu. Heimurinn mótar hegðun manna, en Kristur megnar að breyta eðli manna.“17
Sáttmálar og helgiathafnir prestdæmisins eru nauðsynleg í hinu viðvarandi ferli umbreytingar og andlegrar endurfæðingar; þau eru aðferð Drottins til að vinna með sérhvert okkar innan frá og út. Sáttmálar sem eru trúfastlega heiðraðir, ætíð hafðir í huga og ritaðir „með anda lifanda Guðs, … á hjartaspjöld úr holdi“18, veita okkur tilgang og fullvissu um blessanir í jarðlífinu og um eilífð. Helgiathafnir sem verðuglega er tekið á móti og stöðugt eru hafðar í huga, munu ljúka upp himneskum farvegi, sem kraftur guðleikans streymir um í lífi okkar.
Við komum ekki í musterið til að forðast eða flýja hið illa í þessum heimi. Við komum fremur til musterisins, til að sigrast á illum heimi. Þegar við bjóðum „[krafti] guðleikans“19 í líf okkar, með því að taka á móti helgiathöfnum prestdæmis og gera og halda sáttmála, verðum við blessuð með styrk umfram okkar eigin20, til að sigrast á freistingum og áskorunum jarðlífsins og gera gott og verða góð.
Frægð þessa húss mun breiðast
Fyrsta musterið á þessari ráðstöfun var byggt í Kirtland, Ohio, og vígt 27. mars 1836.
Í opinberun til Josephs Smith, einni viku eftir vígsluna, sagði Drottinn:
„Lát hjörtu alls míns fólks fagna, sem af mætti sínum [hefur] reist nafni mínu þetta hús. …
Já, hjörtu þúsunda og tugþúsunda skulu fagna ákaft yfir þeim blessunum, sem úthellt verður, og þeirri gjöf, sem þjónum mínum hefur verið veitt í þessu húsi.
Og frægð þessa húss mun breiðast til annarra landa, og þetta er upphaf þeirra blessana, sem úthellt verður yfir fólk mitt.“21
Gætið vinsamlega að orðtökunum, hjörtu þúsunda og tugþúsunda skulu fagna ákaft og frægð þessa húss mun breiðast til annarra landa. Þetta voru heillandi yfirlýsingar í apríl árið 1836, þegar í kirkjunni voru einungis handfylli meðlima og eitt musteri.
Í dag, árið 2020, eru starfrækt musteri 168 talsins. Fjörutíu og níu musteri til viðbótar eru í byggingu eða ráðgerð. Hús Drottins eru byggð á „eyjum sjávar“22 og á stöðum og í löndum sem áður voru talin ólíkleg til að leyfa musteri.
Helgiathöfn musterisgjafar er sem stendur sett fram á 88 tungumálum og mun verða tiltæk á mörgum fleiri tungumálum, eftir því sem musteri eru byggð til að blessa fleiri börn Guðs. Á næstu 15 árum mun fjöldi þeirra tungumála sem musterishelgiathafnir verða tiltækar á líklega tvöfaldast.
Á þessu ári munum við taka fyrstu skóflustungu að 18 musterum og hefja byggingu þeirra. Það tók hins vegar 150 ár að byggja fyrstu 18 musterin, frá stofnun kirkjunnar, árið 1830, til vígslu Tókýó-musterisins í Japan, sem Spencer W. Kimball forseti framkvæmdi árið 1980.
Hugleiðið hinn aukna hraða musterisstarfs, sem einungis hefur gerst á æviskeiði Russells M. Nelson forseta. Þegar Nelson forseti fæddist 9. september 1924, voru starfrækt musteri kirkjunnar sex talsins.
Þegar hann var vígður postuli, 7. apríl 1984, 60 árum síðar, voru 26 musteri starfrækt, sem er aukning um 20 musteri á 60 árum.
Þegar Nelson forseti var studdur sem forseti kirkjunnar, voru 159 musteri starfrækt, sem er aukning um 133 musteri á 34 árum, sem er sá tími sem hann þjónaði í Tólfpostulasveitinni.
Frá því að Nelson forseti varð kirkjuforseti, 14. janúar 2018, hefur hann tilkynnt um byggingu 35 nýrra mustera.
Níutíu og sex prósent mustera sem til eru hafa verið vígð á æviskeiði Nelsons forseta; 84 prósent hafa verið vígð frá því að hann var vígður sem postuli.
Einblínið alltaf á það sem mestu skiptir
Við, sem meðlimir hinnar endurreistu kirkju Drottins, furðum okkur öll á hinum aukna hraða verks hans á síðari dögum. Fleiri musteri eru í bígerð.
Brigham Young spáði: „Til að vinna þetta verk þarf að vera, ekki bara eitt, heldur þúsundir mustera, og tugþúsundir karla og kvenna munu fara í þessi musteri og vinna verk fyrir fólk sem lifað hefur svo langt aftur sem Drottinn afhjúpar.“23
Skiljanlega er tilkynning um hvert nýtt musteri mikið gleðiefni og ástæða til að færa Drottni þakkir. Mikilvægast er þó að við einblínum á sáttmálana og helgiathafnirnar sem megna að umbreyta hjörtum okkar og auka trúrækni okkar við frelsarann, en ekki einungis á staðsetningu eða fegurð byggingarinnar.
Þær grundvallarskyldur sem á okkur hvíla sem meðlimum hinnar endurreistu kirkju Drottins, eru (1) að „[hlýða] á hann!“24 og láta umbreytast í hjarta fyrir tilstilli sáttmála og helgiathafna og (2) fúslega framfylgja hinni guðlega tilnefndu ábyrgð að bjóða allri fjölskyldu mannkyns blessanir musterisins, beggja vegna hulunnar. Með leiðsögn og liðsinni Drottins, munum við vissulega framfylgja þessum helgu skyldum.
Uppbygging Síonar
Spámaðurinn Joseph Smith lýsti yfir:
„Fólk Guðs hefur á öllum öldum haft hug á því að byggja upp Síon. Á þeim málstað hafa spámenn, prestar og konungar haft sérstakt dálæti, þeir hafa horft fram til okkar tíma með tilhlökkun og sungið, ritað og spáð um þá af himneskum fögnuði, en þeir dóu án þess að líta þá augum. …Okkur er ætlað að líta þá augum og taka þátt í að efla dýrð þeirra.“25
„Hið himneska prestdæmi verður þá sameinað hinu jarðneska, til að gera þennan mikla tilgang að veruleika, … verki sem Guð og englar hafa af dálæti áformað fyrir horfnar kynslóðir, sem fyllti sálir hinna fornu patríarka og spámanna eldmóði; verki sem ætlað er að leiða til lykta tortímingu myrkravaldsins, endurnýja jörðina, koma dýrð Guðs til leiðar, og hjálpræði allra manna.“26
Ég ber hátíðlega vitni um að faðirinn og sonurinn birtust Joseph Smith og að Elía endurreisti innsiglunarvaldið. Helgir sáttmálar og helgiathafnir musterisins geta styrkt okkur og hreinsað hjörtu okkar, er við „[hlýðum] á hann!“27 og hljótum kraft guðleikans í lífi okkar. Ég ber líka vitni um að þetta síðari daga verk mun tortíma krafti myrkurs og koma til leiðar sáluhjálp fjölskyldu mannkyns. Um þennan sannleika ber ég glaður vitni, í hinu helga nafni Drottins Jesú Krists, amen.