Aðalráðstefna
Andlega auðkennandi minningar
Aðalráðstefna apríl 2020


2:3

Andlega auðkennandi minningar

Er persónuleg vandamál myrkva leið okkar, eða aðstæður í heiminum, sem við fáum ekki stjórnað, þá eru andlega auðkennandi minningar okkar í lífsins bók eins og lýsandi steinar sem lýsa upp leiðina framundan.

Átján árum eftir Fyrstu sýnina ritaði spámaðurinn Joseph Smith viðamikla frásögn um reynslu sína. Hann hafði mátt þola mótlæti, ofsóknir, áreitni, hótanir og hrottalegar árásir. 1 Hann hélt þó áfram að vitna hugrakkur um Fyrstu sýn sína: „Ég hafði raunverulega séð ljós og í ljósinu miðju hafði ég séð tvær verur, og þær höfðu raunverulega ávarpað mig. Og þótt ég væri hataður og ofsóttur fyrir að segja, að ég hefði séð sýn, þá var það samt satt. … Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það, og ég gat ekki neitað því.“ 2

Á þessum erfiðu tímum fór hugur Josephs tæplega tvo áratugi aftur í tímann til fullvissunar um ást Guðs til hans og til þeirra atburða sem leiddu til hinnar löngu fyrirsögðu endurreisnar. Í minningunni um andlegt ferðalag sitt, sagði Joseph: „Ég lái engum að trúa ekki sögu minni. Ef ég hefði ekki upplifað þetta, myndi ég ekki trúa því sjálfur.“ 3

Upplifunin var hins vegar raunveruleg og hann hvorki gleymdi né neitaði henni, en þannig staðfesti hann hljóðlega vitnisburð sinn á leið til Carthage. „Ég fer líkt og lamb til slátrunar, en ég er hægur sem sumarmorgunn. Samviska mín er hrein gagnvart Guði og gagnvart öllum mönnum.“ 4

Ykkar andlegu auðkennandi upplifanir

Finna má lexíu fyrir okkur öll af fordæmi Josephs. Samfara þeirri hljóðlátri leiðbeiningu sem við hljótum af og til frá heilögum anda, staðfestir Guð okkur á sterkan og einkar persónulegan hátt að hann þekkir okkur og elskar okkur og að hann blessar okkur sérstaklega og opinskátt. Síðan, á erfiðleikatímum, lætur frelsarinn okkur minnast þessarar reynslu.

Íhugið eigið líf. Í gegnum árin hef ég hlustað á þúsundir djúpstæðra andlegra upplifana frá Síðari daga heilögum um allan heim, sem staðfesta mér umyrðalaust að Guð þekkir og elskar sérhvert okkar og að hann þráir ákaflega að opinbera sig okkur. Þessar upplifanir geta átt sér stað á vendipunktum í lífi okkar eða þær virðast í fyrstu lítilvægir atburðir, en þeim fylgir ávallt sérlega sterk og andleg staðfesting á ást Guðs.

Við krjúpum í bæn er við minnumst þessara andlega auðkennandi upplifana, og segjum eins og spámaðurinn Joseph: „Það sem ég meðtók, kom frá himnum. Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það.“ 5

Fjögur dæmi

Hugsið um ykkar eigin andlega auðkennandi minningar er ég miðla nokkrum dæmum af öðru fólki.

Russell M. Nelson læknir

Fyrir mörgum árum sárbað aldraður stikupatríarki með tvær bilaðar hjartalokur, Russell M. Nelson, sem þá var læknir, um aðstoð, þó að á þessum tíma væri engin læknisfræðileg lausn til fyrir síðari löskuðu lokuna. Að lokum féllst Nelson læknir á að framkvæma skurðaðgerð. Þetta eru orð Nelsons forseta:

„Eftir að hafa losað hindrunina við fyrri lokuna, afhjúpuðum við seinni lokuna. Við komumst að því að hún var heil, en svo illa þanin, að hún gat ekki virkað á réttan hátt. Á meðan ég skoðaði þessa loku, komu skilmerkileg skilaboð í huga minn: Minnka ummál hringsins. Ég kom þessum skilaboðum áfram til aðstoðarmanns míns. ‚Líkamsvefur lokunnar getur dugað ef við getum minnkað ummál hringsins á áhrifaríkan hátt niður í eðlilega stærð.‘

En hvernig? … Þá kom mynd ljóslifandi í huga minn, sem sýndi hvernig saumaspor mætti setja – til að ná tilætluðum árangri. … Ég man ennþá þessa mynd hugans – í heild með punktalínum þar sem setja ætti saumsporin. Við lukum viðgerðinni í samræmi við uppdráttinn í huga mér. Við reyndum á lokuna og komumst að því að lekinn hafði minnkað verulega. Aðstoðarmaður minn sagði: ‚Þetta er kraftaverk.‘“ 6 Patríarkinn lifði enn í mörg ár.

Nelson læknir hafði hlotið leiðsögn. Hann vissi að Guð vissi að hann hafði hlotið leiðsögn.

Beatrice Magré

Kathy og ég hittum Beatrice Magré í fyrsta sinn í Frakklandi fyrir 30 árum. Beatrice sagði mér nýlega frá reynslu sem hafði haft áhrif á andlegt líf hennar skömmu eftir að hafa skírst sem táningur. Þetta eru orð hennar:

„Táningarnir í greininni okkar höfðu ferðast ásamt leiðtogum sínum í einn og hálfan tíma frá Bordeaux til strandarinnar í Lacanau.

Áður en heim var haldið ákvað einn af leiðtogunum að taka lokasundsprett og stakk sér í öldurnar með gleraugun á sér. Þegar honum skaut upp, voru gleraugun horfin. … Þau höfðu týnst í sjónum.

Missir gleraugnanna kom í veg fyrir að hann gæti keyrt bílinn sinn. Við yrðum því strandaglópar langt að heiman.

Systir, full trúar, lagði til að við færum með bæn.

Ég möglaði að það hjálpaði okkur ekkert að biðja og tók þátt í bæninni, sem hópurinn flutti upphátt, með semingi er við stóðum upp að mitti í óhreinum sjónum.

Þegar bænin var búin, sveiflaði ég örmunum til að skvetta á alla. Þegar ég skvetti sjóinn af yfirborðinu, voru gleraugun í hendi minni. Sterk tilfinning greip sál mína að Guð heyrir og svarar í raun bænum okkar.“ 7

Fjörtíu og fimm árum síðar sagði hún frá þessu eins og það hefði gerst í gær. Beatrice hafði hlotið blessun og hún vissi að Guð vissi að hún hafði hlotið blessun.

Reynsla Nelsons forseta og systur Magré voru afar ólíkar, en var fyrir þau bæði ógleymanleg og andlega auðkennandi minning um elsku Guðs grundvölluð í hjarta þeirra.

Þessir auðkennandi atburðir verða oft er við lærum um hið endurreista fagnaðarerindi eða miðlum því öðrum.

Floripes Luzia Damasio og Neil L. Andersen

Mynd þessi var tekin í São Paulo í Brasilíu árið 2004. Floripes Luzia Damasio í Ipatinga-stiku í Brasilíu var 114 ára gömul. Er systir Damasio talaði um trúskipti sín, sagði hún mér frá því að trúboðarnir í þorpinu hennar hefðu veitt alvarlega veiku barni prestdæmisblessun og læknaðist það á undraverðan hátt. Hún vildi vita meira. Er hún baðst fyrir um boðskap þeirra, staðfesti óyggjandi vitni andans að Joseph Smith væri spámaður Guðs. 103ja ára lét hún skírast og 104ra ára hlaut hún musterisgjöfina. Á hverju ári eftir þetta ferðaðist hún í 14 tíma með rútu til að sækja musterið heim í vikutíma. Systir Damasio hafði hlotið himneska staðfestingu og hún vissi að Guð vissi að hún vissi að vitnisburðurinn væri sannur.

Hér er andleg minning af fyrsta trúboði mínu í Frakklandi fyrir 48 árum.

Þegar við vorum að banka, skildum við félagi minn Mormónsbók eftir hjá eldri konu. Um viku síðar, er við snerum aftur til íbúðar konunnar, opnaði hún hurðina. Áður en nokkurt orð féll, skynjaði ég áþreifanlegan, andlegan kraft. Þessi sterka tilfinning hélt áfram er madam Alice Audubert bauð okkur inn og sagðist hafa lesið Mormónsbók og vissi að hún væri sönn. Þegar við yfirgáfum íbúð hennar þennan dag, bað ég: „Himneskur faðir, viltu hjálpa mér að gleyma aldrei því sem ég skynjaði.“ Ég hef aldrei gleymt því.

Öldungur Andersen sem trúbði

Á venjulegu augnabliki, að því er virtist, við eina af hundruðum hurða sem þessari, skynjaði ég kraft himins. Ég vissi að Guð vissi að ég vissi að himnagluggi hafði opnast.

Persónulegt og óafneitanlegt

Þessi andlegu augnablik verða til á mismunandi tímum á mismunandi hátt, einstök fyrir sérhvert okkar.

Hugsið um eftirlætis dæmi í ritningunum. Þeir sem hlýddu á Pétur postula fundu að „stungið væri í hjörtu þeirra.“ 8 Lamanítakonan Abis trúði vegna „merkilegrar sýnar, sem faðir hennar hafði séð.“ 9 Og rödd kom í huga Enos. 10

Vinur minn, Clayton Christensen, sagði frá reynslu, meðan hann las Mormónsbók með heita bæn í hjarta, á þennan hátt: „Fagur, hlýr, ástríkur andi … umlukti mig og smaug í sál mína, umfaðmaði mig með slíkri ást sem ég vissi ekki að ég gæti upplifað, [og þessi tilfinning hélt áfram kvöld eftir kvöld].“ 11

Stundum smjúga andlegar tilfinningar inn í hjarta okkar eins og eldur og upplýsa sál okkar. Joseph Smith útskýrði að hjá okkur geta „hugmyndir skyndilega vaknað“ og af og til hljótum við „flæði hreinna vitsmuna.“ 12

Dallin H. Oaks forseti veitti manni leiðsögn, sem fullyrti að hann hefði aldrei orðið fyrir slíkri reynslu: „Ef til vill hefur bænum þínum verið svarað aftur og aftur, en þú hefur einblínt á ákveðið tákn eða svo háværa rödd, að þú heldur að þú hafir ekki hlotið neitt svar.“ 13 Frelsarinn sjálfur talaði um hina miklu trú fólksins sem var „[blessað] með eldi og heilögum anda, [en] vissi það ekki.“ 14

Hvernig hlýðið þið á hann?

Nýlega höfum við heyrt Russell M. Nelson forseta segja: „Ég býð ykkur að íhuga vandlega og oft þessa lykilspurningu: Hvernig hlýðið þið á hann? Ég býð ykkur einnig að gera ráðstafanir til að hlýða á hann betur og oftar.“ 15 Hann endurtók þetta boð í morgun.

Við hlýðum á hann í bænum okkar, á heimilum okkar, í ritningunum, í sálmunum, er við meðtökum sakramentið verðuglega, er við segjum frá trú okkar og er við sækjum musterið heim ásamt trúsystkinum. Andlega aðkennandi stundir koma er við, með bæn í hjarta, hlustum á aðalráðstefnu og hlýðum boðorðunum betur. Kæru börn, þessi reynsla er líka fyrir ykkur. Munið að Jesús „kenndi og þjónaði börnunum … og [börnin] mæltu … mikla og undursamlega hluti.“ 16 Drottinn sagði:

„[Þessi þekking] er gefin yður af anda mínum, …Og án krafts míns gætuð þér ekki haft [hann] –

Þess vegna getið þér vottað, að þér hafið heyrt rödd mína og þekkið orð mín.“ 17

Við getum „hlýtt á hann“ vegna hinnar óviðjafnanlegu friðþægingar frelsarans.

Þótt við getum ekki valið hvenær þessi auðkennandi augnablik verða, þá veitti Henry B. Eyring forseti þessa leiðsögn okkur til undirbúnings: „Í kvöld og á morgun kunnið þið að biðjast fyrir og ígrunda og spyrja: ‚Sendi Guð boðskap sem var fyrir mig? Sá ég hönd hans í lífi mínu eða í lífi [fjölskyldu minnar]?‘“ 18 Trú, hlýðni, auðmýkt og einlægur ásetningur opna glugga himins. 19

Skýringarmynd

1:19
Fara í gegnum lífið
Andlegar minningar veita ljós
Hjálpa öðrum að enduruppgötva andlegt ljós

Þið gætuð hugsað um andlegar minningar ykkar á þennan hátt. Með stöðuga bæn, ákveðin að halda sáttmála okkar og með gjöf heilags anda siglum við í gegnum lífið. Er persónuleg vandamál, efasemdir eða kjarkleysi myrkva leið okkar, eða aðstæður í heiminum sem við fáum ekki stjórnað, fá okkur til að hugsa um framtíðina, þá eru andlega auðkennandi minningar okkar í lífsins bók eins og lýsandi steinar sem lýsa upp leiðina framundan og fullvissa okkur um að Guð þekkir okkur, elskar okkur og hefur sent son sinn, Jesú Krist, til að hjálpa okkur að snúa heim á ný. Ef einhver leggur auðkennandi minningar sínar til hliðar og er týndur eða ráðvilltur, snúum þeim þá til frelsarans er við deilum með þeim trú okkar og minningum, og hjálpum þeim að uppgötva á ný þessi dýrmætu andlegu augnablik sem þau eitt sinn mátu svo mikils.

Sumar upplifanir eru svo helgar, að við varðveitum þær í andlegu minni okkar og deilum þeim ekki. 20

„Englar tala með krafti heilags anda, og þess vegna hafa þeir orð Krists að mæla.“ 21

„Englar [eru ekki] hættir að þjóna mannanna börnum.

Því að sjá. Þeir lúta [Kristi] og þjóna að hans boði og birtast þeim, sem eiga sterka trú og staðfastan huga á allt, sem guðlegt er.“ 22

„En hjálparinn, andinn heilagi, … mun kenna yður allt og minna yður á allt það.“ 23

Umfaðmið andlegar minningar ykkar. Trúið þeim. Skrifið þær niður. Deilið þeim með fjölskyldu ykkar. Treystið því að þær komi frá föður ykkar á himni og ástkærum syni hans. 24 Leyfið þeim að gefa ykkur þolinmæði vegna efasemda og skilning í erfiðleikum. 25 Ég lofa ykkur að þegar þið sjálfviljug kannist við og gætið vandlega að hinum andlega auðkennandi atburðum lífs ykkar, þá munu fleiri og fleiri eiga sér stað hjá ykkur. Himneskur faðir þekkir og elskar ykkur!

Jesús er Kristur, fagnaðarerindi hans hefur verið endurreist og ég vitna um það að ef við reynumst sönn, munum við verða hans að eilífu, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Saints: The Story of the Church of Jesus Christ in the Latter Days, bindi 1, The Standard of Truth, 1815–1846 (2018), 150–53; sjá einnig Joseph Smith, „History, 1838–1856, volume A-1 [23 December 1805–30 August 1834],“ 205–9, josephsmithpapers.org; Saints, 1:365–66.

  2. Joseph Smith – Saga 1:25.

  3. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 525.

  4. Kenning og sáttmálar 135:4.

  5. Orðin í Joseph Smith – Saga hafa ávallt haft mikil áhrif á mig: „Ég hafði séð sýn. Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það“ (Joseph Smith – Saga 1:25). Hann átti eftir að standa frammi fyrir Guði og játa að þessi atburður í Lundinum helga áttu sér raunverulega stað í lífi hans og sökum þess yrði líf hans yrði aldrei samt aftur. Fyrir 25 árum heyrði ég í fyrsta sinn aðra útgáfu af þessari setningu, með orðum öldungs Neals A. Maxwell. Hann veitt eftirfarandi dæmi: „Fyrir löngu síðan, í maí 1945, átti sér stað slíkt augnablik á Okinawa-eyju er ég var átján ára. Þegar Japanir gerðu stórskotárás á stöðu okkar, var áreiðanlega ekki um neinn hetjuskap af minni hálfu að ræða, öllu heldur blessun fyrir mig og aðra. Eftir endurteknar skotárásir, sem misstu marks, tók skothríðin að hitta rétt. Hún hefði átt að hitta í mark, en guðlegt inngrip átti sér stað fyrir að minnsta kosti eina óttaslegna, sjálfselskulega bæn. Skotárásinni linnti. … Ég hafði hlotið blessun og ég vissi að Guð vissi að ég vissi,“ („Becoming a Disciple,“ Ensign, júní 1996).

    Öldungur Maxwell bætti ekki einungis við að hann vissi, ekki einungis að Guð vissi, heldur að Guð vissi að hann vissi að hann hafði hlotið blessun. Á myndrænan hátt lyftir þetta ábyrgðinni á æðra þrep, hvað mig varðar. Stundum lætur himneskur faðir djúpa andlega staðfestingu fylgja blessun okkr, um að himnarnir hafi gripið inn í fyrir okkur. Það er ekki hægt að neita því. Hún er með okkur og ef við erum heiðarleg og sönn, mun hún móta líf okkar um ókomin ár. „Ég hafði hlotið blessun og ég vissi að Guð vissi að ég vissi að ég hafði hlotið blessun.“

  6. Russell M. Nelson, „Hinn ljúfi máttur bænarinnar,“ aðalráðstefna, apríl 2003.

  7. Persónuleg frásögn frá Beatrice Magré sem miðluð var öldungi Andersen 29. okt. 2019; eftirfylgni netpóstur 24. jan. 2020.

  8. Postulasagan 2:37.

  9. Alma 19:16.

  10. Sjá Enos 1:5.

  11. Clayton M. Christensen, „The Most Useful Piece of Knowledge,“ Liahona, jan. 2009, 23.

  12. Sjá Kenningar: Joseph Smith, 132.

  13. Dallin H. Oaks, Life’s Lessons Learned: Personal Reflections (2011), 116.

  14. 3. Nefí 9:20.

  15. Russell M. Nelson, „,How Do You #HearHim?‘ A Special Invitation,“ 26. feb. 2020, blog.ChurchofJesusChrist.org.

  16. 3. Nefí 26:14.

  17. Kenning og sáttmálar 18:35-36. Tilfinningar fylgja ávallt andlegri þekkingu. „Þið eruð fljótir til misgjörða, en seinir til að minnast Drottins, Guðs ykkar. Þið hafið séð engil, já, hann hefur talað til ykkar lágri, hljóðlátri röddu, en þið voruð orðnir svo tilfinningalausir, að þið gátuð ekki skynjað orð hans“ (1. Nefí 17:45).

  18. Henry B. Eyring, „Ó, munið og hafið hugfast,“ aðalráðstefna, október 2007.

  19. Sjá 2. Nefí 31:13; Moróní 10:4. Dallin H. Oaks forseti heimsótti trúboð okkar í Bordeaux í Frakklandi árið 1991. Hann útskýrði fyrir trúboðum okkar að einlægur ásetningur þýddi að sá sem biður væri að segja eitthvað álíka við Drottin: „Ég bið ekki af forvitni, heldur af algerri einlægni um að bregðast við bænarsvari mínu. Ef þú vilt veita mér svar, mun ég vinna að því að breyta lífi mínu. Ég mun bregðast við.“

  20. „Mörgum er gefið að þekkja leyndardóma Guðs, en samt sem áður hafa þeir ströng boð um að láta ekki uppi nema þann hluta orðs hans, sem hann birtir mannanna börnum, í samræmi við þann gaum, sem þau gefa honum og þá kostgæfni, sem þau auðsýna honum“ (Alma 12:9).

    Öldungur Neal A. Maxwell sagði: „Það krefst innblásturs að vita hvenær deila skuli [andlegri reynslu]. Ég minnist þess að hafa heyrt Marion G. Romney forseta segja, er hann sameinaði gaman og visku: ‚Við myndum hljóta meiri andlega reynslu ef við töluðum ekki svo mikið um þær‘“ („Called to Serve“ [Brigham Young University devotional, 27. mars 1994], speeches.byu.edu.

  21. 2. Nefí 32:3.

  22. Moróní 7:29–30.

  23. Jóhannes 14:26.

  24. Sannleikur fagnaðarerindisins stendur öllum til boða. Eftir að ég hafði lokið ræðu minni í vikunni fyrir ráðstefnuna, laðaðist ég andlega að bók sem heitir Divine Signatures: The Confirming Hand of God (2010), höfundur er Gerald N. Lund, sem þjónaði sem aðalvaldhafi frá 2002 til 2008. Mér til gleði, þá voru orð bróður Lunds fallegt annað vitni um reglurnar sem tilgreindar eru í þessari ráðstefnuræðu og þeir munu fá notið sem þrá að læra meira um andlega auðkennandi minningar.

  25. Ein af uppáhalds tilvitnun Thomas S. Monson forseta er frá skoska skáldinu James M. Barrie: „God gave us memories, that we might have June roses in the December of our lives“ (í Thomas S. Monson, „Think to Thank,“ Liahona, jan. 1999, 22). Hið sama á við um andlegar minningar. Þær eru afar gagnlegar á erfiðleikatímum lífs okkar, er við þörfnumst „júnímánaðar“ andlegra minninga.