Aðalráðstefna
Sameinuð í að framkvæma verk Guðs
Aðalráðstefna apríl 2020


2:3

Sameinuð í að framkvæma verk Guðs

Áhrifamesta leiðin til að uppfylla guðlega möguleika okkar er að vinna saman, blessuð að krafti og valdi prestdæmisins.

Kæru yndislegu systur og bræður, það er yndislegt að vera með ykkur. Hvaðan sem þið hlustið, sendi ég faðmlag mitt til systra minna og innilegt handaband til bræðra minna. Við erum sameinuð í verki Drottins.

Oft þegar við hugsum um Adam og Evu, er fyrsta hugsun okkar um hið fullkomna líf þeirra í aldingarðinum Eden. Ég ímynda mér að veðrið hafi alltaf verið fullkomið – ekki of heitt og ekki of kalt – og að gnægð ávaxta og grænmetis hafi vaxið innan seilingar, svo þau gátu borðað þegar þeim lysti. Þar sem þetta var þeim nýr heimur, var mikið að uppgötva, þannig að hver dagur var áhugaverður er þau voru í samskiptum við dýralífið og könnuðu fallegt umhverfi sitt. Þeim var einnig gefið boðorð til að halda og höfðu mismunandi leiðir til að nálgast þau fyrirmæli, sem olli þeim kvíða og glundroða til að byrja með.1 Þegar þau hins vegar tóku ákvörðun, sem breytti lífi þeirra varanlega, lærðu þau að vinna saman og urðu sameinuð í að uppfylla þann tilgang sem Guð ætlaði þeim – og öllum börnum þeirra.

Ímyndum okkur þessi hjón saman í jarðneskri veröld. Þau urðu að vinna fyrir mat sínum, sum dýranna litu á þau sem fæðu, og það voru erfiðleikar sem þau gátu einungis sigrast á með því að tala saman og biðja saman. Ég ímynda mér að þau hafi stundum haft ólíkar skoðanir á því hvernig væri best að takast á við þessar áskoranir. Þeim hafði hinsvegar lærst í gegnum fallið, að nauðsynlegt var að vinna saman í einingu og kærleika. Í kennslunni sem þau fengu af guðlegum uppruna, var þeim kennd sáluhjálparáætlunin og lögmál fagnaðarerindis Jesú Krists, sem gerir áætlunina starfhæfa. Þar sem þau skildu að jarðneskur tilgangur þeirra og eilíf markmið væru eitt og hið sama, fundu þau fullnægju og farsæld í að læra að starfa saman í kærleika og réttlæti.

Adam og Eva kenna börnum sínum

Þegar börn Adams og Evu fæddust kenndu þau þeim það sem þau höfðu lært frá himneskum sendiboðum. Þau einbeittu sér líka að því að hjálpa börnum sínum að skilja og tileinka sér þau lögmál sem gerðu þau hamingjusöm í þessu lífi, sem og að búa þau undir að snúa aftur til himneskra foreldra sinna, eftir að hafa aukið getu sínu og sannað hlýðni við Guð. Í þessu ferli lærðu Adam og Eva að meta ólíka styrkleika sína og studdu hvort annað í þessu verki þeirra sem hafði eilífa þýðingu.2

Þegar aldirnar liðu og árþúsundir komu og fóru varð skýrleiki hins innblásna og innbyrðis tengda framlags karla og kvenna hulið blekkingu og misskilningi. Frá hinu dásamlega upphafi í aldingarðinum Eden, til okkar tíma, hefur óvinurinn verið nokkuð sigursæll í því markmiði sínu að skilja að karla og konur, í aðför hans að sálum okkar. Lúsífer veit að ef hann getur eyðilagt eininguna milli karla og kvenna, ef hann getur ruglað okkur í ríminu varðandi guðlegt verðmæti og sáttmálsábyrgð okkar, mun hann ná að eyðileggja fjölskyldur, sem eru hinar nauðsynlegu einingar eilífðarinnar.

Satan espar upp samanburð, sem verkfæri til að skapa tilfinningar yfirburðar og lítilfjörleika, felandi hinn eilífa sannleika að meðfæddur munur karla og kvenna er guðsgjöf og jafn hátt metinn. Hann hefur gert tilraunir til að lítillækka framlag kvenna, bæði gagnvart fjölskyldunni og samfélaginu, og þar með gert lítið úr uppörvandi áhrifum þeirra til góðs. Markmið hans er að ala á valdabaráttu, frekar en að fagna einstökum framlögum, bæði karla og kvenna, sem bæta hvort annað upp og stuðla að einingu.

Í áranna rás og um heim allan hefur fullur skilningur að mestu glatast á guðlega samstilltu, en samt ólíku hlutverki og ábyrgð, karla og kvenna. Konur urðu undirgefnar körlum í mörgum samfélögum, frekar en að vera félagar, hlið við hlið, og framlag þeirra takmarkaðist við mjög þröngt svið. Mikið hægði á andlegri framþróun á þessum myrku tímum og mjög takmarkað andlegt ljós náði inn í huga og hjörtu sem voru gegnsýrð af hefð drottnunar.

Þá skein ljós hins endurreista fagnaðarerindis „skærari en sólin,“3 þegar Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, birtust drengnum Joseph Smith, snemma vors árið 1820, í hinu helga skógarrjóðri í uppsveitum New York. Sá viðburður hóf nútíma flóð opinberana frá himnum. Einn af fyrstu þáttum frumkirkju Krists sem endurreistur var, var valdsumboð prestdæmis Guðs. Er endurreisnin hélt áfram að opinberast, tóku karlar og konur að gera sér aftur grein fyrir mikilvægi þess og möguleikum á að vinna saman sem félagar, með valdsumboði, og leidd áfram af honum í þessu helga starfi.

Stofnun Líknarfélagsins

Árið 1842, þegar konurnar í þessari lítt reyndu kirkju, vildu skipuleggja formlegan hóp til að aðstoða við starfið, var Joseph Smith forseti innblásinn að skipuleggja þær „undir prestdæminu eftir reglu prestdæmisins.“4 Hann sagði: „Ég afhendi ykkur nú lykilinn í nafni Guðs, … – þetta er upphaf betri daga.“5 Síðan þessum lykli var snúið, hafa tækifæri kvenna í menntun, stjórnmálum og fjármálum smátt og smátt aukist um allan heim.6

Þessi nýju kvennasamtök, sem kölluðust Líknarfélagið, voru ólík öðrum kvenfélögum þess tíma, því þau voru stofnuð af spámanni sem starfaði í prestdæmisumboði til að veita konum umboð, helga ábyrgð og opinberar stöður innan skipulags kirkjunnar, en ekki aðskilið frá henni.7

Frá tímum spámannsins Joseph Smith og fram á okkar tíma, hefur viðvarandi endurreisn allra hluta, varpað ljósi á nauðsyn valds og krafts prestdæmisins til að liðsinna bæði körlum og konum við að uppfylla hina guðlega tilnefndu ábyrgð sína. Nýlega hefur okkur verið kennt að konur sem eru settar í embætti, undir leiðsögn þess sem hefur prestdæmislykla, starfa með prestdæmisvaldi í köllunum sínum.8

Í október 2019 kenndi Russell M. Nelson forseti að konur sem hafa fengið musterisgjöf sína hafa prestdæmiskraft í lífi sínu og á heimilum sínum, er þær halda þessa heilögu sáttmála sem þær gerðu við Guð.9 Hann útskýrði að: „Himnarnir eru jafn opnir konum, sem hafa hlotið kraft Guðs, sem á sér rætur í prestdæmissáttmálum þeirra, og körlum sem hafa prestdæmið.“ Hann hvatti svo hverja systur til að „virkja og nota kraft frelsarans ríkulega til hjálpar fjölskyldu [sinni] og öðrum sem eru [þeim] kærir.“10

Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur og mig? Hvernig breytir það lífi okkar að hafa skilning á prestdæmisvaldi og krafti? Einn af lyklunum er að skilja að þegar karlar og konur vinna saman náum við að koma talsvert meiru í verk, en þegar við vinnum aðskilin.11 Hlutverk okkar bæta hvort annað upp, frekar en að þau þurfi að vera í samkeppni. Þó að konur séu ekki vígðar í prestdæmisembætti, eins og kom fram áður, þá eru konur blessaðar með prestdæmiskrafti er þær halda sáttmála sína og þær starfa með valdi prestdæmisins þegar þær eru settar í embætti köllunar.

Einn yndislegan ágústdag, fékk ég þau forréttindi að setjast niður með Russell M. Nelson forseta, í endurgerðu húsnæði Josephs og Emmu Smith í Harmony, Pennsylvaniu, nálægt þeim stað sem Aronsprestdæmið var endurreist á síðari dögum. Í samtali okkar talaði Nelson forseti um það mikilvæga hlutverk sem konur eiga í endurreisninni.

1:11

Nelson forseti: „Eitt af því mikilvægasta sem ég er minntur á þegar ég kem til þessa staðar, þar sem endurreisn prestdæmisins fór fram, er mikilvægt hlutverk kvenna í endurreisninni.

Þegar Joseph hóf fyrst þýðingu Mormónsbókar, hver var þá ritarinn? Hann skrifaði að vísu örlítið, en ekki mikið. Emma kom að málum.

Svo hugsa ég um er Joseph fór út í skóg til bænar, nálægt heimili þeirra í Palmyra, New York. Hvert fór hann? Hann fór í Lundinn helga. Afhverju fór hann þangað? Af því að þangað fór móðir hans er hún vildi biðja.

Þetta eru bara tvær þeirra kvenna sem áttu lykilhlutverk í endurreisn prestdæmisins og endurreisn kirkjunnar. Vafalaust gætum við sagt að konurnar okkar séu jafn mikilvægar nú, eins og þær voru þá. Að sjálfsögðu eru þær það.“

Eins og Emma, Lucy og Joseph, þá erum við áhrifaríkust þegar við erum fús til að læra af hvort öðru og erum sameinuð í markmiði okkar að verða lærisveinar Jesú Krists og hjálpa öðrum eftir þeim vegi.

Okkur er kennt að „prestdæmið blessi líf barna Guð á óteljandi hátt. … Síðari daga heilagar konur og karlar starfa með valdi og krafti prestdæmisins í kirkjulegum köllunum, helgiathöfnum musterisins, fjölskyldutengslum og í hljóðlátri einstaklingsþjónustu. Þetta samspil karla og kvenna í að koma tilgangi Guðs í verk í gegnum kraft hans, er þungamiðjan í fagnaðarerindi Jesú Krists, sem var endurreist í gegnum spámanninn Joseph Smith.“12

Eining er nauðsynleg hinu guðlega verki, sem við höfum þau forréttindi að vera kölluð til að framkvæma, en það gerist ekki bara sisvona. Það kallar á viðleitni og tíma, að ræða virkilega saman – að hlusta á hvort annað, skilja sjónarmið hvors annars og miðla reynslu – en ferlið býður upp á innblásnari ákvarðanir. Hvort heldur á heimilium okkar eða í kirkjuábyrgðum, þá er árangursríkasta leiðin til að uppfylla guðlega möguleika okkar, að vinna saman, blessuð að krafti og valdi prestdæmisins, í ólíkum en samspilandi hlutverkum okkar.

Hvernig lítur þessi samvinna út í lífi sáttmálskonu í dag? Leyfið mér að deila dæmi með ykkur:

Hjón á tveggja manna hjóli

Alison og John áttu samband sem var einstakt. Þau kepptu á tveggja manna hjóli í löngum og stuttum keppnum. Til þess að geta keppt farsællega á þessu farartæki, verða báðir aðilar að vera fullkomlega samstilltir. Þau verða að halla sér í sömu átt, á réttum tíma. Annað getur ekki stjórnað hinu, heldur verða samskiptin að vera mjög skýr og hvort að skila sínu. Fyrirliðinn, sá sem situr fyrir framan, er með stjórn á því hvenær á að bremsa eða standa upp. Kyndarinn, á aftursætinu, þarf að fylgjast með því sem er að gerast og vera tilbúinn að gefa viðbótarkraft, ef þau dragast aðeins aftur úr, eða minnka kraft, ef þau eru of nálægt öðrum hjólreiðarmönnum. Þau verða að styrkja hvort annað til þess að ná árangri og markmiði sínu.

Alison útskýrði: „Í byrjun myndi fyrirliðinn segja ‚standa upp‘ þegar við þurftum að standa og ‚bremsa‘ þegar við þurftum að hætta að hjóla. Eftir smá stund lærði kyndarinn að lesa fyrirliðann og sjá þegar hann var að fara að standa eða bremsa og þá voru engin orð nauðsynleg. Við lærðum að vera samstillt því sem hitt var að gera og gátum séð þegar annað átti erfitt og [þá] reyndi hitt að veita auka styrk. Þetta snýst í raun allt um traust og að vinna saman.“13

John og Alison voru ekki einungis samstillt þegar þau hjóluðu saman, heldur einnig í hjónabandi sínu. Hvort um sig þráði hamingju fyrir hitt, meira en fyrir sig sjálft, hvort leitaði að því góða í fari hins og bæði unnu að því að sigrast á því sem var ekki svo jákvætt í eigin fari. Þau skiptust á að leiða og á að gefa meira þegar félaginn átti erfitt. Hvort um sig kunni að meta framlag hins og þau fundu betri svör í áskorunum sínum er þau sameinuðu hæfileika sína og getu. Þau eru sannarlega bundin hvort öðru í gegnum kristilegan kærleika.

Að ná betri samstillingu við hið guðlega mynstur samvinnu, er brýnt á þessum tímum þar sem skilaboðin „ég fyrst“ umkringja okkur. Konur búa yfir einkennandi, guðlegum gjöfum14 og er gefið sérstæð ábyrgð, en hún er ekki meiri – eða minni – að mikilvægi en gjafir karla og ábyrgð þeirra. Allir eru mikilvægir og þeim ætlað að vinna að þeirri guðlegu áætlun himnesks föður að hvert barn hans fái sitt besta tækifæri til að uppfylla hans eða hennar guðlegu möguleika.

Í dag „þurfum við konur sem höfum hugrekki og sýn formóður okkar Evu,“15 að sameinast bræðrum okkar við að leiða sálir til Krists.16 Karlar þurfa að verða sannir félagar, í stað þess að ráðgera að þeir beri sjálfir alla ábyrgðina eða „þykjast“ vera félagar á meðan að konurnar vinna mikið af vinnunni. Konur þurfa að vera fúsar til að „stíga fram [og] [taka] réttmæta og nauðsynlega stöðu [sína],“17 sem félagar, frekar en að hugsa að þær þurfi að gera allt sjálfar eða bíða eftir að vera sagt fyrir verkum.18

Það að sjá konur sem nauðsynlega þátttakendur hefur ekkert að gera með að skapa jafnvægi, heldur með að skilja kenningarlegan sannleika. Frekar en að byggja eitthverja áætlun í kringum það, getum við unnið að því að meta konur eins og Guð gerir, sem nauðsynlegan félaga í verki sáluhjálpar og upphafningar.

Erum við tilbúin? Munum við vinna að því að sigrast á menningarlegum fordómum og fagna frekar guðlegu skipulagi og verklagi, sem byggt er á grundvallarkenningu? Russell M. Nelson forseti býður okkur að ganga saman „hönd í hönd inn í þetta helga verk … [til] að undirbúa heiminn fyrir síðari komu Drottins.“19 Þegar við gerum svo, munum við læra mikilvægi framlags hvers einstaklings og auka þá virkni sem við uppfyllum guðleg hlutverk okkar með. Við munum upplifa meiri gleði en við höfum nokkru sinni gert.

Megum við, hvert og eitt, verða sameinuð í innblásinni leið Drottins til að hjálpa framgangi verks hans. Í nafni ástkærs frelsara okkar, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá 1. Mósebók 3:1–18; HDP Móse 4:1–19.

  2. Sjá Moses 5:1–12. Þessi vers kenna okkur um sanna samvinnu Adams og Evu; þau áttu börn saman (vers 2); þau unnu saman við að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni (vers 1); þau báðu saman (vers 4); þau hlýddu boðorðum Guðs og færðu fórnir saman (vers 5); þau lærðu (vers 4, 6–11) og kenndu börnum sínum fagnaðarerindi Jesú Krists saman (vers 12).

  3. Joseph Smith – Saga 1:16.

  4. Joseph Smith, í Sarah M. Kimball, „Auto-Biography,“ Woman’s Exponent, 1. sept. 1883, 51; sjá einnig Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 451.

  5. Joseph Smith, í „Nauvoo Relief Society Minute Book,“ 40, josephsmithpapers.org.

  6. Sjá George Albert Smith, „Address to the Members of the Relief Society,“ Relief Society Magazine, des. 1945, 717.

  7. Sjá John Taylor, í Nauvoo Relief Society Minutes, 17. mar., 1842, fáanlegt á churchhistorianspress.org. Samkvæmt Elizia R. Snow, kenndi Joseph Smith einnig að konur hefðu verið formlega skipulagðar í fyrri ráðstöfunum (sjá Eliza R. Snow, „Female Relief Society,“ Deseret News, 22. apr. 1868, 1; Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society [2011], 1–7).

  8. Sjá Dallin H. Oaks, „Lyklar og vald prestdæmisins,“ aðalráðstefna, apríl 2014.

  9. Sjá Russell M. Nelson, „Andlegir fjársjóðir,“ aðalráðstefna, okt. 2019.

  10. Russell M. Nelson, „Andlegir fjársjóðir“,.

  11. „En endurreist fagnaðarerindið kennir hina eilífu hugsun að eiginmenn og eiginkonur séu samstillt hvort öðru. Þau eru jöfn. Þau eru félagar“ (Bruce R. and Marie K. Hafen, „Crossing Thresholds and Becoming Equal Partners,“ Liahona, ág. 2007, 28).

  12. Gospel Topics, „Joseph Smith’s Teachings about Priesthood, Temple, and Women,“ topics.ChurchofJesusChrist.org.

  13. Einkabréf.

  14. Sjá Russell M. Nelson, „Tilmæli til systra minna,“ aðalráðstefna, október 2015.

  15. Russell M. Nelson, „Tilmæli til systra minna.“

  16. Sjá General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 1.4, ChurchofJesusChrist.org.

  17. Russell M. Nelson, „Tilmæli til systra minna.“

  18. „Kæru systur, hver sem köllun ykkar er, hverjar sem aðstæður ykkar eru, þá þörfnumst við áhrifa ykkar, innsýnar ykkar og innblásturs. Við þurfum á því að halda að þið látið í ykkur heyra og tjáið ykkur í deildar- eða stikuráðum. Við þörfnumst þess að hver gift systir tjái sig ,sem virkur og fullgildur félagi‘ er þið sameinist með eiginmönnum ykkar í að stýra fjölskyldu ykkar. Giftar eða einhleypar, þá búið þið yfir sérstökum hæfileikum og einstöku innsæi sem þið hafið fengið að gjöf frá Guði. Við bræðurnir getum ekki hermt eftir ykkar einstæðu áhrifum. …

    … Við þurfum á styrk ykkar að halda!“ (Russell M. Nelson, „Tilmæli til systra minna“).

  19. Russell M. Nelson, „Tilmæli til systra minna.“