Aðalráðstefna
Hvernig prestdæmið blessar æskufólkið
Aðalráðstefna apríl 2020


2:3

Hvernig prestdæmið blessar æskufólkið

Okkur er veitt það tækifæri að þjónusta líkt og englar, prédika fagnaðarerindið á öllum meginlöndum jarðar og hjálpa sálum að koma til Krists.

Bræður og systur, ég er sannlega þakklátur fyrir að tala til ykkar á þessum sögulega atburði, um hina helgu gjöf prestdæmisins og hinn undursamlega kraft sem hún býr yfir til að blessa æskufólk þessarar ráðstöfunar. Ég bið þess að andinn liðsinni mér við kennslu sannleikans, þrátt fyrir annmarka mína.

Æðsta forsætisráðið hefur minnt Aronsprestdæmishafa á: „Þið lifið á tíma tækifæra og áskorana – á tíma þegar prestdæmið hefur verið endurreist. Þið hafið valdsumboð til að þjónusta helgiathafnir Aronsprestdæmisins. Þegar þið iðkið það valdsumboð af kostgæfni, munið þið stórum blessa líf þeirra sem umhverfis ykkur eru.“1 Við, sem piltar í kirkjunni, erum líka minntir á að við erum „ástkærir synir Guð og hann ætlar [okkur] verk að vinna“2 og við aðstoðum við það verk að „gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Prestdæmið er valdið til að þjónusta helgiathafnir og sáttmála fagnaðarerindis frelsarans, í þágu þeirra sem eru verðugir að taka á móti þeim. Allar blessanir friðþægingar frelsarans, sem gera okkur kleift að ná guðlegum möguleikum okkar, hljótast fyrir tilstilli þessara helgiathafna og helgra sáttmála prestdæmisins.

Joseph Smith var ungur maður, sem var kallaður af Guði til að endurreisa fagnaðarerindi Jesú Krists og í þeim tilgangi var honum veitt prestdæmið, sem hann notaði öllu mannkyni til blessunar. Í Kenningu og sáttmálum 135, er sagt frá mörgum þeirra blessana sem Joseph hefur veitt æskufólki þessrar ráðstöfunar. Við lesum: „Joseph Smith … hefur, að Jesú einum undanskildum, gjört meira manninum til sáluhjálpar í þessum heimi en nokkur annar, sem lifað hefur í honum. … Hann [hefur] leitt fram Mormónsbók, … sent fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis … til allra hinna fjögurra heimshluta og hefur leitt fram opinberanir og boð, sem mynda … Kenningu og sáttmála, … safnað saman mörgum þúsundum Síðari daga heilagra … og skilið eftir sig frægð og nafn, sem ekki verður þurrkað út“ (Kenning og sáttmálar 135:3).

Við þurfum að vera verðugir til að nota prestdæmiskraft Drottins, til að geta þjónað á áhrifaríkan hátt, líkt og Joseph gerði. Þegar Joseph og Oliver Cowdery unnu að þýðingu Mormónsbókar, vildu þeir láta skírast, en höfðu ekki réttmætt vald til þess. Þeir krupu í bæn, 15. maí 1829, og var vitjað af Jóhannesi skírara, sem veitti þeim lykla og vald Aronsprestdæmisins, með þessum orðum: „Yður, samþjónum mínum, veiti ég í nafni Messíasar Aronsprestdæmið, sem hefur lykla að þjónustu engla og fagnaðarerindi iðrunar og niðurdýfingarskírn til fyrirgefningar syndanna“ (Kenning og sáttmálar 13).

Okkur er veitt það tækifæri að þjónusta líkt og englar, prédika fagnaðarerindið á öllum meginlöndum jarðar og hjálpa sálum að koma til Krists. Með þessari þjónustu eigum við í samstarfi við Jóhannes skírara, Moróní, Joseph Smith, Russell M. Nelson forseta og aðra kostgæfna þjóna Drottins.

Þjónusta okkar í og með þessu prestdæmi leiðir saman þá sem trúfastlega og nákvæmlega fylgja og lifa eftir kenningum Drottins, sem ég veit persónulega að getur reynst erfitt á hinum ögrandi æskuárum. Að taka höndum saman með þessum samþjónum Drottins, við að vinna að verki hans, mun veita okkur styrk gegn freistingum og blekkingum óvinarins. Þið getið verið öllum þeim leiðarljós sem eru óvissir um sig sjálfa. Ykkar innra ljós mun skína svo bjart að allir sem þið eigið samskipti við munu blessaðir verða einungis af samfélagi við ykkur. Það kann stundum að vera erfitt að viðurkenna nærveru andlegra félaga okkar, en ég er þakklátur fyrir að vita að ég sé meðlimur trúfastrar prestdæmissveitar, sem ég get starfað með til að verða nánari Kristi.

Heilagur andi er einn okkar dyggasti og áreiðanlegasti félagi, ásamt vinum okkar og fjölskyldu. Við verðum þó að vera í aðstæðum og á stöðum sem hæfa nærveru hans, til að njóta stöðugs samfélags við hann. Það getur hafist á okkar eigin heimilum, er við vinnum að því að gera þau að heilögum stöðum, með því að taka þátt í daglegu ritninganámi og biðja saman sem fjölskylda og, það sem mestu skiptir, að læra ritningarnar persónulega og biðja í einrúmi.

Enzo og systir hans
Enzo og fjölskylda hans

Fyrr á þessu ári veittist mér spennandi, en auðmjúkt tækifæri til að hjálpa litlu systur minni, Oceane, að sækja fram á sáttmálsveginum, með því að taka á móti boðinu um að láta skírast og uppfylla eitt af skilyrðum þess að komast í himneska ríkið. Hún frestaði skírn sinni um einn mánuð, þar til ég hafði verið vígður sem prestur, til að veita mér þá ánægju að framkvæma helgiathöfnina, og hinum systrum okkar þau forréttindi að starfa undir leiðsögn prestdæmisins sem vitni. Þar sem við stóðum andspænis hvort öðru við fontinn, í þann mund að fara ofan í vatnið, þá tók ég eftir að hún var jafn eftirvæntingafull og ég var. Mér fannst við vera eitt með henni og sá að hún var að taka rétta ákvörðun. Þetta tækifæri til að nota prestdæmið, krafðist þess að ég lifði af meiri kostgæfni eftir fagnaðarerindinu. Ég fór í musterið dag hvern þessa viku til að undirbúa mig og naut stuðnings mömmu, ömmu og systur, við að vinna að skírnum fyrir dána.

Þessi reynsla kenndi mér margt um prestdæmið og hvernig ég gat notað það verðuglega. Ég veit að allir prestdæmishafar geta skynjað það sama og ég skynjaði, ef við fylgjum fordæmi Nefís um að „fara og gjöra“ (sjá 1. Nefí 3:7). Við getum ekki setið aðgerðarlausir og vænst þess að Drottinn noti okkur í hinu mikla verki hans. Við megum ekki bíða eftir að þeir leiti okkar sem þarfnast hjálpar okkar; það er skylda okkar sem prestdæmishafa að sýna gott fordæmi og vera vitni Guðs. Ef við tökum ákvarðanir sem koma í veg fyrir eilífa framþróun okkar, verðum við að breyta því núna. Satan mun reyna sitt besta til að halda okkur í því holdlega ástandi að leita eftir einfaldri ánægju. Ég veit þó að ef við bregðumst við, finnum þá sem vilja styðja okkur og iðrumst dag hvern, munu blessanirnar í kjölfarið verða ólýsanlegar og líf okkar mun breytast varanlega, er við sækjum fram á sáttmálsveginum.

Ég veit að þetta er hin sanna kirkja Jesú Krists, sem er frelsari okkar og hann hefur úthlutað postulum sínum lykla prestdæmisins, sem nota þá til að leiða okkur, einkum á þessum erfiðu tímum, og búa heiminn undir endurkomu hans.

Ég veit að Joseph Smith var spámaður endurreisnarinnar og að Russell M. Nelson forseti er lifandi spámaður okkar tíma. Ég býð ykkur öllum að læra um líf þessara miklu prestdæmishafa og reyna að bæta ykkur daglega, svo við verðum undir það búnir að mæta skapara okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Æðsta forsætisráðið, í Fulfilling My Duty to God (bæklingur, 2010), 5.

  2. Þema Aronsprestdæmisisveita í General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 10.1.2, ChurchofJesusChrist.org.