Fram koma Mormónsbókar
Hinar sögulegu staðreyndir og sérstök vitni Mormónsbókar bera vitni um að fram koma Mormónsbókar hafi sannlega verið undraverð.
Á fundi með öldungum kirkjunnar sagði spámaðurinn Joseph Smith: „Takið Mormónsbók og opinberanirnar í burtu, og hvar er þá trú okkar? Hún er engin.“ 1 Kæru bræður og systur, hin undraverða fram koma Mormónsbókar í kjölfar Fyrstu sýnarinnar, er merkasti áfanginn í framvindu endurreisnar fagnaðarerindis Jesú Krists í þessari ráðstöfun. Mormónsbók ber vitni um elsku Guðs til barna hans og um óeigingjarna og guðdómlega friðþægingarfórn Jesú Krists og um hápunkt þjónustu hans á meðal Nefítanna, stuttu eftir upprisu hans. 2 Hún ber einnig vitni um að leifar Ísraelsættar eiga eftir að sameinast og verða eitt fyrir síðari daga verk hans og að þau eru ekki útilokuð um eilífð. 3
Þegar við lesum okkur til um fram komu hinnar helgu ritningarbókar á þessum síðari dögum, gerum við okkur grein fyrir því að þetta verk var ekkert annað en kraftaverk – frá því að spámaðurinn Joseph fékk gulltöflurnar frá heilögum engli, allt að þýðingu hennar með „gjöf og krafti Guðs,“ 4 varðveislu hennar og útgáfu af hendi Drottins.
Tilurð Mormónsbókar hófst löngu áður en Joseph Smith meðtók gulltöflurnar úr höndum engilsins Moróní. Spámenn til forna spáðu um fram komu þessarar helgu bókar á okkar tímum. 5 Jesaja talaði um innsiglaða bók, að þegar hún kæmi fram væri fólk að þræta um Guð sorð. Þessar aðstæður myndu skapa það umhverfi þar sem Guð gæti framkvæmt sín „dásemdarverk og undur,“ sem ylli því að „speki spekinga [þeirra] hverfi og hyggindi hyggindamannanna fari í felur,“ á meðan mun „gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir hinum heilaga Ísraels.“ 6 Esekíel talaði um að stafur Júda (Biblían) og stafur Efraíms (Mormónsbók) yrðu færðir saman í einn staf. Bæði Esekíel (í Gamla testamentinu) og Lehí (í Mormónsbók) greina frá því að þeir muni „tengjast saman“ til að gjöra falskenningar að engu, koma á friði og færa okkur þekkingu á sáttmálunum. 7
Að kvöldi 21. september 1923, þremur og hálfu ári eftir að hafa upplifað Fyrstu sýnina, fékk Joseph þrisvar heimsókn frá englinum Moróní, síðasta spámanni Nefítanna í Ameríku til forna, sem svar við einlægum bænum. Á meðan á samræðum þeirra stóð, sem vörðu alla nóttina, sagði Moróni Joseph að Guð ætlaði honum mikið verk að vinna – þýðingu og útgáfu innblásinna orða fornra spámanna, sem lifðu í Ameríku. 8 Næsta dag fór Joseph til þess staðar, ekki langt frá heimili hans, þar sem töflurnar voru grafnar af Moróni við lok ævi hans, mörgum öldum áður. Þar sá Joseph Moróní aftur, sem sagði honum að búa sig undir að taka á móti töflunum í framtíðinni.
Þann 22. september, næstu fjögur ár, meðtók Joseph frekari leiðsögn frá Moróni um hvernig stjórna ætti ríki Drottins á síðari dögum. Í undirbúningi Josephs fékk hann heimsóknir frá englum Guðs og þannig opinberaðist mikilfengleiki og dýrð þeirra atburða sem koma áttu fram í þessari ráðstöfun. 9
Hjónaband hans og Emmu Hale, árið 1827, var hluti af þessum undirbúningi. Hún skipaði mikilvægu hlutverki við að styðja spámanninn í lífi hans og starfi. Í raun var Emma með Joseph í september 1827, er hann fór að hæðinni þar sem töflurnar voru faldar, og beið eftir honum er engillinn Moróní afhenti Joseph heimildirnar. Joseph var lofað að töflurnar yrðu óhultar ef hann legði sig allan fram við að vernda þær þar til þeim yrði aftur skilað í hendur Morónís. 10
Kæru samferðamenn mínir í fagnaðarerindinu, margar af uppgötvunum fornminja í dag verða við fornleifagröft eða jafnvel við gröft vegna byggingaframkvæmda. Það var hins vegar engill sem leiddi Joseph Smith að töflunum. Það í sjálfu sér var kraftaverk.
Þýðingarferli Mormónsbókar var einnig kraftaverk. Þessi helga forna heimild var ekki „þýdd“ á hefðbundinn máta, eins og fræðimenn myndu þýða forna texta, með því að læra fornt tungumál. Við ættum að líta á þetta ferli meira eins og „opinberun“ með hjálp veraldlegra verkfæra sem Drottinn útvegaði, frekar en „þýðingu“ þess sem hefur þekkingu á tungumálum. Joseph Smith sagði að hann: „þýddi Mormónsbók af þessu forna letri fyrir kraft Guðs, sem fól í sér þekkingu sem hafði glatast heiminum, og einsamall stóð [hann] í þessari dásamlegu reynslu, ólærður ungur maður, að kljást við átján alda veraldlegan vísdóm og margslungna vanþekkingu með nýrri opinberun.“ 11 Aðstoð Drottins við þýðingu taflnanna – eða opinberun, ef svo má segja – er einnig greinileg, ef haft er í huga hve ótrúlega stuttan tíma það tók Joseph að þýða þær. 12
Ritarar Josephs báru vitni um kraft Guðs sem sýndi sig þegar þeir unnu við þýðingu Mormónsbókar. Oliver Cowdery sagði eitt sinn: „Þetta voru ógleymanlegir dagar. Það vakti djúpa þakklætistilfinningu í brjósti mér að sitja undir hljómi raddar, sem barst með innblæstri frá himni. Dag eftir dag hélt ég ótruflað áfram að skrifa niður það, sem frá munni hans barst, þegar hann þýddi … Mormónsbók.“ 13
Sögulegar heimildir sýna að frá því augnabliki sem Joseph fékk töflurnar árið 1827, voru gerðar tilraunir til að stela þeim frá honum. Hann ritar að „reynt var til hins ýtrasta að ná [töflunum] frá [honum]“ og „í þeim tilgangi var neytt allra klækja, sem hægt var að finna upp.“ 14 Að lokum neyddust Joseph og Emma að flytja frá Manchester, New York, til Harmony, Pennsylvaníu, til að finna öruggan stað til að vinna að þýðingunum, fjarri múgnum og einstaklingum sem vildu ræna töflunum. 15 Eins og einn söguritari skrifar: „Þanng endaði fyrsta erfiðleikatímabilið sem töflurnar voru í umsjón Josephs. … Samt voru heimildirnar öruggar og í baráttunni við að varðveita þær, lærði Joseph vafalaust mikið um vegu Guðs og manna, sem átti eftir að reynast honum vel um ókomna tíð.“ 16
Á meðan á þýðingu Mormónsbókar stóð, komst Joseph að því að Drottinn myndi velja þau vitni sem fengju að sjá töflurnar. 17 Þetta er hluti af því sem Drottinn setti sjálfur fram þegar hann sagði: „Hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.“ 18 Oliver Cowdery, David Whitmer og Martin Harris, sem voru meðal hinna fyrstu félaga Josephs þegar hann hóf hið mikla verk Guðs í þessari ráðstöfun, voru fyrstu vitnin sem kölluð voru til að bera sérstakt vitni um Mormónsbók fyrir heiminum. Þeir báru vitni um að engill, sem kom frá návist Drottins, sýndi þeim hina fornu heimild og að þeir sáu táknin sem rituð voru á töflurnar. Þeir báru einnig vitni um að þeir heyrðu rödd Guðs af himnum, sem lýsti því yfir að hin forna heimild hefði verið þýdd fyrir gjöf og kraft Guðs. Því næst var þeim boðið að bera vitni um þetta um allan heim. 19
Eins og fyrir kraftaverk kallaði Drottinn önnur átta vitni til að sjá gulltöflurnar og til að verða sérstök vitni að sannleika og guðdómleik Mormónsbókar fyrir heiminum. Þeir báru vitni um að þeir sáu töflurnar og skoðuðu þær vandlega ásamt letrinu. Jafnvel í öllu mótlætinu, ofsóknum og alls kyns erfiðleikum sem þeir stóðu frammi fyrir, og jafnvel þó að sumum fipaðist í trúnni seinna meir, þá afneitaði aldrei neitt þessara vitna sínum vitnisburði um að þeir hefðu séð töflurnar. Joseph Smith var ekki lengur einn með þekkinguna um vitjanir Mórónís og gulltöflurnar.
Lucy Mack Smith skrifaði að sonur hennar hefði komið heim, yfirkominn af gleði eftir að vitnunum voru sýndar töflurnar. Hann sagði við foreldra sína: „Mér fannst eins og af mér hefði verið létt byrði sem var nærri of þung fyrir mig að bera og það gleður sál mína að ég er ekki lengur aleinn í heiminum.“ 20
Joseph Smith mætti líka miklu mótlæti við prentun Mormónsbókar, er þýðingunni lauk. Hann náði að sannfæra prentara að nafni Egbert B. Grandin, í Palmyra, New York, um að prenta hana, en aðeins eftir að Martin Harris, í mikilli trú og fórn, veðsetti býli sitt, sem tryggingu fyrir kostnaði prentunarinnar. Martin Harris seldi svo af trúmennsku 61 hektara lands (0.6 km2) til að greiða prentunarkostnaðinn, að hluta til vegna áframhaldandi mótlætis eftir útgáfu Mormónsbókar. Í gegnum opinberun sem gefin var Joseph Smith, sagði Drottinn Martin Harris að horfa ekki í eigur sínar og greiða prentkostnaðinn fyrir bókina sem geymdi „sannleikann og orð Guðs.“ 21 Í mars 1830 voru 5000 eintök af Mormónsbók gefin út og í dag, hafa fleiri en 180 milljón eintök verið prentuð, á yfir hundrað tungumálum.
Hinar sögulegu staðreyndir og sérstök vitni Mormónsbókar bera vitni um að fram koma Mormónsbókar hafi sannlega verið undraverð. Samt sem áður, þá byggir kraftur þessarar bókar ekki einungis á stórkostlegri sögu hennar, heldur á kröftugum, óviðjafnanlegum boðskap hennar sem hefur breytt óteljandi lífum, þar á meðal mínu.
Ég las alla Mormónsbók í fyrsta sinn þegar ég var ungur trúarskólanemi. Eins og kennarar mínir ráðlögðu mér, þá hóf ég lesturinn og byrjaði fyrst á formálanum. Loforðið sem finna má á fyrstu síðum Mormónsbókar endurómar enn í huga mínum: „Íhuga í hjarta [þínu] … og [spurðu] síðan Guð [í trú], … í nafni Krists, hvort bókin sé sönn. Þeir, sem fylgja þessari leið … munu fá vitnisburð um sannleiksgildi hennar og guðdómleik fyrir kraft hins heilaga anda.“ 22
Ég las Mormónsbók smátt og smátt í einlægri leit til að vita meira um sannleiksgildi hennar og í anda bænar, þegar ég lauk vikulegum verkefnum trúarskólans. Ég minnst þess eins og það hafi verið í gær, að hlý tilfinning byrjaði hægt og rólega að fylla sál mína og hjarta, upplýsa skilning minn og veita mér meiri gleði og ánægju, eins og Alma lýsir því er hann kenndi fólki sínu orð Guðs. 23 Þessi tilfinning varð svo að þekkingu sem skaut rótum í hjarta mínu og varð grunnurinn að vitnisburði mínum um þá mikilvægu atburði og þann boðskap sem má finna í þessari helgu bók.
Í gegnum þessa ómetanlegu, persónulegu reynslu, og aðrar, varð Mormónsbók sannlega sá burðarsteinn sem heldur uppi trú minni á Jesú Krist og vitnisburði mínum um kenningu fagnaðarerindis hans. Hún varð einn af máttarstólpum þess sem ber mér vitni um guðlega friðþægingarfórn Krists. Hún varð mér skjöldur í lífinu gegn þeim tilraunum andstæðingsins að veikja huga minn til vantrúar og hún veitir mér hugrekki til að lýsa ákveðið yfir trú minni á frelsara heimsins.
Kæru vinir mínir, vitnisburður minn um Mormónsbók kom orð á orð ofan 24 eins og kraftaverk í hjarta mér. Fram á þennan dag heldur þessi vitnisburður áfram að vaxa, er ég held áfram, af einlægu hjarta, að reyna að skilja fyllilega orð Guðs eins og það má finna í þessari helgu ritningu.
Ég býð öllum þeim sem til mín heyra í dag, að verða þátttakendur í hinni undraverðu fram komu Mormónsbókar í ykkar eigin lífi. Ég lofa ykkur því að er þið hugleiðið orð hennar með bæn í huga, getið þið meðtekið af loforðum hennar og ríkulegum blessunum fyrir líf ykkar. Ég staðfesti enn á ný þau loforð sem enduróma um síður hennar, að ef þið munið „spyrja Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists, hvort þetta er ekki sannleikur. Og ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera yður sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda.“ 25 Ég fullvissa ykkur um að hann mun veita ykkur svarið á mjög persónulegan hátt, eins og hann hefur gert fyrir mig og marga aðra víða um heim. Reynsla ykkar verður ykkur eins dýrðleg og heilög og reynsla Josephs var honum, á sama hátt og hjá fyrstu vitnunum og öllum þeim sem hafa leitast við að meðtaka vitni um áreiðanleika og trúverðugleika þessarar helgu bókar.
Ég ber ykkur vitni mitt um að Mormónsbók er sannlega orð Guðs. Ég ber vitnisburð minn um að þessi helga heimild „setur fram kenningar fagnaðarerindisins, skýrir sáluhjálparáætlunina, og segir mönnum hvað þeir þurfi að gera til að öðlast frið í þessu lífi og eilíft hjálpræði í hinu komanda.“ 26 Ég ber vitni um að Mormónsbók er verkfæri Guðs til að koma til leiðar samansöfnun Ísraels á okkar tímum og til að hjálpa fólki að læra að þekkja son hans, Jesú Krist. Ég ber vitni um að Guð lifir og elskar okkur og að sonur hans, Jesús Kristur er frelsari heimsins, hyrningarsteinn trúar okkar. Ég segi þetta í hinu heilaga nafni lausnara okkar, meistara og Drottins, já, Jesú Krists, amen.