Eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar?
Við ættum alltaf að muna eftir gjaldinu sem Joseph og Hyrum Smith reiddu af hendi, ásamt svo mörgum öðrum trúuðum körlum, konum og börnum, til að koma kirkjunni á fót.
Þakka þér innilega, forseti, fyrir hin dásamlegu inngangsorð. Bræður og systur, fyrir tvö hundruð og fimmtán árum fæddist lítill drengur Joseph og Lucy Mack Smith í Vermont, á svæði sem þekkt er sem Nýja-England, í norðausturhluta Bandaríkjanna.
Joseph og Lucy Mack trúðu á Jesú Krist, lærðu hinar helgu ritningar, báðust fyrir af einlægni og gengu í trú á Guð.
Þau létu hið nýja barn sitt heita Joseph Smith yngri.
Um Smith-fjölskylduna sagði Brigham Young: „Augu Drottins hvíldu á [Joseph Smith], og á föður hans, og á afa hans, og á forfeðrum hans allt aftur til Abrahams, og frá Abraham til flóðsins, frá flóðinu til Enoks, og frá Enok til Adams. Hann hafði augastað á þessari ættkvísl og þessu blóði, allt frá uppruna hennar til fæðingar þessa manns. [Joseph Smith] var forvígður í eilífðinni.“ 1
Joseph yngri var elskaður af fjölskyldu sinni og einkar náinn eldri bróður sínum, Hyrum, sem var um sex ára gamall þegar Joseph fæddist.
Í október síðastliðnum sat ég við arininn á litla Smith-heimilinu í Sharon, Vermont, þar sem Joseph fæddist. Ég skynjaði elsku Hyrums til Josephs og hugsaði um hann haldandi á litla bróður sínum í fanginu og kenna honum að ganga.
Faðir og móðir Smith urðu fyrir persónulegum áföllum og neyddust oft til að flytja fjölskyldu sína, áður en þau gáfust upp á Nýja-Englandi og tóku þá hugrökku ákvörðun að flytja lengra vestur, til New York fylkis.
Þar sem fjölskyldan var samhent, komust þau í gegnum þessar áskoranir og tókust saman á við það ógnvekjandi verkefni að byrja upp á nýtt á hundrað hektara (0.4 km2) skógarsvæði í Manchester, í nágrenni Palmyra, New York.
Ég er ekki viss um að mörg okkar skilji hina líkamlegu og tilfinningalegu áþján sem Smith-fjölskyldan tókst á við – landruðning, gróðursetningu aldingarða og sáningu í akra, byggingu lítils timburhúss og annarra mannvirkja á býlinu, vinna daglaunavinnu og framleiða heimilisvörur til að selja í bænum.
Þegar fjölskyldan kom til vesturhluta New York, var gríðarlegur trúaráhugi á svæðinu – þekkt sem Hin mikla síðari vakning.
Á þessum tíma deilna og átaka meðal trúarflokka, upplifði Joseph stórkostlega sýn, nú kunnug sem Fyrsta sýnin. Við erum blessuð að búa yfir fjórum megin frásögnum, sem ég ætla að vitna í. 2
Joseph skráði: „Á þessum mikla æsingatíma hneigðist hugur minn til alvarlegra hugleiðinga og mikils kvíða, en þótt tilfinningar mínar væru djúpar og oft sárar, hélt ég mér utan við alla þessa flokka, þótt ég sækti samkomur þeirra eins oft og ég fékk við komið. … Glundroði og barátta var [þó] svo hörð á meðal hinna ýmsu safnaða, að ógerningur var fyrir jafn ungan mann og mig og jafn ókunnugan mönnum og málefnum að komast að nokkurri öruggri niðurstöðu um það, hverjir hefðu rétt fyrir sér og hverjir rangt.“ 3
Joseph leitaði svara í Biblíunni og las Jakobsbréfið 1:5: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefið.“ 4
Hann sagði: „Engin ritningargrein hefur nokkru sinni knúið á hjarta nokkurs manns af meiri krafti en þessi knúði á mitt í þetta sinn. Hún virtist þrengja sér inn í hjarta mitt og tilfinningar af miklu afli. Ég hugleiddi hana aftur og aftur.“ 5
Joseph komst að því að Biblían hafði ekki öll svör við spurningum lífsins; heldur kenndi hún körlum og konum hvernig þau gætu fundið svör við spurningum sínum með því að hafa samskipti við Guð í bæn.
Hann sagði ennfremur: „Í samræmi við ákvörðun mína að biðja Guð fór ég út í skóg til að gera tilraun. Þetta var að morgunlagi, fagran og heiðskíran dag, snemma vors árið átján hundruð og tuttugu.“ 6
Stuttu eftir það sagði Joseph: „Þegar ljósið hvíldi á mér, [og ég] sá tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina – [Joseph,] þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ 7
Frelsarinn mælti síðan: „Joseph, sonur minn, syndir þínar eru þér fyrirgefnar. Far þína leið, gakk í lögmáli mínu og hald boðorð mín. Sjá, ég er Drottinn dýrðar. Ég var krossfestur fyrir heiminn, svo allir sem á nafn mitt trúa megi öðlast eilíft líf.“ 8
Joseph sagði ennfremur: „Ég hafði því ekki fyrr öðlast vald á sjálfum mér á ný, svo að ég mætti mæla, en ég spurði verur þær, sem stóðu fyrir ofan mig í ljósinu, hvert allra þessara trúfélaga hefði á réttu að standa.“ 9
Hann sagði: „Þeir sögðu mér að allir trúsöfnuðir tryðu á rangar kenningar og að enginn þeirra væri Guði þóknanlegur sem kirkja hans og ríki. Og … á sama tíma hlaut [ég] loforð um að fylling fagnaðarerindisins yrði á einhverjum ókomnum tíma gerð mér kunnug.“ 10
Joseph sagði einnig: „Ég sá marga engla í þessari sýn.“ 11
Að lokinni þessari dýrðlegu sýn, ritaði Joseph: „Sál mín fylltist elsku og í marga daga gat ég fagnað af mikilli gleði. … Drottinn var með mér.“ 12
Hann hélt úr Lundinum helga til að hefja undirbúning sinn að því að vera spámaður Guðs.
Joseph tók einnig að læra um reynslu fornra spámanna – höfnun, mótlæti og ofsóknir. Joseph minntist á að hafa sagt einum prestinum, sem hafði verið virkur í trúarerjunum, frá því sem hann hafði séð og heyrt:
„Viðbrögð hans komu mér mjög á óvart, því að hann taldi frásögn mína ekki aðeins léttvæga, heldur auðsýndi hann henni fullkomna fyrirlitningu, kvað hana alla frá djöflinum komna, því að á okkar dögum gerðist ekkert, sem gæti talist sýnir eða opinberanir, öllu slíku hefði lokið með postulunum, og slíkt kæmi aldrei aftur.
Ég komst þó brátt að raun um, að saga mín hafði komið af stað miklum hleypidómum í minn garð meðal kennimanna, og varð hún orsök mikilla ofsókna, sem fóru jafnt og þétt í vöxt. … Þetta var raunar sammerkt öllum trúfélögunum – þau tóku öll höndum saman um að ofsækja mig.“ 13
Þremur árum síðar, árið 1823, lukust himnarnir aftur upp, sem hluti af hinni viðvarandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists á síðari dögum. Joseph sagði að engill að nafni Moróní hefði birst honum og sagt að „Guð ætlaði mér verk að vinna … [og ] að bók væri geymd, letruð á gulltöflur,“ sem geymdi „fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis, eins og frelsarinn hefði fengið það íbúunum [í Ameríku].“ 14
Að endingu fékk Joseph hina fornu heimild í hendur, þýddi hana og gaf hana út og nú er hún kunn sem Mormónsbók.
Bróðir hans Hyrum, sem hafði verið honum stöðugur stuðningsmaður, einkum í kjölfar sársaukafullrar og lífshættulegrar fótaaðgerðar hans, árið 1813, var eitt af vitnum gulltaflnanna. Hann var líka einn hinna sex meðlima kirkju Jesú Krists þegar hún var stofnuð árið 1830.
Joseph og Hyrum tókust saman á við aðsúg múgs og ofsóknir. Þeir voru t.d. vistaðir saman við ömurlegustu aðstæður í Liberty-fangelsinu í Missouri, í fimm mánuði á köldum vetri, árin 1838 til 39.
Í apríl 1839 skrifaði Joseph eiginkonu sinni, Emmu, og lýsti aðstæðum í Liberty-fangelsinu: „Ég held að ég hafi nú dag og nótt þurft að þola grettur og geiflur fangavarðar í um fimm mánuði og sex daga, innan veggja, rimla og ískrandi járnhurðar, þessa eyðilega, myrka og skítuga fangelsis. … Við viljum komast frá þessum [stað] hvað sem það kostar og fögnum því. Hvað sem um okkur verður, þá getum við ekki lent í verri holu en þessari. … Við munum aldrei sakna þess tíma sem við vorum í Liberty í Clay-sýslu í Missouri. Við höfum fengið nóg af þessu til eilífðarnóns.“ 15
Frammi fyrir ofsóknum sýndi Hyrum trú á loforð Drottins, þar með talið fullvissu um að komast undan óvinum sínum, ef hann kysi það. Í blessun sem Hyrum fékk árið 1835, af hendi Josephs Smith, lofaði Drottinn honum: „Þú skalt hafa kraft til að komast undan hendi óvina þinna. Sóst verður óþreytandi eftir lífi þínu, en þú munt komast undan. Ef þér finnst svo, og þú vilt það, skaltu hafa kraft til að leggja niður líf þitt, Guði til dýrðar.“ 16
Í júní 1844 stóð Hyrum frammi fyrir þeim kost að lifa eða leggja niður líf sitt, Guði til dýrðar, og „[innsigla] vitnisburð sinn með blóði sínu“ – við hlið síns ástkæra bróður, Josephs.“ 17
Viku fyrir hina örlagaríku ferð til Carthage, þar sem þeir voru myrtir með köldu blóði af vopnuðum múg, mönnum sem höfðu málað andlit sín til að verða ekki auðkenndir, skráði Joseph: „Ég ráðlagði Hyrum bróður mínum að fara með fjölskyldu sína til Cincinnati með næsta gufubát.“
Ég kemst enn við þegar ég hugsa um svar Hyrums: „Joseph, ég get ekki yfirgefið þig.“ 18
Joseph og Hyrum fóru því til Carthage, þar sem þeir urðu píslarvottar fyrir sakir málstaðs og nafns Krists.
Í opinberri yfirlýsingur um píslarvættið var eftirfarandi sagt: „Joseph Smith, spámaður og sjáandi Drottins, … hefur leitt fram Mormónsbók, sem hann þýddi með gjöf og krafti Guðs, og hefur staðið að útgáfu hennar í tveimur heimsálfum. Hann hefur sent fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis, sem hún geymir, til allra hinna fjögurra heimshluta og hefur leitt fram opinberanir og boð, sem mynda þessa bók, Kenningu og sáttmála, og mörg önnur lærdómsrík skjöl og leiðbeiningar, mannanna börnum til heilla. Hann hefur safnað saman mörgum þúsundum Síðari daga heilagra, grundvallað mikla borg og skilið eftir sig frægð og nafn, sem ekki verður þurrkað út. … Og líkt og flestir hinna Drottins smurðu til forna, hefur hann innsiglað ætlunarverk sitt og starf með blóði sínu, og svo hefur einnig bróðir hans Hyrum gjört. Í lífinu voru þeir ekki aðskildir, og í dauðanum urðu þeir ekki skildir að!” 19
Eftir píslarvættisdauða Josephs og Hyrums, var farið með líkama þeirra aftur til Nauvoo þeir þvegnir og klæddir, svo Smith-fjölskyldan gæti séð ástvini sína. Hin kæra móðir þeirra ritaði: „Ég hafði lengi styrkt hverja taug, vakið alla orku sálar minnar og ákallað Guð um að styrkja mig; en þegar ég kom inn í herbergið og sá báða myrta syni mína frammi fyrir augum mér og heyrði grát og kvein fjölskyldu minnar [og] hrópin … af vörum eiginkvenna þeirra, barna, bræðra og systra, var það mér um megn. Ég féll í grát og hrópaði til Drottins, af angist sálar minnar: ,Guð minn! Guð minn! Hví hefur þú yfirgefið þessa fjölskyldu?‘“ 20
Á þessari stundu sogar og ógæfu, sagði hún þá hafa sagt: „Móðir, gráttu okkur ekki. Við höfum sigrað heiminn með elsku.“ 21
Vissulega höfðu þeir sigrað heiminn. Joseph og Hyrum Smith, líkt og hinir trúföstu gerðu sem lýst er í Opinberunarbókinni, „[komu] úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins … [og eru] frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.
Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.
Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ 22
Þegar við fögnum þessu gleðilega tilefni, 200 ára afmæli Fyrstu sýnarinnar, ættum við alltaf að muna eftir gjaldinu sem Joseph og Hyrum Smith reiddu af hendi, ásamt svo mörgum öðrum trúuðum körlum, konum og börnum, til að koma kirkjunni á fót, svo þið og ég gætum notið hinna mörgu blessana og alls þessa opinberaða sannleika, sem við nú búum að. Trúmennska þeirra ætti aldrei að falla í gleymsku!
Ég hef oft velt fyrir mér afhverju Joseph og Hyrum og fjölskyldur þeirra þurftu að líða slíkar þjáningar. Ef til vill komust þeir til þekkingar á Guði með því að þjást á þann hátt að það hefði ekki getað gerst án þess. Þeir ígrunduðu Getsemane og kross frelsarans fyrir tilstilli þeirra. Líkt og Páll sagði: „Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna.“ 23
Joseph ritaði andríkt bréf til hinna heilögu, fyrir dauða sinn árið 1844. Það var ákall um verk, sem enn er viðvarandi í kirkjunni á okkar tíma:
Bræður [og systur], eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? Halda áfram en ekki aftur á bak. Hugrekki, bræður [og systur], og áfram, áfram til sigurs! …
… Við skulum því, sem kirkja og einstaklingar og sem Síðari daga heilagir, færa Drottni fórn í réttlæti.“ 24
Þegar við hlustum á andann á þessari 200 ára afmælishátíð yfir þessa helgi, hugleiðið þá hvaða fórn þið hyggist færa Drottni í réttlæti á komandi tíma. Verið hugrökk – segið einhverjum frá sem þið treystið og, síðast en ekki síst, gefið ykkur tíma til að gera það!
Ég veit að frelsarinn gleðst þegar við færum honum hjartans fórn í réttlæti, á sama hátt og hann gladdist yfir trúarfórn hinna merku bræðra, Josephs og Hyrums Smith, og allra annarra trúfastra heilagra. Um það ber ég hátíðlega vitni, í hinu helga nafni Drottins Jesú Krists, amen.