Sjálfbær samfélög
Ef nógu mörg okkar og nægilega margt samferðafólk sækjast eftir að lifa eftir sannleika Guðs, munu siðrænar dyggðir hvers samfélags vera nægilegar.
Mikið er þetta fallegur kór sem syngur um hinn dásamlega frelsara.
Árið 2015 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar það sem hefur verið kallað „Markmið um sjálfbæra þróun – áætlun til ársins 2030.“ Þeim var lýst sem „sameiginlegri áætlun um frið og hagsæld mannkyns og plánetunnar, nú og um framtíð.“ Markmiðin um sjálfbæra þróun eru 17 talsins og skal þeim vera náð árið 2030, en dæmi um þau eru: Engin fátækt, ekkert hungur, menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, hreint vatn og hreinlætisaðstaða og góð atvinna.1
Hugmyndin um sjálfbæra þróun er áhugaverð og mikilvæg. Jafnvel enn meira áríðandi er þó hin almenna spurning um sjálfbær samfélög. Hver er undirstaðan sem heldur uppi blómlegu samfélagi, samfélagi sem stuðlar að hamingju, framþróun, friði og velferð þegna sinna? Við höfum ritningarlegar heimildir um að minnsta kosti tvö slík samfélög. Hvað getum við lært af þeim?
Hinn mikli patríarki og spámaður til forna, Enok, prédikaði í réttlæti og „byggði … borg, sem nefnd var borgin helga, já, Síon.“2 Greint er frá því að „Drottinn nefndi þjóð sína Síon, vegna þess að hugur hennar og hjarta voru eitt, og hún lifði í réttlæti og enginn fátækur var á meðal hennar.“3
„Og Drottinn blessaði landið, og fólkið var blessað á fjöllunum og á hæðunum og það blómstraði.“4
Fólk fyrstu og annarrar aldar á vesturhveli jarðar, sem við þekkjum sem Nefíta og Lamaníta, veita okkur framúrskarandi dæmi um blómlegt samfélag. Eftir eftirtektarverða þjónustu frelsarans meðal þeirra, „fylgdi það boðorðum þeim, sem Drottinn og Guð þeirra hafði gefið því. Fólkið var staðfast í föstu og bæn og kom oft saman, bæði til bæna og til að hlýða á orð Drottins. …
Og engin öfund var, né erjur, róstur, hórdómur, lygar, morð eða nokkurt lauslæti. Og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.“5
Samfélögunum í þessum tveimur dæmum var haldið uppi með blessunum himins, sem stafaði af fordæmi þeirra og tryggð við hin tvö æðstu boðorð: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum“ og „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“6 Þau hlýðnuðust Guði í einkalífi sínu og gættu að líkamlegri og andlegri velferð hvers annars. Með orðum Kenningar og sáttmála: Þetta voru samfélög þar sem „sérhver maður [bar] hag náunga síns fyrir brjósti og [gjörði] allt með einbeittu augliti á dýrð Guðs.“7
Því miður varði fyrirmyndarsamfélagið í 4. Nefí í Mormónsbók ekki lengur en á aðra öld, eins og öldungur Quentin L. Cook vakti athygli á í morgun. Sjálfbærni er ekki hægt að ábyrgjast og blómstrandi samfélag getur fyrr eða síðar hnignað, ef það hverfur frá grundvallardyggðum sem viðhalda friði og velmegun. Í þessu tilviki lét fólkið eftir freistingum djöfulsins „og [það tók] að skiptast í stéttir og [hóf] að reisa kirkjur í eigin hagnaðarskyni og afneita hinni sönnu kirkju Krists.“8
„Og svo bar við, að þegar þrjú hundruð ár voru liðin, voru bæði Nefítar og Lamanítar orðnir jafn ranglátir.“9
Undir lok næstu aldar höfðu milljónir dáið í mannskæðum stríðsátökum og þjóð þeirra, sem eitt sinn var samlynd, var orðin að ófriðvænlegum ættbálkum.
Þegar ég íhuga þetta, og fleiri dæmi um samfélög sem eitt sinn blómstruðu en liðu síðar undir lok, tel ég óhætt að segja að þegar fólk hafnar ábyrgðinni gagnvart Guði og tekur þess í stað að treysta á „arm holdsins,“ er hætta á stórslysi. Að treysta á arm holdsins, er að hunsa guðlegan höfund mannréttinda og mannlegrar reisnar og setja ríkidæmi, vald og hróður heimsins í forgang (á meðan oft er hæðst að þeim sem fylgja öðrum stöðlum og þeir ofsóttir). Líkt og Benjamín konungur sagði, þá sækjast þeir sem búa í sjálfbærum samfélögum eftir því að „vaxa í þekkingu á dýrð hans, sem skóp [þá], eða í þekkingu á því, sem rétt er og satt.“10
Stofnanir fjölskyldu og trúarbragða hafa skipt sköpum við að innræta bæði einstaklingum og samfélögum þær dyggðir sem halda uppi varanlegum þjóðfélögum. Þessar dyggðir, sem eiga rætur í ritningunum, eru meðal annarra einlægni, ábyrgð, hjónaband og tryggð í hjónabandi, virðing fyrir öðrum og eigum annarra, þjónusta og nauðsynleg atvinna til mannlegrar reisnar.
Blaðamaðurinn Gerard Baker skrifaði grein í Wall Street Journal fyrr á þessu ári til heiðurs föður sínum, Frederick Baker, í tilefni af 100 ára afmæli hans. Baker velti fyrir sér ástæðum langlífis föður síns, en bætti svo við þessum hugleiðingum:
„Þótt við vildum öll þekkja leyndardóma langlífis, finnst mér oft að betur væri fyrir okkur komið ef við verðum meiri tíma í að finna orsakir góðs lífernis, burt sér frá okkar úthlutuðu tímalengd. Ég er viss um að ég þekki leyndardóm föður míns, hvað þetta varðar.
Hann er frá tímabili sem einkenndist aðallega af skyldum, ekki réttindum; af samfélagsábyrgð, ekki persónulegum forréttindum. Megin lífsregla hans aldar hafði verið ábyrgðartilfinning – gagnvart fjölskyldu, Guði og heimalandi.
Á tímabili þar sem sundrung fjölskyldunnar hefur verið áberandi, var faðir minn trúfastur eiginkonu sinni til 46 ára, skyldurækinn sex barna faðir. Hann var aldrei jafn mikilvægur og oftar til staðar en þegar foreldrar mínir þurftu að ganga í gegnum þann óhugsandi harmleik að missa barn. …
Á tímabili þar sem trúarbrögð fá stöðugt minni athygli, lifði faðir minn sem sannur, trúr kaþólikki í óhagganlegri trú á fyrirheit Krists. Ég held jafnvel stundum að hann hafi verið svo langlífur vegna þess að hann er betur undir dauðann búinn en nokkur annar sem ég hef hitt.
Ég hef verið lánsamur – blessaður með góðri menntun, minni eigin dásamlegri fjölskyldu, veraldlegum árangri sem ég átti ekki skilið. En hversu stoltur og þakklátur sem ég annars er, þá fellur það í skugga þess stolts og þakklætis sem ég ber til mannsins sem – nú í heila öld – hefur lifað með einföldum skyldum og ábyrgð, án fáts og fyrirgangs, og loks gleði dyggðar, án væntinga um verðlaun eða viðurkenningu.“11
Skilningurinn á mikilvægi trúarbragða og trúar hefur minnkað í mörgum þjóðum á síðustu árum. Vaxandi fjöldi fólks telur að trú á og hollusta við Guð sé ekki nauðsynleg fyrir siðferðislegt réttlæti hjá einstaklingum eða í samfélögum í heiminum nú á tímum.12 Ég held að við séum öll sammála um að þeir sem ekki iðka trúarbrögð geti verið, og eru oft, gott, siðsamt fólk. Við myndum þó ekki taka undir það að þetta gerist án guðlegra áhrifa. Ég vísa hér til ljóss Krists. Frelsarinn lýsti þessu yfir: „Ég er hið sanna ljós, sem lýsir hverjum manni, sem í heiminn kemur.“13 Hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki, eru sérhver karl, kona og barn fyllt ljósi Krists, óháð trúarbrögðum, staðsetningu eða tíma, og búa því yfir hyggjuvitinu um rétt og rangt, sem við köllum oft samvisku.14
Þegar persónuleg og borgaraleg dyggð er gerð veraldleg og hún er rofin frá ábyrgðinni við Guð, er plantan aðskilin frá rótum sínum. Það mun ekki nægja að reiða sig á menningu og hefðir einar og sér til að halda uppi dyggð í samfélaginu. Þegar einhver á engan æðri guð heldur en sjálfan sig og leitast ekki eftir að gera meira gott heldur en að fullnægja eigin löngun og dálæti, munu áhrifin koma í ljós þegar fram líða stundir.
Sem dæmi, samfélag þar sem einstaklingsbundið samþykki eru einu hömlurnar á kynhegðun, er samfélag í hrörnun. Hórdómur, lauslæti, fæðingar utan hjónabands15 og valfrjálsar fóstureyðingar eru aðeins nokkrar hinna bitru ávaxta sem spretta af hinni viðvarandi kynferðisbyltingu. Afleiðingar sem vinna í kjölfarið gegn því að halda heilbrigðu samfélagi gangandi eru meðal annars vöxtur á fjölda þeirra barna sem alast upp í fátækt og án jákvæðra aðkomu feðra sinna, stundum í margar kynslóðir; konur sem þurfa aleinar að bera ábyrgð sem ætti að vera sameiginleg; og alvarlega ófullnægjandi menntun þegar skólar, eins og aðrar stofnanir, þurfa að bæta upp fyrir misbresti á heimilinu.16 Til viðbótar við þessi félagslegu mein eru óteljandi dæmi um hjartasár og örvæntingu einstaklinga – geðræn og tilfinningaleg eyðilegging sem sækir jafnt á þá sem sekir eru og á hina saklausu.
Nefí sagði:
„Vei sé þeim, sem hlustar á mannasetningar, en afneitar krafti Guðs og gjöf heilags anda! …
…Vei sé loks öllum þeim, sem nötra af reiði vegna sannleika Guðs!“17
Til samanburðar, gleðiboðskapur okkar til barna okkar og alls mannkyns er sá að „sannleikur Guðs“ vísar til betri vegar, eða eins og Páll sagði: „Miklu ágætari leið,“18 leið til persónulegrar hamingju og samfélagslegrar velferðar nú og ævarandi friðar og gleði hér eftir.
Sannleikur Guðs vísar til grunnsanninda sem liggja að baki sæluáætlunar hans fyrir börn hans. Þessi sannindi eru þau að Guð lifir; að hann er himneskur faðir anda okkar; að sem birtingarmynd elsku hans hefur hann veitt okkur boðorð sem leiða til fyllingar gleði með honum; að Jesús Kristur er sonur Guðs og lausnari okkar; að hann þjáðist og dó til að friðþægja fyrir syndir, með skilyrði um iðrun okkar; að hann reis upp frá dauðum og gjörði upprisu alls mannkyns að veruleika; og að við munum öll standa frammi fyrir honum og verða dæmd, það er, gera grein fyrir lífi okkar.19
Þegar níu ár voru liðin af því sem kallast „stjórnarár dómaranna“ í Mormónsbók, lét spámaðurinn Alma af stöðu sinni sem yfirdómari til að helga sig leiðtogahlutverki kirkju sinnar. Tilgangur hans var að takast á við dramb, ofsóknir og græðgi sem þrifust meðal fólksins og sérlega meðal meðlima kirkjunnar.20 Eins og öldungi Stephen D. Nadauld varð að orði: „Innblásin ákvörðun [Alma] var ekki sú að verja meiri tíma til að búa til og framfylgja fleiri reglum til leiðréttingar á hegðun fólks síns, heldur að ræða við það um orð Guðs, kenna þeim kenningarnar og láta skilning þeirra á endurlausnaráætluninni leiða til breyttrar hegðunar.“21
Við getum lagt mikið af mörkum, sem samferðafólk og samþegnar, til að halda uppi og ýta undir velgengni þeirra samfélaga sem við búum í, eflaust verður varanlegasta þjónusta okkar að vera sú að kenna og lifa eftir sannleikanum sem fylgir hinni miklu sáluhjálparáætlun Guðs. Líkt og er tjáð í orðum sálmsins:
Trú vorra áa; ætíð vér
ætlum að stríða fyrir þig,
þjóðum að kenna að þekkja Guð,
þröngan að feta dyggða stig.22
Ef nógu mörg okkar og nægilega margt samferðafólk sækjast eftir að taka ákvarðanir og lifa eftir sannleika Guðs, munu siðrænar dyggðir hvers samfélags vera nægilegar.
Vegna elsku sinnar gaf himneskur faðir okkar eingetinn son sinn, Jesú Krist, til að við gætum öðlast eilíft líf.23
„[Jesús Kristur] gjörir aðeins það, sem heiminum er til góðs, því að svo elskar hann heiminn, að hann gefur sitt eigið líf til að draga alla menn til sín. Hann hefur því boðið öllum hlut í hjálpræði sínu.
Sjá, hrópar hann til nokkurs og segir: Vík frá mér? Nei, segi ég yður, heldur segir hann: Komið til mín frá ystu mörkum jarðar. Kaupið mjólk og hunang án silfurs og endurgjaldslaust.“24
Við lýsum þessu yfir „með hjartans hátíðleik og andans hógværð,“25 og í nafni Jesú Krists, amen.