Aðalráðstefna
Augu til að sjá
Aðalráðstefna október 2020


9:44

Augu til að sjá

Í gegnum kraft heilags anda, mun Kristur hjálpa okkur að sjá okkur sjálf og sjá aðra eins og hann gerir.

Sjá hendi Guðs

Ég ann sögunni úr Gamla testamentinu um ungan mann sem þjónaði spámanninum Elísa. Snemma einn morgun vaknaði ungi maðurinn og uppgötvaði að borgin var umkringd miklum her sem einsetti sér að tortíma þeim. Hann hljóp til Elísa: „Æ, herra. Hvað eigum við nú að gera?“

Elísa svaraði: „Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.

Elísa vissi að ungi maðurinn þyrfti meira en róandi fullyrðingu, hann þyrfti sýn. „Og Elísa gjörði bæn,…: „Drottinn, opna þú augu hans, svo að hann sjái. Þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kring um Elísa.“1

Það kunna að koma tímar þar sem þið, eins og þjónninn, eigið í erfiðleikum með að sjá Guð að starfi í lífi ykkar – stundir þar sem ykkur finnst þið vera í umsátri – þegar jarðneskar raunir færa ykkur á hnéin. Bíðið og treystið á Guð og tímasetningar hans, því þið getið treyst hjarta hans fyrir öllu sem er ykkar. Það er hins vegar önnur lexía í þessu. Kæru systur mínar og bræður, þið getið einnig beðið þess að Drottinn opni augu ykkar til að sjá það sem þið mynduð öllu jafnan ekki sjá.

Sjá okkur sjálf með augum Guðs.

Það sem er kannski mikilvægast fyrir okkur að sjá skýrt er hver Guð er og hver við í raun erum – synir og dætur himneskra foreldra með „guðlegt eðli og eilíf örlög.“2 Biðjið Guð að opinbera ykkur þennan sannleik, ásamt því hvernig tilfinningar hann ber til ykkar. Því betur sem þið skiljið ykkar sanna eðli og tilgang, djúpt í sál ykkar, því meira mun það hafa áhrif á allt í lífi ykkar.

Sjá aðra

Skilningur á því hvernig Guð sér okkur, undirbýr leiðina til að hjálpa okkur að sjá aðra á sama hátt og hann gerir. Pistlahöfundurinn David Brooks sagði: „Mörg vandamál samfélags okkar koma frá því að mörgum finnst þeir ósýnilegir og óþekktir. … [Það er] kjarni … eiginleiki sem við verðum að bæta okkur í, [og það] er sá eiginleiki að sjá hvert annað fyllilega og verða fyllilega sjáanleg.“3

Jesús Kristur sér fólk fyllilega. Hann sér einstaklinga, þarfir þeirra og hverjir þeir geta orðið. Þar sem aðrir sáu veiðimenn, syndara eða skattheimtumenn, sá Jesús lærisveina. Þar sem aðrir sáu andsetinn mann leit Jesús framhjá hinum sýnilega vanda, bar kennsl á manninn og læknaði hann.4

Við getum fylgt fordæmi Jesú, jafnvel í okkar önnum kafna lífi, og séð einstaklinga – þarfir þeirra, trú þeirra, baráttu þeirra og hverjir þeir geta orðið.5

Á sama tíma og ég bið Drottin að opna augu mín til að sjá það sem ég myndi öllu jafnan ekki sjá, spyr ég mig oft tveggja spurninga og hlusta grant á þá hvatningu sem ég hlýt í framhaldi: „Hvað er ég að gera sem ég ætti að hætta að gera?“ og „Hvað er ég ekki að gera sem ég ætti að byrja að gera?“6

Fyrir mörgum mánuðum síðan, á sakramentissamkomu, spurði ég sjálfa mig þessara spurninga og var hissa á þeim svörum sem komu. „Hættu að horfa á símann þinn þegar þú bíður í röð.“ Það var orðið ósjálfrátt hjá mér að skoða símann minn í röðum. Mér fannst það góður tími til að gera margt í einu, svara tölvupóstum, lesa fyrirsagnir eða renna í gegnum samfélagsmiðlana.

Næsta morgun var ég í langri röð í búðinni. Ég dró upp símann minn og mundi eftir svarinu sem ég hafði fengið. Ég setti símann minn niður og horfði í kringum mig. Ég sá eldri mann í röðinni fyrir framan mig. Karfan hans var tóm, nema að hann var með nokkrar dósir af kattamat. Mér fannst þetta smá óþægilegt, en sagði eitthvað mjög sniðugt eins og: „Ég sé að þú átt kött.“ Hann sagði að það væri stormur í aðsigi og hann vildi ekki vera kattamatarlaus. Við spjölluðum aðeins saman og svo snéri hann sér að mér og sagði: „Veistu, ég hef ekki sagt neinum þetta, en ég á afmæli í dag.“ Mér hlýnaði um hjartað. Ég óskaði honum til hamingju með afmælið og sagði hljóða þakkarbæn í huganum fyrir það að ég hefði ekki verið í símanum og misst af tækifærinu til að sjá sannarlega og tengja við aðra persónu sem þurfti á því að halda.

Mig langar einlæglega ekki að vera eins og presturinn eða Levítinn á leiðinni til Jeríkó – sá sem lítur og gengur framhjá.7 Ég held samt oft að ég sé þannig.

Sjá erindi Guðs fyrir mig

Ég lærði nýlega dýrmæta lexíu varðandi það að horfa djúpt, frá stúlku að nafni Rozlyn.

Vinkona mín deildi þessari sögu með mér, er hún var niðurbrotinn því að maður hennar hafði flutt út eftir 20 ára hjónaband. Þar sem börnin urðu að skipta tíma sínum á milli foreldra sinna, þá fannst henni það yfirþyrmandi tilfinning að fara ein til kirkju. Hún sagði:

„Í kirkju þar sem fjölskyldan skiptir mestu máli, getur verið erfitt að sitja einn. Fyrsta sunnudaginn er ég gekk inn, bað ég þess að enginn myndi tala við mig. Ég var við það að falla saman og tárin um að bil að falla. Ég settist á minn hefðbundna stað og vonaði að enginn tæki eftir því hvað bekkurinn virtist tómur.

Stúlka í deildinni snéri sér við og leit á mig. Ég þóttist brosa. Hún brosti á móti. Ég gat séð umhyggjuna í andliti hennar. Ég bað þess hljóðlega að hún myndi ekki koma og tala við mig – ég hafði ekkert jákvætt að segja og vissi að ég myndi gráta. Ég leit í skaut mér og forðaðist augnsamband.

Næsta klukkutímann tók ég eftir því að hún horfði til mín öðru hverju. Um leið og samkomunni lauk stefndi hún beint til mín. ‚Hæ, Rozlyn,‘ hvíslaði ég. Hún faðmaði mig að sér og sagði ‚systir Smith, ég get séð að dagurinn í dag er þér erfiður. Mér þykir það svo leitt. Ég elska þig.‘ Eins og ég hafði séð fyrir hrundu tárin um leið og hún faðmaði mig aftur. Þegar ég gekk samt í burtu, hugsaði ég: ‚Kannski get ég þetta þrátt fyrir allt.‘

Rozlyn og systir Smith

Þessi yndislega 16 ára stúlka, nærri því helmingi yngri en ég sjálf, kom til mín á hverjum sunnudegi, næsta ár, til að faðma mig og spyrja: ‚Hvernig hefurðu það‘ Það skipti svo miklu máli gagnvart því að koma til kirkju. Staðreyndin er sú að ég fór að treysta á þessi faðmlög. Það var einhver sem tók eftir mér. Einhver vissi að ég var þar. Einhverjum var ekki sama.“

Eins og með allar gjafir sem faðirinn gefur svo fúslega, þá er það nauðsynlegt að biðja hann – og svo framkvæma ef við viljum sjá. Biðjum um að sjá aðra eins og hann gerir – hans sönnu syni og dætur með óendanlega og guðlega eiginleika. Framkvæmum því næst með kærleika, þjónum og staðfestum virði þeirra og möguleika eins og hvatning okkar gefur í skyn. Þegar þetta verður hluti af lífi okkar, verðum við að „sönnum fylgjendum …, Jesú Krists.“8 Aðrir munu geta treyst okkur fyrir hjörtum þeirra. Í þessu ferli munum við einnig uppgötva okkar eigin sanna eðli og tilgang.

Frelsarinn læknar

Vinkona mín rifjaði um aðra reynslu þar sem hún sat einsömul á sama bekk og velti því fyrir sér hvort að það hefði ekki verið tilgangslaust að lifa eftir fagnaðarerindinu á heimilinu í 20 ár. Hún þurfti meira en róandi fullvissu, hún þurfti sýn. Hún fann stingandi spurningu í hjarta sér: „Hvers vegna gerðir þú þessa hluti? Gerðir þú þá til að fá verðlaun, hrós frá öðrum eða hin þráðu úrslit?“ Hún hikaði eitt augnablik, leitaði í hjarta sér og gat svo svarað, sjálfsörugg: „Ég gerði þetta af því að ég elska frelsarann. Ég elska einnig fagnaðarerindi hans.“ Drottinn opnaði augu hennar til að hjálpa henni að sjá. Þessi einfalda, en öfluga breytta sýn, hjálpaði henni að halda áfram í trú á Kristi, þrátt fyrir aðstæður hennar.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur elskar okkur og getur gefið okkur augu til að sjá – jafnvel þegar það er erfitt, jafnvel þegar við erum þreytt, jafnvel þegar við erum einmana, og jafnvel þegar niðurstaðan er ekki eins og við hefðum óskað. Í gegnum náð hans, mun hann blessa okkur og auka getu okkar. Í gegnum kraft heilags anda, mun Kristur hjálpa okkur að sjá okkur sjálf og sjá aðra eins og hann gerir. Með hjálp hans getum við greint það sem er nauðsynlegast. Við getum byrjað að sjá hönd Drottins að verki í hinu smáa í okkar venjubundna lífi – við munum sjá fyllilega.

Þá, á þeim mikla degi „þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er; að vér megum eiga þessa von“9 er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. 2. Konungabók 6:15–17.

  2. „Þema Stúlknafélagsins,“ churchofjesuschrist.org/study/general-conference/2019/10/33cordon?lang=isl.

  3. David Brooks, „Finding the Road to Character“ (ræða flutt á opinberum vettvangi í Brigham Young háskóla, 22. okt. 2019), speeches.byu.edu.

  4. Sjá Markús 5:1-15.

  5. „Það er alvörumál að dvelja í samfélagi mögulegra guða og gyðja, og hafa í huga að litlausasta og lítt áhugaverðasta manneskjan sem þið kunnið að ræða við geti dag einn orðið sú vera, sem þið hefðuð mikla löngum til að tilbiðja. … Það er ekkert venjulegt fólk“ (C. S. Lewis, The Weight of Glory [2001], 45–46).

  6. Kim B. Clark, „Encircled about with Fire“ (útsending fyrir Seminaries and Institutes of Religion, 4. ág, 2015), ChurchofJesusChrist.org.

  7. Sjá Lúkas 10:30-32.

  8. Moróní 7:48.

  9. Moróní 7:48; skáletrað hér.