Uppfylling spádóms
Spádómarnir sem hafa uppfyllst með endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists eru margir.
Kæru bræður mínir og systur, mér er heiður að því að tala á þessari sögulegu aðalráðstefnu, til minningar um Fyrstu sýn Josephs Smith, er Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, birtust þar sem vissulega er nú Lundurinn helgi. Sú sýn markar undursamlegt upphaf endurreisnar fagnaðarerindisins og alls þess sem leitt var fram, allt frá Mormónsbók til endurkomu valds og lykla prestdæmisins, skipulagningar hinnar sönnu kirkju Drottins, mustera Guðs og spámanna og postula, sem leiða verkið á þessum síðari tímum.
Að guðlegri skipan, spáðu fornir spámenn Guðs, er þeir voru knúnir af heilögum anda, um endurreisnina og hvers vænta mætti á okkar tíma, í hinni síðustu ráðstöfun og fyllingu tímanna. Verksins sem vakti „eldmóð sálar“ hinna fyrri sjáenda.1 Í gegnum kynslóðir tímans, dreymdi þá, þeir sögðu fyrir um sáu fyrir sér og spáðu um framtíð ríkis Guðs á jörðu, það sem Jesaja sagði vera hið „undursamlega og undarlega“ verk.2
Spádómarnir sem hafa uppfyllst með endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists, þar á meðal Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, eru margir. Í dag ætla ég þó einungis að varpa ljósi á örfáa af eftirlætis spádómunum mínum. Ég lærði þá hjá mínum kæru Barnafélagskennurum og við fætur engilsmóður minnar.
Daníel, sem rak frá sér ljónin, vegna trúar sinnar á Drottin Jesú Krist og þjónustu engla Guðs, var einn þeirra sem sá okkar tíma í sýn. Daníel túlkaði draum fyrir Nebúkadnesar Babýloníukonung og spáði að kirkja Drottins myndi rísa á síðustu dögum, sem lítill steinn er „losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann.“3 „Án [mannshandar], merkir með guðlegri íhlutun, og kirkja Drottins skildi vaxa að fjölda, uns hún fyllti alla jörðina og myndi „aldrei … á grunn ganga, og … standa að eilífu.“4
Að kirkjumeðlimir um allan heim séu að horfa og hlusta á ráðstefnuna í dag, er djúpstætt vitni um að orð Daníels séu að rætast.
Hinn dyggi Pétur postuli sagði frá „tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, … frá alda öðli.“5 Páll postuli ritaði að í fyllingu tímanna, myndi Guð „safna öllu … undir eitt höfuð í Kristi,“6 með „Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.7 Ég fann svo sterkt fyrir raunveruleika þessara spádóma, þegar ég var við vígslu musterisins í Róm, Ítalíu. Allir spámennirnir og postularnir báru vitni um Jesú Krist, lausnara heimsins, líkt og Pétur og Páll gerðu. Kirkjan er lifandi dæmi um þá endurreisn, bræður og systur, og meðlimir okkar eru vitni að þessum fornu guðlegu spádómum.
Jósef frá Egyptalandi spáði um síðari daga: „Drottinn Guð minn mun vekja upp sjáanda, sem verða mun ávöxtum lenda minna útvalinn sjáandi.“8 „Því að hann mun vinna [Drottins] verk.“9 Joseph Smith, spámaður endurreisnarinnar, var þessi sjáandi.
Jóhannes opinberari spáði um engil hins almáttuga, sem sameinaði mikilvæga þætti endurreisnarinnar, með þessum orðum: „Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“10 Þessi engill var Moróní. Hann sá okkar tíma, eins og skráð er í Mormónsbók. Í endurteknum vitjunum bjó hann Joseph Smith undir þjónustu sína, þar á meðal þýðingu Mormónsbókar: Annars vitnis um Jesú Krist.
Aðrir spámenn sögðu líka fyrir um okkar tíma. Malakí sagði frá því að Elía myndi „sætta feður við sonu og sonu við feður.“11 Elía hefur komið og af því hefur leitt að í dag höfum við 168 musteri hvarvetna um jörðu. Hvert musteri þjónar verðugum meðlimum, sem gera helga sáttmála og taka á móti blessunarríkum helgiathöfnum í þágu látinna ættmenna sinna. Þetta helga verk sem Malakí segir frá, er „kjarninn í áætlun skaparans um eilíf örlög barna hans.“12
Við lifum á þessum fyrirsagða tíma; við erum fólkið sem boðið hefur verið að innleiða síðari komu Jesú Krists; við eigum að safna saman börnum Guðs, þeim sem vilja hlýða á og taka á móti sannleika, sáttmálum og loforðum hins eilífa fagnaðarerindis. Nelson forseti segi að þetta sé mikilvægasta áskorunin, mikilvægasti málstaðurinn og mikilvægasta verkið á allri jörðu í dag.“13 Um þetta kraftaverk ber ég vitni.
Að fyrirmælum Russells M. Nelson forseta, vígði ég Durban-musterið í Suður-Afríku í febrúar á þessu ári. Sá dagur verður mér minnisstæður alla ævi. Ég var meðal meðlima sem meðtóku fagnaðarerindið og komu, líkt og Jeremía spáði fyrir löngu, „einn úr hverri borg og [tveir] af hverjum kynstofni.“14 Kenning Jesú Krists sameinar okkur öll – um allan heim – sem syni og dætur Guðs, sem bræður og systur í fagnaðarerindinu. Við erum eitt með föðurnum á himnum, burt séð frá útliti eða klæðnaði, sem ráðgerði frá upphafi að fjölskylda hans yrði sameinuð með því að gera og halda helga musterissáttmála.
Spámaðurinn Joseph spáði fyrir fámennum hópi prestdæmishafa í skólahúsi í Kirtland í Ohio árið 1834: „Hér í kvöld sjáið þið einungis handfylli prestdæmishafa, en þessi kirkja mun fylla Norður- og Suður-Ameríku – hún mun fylla heiminn.“15
Á liðnum árum hef ég ferðast um heiminn til að hitta meðlimi kirkjunnar. Bræður mínir í Tólfpostulasveitinni hafa haft álíka verkefni. Hver getur samt fylgt eftir dagskrá okkar ástkæra spámanns, Nelson forseta, sem á fyrstu tveimur árum sínum sem forseti kirkjunnar hefur hitt hina heilögu í „þrjátíu og tveimur löndum og bandarískum svæðum,“16 til að vitna um hinn lifandi Krist.
Ég man eftir þegar ég fékk trúboðsköllun mína sem ungur maður. Ég vildi þjóna í Þýskalandi, eins og faðir minn, bróðir og mágur gerðu. Ég beið þess ekki að einhver kæmi heim, heldur þaut að póstkassanum og opnaði köllunarbréfið. Ég las að ég hefði verið kallaður í trúboðið í austurríkjum Bandaríkjanna, með höfuðstöðvar í New York. Ég varð fyrir vonbrigðum, svo ég fór inn og lauk upp ritningunum mér til huggunar. Ég las í Kenningu og sáttmála: „Sjá og tak eftir, ég á marga á þessum slóðum, í nærliggjandi héruðum, og áhrifamiklar dyr munu opnast á nálægum svæðum hér í austurhluta landsins.“17 Þessi spádómur, sem gefinn var spámanninum Joseph Smith árið 1833, var mér opinberun. Ég vissi þá að ég hafði verið kallaður nákvæmlega í það trúboð sem Drottinn vildi að ég þjónaði í. Ég kenndi endurreisnina og hið áhrifamikla upphaf hennar, er faðir okkar á himnum talaði til Josephs Smith og sagði: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“18
Spádómur Jesaja, yfir 700 árum fyrir fæðingu Jesú Krists, er allri kirkjunni afar mikilvægur: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi … og þangað munu allir lýðirnir streyma.“19
Í huga mínum í dag, sé ég fyrir mér milljónir meðlima og velunnara okkar tengjast þessari framvindu rafrænt, í gegnum sjónvarp, Alnetið eða með öðrum hætti. Við erum sitjandi, líkt og við værum saman „á fjallatindi.“20 Það var Brigham Young sem mælti hin ljóðrænu orð: „Þetta er rétti staðurinn.“21 Hinir heilögu, sumir mín eigin ættmenni, unnu að því að stofna Síon í Klettafjöllunum, „með vilja og velþóknun hans, sem stjórnar þjóðum jarðar.“22
Ég stend í dag á helgri jörð, sem hefur laðað að milljónir gesta. Árið 2002 var Salt Lake City gestgjafi Vetrar-Ólympíuleikanna. Laufskálakórinn söng á opnunarhátíðinni og kirkjan bauð gestum og þátttakendum upp á hljómleika og dagskrá frá fjölmörgum löndum. Ég mun ætíð muna eftir að sjá musterið í bakgrunni kvöldfréttanna sem útvarpað var um heiminn.
Í áranna rás hafa forsetar Bandaríkjanna, konungar, dómarar, forsætisráðherrar, sendiherrar og embættismenn frá mörgum löndum komið til Salt Lake City og fundað með leiðtogum okkar. Nelson forseti var gestgjafi forystumanna Landssambands til framdráttar lituðu fólki, bandarískra samtaka sem berjast fyrir jafnrétti, án mismununar byggða á kynþætti. Ég man að ég stóð við hlið þessara vina og leiðtoga, þegar Nelson forseti hvatti með þeim til aukinnar háttsemi og kynþáttaeiningar í heiminum.23
Margir fleiri hafa komið á Musteristorgið og átt samráðsfundi með leiðtogum kirkjunnar. Á síðastliðnu ári, svo eitthvað sé nefnt, fögnuðum við 68. samfélagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, heimslægri samkomu, og fyrstu sinnar tegundar utan New York borgar. Við höfum átt fundi með Trúarbragðanefnd Víetnams og sendiherrum frá Kúbu, Filippseyjum, Argentínu, Rúmeníu, Súdan, Katar og Sádi Arabíu. Við tókum líka á móti aðalframkvæmdastjóra Múslimska heimsbandalagsins.
Því sem ég er að lýsa, er uppfylling spádóms Jesaja, um að á síðustu dögum, muni þjóðir streyma „að [fjalli því], er hús Drottins stendur á.“24 Hið mikla Salt Lake musteri stendur í miðju þeirrar tignar og dýrðar.
Það er ekki landslagið sem hefur laðað að fólk, þótt umhverfi okkar sé stórkostlegt; það er kjarni sannra trúarbragða, sem stafa af anda, vexti, gæsku og örlæti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og fólki hennar; elsku okkar, eins og Guð elskar, og skuldbindingu okkar við æðri málstað, það sem Joseph Smith sagði vera „málstað Krists.“25
Við vitum ekki hvenær frelsarinn kemur aftur, en þetta vitum við. Við verðum að vera undirbúin í hjarta og huga, verðug þess að taka á móti honum og njóta þess heiðurs að vera hluti af öllu því sem spáð var fyrir löngu.
Ég ber vitni um að Russell M. Nelson forseti er spámaður Drottins á jörðu og við hlið hans eru postular kallaðir af Guði, studdir sem spámenn, sjáendur og opinberarar. Kæru bræður og systur, endurreisnin er viðvarandi.
Ég lýk með spádómi um Joseph Smith, orðum sem ég vitna um að eru sönn: „Engin vanheilög hönd fær stöðvað framrás þessa verks; ofsóknir kunna að herja, múgur sameinast gegn því, herir safnast saman, óhróður breiðst út, en sannleikur Guðs mun sækja fram óháður, ákveðinn og göfugur, þar til hann hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra, þar til tilgangi Guðs er náð og hinn mikli Jehóva segir að verkinu sé lokið“26 Ég ber vitni um að þessir spádómar um Joseph Smith eru að uppfyllast.
Ég lofa að þegar þið fylgið innblásinni leiðsögn okkar ástkæra spámanns, Russells M. Nelson forseta, ráðgjafa hans, postulanna og annarra kirkjuleiðtoga og hlýðið á þá fornu spámenn sem sögðu fyrir um okkar tíma, munið þið, djúpt í hjarta ykkar og sál , fyllast anda og verki endurreisnarinnar. Ég lofa að þið munuð sjá hönd Guðs í lífi ykkar, heyra hvatningu hans og finna elsku hans. Í nafni Jesú Krists, og í þakklæti fyrir endurreisn fagnaðarerindis hans og kirkju hans, til marks um óviðjafnanlega elsku hans, amen.