Haf hljótt um þig
Frelsarinn kennir okkur hvernig við getum fundið frið og ró, jafnvel þegar stormar geysa allt í kringum okkur og öldugangurinn virðist ætla að sökkva vonum okkar.
Þegar börnin okkar voru ung fór fjölskyldan og dvaldi nokkra daga við fallegt stöðuvatn. Einn eftirmiðdaginn fóru nokkur börnin í björgunarvesti áður en þau stukku af palli og út í vatnið. Yngsta dóttir okkar horfði hikandi á og fylgdist með systkinum sínum. Af öllum þeim kjark sem hún gat talið í sig, hélt hún fyrir nefið með annarri hendi og stökk. Hún flaut samstundis upp aftur og af nokkru óðagoti kallaði hún: „Hjálpið mér! Hjálpið mér!“
Hún var alls ekki í neinni lífshættu, björgunarvestið virkaði eins og vera ber og hún flaut örugglega. Við hefðum getað rétt henni hjálparhönd og dregið hana aftur upp á pallinn án erfiðleika. Samt fannst henni sjálfri hún þurfa á hjálp að halda. Kannski var það kuldi vatnsins eða áhrif nýrrar upplifunar. Hvað sem öllu leið þá klifraði hún aftur upp á pallinn, þar sem við vöfðum hana inn í þurrt handklæði og hrósuðum henni fyrir hugrekkið.
Hvort sem við erum gömul eða ung þá hafa mörg okkar upplifað hræðslustundir, þar sem við höfum hrópað upp í neyð eitthvað eins og „Hjálpið mér!“ „Bjargið mér!“ eða „Viltu svara bænum mínum!“
Slík stund kom upp meðal lærisveina Jesú í jarðneskri þjónustu hans. Í Markús lesum við að Jesús „tók … að kenna við vatnið, … mikill mannfjöldi safnaðist að honum.“2 Mannfjöldinn var svo mikill að „hann varð að stíga í bát“ 2 og tala frá borðstokknum. Allan daginn kenndi hann fólkinu í dæmisögum þar sem það sat í fjörunni.
„Að kvöldi sama dags“ sagði hann við lærisveina sína: „Förum yfir um vatnið. Þeir skildu þá við mannfjöldann,“3 fóru frá landi og voru á leið yfir Galíleuvatn. Jesús fann sér stað í skut bátsins og lagðist niður og sofnaði fljótt. „Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti“4.
Margir af lærisveinum Jesú voru reyndir fiskimenn og vissu hvernig stjórna ætti bát í stormi. Þeir voru hans dyggu – sannarlega ástkæru – lærisveinar. Þeir höfðu yfirgefið störf sín, persónulegan hag sinn og fjölskyldur til að fylgja Jesú. Vera þeirra í bátnum sýndi greinilega fram á trú þeirra á honum. Nú var bátur þeirra í miðjum stormi og við það að sökkva.
Við vitum ekki hversu lengi þeir börðust við að halda bátnum á floti í storminum, en þeir vöktu Jesú með nokkrum hræðslutón í röddinni og sögðu:
„Meistari, hirðir þú ekki um að við förumst?“5
„Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“6
Þeir kölluðu hann „meistara“ og það er hann. Hann er einnig kallaður „Jesús Kristur, sonur Guðs, faðir himins og jarðar, skapari alls frá öndverðu.“7
Jesús stóð upp þar sem hann lá í bátnum og hastaði á vindinn og sagði við beljandi vatnið: „Haf hljótt um þig. Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.“8 Jesús, sem alltaf var meistarakennarinn, kenndi þarna lærisveinum sínum með tveimur einföldum og ástúðlegum spurningum. Hann spurði:
„Hví eruð þið hræddir?9
Hafið þið enn enga trú?“10
Það er jarðnesk tilhneiging, og jafnvel freisting, að þegar við erum í miðju raunum, erfiðleikum eða þrengingum, þá köllum við upp: „Meistari, hirðir þú ekki um að ég farist? Bjargaðu mér.“ Jafnvel Joseph Smith hrópaði úr hræðilegu fangelsi: „Ó Guð, hvar ert þú? Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt?“11
Vissulega skilur frelsari heimsins jarðneskar takmarkanir okkar, því að hann kennir okkur hvernig við getum fundið frið og ró, jafnvel þegar stormar geysa allt í kringum okkur og öldugangurinn virðist ætla að sökkva vonum okkar.
Þeim sem hafa sannreynda trú, barnstrú eða jafnvel örlitla trú, 12býður Jesú og segir: „Komið til mín.“13 „[Trúið] á nafn mitt.“14 „Lær af mér og hlusta á orð mín.“15 Hann býður okkur blíðlega: „[Iðrist og skírist] … í mínu nafni,“16 „elskið hvert annað, eins og ég hef elskað yður,“17 og „hafið mig ávallt í huga.“18 Jesús hughreysti okkur og sagði: „Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér.“ Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“19
Ég get ímyndað mér að lærisveinar Jesú hafi af nauðsyn verið uppteknir í vindbörðum bátnum við að fylgjast með öldunum skella á bátnum og ausa út vatni. Ég get séð þá fyrir mér reynandi að ráða við seglin og ná einhverri stjórn á hinum litla farkesti þeirra. Þeir einbeittu sér að því að lifa stundina af og beiðni þeirra um hjálp var ákaflega einlæg.
Mörg okkar eru ekki ólík þessu á okkar tíma. Nýlegir viðburðir um allan heim og í þjóðum okkar, samfélögum og fjölskyldum hafa skollið á okkur með ófyrirsjáanlegum raunum. Á tímum ólgu getur trú okkar verið þanin að þolmörkum úthalds og skilnings. Flóðbylgjur óttans geta truflað okkur, valdið því að við gleymum góðvild Guðs og skilið okkur eftir með takmarkaðan skilning og óskýra sýn. Það er samt á þessum erfiðu köflum ferðar okkar að trú okkar getur bæði verið reynd og styrkt.
Sama hverjar aðstæður okkar eru, þá getum við einsett okkur að byggja upp og auka trú okkar á Jesú Krist. Hún styrkist þegar við minnumst þess að við erum börn Guðs og að hann elskar okkur. Trú okkar vex þegar við reynum orð Guðs með von og dugnaði og leggjum okkur fram við að fylgja kenningum Krists. Trú okkar eykst þegar við veljum að trúa frekar en að efast, fyrirgefa frekar en að dæma, iðrast frekar en að berjast á móti. Trú okkar verður fágaðri þegar við treystum þolinmóð á verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar.20
„Þó að trú sé ekki fullkomin þekking,“ sagði öldungur Neal A. Maxwell, „þá færir hún okkur djúpstætt traust á Guði, hvers þekking er fullkomin!“21 Jafnvel á ólgutímum þá er trú á Drottinn Jesú Krist hugdjörf og óbugandi. Hún hjálpar okkur að sigta út ómerkilegar truflanir. Hún hvetur okkur til að halda áfram að ganga á sáttmálsveginum. Trú heldur ótrauð áfram og leyfir okkur að horfast í augu við framtíðina ákveðin og bein í baki. Hún hvetur okkur til að biðja um aðstoð og huggun er við biðjum til föðurins í nafni sonar hans. Þegar einlægri bæn okkar virðist ekki svarað, þá verða ávextir óhagganlegrar trúar okkar á Jesú Krist, þolimæði, auðmýkt og styrkur til að mæla orðin: „Verði þinn vilji.“22
Russell M. Nelson forseti kenndi:
„Við þurfum þó ekki að láta óttann yfirskyggja trú okkar. Við getum sigrast á óttanum með því að efla trú okkar.
Byrjið á börnum ykkar. … Látið þau skynja trú ykkar, jafnvel í alvarlegum þolraunum. Beinið trú ykkar að kærleiksríkum himneskum föður og ástkærum syni hans, Drottni Jesú Kristi. … Kennið öllum dýrmætum drengjum og stúlkum að þau séu börn Guðs, sköpuð í hans mynd, með helgan tilgang og möguleika. Sérhvert þeirra fæðist til að sigrast á áskorunum og styrkja trú sína.“23
Ég heyrði nýlega tvö fjögurra ára börn miðla trú sinni á Jesú Krist þegar þau svöruðu spurningunni: „Hvernig hjálpar Jesús Kristur ykkur? Fyrra barnið sagði: „Ég veit að Jesús elskar mig, því hann dó fyrir mig. Hann elskar líka fullorðna.“ Seinna barnið sagði: „Hann hjálpar mér þegar ég er leið eða ósátt. Hann hjálpar mér líka þegar ég er að sökkva.“
Jesús sagði: „Þess vegna mun ég taka við hverjum þeim, sem iðrast og kemur til mín sem lítið barn, því að slíkra er Guðs ríki.“24
„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“25
Nýlega lofað Nelson forseti „að ótti mun hörfa og trú eflast í kjölfarið“ er við „[einsetjum okkur] að nýju að hlýða á, ígrunda og tileinka [okkur] orð frelsarans.26
Systur og bræður, núverandi aðstæður okkar eru ekki eilífur lokaákvörðunarstaður okkar. Sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, höfum við tekið á okkur nafn Jesú Krists í gegnum sáttmála. Við höfum trú á endurleysandi kraft hans og von í hans miklu og dýrmætu loforðum. Við höfum ríka ástæðu til að fagna, því Drottinn vor og frelsari er vel meðvitaður um vandamál okkar, áhyggjur og sorgir. Hann er með okkur í bátnum, á sama hátt og með lærisveinum sínum til forna. Ég vitna um að hann gaf líf sitt svo að þið og ég munum ekki farast. Megum við treysta honum, hlýða boðorðum hans og hlýða á hann í trú er hann segir: „Haf hljótt um þig.“27 Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.