Aðalráðstefna
Ljúka upp himnunum til liðsinnis
Aðalráðstefna apríl 2020


2:3

Ljúka upp himnunum til liðsinnis

Við skulum virkja trú okkar á Drottin Jesú Krist með verkum!

Hve sérstakur og dásamlegur þessi ráðstefnuhluti hefur verið! Þakka ykkur fyrir, kæru Laudy og Enzo. Þið voruð afar dásamlegir fulltrúar stúlkna og pilta í kirkjunni.

Kæru bræður og systur, í dag hefur mikið verið rætt um endurreisn kirkjunnar – þeirrar kirkju sem frelsari okkar, Jesús Kristur, stofnaði í jarðneskri þjónustu sinni. Endurreisnin hófst fyrir 200 árum nú í vor, er Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, birtust hinum unga Joseph Smith.

Tíu árum eftir þessa dýrðlegu sýn, voru spámaðurinn Joseph Smith og fimm aðrir kallaðir sem fyrstu meðlimir hinnar endurreistu kirkju Drottins.

Frá þeim fámenna samankomna hópi, 6. apríl 1830, hefur kirkjan orðið að heimssamtökum yfir 16 milljóna meðlima. Það góða sem þessi kirkja kemur til leiðar um heiminn, til að draga úr þjáningum fólks og vekja mannkyni von, er víða þekkt. Megin tilgangur hennar er samt sá að hjálpa körlum, konum og fjölskyldum að fylgja Drottni, Jesú Kristi, að halda boðorð hans og gera sig hæf fyrir æðstu blessun allra – sem er eilíft líf með Guði og ástvinum sínum.

Þegar við minnumst þess atburðar sem átti sér stað árið 1820, er mikilvægt að hafa í huga, að þótt við heiðrum Joseph Smith sem spámann Guðs, þá er þetta hvorki kirkja Josephs Smith, né kirkja Mormóns. Þetta er kirkja Jesú Krists. Hann sagði nákvæmlega hvert nafn kirkju hans ætti að vera: „Því að svo mun kirkja mín nefnd á síðustu dögum, já, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.“

Ég hef áður talað um þarfa leiðréttingu á því hvernig við vísum til nafns kirkjunnar. Frá því hefur margt verið gert til að ná fram þeirri leiðréttingu. Ég er afar þakklátur M. Russel Ballard forseta og allri Tólfpostulasveitinni, sem hafa gert svo margt til að leiða það starf, sem og þeim sem vinna að öðrum verkefnum, sem ég mun kynna nú í kvöld.

Kirkjuleiðtogar og deildir, tengd félög og milljónir meðlima – og aðrir – nota nú hið rétta nafn kirkjunnar. Opinberum staðalheitum kirkjunnar hefur verið breytt. Aðalvefsíða kirkjunnar er nú ChurchofJesusChrist.org. Netföngum, vefsíðunöfnum og samfélagsmiðlarásum hefur verið breytt. Okkar ástkæri kór er nú „Laufskálakórinn á Musteristorgi.“

Við höfum lagt á okkur þetta einstæða átak, því ef við fjarlægjum í ógáti nafn Drottins úr nafni kirkju hans, þá fjarlægum við hann í ógáti sem þungamiðju tilbeiðslu og lífs okkar. Þegar við tökum á okkur nafn frelsarans við skírn, lofum við að vitna, með orðum, hugsunum og verkum okkar, að Jesús er Kristur.

Áður lofaði ég að ef við gerðum okkar „besta til að endurheimta hið rétta nafn kirkju Drottins, [myndi] sá er kirkjan tilheyrir úthella yfir höfuð hinna Síðari daga heilögu krafti sínum og blessunum, aldrei sem áður.“ Í dag endurtek ég það loforð.

Okkur til hjálpar við að muna eftir honum og að auðkenna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem kirkju Drottins, þá njótum við nú þeirrar ánægju að kynna auðkenni sem táknar þungamiðju Jesú Krists í kirkju hans.

Auðkennistákn þetta hefur nafn kirkjunnar í hyrningarsteini. Jesús Kristur er aðalhyrningarsteinninn.

Staðaltexti í hyrningarsteini

Í miðju táknsins er mynd af marmarastyttu Thorvaldsens, Kristur. Hún sýnir Drottin upprisinn, lifandi, með útrétta arma fyrir alla sem vilja koma til hans.

Táknrænt er að Jesús Kristur stendur undir boga. Boginn minnir okkur á að hinn upprisni frelsari steig úr gröfinni á þriðja degi eftir krossfestingu sína.

Hið nýja auðkennistákn kirkjunnar

Tákn þetta ætti að vera mörgum kunnugt, því við höfum lengi auðkennt hið endurreista fagnaðarerindi hinum lifandi, upprisna Kristi.

Táknið verður nú notað sem sjónrænt auðkenni fyrir opinbert lesefni, fréttir og viðburði kirkjunnar. Það mun festa í minni allra að þetta er kirkja frelsarans og að allt sem við gerum, sem meðlimir kirkjunnar, hefur Jesú Krist og fagnaðaerindi hans að þungamiðju.

Kæru bræður og systur, á morgun er pálmasunnudagur, líkt og öldungur Gong greindi svo vel frá. Svo hefst hin sérstaka vika sem leiðir að páskum. Við, sem fylgjendur Jesú Krists, á þeim tíma er COVID-19 faraldur herjar á heiminn, skulum ekki aðeins tala um Krist eða prédika um Krist eða veifa tákni um Krist.

Við skulum virkja trú okkar á Drottin Jesú Krist með verkum!

Líkt og þið vitið, þá hlíta meðlimir kirkjunnar lögmáli um að fasta ein dag í hverjum mánuði.

Kenningin um föstu er ævaforn. Hún hefur verið iðkuð af hetjum Biblíunnar frá fyrstu dögum. Móse, Davíð, Esra, Nehemía, Ester, Jesaja, Daníel, Jóel og margir fleiri, föstuðu og prédikuðu um föstu. Í ritverki Jesaja sagði Drottinn: „Sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok.“

Páll postuli áminnti hina heilögu í Korintu um að „[gefa sér tíma til föstu og bænahalds].“ Frelsarinn sagði sjálfur að ákveðnir hlutir yrðu ekki „út [reknir] nema með föstu og bæn.“

Ég sagði nýlega í myndbandi á samfélagsmiðlum, að „sem almennur læknir og skurðlæknir, dáist ég mikið af læknum, vísindafólki og öllum sem vinna að því sleitulaust að hefta útbreiðslu COVID-19.“

Ég, sem forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og postuli Jesú Krists, veit að Guðs „er allt vald, öll viska og allur skilningur. Hann skilur alla hluti, og hann er miskunnsöm vera, og miskunn hans nær til að frelsa þá, sem vilja iðrast og trúa á nafn hans.“

Þannig að á tíma mikillar neyðar, eins og þegar sjúkdómar verða að heimsfaraldri, er okkur eðlilegast að ákalla okkar himneska föður og son hans – meistaralækninn – um að sýna undursamlegan mátt sinn til að blessa íbúa jarðar.

Í myndbandinu bauð ég öllum að sameinast í föstu, sunnudaginn 29. mars 2020. Mörg ykkar gætuð hafa horft á myndbandið og fastað sameiginlega. Sumir hafa kannski ekki gert það. Við þörfnumst þó enn liðsinnis frá himnum.

Kæru bræður og systur, í anda sona Mósía, sem helguðu sig svo mikilli föstu og bæn, og sem hluti af aðalráðstefnu okkar í apríl 2020, þá kalla ég eftir annarri heimslægri föstu. Við skulum aftur sameinast í trú og fasta og biðja, allir sem hafa til þess heilsu. Við skulum sárbiðja um líkn frá þessum heimsfaraldri.

Ég býð öllum þeim sem eru ekki okkar trúar, að fasta og biðja á föstudaginn langa, 10. apríl, um að ná megi stjórn á ríkjandi heimsfaraldri, að hjúkrunarfólk njóti verndar, að efnahagur styrkist og lífið komast í eðlilegt horf.

Hvernig föstum við? Tvær máltíðir eða 24 klukkustundir eru viðmiðið. Þið ákveðið þó sjálf hver fórn ykkar verður, er þið minnist hinnar miklu fórnar frelsarans fyrir ykkur. Við skulum sameinast í bænarákalli um lækningu hvarvetna um heim.

Föstudagurinn langi gæti verið fullkominn dagur til að við fáum náð eyrum himnesks föður og sonar hans!

Kæru bræður og systur, ég tjái ykkur innilega elsku mína og gef ykkur vitnisburð minn um hið guðlega verk sem við helgum okkur. Þetta er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hann er höfuð hennar og er leiðandi í öllu sem við gerum. Ég veit að hann mun bregðast við ákalli fólks síns. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.