Aðalráðstefna
Lifandi vitni um hin lifandi Krist
Aðalráðstefna apríl 2020


2:3

Lifandi vitni um hin lifandi Krist

Meginboðskapur Mormónsbókar er að endurreisa sanna þekkingu á hinu mikilvæga hlutverki Jesú Krists til sáluhjálpar og upphafningar mannkyns.

Opið hús fyrir musterið í París, Frakklandi var í fullum gangi á sólríkum vordegi árið 2017, þegar maður nokkur sorgmæddur á svip gekk að einum leiðbeinandanna. Hann sagðist búa við hlið musterisins og játaði að hafa verið virkur mótmælandi byggingu þess. Hann sagði frá því að dag einn, er hann horfði út um íbúðargluggann sinn, hefði hann séð stóran krana slaka Kristsstyttu af himni ofan og setja hana varlega niður á lóð musterisins. Maðurinn lýsti yfir að þessi upplifun hefði algerlega breytt viðhorfi hans til kirkjunnar. Hann gerði sér grein fyrir að við værum fylgjendur Jesú Krists og bað okkur að fyrirgefa sér þann skaða sem hann gæti hafa verið valdur að.

Styttu komið fyrir við Parísarmusterið í Frakklandi.

Styttan Kristur, sem prýðir garð musterisins í París og fleiri lóðir kirkjunnar, ber vitni um elsku okkar til frelsarans. Hin upprunalega stytta er verk danska listamannsins Bertels Thorvaldsen, sem mótaði hana árið 1820 – sama ár og Fyrsta sýnin átti sér stað. Styttan er í miklu mótvægi við önnur listaverk frá þeim tíma, sem oftast sýna Krist þjást á krossinum. Verk Thorvaldsens sýnir hinn lifandi Krist, sem sigraði dauðann og býður okkur öllum opnum örmum að koma til sín. Einungis naglaförin á höndum hans og fótum, ásamt sárinu í síðu hans, bera vitni um þann ólýsanlega sársauka sem hann þoldi til að frelsa allt mannkyn.

Hendur frelsarans eins og þær eru á Kristsstyttunni

Ef til vill er ein ástæða þess að við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, kunnum að meta þessa styttu sú að hún minnir okkur á þá lýsingu sem gefin er í Mormónsbók, af frelsaranum birtast á meginlandi Ameríku:

Jesús Kristur heimsækir Ameríku

„Þau sáu mann stíga niður af himni, og var hann klæddur hvítum kyrtli, og hann sté niður og stóð mitt á meðal þeirra. …

Og svo bar við, að hann rétti fram hönd sína, ávarpaði lýðinn og sagði:

„Sjá. Ég er Jesús Kristur. …

… ég hef bergt af þeim beiska bikar, sem faðirinn gaf mér, og ég hef gjört föðurinn dýrðlegan með því að taka á mig syndir heimsins.“ 1

Þessu næst bauð hann hverjum karli, konu og barni að koma fram og leggja hendur í síðu sína, finna naglaförin á höndum sínum og fótum og meðtaka þannig persónulegan vitnisburð um að hann væri sannlega hinn langþráði Messías. 2

Þetta dýrðlega sögusvið er hápunktur Mormónsbókar. Þessi stytta af frelsaranum er lýsandi fyrir öll hin „góðu tíðindi“ fagnaðarerindisins, þar sem hann réttir blíðlega fram „[arma] miskunnarinnar,“ 3 til að bjóða sérhverjum manni að koma til sín og meðtaka blessanir friðþægingar sinnar.

Meginboðskapur Mormónsbókar er að endurreisa sanna þekkingu á hinu mikilvæga hlutverki Jesú Krists til sáluhjálpar og upphafningar mannkyns. Þetta þema endurtekur sig allt frá formálanum til síðustu orða lokakapítulans. Í gegnum aldir fráhvarfs og andlegrar ringulreiðar týndist eða spilltist hin dýpri merking þess sem Kristur gerði í Getsemane og á Golgata. Hve Joseph Smith hlýtur að hafa verið uppnuminn við þýðingu fyrsta Nefís, er hann uppgötvaði þetta stórkostlega loforð: „Þessar síðustu heimildir [Mormónsbók] … munu staðfesta sannleiksgildi hinna fyrri [Biblíunnar] … og þær munu leiða í ljós þau skýru og dýrmætu atriði, sem felld hafa verið úr þeim. Og þær munu gjöra öllum kynkvíslum, tungum og lýðum kunnugt, að Guðslambið er sonur hins eilífa föður og frelsari heimsins og allir menn verði að koma til hans, að öðrum kosti geti þeir ekki frelsast.“ 4

Einfaldur og dýrmætur sannleikur um friðþægingu frelsarans endurómar í gegnum Mormónsbók. Er ég tel upp nokkuð af þessum sannleika, býð ég ykkur að íhuga hvernig hann hefur breytt, eða gæti breytt, lífi ykkar.

  1. Friðþæging Jesú Krists er endurgjaldslaus gjöf til allra sem hafa lifað, sem lifa, og sem munu lifa á jörðinni. 5

  2. Auk þess að bera byrðar synda okkar, tók Kristur á sig sorgir okkar, heilsubresti, þjáningar, og sjúkdóma og allar þær þrengingar sem fylgja ástandi hins dauðlega manns. Það er engin angist, enginn sársauki eða sorg sem hann þoldi ekki fyrir okkur. 6

  3. Friðþægingarfórn frelsarans gerir okkur kleift að sigrast á neikvæðum afleiðingum falls Adams, þar á meðal líkamlegum dauða. Vegna Krists, munu öll börn Guðs sem fæðast á þessari jörðu upplifa sameiningu anda síns og líkama í gegnum kraft upprisunnar, burt séð frá réttlæti þeirra, 7 og snúa aftur til hans til að vera „[dæmd] eftir verkum sínum.“ 8

  4. Að hljóta allar blessanir friðþægingar frelsarans, er hins vegar háð kostgæfni okkar 9 við að lifa eftir „[kenningu] Krists.“ 10 Í draum sínum sá Lehí „krappan og þröngan veg“ 11 sem lá að lífsins tré. Ávöxtur þess, sem táknar elsku Guðs, eins og hinar óviðjafnanlegu blessanir friðþægingar Krists bera vott um, er „dýrmætari og eftirsóknarverðari [öllu]… og stærst allra gjafa Guðs.“ 12 Til þess að fá aðgang að þessum ávexti, verðum við að iðka trú á Jesú Krist, iðrast, „gefa gaum að orði Guðs,“ 13 meðtaka nauðsynlegar helgiathafnir og halda hina heilögu sáttmála ævina á enda. 14

  5. Með friðþægingu sinni hreinsaði Jesú Kristur ekki bara syndir okkar í burtu, heldur veitti hann okkur einnig virkjandi kraft sem lærisveinar hans geta notað til að [losna úr viðjum] hins náttúrlega [manns], 15 þróast „setning á setning ofan“ 16 og orðið heilagri, 17 svo að sá dagur komi að þeir geta orðið fullkomnar verur í mynd Krists, 18 hæfir til að dvelja aftur hjá Guði 19 og erfa allar blessanir himnaríkis. 20

Annar hughreystandi sannleikur í Mormónsbók er sá að friðþægingin er einkar persónuleg og náin gjöf, þótt hún sé algild og altæk, sniðin að hverju okkar persónulega. 21 Á sama hátt og Jesús bauð hverjum lærisvein meðal Nefítanna að snerta sár sín, þá dó hann fyrir hvert okkar persónulega, rétt eins og ég eða þú værir eina manneskjan á jörðunni. Hann býður okkur persónulega að koma til sín og njóta hinna dásamlegu blessana friðþægingar sinnar. 22

Persónulegt eðli friðþægingar Krists verður jafnvel enn raunverulegra, er við hugleiðum fordæmi hinna markverðu karla og kenna í Mormónsbók. Þeirra á meðal eru Enos, Alma, Seesrom, Lamoní konungur og eiginkona hans og fólk Benjamíns konungs. Frásagnir um trúskipti þeirra og leiftrandi vitnisburði, eru lifandi vitni um hvernig hjörtu okkar geta umbreyst og líf okkar breyst fyrir óendanlega góðvild og miskunn Drottins. 23

Spámaðurinn Alma spurði fólk sitt þessarar mikilvægu spurningar. Hann sagði: „Ef þér hafið fundið umbreytingu í hjörtum yðar og hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt ?“ 24 Þessi spurning er mikilvæg á okkar tíma, því við þörfnumst endurleysandi kraftar hans með okkur sem lærisveinar Drottins, til að hvetja okkur og breyta, dag hvern.

Einnig mætti umorða spurningu Alma og spyrja: Hvenær upplifðuð þið síðast hin ljúfu áhrif friðþægingar frelsarans í lífi ykkar? Þetta gerist þegar þið skynjið „[óviðjafnanlega og ljúfa]“ gleði 25 koma yfir ykkur, sem ber sál ykkar vitni um að syndir ykkar eru fyrirgefnar eða þegar skyndilega verður léttara að bera sársaukafulla reynslu eða þegar hjarta ykkar mýkist og þið getið fyrirgefið einhverjum sem hefur sært ykkur. Það getur einnig gerst þegar þið takið eftir að geta ykkar til að elska og þjóna öðrum hefur aukist, eða þegar helgunarferlið er að gera ykkur að nýrri manneskju, að fyrirmynd frelsarans. 26

Ég ber ykkur vitni um að allar þessar upplifanir eru raunverulegar og eru sönnun fyrir því að líf geta breyst í gegnum trú á Jesú Krist og friðþægingu hans. Mormónsbók skýrir og víkkar út skilning ykkar á þessari guðdómlegu gjöf. Þegar þið lesið þessa bók, munið þið heyra rödd hins lifandi Krists, bjóða ykkur að koma til hans. Ég lofa ykkur, að ef þið þiggið þetta boð og mótið líf ykkar eftir fordæmi hans, munu endurleysandi áhrif hans koma í líf ykkar. Í gegnum kraft heilags anda, mun frelsarinn umbreyta ykkur á hverjum degi fram að hinum „fullkomna [degi]“ 27 þegar þið munið, eins og hann sagði sjálfur: „sjá ásjónu mína og vita að ég er.“ 26 Í nafni Jesú Krists, amen.