Hlutverk Mormónsbókar í trúskiptum
Mormónsbók sér okkur fyrir andlegri næringu, aðgerðaáætlun og kemur á sambandi við heilagan anda.
Eftir að hafa skoðað skýrslu nýlegrar læknisskoðunar, komst ég að því að ég þurfti að breyta lífsstíl mínum. Læknirinn minn lagði til áætlun um matarræði og líkamsrækt mér til hjálpar, sem myndi gera mig að heilbrigðari manneskju, ef ég kysi að fara eftir henni.
Hverju kæmumst við að um okkur sjálf, ef hvert okkar færi í andlega skoðun? Hvaða breytingum myndi okkar andlegi læknir mæla með? Ef við viljum verða það sem við þurfum að verða, er nauðsynlegt að vita hvað þarf að gera og breyta samkvæmt því.
Jesús Kristur er meistaralæknirinn. 1 Sökum friðþægingar sinnar, bindur hann um sár okkar, tekur á sig ófullkomleika okkar og græðir brostin hjörtu okkar. 2 Fyrir náð hans, geta veikleikar okkar orðið styrkur. 3 Hann býður okkur að fylgja sér 4 með því að læra af sér, hlusta á orð sín og ganga í hógværð anda síns. 5 Hann hefur lofað að liðsinna okkur 6 í þessu ævilanga trúarferli, sem breytir okkur og færir okkur ævarandi gleði. 7
Frelsarinn hefur gefið okkur Mormónsbók, sem áhrifaríkt verkfæri til trúarlegs viðsnúnings. Mormónsbók sér okkur fyrir andlegri næringu, aðgerðaáætlun og kemur á sambandi við heilagan anda. Hún er rituð fyrir okkur 8 , geymir hreinskilið orð Guðs 9 og varpar ljósi á auðkenni, tilgang og örlög okkar. 10 Mormónsbók ber vitni, ásamt Biblíunni, um Jesú Krist 11 og kennir hvernig við fáum þekkt sannleikann og orðið líkari honum.
Bróðir Saw Polo var 58 ára þegar kynntist hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Þegar ég kynntist honum, hafði hann þjónað sem greinarforseti í nokkur ár, en ég komst að því að hann hafði aldrei lesið Mormónsbók, því hún var ekki til á móðurmáli hans, búrmísku. Þegar ég spurði hann hvernig hann vissi að Mormónsbók væri sönn, sagðist hann hafa dag hvern lært í myndbókinni Sögur Mormónsbókar, með því að skoða myndirnar, nota orðabók til að þýða ensku orðin og skrá vandlega það sem hann lærði. Hann útskýrði: „Í hvert sinn sem ég lærði, baðst ég fyrir um efnið, fann frið og gleði og hugur minn varð skýr og hjarta mitt auðmjúkt. Ég fann að heilagur andi bar mér vitni um að þetta væri sannleikur. Ég veit að Mormónsbók er orð Guðs.“
Hvert okkar getur, líkt og bróðir Saw Polo, lært Mormónsbók við þær aðstæður sem við búum við. Þegar við þráum að trúa og ígrundum kenningar hennar, getum við spurt Guð í trú hvort kenningarnar séu sannar. 12 Ef við þráum einlæglega að fá að vita og ásetningur okkar til að bregðast við er sannur, mun hann svara okkur í hjörtum okkar með heilögum anda. Það er fyrir kraft heilags anda sem við getum fengið að vita sannleiksgildi allra hluta. 13 Þegar við hljótum guðlegt vitni um Mormónsbók, munum við líka vita fyrir sama kraft að Jesús Kristur er frelsari heimsins, að Joseph Smith er spámaður hans og að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er hin endurreista kirkja hans. 14
Þegar ég var ungur maður á leið í trúboðsþjónustu, fór ég um borð í flugvél til Ástralíu. Ég var afar einmana, kvíðinn og vanmáttugur og þráði sárlega fullvissu um að það sem ég trúði að væri sannleikur, því ég hafði skuldbundið mig til þjónustu. Ég baðst fyrir og las ritningarnar af kostgæfni, en eftir því sem leið á flugið, varð sjálfsefi minn meiri og líkamsástand mitt versnaði. Eftir að ég hafði átt í þessari baráttu í nokkrar klukkustundir, gekk flugþjónn eftir ganginum og stoppaði við hlið mér. Hann tók Mormónsbók, sem ég var að lesa, úr höndum mínum. Hann leit á kápuna og sagði: „Þetta er frábær bók!“ Hann rétti mér síðan bókina aftur og gekki í burtu. Ég sá hann aldrei eftir þetta.
Meðan orð hans ómuðu í eyrum mínum, skynjaði ég og heyrði ótvírætt í hjarta mínu: „Ég er hér og ég veit hvar þú ert. Gerðu aðeins þitt besta og ég mun bæta þar um.“ Í þessari flugvél, yfir Kyrrahafinu, hlaut ég persónulegan vitnisburð fyrir nám mitt í Mormónsbók og innblástur heilags anda, um að frelsarinn þekkti mig og að fagnaðarerindið væri sannleikur.
Öldungur David A. Bednar kenndi: „Að vita að fagnaðarerindið er sannleikur er kjarni fagnaðarerindisins. Að vera stöðugt trúr fagnaðarerindinu er kjarni trúskipta.“ 15 Að snúast til trúar, krefst þess að við séum „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“ 16 Aðgerðaáætlun Drottins fyrir okkur – kenning Krists – er kennd skýrust í Mormónsbók. 17 Í henni felst:
-
Í fyrsta lagi að iðka trú á Jesú Krist, með því að treysta honum, halda boðorð hans og vita að hann mun liðsinna okkar. 18
-
Í öðru lagi að iðrast daglega vegna ófullkomleika okkar og upplifa gleði og frið þegar hann fyrirgefur okkur. 19 Iðrun gerir kröfu um að við fyrirgefum öðrum 20 og gerir okkur kleift að halda áfram. Frelsarinn hefur lofað að fyrirgefa okkur jafn oft og við iðrumst. 21
-
Í þriðja lagi að gera og halda sáttmála við Guð, með helgiathöfnum, líkt og skírn. Þetta mun halda okkur á sáttmálsveginum, sem leiðir okkur til hans. 22
-
Í fjórða lagi að taka á móti gjöf heilags anda. Sú gjöf gerir mögulegt stöðugt samfélag við þann sem helgar, huggar og leiðir okkur. 23
-
Í fimmta lagi að standast til enda, með því að sækja staðfastlega fram og endurnærast daglega á orði Krists. 24 Með því að endurnærast á Mormónsbók og halda sér fast að kenningum hennar, getum við sigrast á freistingum og hlotið leiðsögn og vernd lífið á enda. 25
Með því að tileinka okkur stöðugt kenningu Krists, sigrumst við á tregðu til að breytast og ótta við að bregðast við. Við munum hljóta persónulega opinberun, því heilagur andi mun „sýna yður allt, sem yður ber að gjöra“ 26 og „orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra.“ 27
Í tuttugu ár háði bróðir Huang Juncong baráttu við áfengi, sígarettur og spilafíkn. Þegar bróðir Huang kynntist Jesú Kristi og hinu endurreista fagnaðarerindi hans, þráði hann að breytast sökum ungrar fjölskyldu sinnar. Mesta áskorun hans voru reykingar. Hann var keðjureykingamaður og hafði oft reynt að hætta án árangurs. Dag einn höfðu þessi orð í Mormónsbók sterk áhrif á huga hans: „í hjartans einlægni, með einbeittum huga.“ 28 Þótt fyrri tilraunir hefðu mistekist, hélt hann sig kannski geta breyst með hjálp himnesks föður og Jesú Krists.
Trúboðarnir sameinuðust honum í trú og lögðu til aðgerðaáætlun með hagnýtri íhlutun, ásamt miklum skömmtum af bænum og rannsóknum á orði Guðs. Af einlægni og raunverulegum ásetningi, sýndi bróðir Huang mikla ákveðni og komst að því að þegar hann einbeitti sér meira að nýjum venjunum, sem hann vildi tileinka sér, svo sem að læra Mormónsbók, átti hann auðveldar með að segja skilið við slæmar venjur.
Hann rifjaði upp þessa reynslu sína fyrir 15 árum og sagði: „Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég hætti að reykja, en þegar ég reyndi dag hvern að gera það sem ég vissi að ég þurfti að gera til að bjóða anda Drottins í líf mitt, og hélt áfram að gera það, hvarf löngun mín í sígarettur og hefur ekki komið aftur.“ Með því að tileinka sér kenningar Mormónsbókar, hefur líf bróður Huangs tekið stakkaskiptum og hann er betri eiginmaður og faðir.
Russell M. Nelson forseti hefur lofað: „Ef þið lesið Mormónsbók með bæn í huga daglega, þá munið þið taka betri ákvarðanir – daglega. Ég lofa að er þið íhugið það sem þið lærið, þá munu gáttir himins opnast og þið munið hljóta svör við spurningum ykkar og leiðsögn fyrir líf ykkar. Ég lofa ykkur því að er þið sökkvið ykkur daglega í Mormónsbók, þá getið þið verið vernduð gegn vonsku þessara tíma, þar á meðal hinni grípandi plágu kláms og annara deyfandi fíkna.“ 29
Kæru vinir, Mormónsbók er orð Guðs og við komumst nær honum, ef við lærum hana. 30 Þegar við látum reyna á orð hennar, munum við hljóta vitnisburð um sannleiksgildi hennar. 31 Þegar við lifum stöðugt eftir kenningum hennar, munum við „[þrá að gjöra ekkert illt framar].“ 32 Hjarta okkar, ásjóna og eðli munu breytast og verða líkari frelsarans. 33 Ég ber ykkur öruggt vitni mitt um að Jesús er Kristur, frelsari okkar og lausnari og vinur. Í nafni Jesú Krists, amen.