Aðalráðstefna
Prófuð, sannreynd og fáguð
Aðalráðstefna október 2020


Prófuð, sannreynd og fáguð

Dásamlegasta blessunin sem við hljótum þegar við sannreynum að við séum trúföst sáttmálum okkar í prófraunum okkar, verður breyting á eðli okkar.

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að tala til ykkar í dag. Von mín er sú að veita uppörvun þegar lífið virðist sérstaklega erfitt og óútreiknanlegt. Fyrir sum ykkar er sá tími núna. Ef ekki, þá mun slíkur tími koma.

Þetta er ekki svartsýnt viðhorf. Það er raunsætt – þó bjartsýnt – vegna tilgangs Guðs með sköpun þessa heims. Sá tilgangur var að gefa börnum hans tækifæri til að sannreyna sig hæf og fús til að velja rétt þegar það er erfitt. Eðli þeirra breytist við að gera það og þau verða líkari honum. Hann vissi að þetta krefðist óhagganlegrar trúar á hann.

Mikið af því sem ég veit er frá fjölskyldu minni komið. Þegar ég var um átta ára gamall, bað vitur móðir mín mig og bróður minn um að reyta arfa með sér í matjurtargarðinum sem var í bakgarði fjölskyldunnar. Þetta virðist vera einfalt verk, en við bjuggum í New Jersey. Það rigndi oft. Jarðvegurinn var þungur og leirugur. Illgresið óx hraðar heldur en grænmetið.

Ég man gremju mína þegar illgresið slitnaði í höndum mínum og ræturnar voru enn fastar ofan í þungri moldinni. Móðir mín og bróðir voru fljótlega langt á undan mér með þeirra raðir. Því meira sem ég lagði á mig, því meira dróst ég aftur úr.

„Þetta er of erfitt!“ hrópaði ég.

Í stað þess að sýna mér samúð, brosti móðir mín og sagði: „Ó, Hal, auðvitað er þetta erfitt. Það á að vera svoleiðis. Lífið er prófraun.“

Á því augnabliki vissi ég að orð hennar væru sönn og yrðu áfram sönn í lífi mínu.

Ástæðan fyrir elskulegu brosi móður minnar varð ljós mörgum árum síðar, þegar ég las um samtal himnesks föður og elskaðs sonar hans um tilgang þeirra með sköpun þessa heims og að gefa andabörnum kost á jarðnesku lífi.

„Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim–

Og þeim, sem standast fyrsta stig sitt, mun bætast meira. En þeir, sem ekki standast fyrsta stig sitt, munu ekki njóta dýrðar í sama ríki og þeir, sem standast fyrsta stig sitt. Og þeim, sem standast annað stig sitt, mun bætast dýrð við dýrð alltaf og að eilífu.“1

Þú og ég þáðum boðið um að vera prófuð og til að sýna fram á að við myndum velja það að halda boðorð Guðs, þegar við værum ekki lengur í návist himnesks föður okkar.

Þrátt fyrir ástríkt boð frá himneskum föður okkar, þá sannfærði Lúsífer þriðjung andabarnanna um að fylgja sér og afneita áætlun föðurins um vöxt okkar og eilífa hamingju. Satan og fylgjendum hans var varpað út, vegna uppreisnar hans. Nú, í þessu jarðlífi, reynir hann að snúa eins mörgum burt frá Guði og hann getur.

Þau okkar sem samþykktum áætlunina gerðum svo vegna trúar okkar á Jesú Krist, sem bauð sig fram sem frelsara okkar og lausnara. Við hljótum að hafa trúað því þá, að sama hvaða jarðneska veikleika við hefðum og sama hvaða illu öfl væru á móti okkur, þá myndu góðu öflin vera langtum sterkari.

Himneskur faðir og Jesús Kristur þekkja og elska ykkur. Þeir vilja að þið snúið aftur til þeirra og verðið eins og þeir eru. Ykkar árangur er þeirra árangur. Þið hafið upplifað elskuna sem staðfestist með heilögum anda, þegar þið lásuð eða heyrðuð þessi orð: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“2

Guð hefur máttinn til að auðvelda okkur lífið. Hann nærði Ísraelsmenn á ‚manna‘ á ferð þeirra til fyrirheitna landsins. Drottinn læknaði sjúka í jarðneskri þjónustu sinni, vakti upp dauða og lægði öldur. Eftir upprisu sína, boðaði hann „fjötruðum lausn.“3

Þrátt fyrir það þjáðist Joseph Smith, einn af hans mestu spámönnum, í fangelsi og lærði lexíu sem við höfum öll ávinning af og þörfnumst í okkar síendurteknu trúarprófraunum: „Og verði þér varpað í gryfju eða í hendur morðingja og dauðadómur felldur yfir þér, verði þér kastað í djúpið, gjöri beljandi öldurnar samsæri gegn þér, verði ólmandi stormar óvinir þínir, myrkvist himnarnir og sameinist allar höfuðskepnurnar um að loka leiðinni, og umfram allt, opni skoltar heljar gin sitt upp á gátt fyrir þér, vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.“4

Skiljanlega veltið þið ef til vill fyrir ykkur hvers vegna ástríkur og almáttugur Guð leyfi að jarðneskar prófraunir okkar séu svo erfiðar. Það er vegna þess að hann veit að við þurfum að vaxa og þroskast að andlegum hreinleika, til að geta lifað að eilífu með fjölskyldum okkar í návist hans. Himneskur faðir gaf okkur frelsara til að gera þetta mögulegt og hæfileikann til að velja sjálf að halda boðorð hans í trú og að iðrast og koma þannig til hans.

Kjarni sæluáætlunar föðurins felst í því að við verðum æ líkari elskuðum syni hans, Jesú Kristi. Fordæmi frelsarans er í öllu okkar besti leiðarvísir. Hann var ekki undanþeginn því að þurfa að sanna sig. Hann stóðst fyrir öll börn himnesks föður og galt gjaldið fyrir allar syndir okkar. Hann upplifði þjáningu allra sem hafa komið og munu koma í jarðlífið.

Þegar þið hugleiðið hversu mikinn sársauka þið fáið staðist vel, minnist hans þá. Hann leið þjáningar ykkar, svo hann gæti vitað hvernig létta mætti byrði ykkar. Þótt hann fjarlægi ekki byrðina, þá mun hann veita ykkur styrk, huggun og von. Hann þekkir veginn. Hann hefur drukkið af hinum beiska bikar. Hann leið þjáningar allra.

Þið eruð nærð og hugguð af ástríkum frelsara, sem veit hvernig liðsinna á ykkur, hver sem prófraun ykkar er. Alma kenndi:

„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.

Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.“5

Hann liðsinnir ykkur meðal annars með því að biðja ykkur að hafa sig ávallt í huga og koma til sín. Hann hefur hvatt okkur:

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“6

Við komum til hans með því að nærast á orði hans, sýna trú sem leiðir til iðrunar, velja að skírast og vera staðfest af réttmætum þjónum hans og halda síðan sáttmála okkar við Guð. Hann sendir ykkur heilagan anda sem förunaut, huggara og leiðarljós.

Þegar þið lifið verðug gjafar heilags anda, getur Drottinn leitt ykkur til öryggis, jafnvel þegar þið sjáið ekki leiðina. Oftast hefur hann sýnt mér næstu eitt eða tvö skref sem taka þarf. Sjaldan hefur hann sýnt mér brot af fjarlægri framtíð, en jafnvel þau sjaldgæfu brot eru mér leiðarvísir í vali og breytni daglegs lífs.

Drottinn sagði:

„Með náttúrlegum augum yðar getið þér eigi að svo stöddu séð áform Guðs um það, sem síðar skal koma, eða [þá] dýrð, sem fylgja mun … [miklu] mótlæti.

Því að eftir mikið mótlæti koma blessanirnar.“7

Dásamlegasta blessunin sem við hljótum þegar við sannreynum að við séum trúföst sáttmálum okkar í prófraunum okkar, verður breyting á eðli okkar. Með því að velja að halda sáttmála okkar, virkjum við kraft Jesú Krists og blessanir friðþægingar hans í lífi okkar. Hjörtu okkar geta mildast til að elska aðra, fyrirgefa og bjóða þeim að koma til frelsarans. Traust okkar á Drottni mun aukast. Ótti okkar minnka.

Þótt okkur séu lofaðar slíkar blessanir með mótlæti, þá leitumst við ekki eftir mótlæti. Í jarðneskri upplifun okkar munum við fá nægilega mörg tækifæri til að sannreyna okkur, að standast prófraunir sem eru nógu erfiðar til að verða æ líkari frelsaranum og himneskum föður.

Þar að auki verðum við að taka eftir mótlæti annarra og reyna að hjálpa þeim. Það verður sérstaklega erfitt þegar við sjálf erum sárlega sannreynd. Við munum uppgötva að úr baki okkar réttist við þegar við lyftum byrðum annarra, jafnvel aðeins örlítið, og við skynjum ljós í myrkrinu.

Drottinn er fyrirmynd okkar í því. Á krossinum á Golgata, hafandi liðið þjáningar, svo miklar að þær hefðu leitt hann til dauða, ef hann væri ekki hinn eingetni sonur Guðs, leit hann á böðla sína og sagði við föður sinn: „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera.“8 Á meðan hann þjáðist fyrir alla sem nokkurn tíma myndu lifa, þá leit hann niður af krossinum á Jóhannes og syrgjandi móður sína og hughreysti hana í prófraun hennar:

„Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: ‚Kona, nú er hann sonur þinn.‘

Síðan sagði hann við lærisveininn: ‚Nú er hún móðir þín.‘ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.“9

Með gjörðum sínum á þessum allra heilagasta degi, gaf hann líf sitt fyrir hvert okkar og bauð liðsinni, ekki aðeins í þessu lífi, heldur í eilífu lífi komandi tíðar.

Ég hef séð fólk áorka miklu eftir að hafa reynst trúfast í hrikalegum raunum. Dæmi um slíkt má nú finna hvarvetna í kirkjunni. Fólk er knúið niður á hné sín vegna mótlætis. Af eigin trúfesti, þolgæði og erfiði, verður það líkara frelsaranum og himneskum föður.

Ég lærði aðra lexíu af móður minni. Þegar hún var stelpa fékk hún barnaveiki og dó næstum. Síðar fékk hún mænu-heilahimnubólgu. Faðir hennar dó ungur, því hjálpuðust móðir mín og bræður hennar að við að styðja móður sína.

Allt sitt líf fann hún fyrir áhrifum prófrauna veikinda. Á síðustu 10 árum lífs hennar þurfti hún fjölda skurðaðgerða. Í gegnum allt þetta reyndist hún trú Drottni, jafnvel þegar hún var rúmliggjandi. Eina myndin sem hún var með á svefnherbergisveggnum var af frelsaranum. Síðustu orð hennar til mín þegar hún lá banaleguna voru þessi: „Hal, þú hljómar eins og þú sért að fá kvef. Þú ættir að fara vel með þig.“

Síðasti ræðumaður útfarar hennar var öldungur Spencer W. Kimball. Eftir að hafa talað um raunir hennar og trúfestu, sagði hann þetta í meginatriðum: „Sum ykkar gætu undrast það að Mildred hafi þurft að þjást svo mikið og svo lengi. Ég mun segja ykkur hvers vegna. Það var vegna þess að Drottinn vildi fága hana örlítið meira.“

Ég tjái þakklæti mitt fyrir hina mörgu trúföstu meðlimi kirkju Jesú Krists, sem bera byrðar sínar í staðfastri trú og hjálpa öðrum að bera byrðar þeirra þegar Drottinn þarf að fága þá örlítið meira. Ég tjái líka elsku mína og aðdáun á umönnunaraðilum og leiðtogum um allan heim, sem þjóna öðrum meðan þeir og fjölskyldur þeirra takast á við slíka fágun.

Ég vitna um að við erum börn himnesks föður sem elskar okkur. Ég skynja elsku Russells M. Nelson forseta til okkar allra. Hann er spámaður Drottins í heiminum á okkar tíma. Um það vitna ég í heilögu nafni Drottins, Jesú Krists, amen.