Kom, fylg mér 2024
20.–26. maí: „Við höfum gjört sáttmála við Guð.“ Mósía 18–24


„20.–26. maí: ‚Við höfum gjört sáttmála við Guð.‘ Mósía 18–24,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„20.–26. maí. Mósía 18–24,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ljósmynd
Fólk Limís á flótta

Minerva Teichert (1888–1976), Flótti Limís konungs og fólks hans, 1949–1951, olía á masonítplötu, 35 7/8 x 48 tommur. Listasafn Brigham Young-háskóla, 1969.

20.–26. maí: Við höfum gjört sáttmála við Guð

Mósía 18–24

Frásögnin um Alma og fólk hans í Mósía 18; 23–24 sýnir merkingu þess að „komast í hjörð Guðs“ (Mósía 18:8). Þegar fólk Alma var skírt, gerði það sáttmála við Guð um að „þjóna honum og halda boðorð hans“ (Mósía 18:10). Þetta var persónuleg skuldbinding við Guð, en tengdist því líka hvernig það kom fram við hvert annað. Já, ferðin til baka í návist föður okkar á himnum er einstaklingsbundin og enginn getur haldið sáttmálana fyrir okkur, en það merkir ekki að við séum einsömul. Við þörfnumst hvers annars. Við, sem meðlimir kirkju Krists, gerum sáttmála um að þjóna Guði með því að liðsinna og þjóna hvert öðru í ferð okkar, „að bera hver annars byrðar“ (Mósía 18:8–10). Fólk Alma þurfti vissulega að bera byrðar, líkt og við öll gerum. Drottinn hjálpar okkur að „[bera] byrðar [okkar] léttilega“ (Mósía 24:15), t.d. með því að sjá okkur fyrir samfélagi heilagra, sem lofar að syrgja með okkur og hughreysta okkur, rétt eins og við höfum líka lofað.

Sjá einnig „The Lord Delivers the Covenant Peoples of Alma and Limhi“ (myndband), Gospel Library.

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Mósía 18:1–17

Ljósmynd
trúarskólatákn
Þegar ég skírist geri ég sáttmála við Guð.

Íhugið hversu djúpar tilfinningar hinna trúuðu í Mósía 18 voru til Jesú Krist. Fólkið varð að taka mikla áhættu til að koma leynilega saman til að læra um hann (sjá vers 3). Þegar því var veitt tækifæri til að staðfesta skuldbindingu sína með skírnarsáttmálanum, „klappaði það saman höndum af gleði og hrópaði: Það er þetta, sem við þráum“ (Mósía 18:11).

Lestur þessara versa gæti verið gullið tækifæri til að ígrunda hversu mikilvægir sáttmálar ykkar eru ykkur. Hugleiðið spurningar eins og eftirfarandi, einkum þegar þið lærið Mósía 18:8–14:

  • Hvað lærið þið af þessum versum um loforðin sem þið gáfuð við skírn ykkar? Hverju lofar Guð ykkur? (sjá vers 10, 13).

  • Hvernig tengist sáttmálinn um að þjóna Guði viðleitni okkar til að þjóna hvert öðru? (sjá vers 8–9).

  • Hver finnst ykkur vera merking þess að „standa sem vitni Guðs“? (vers 9).

  • Hvernig getið þið orðið „[gagntekin] andanum“ með því að halda skírnarsáttmála ykkar? (Mósía 18:14). Hvernig hjálpar andinn ykkur að halda sáttmála ykkar?

Að svara þessum spurningum, gæti vakið ykkur til umhugsunar um af hverju sáttmálar og helgiathafnir eru Guði mikilvæg. Þið gætuð fundið skilning í boðskap öldungs Gerrits W. Gong, „Sáttmálsaðild“ (aðalráðstefna, október 2019) eða boðskap Jean B. Bingham, „Sáttmálar við Guð styrkja okkur, vernda og búa okkur undir eilífa dýrð“ (aðalráðstefna, apríl 2022). Af hverju eruð þið þakklát fyrir sáttmálana ykkar? Hvað gerið þið til að standa við loforð ykkar?

Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Skírn,“ Gospel Library; „Alma the Elder Teaches and Baptizes at the Waters of Mormon“ (myndband), Gospel Library.

Kennið sannleika úr ritningunum og frá síðari daga spámönnum. Þegar þið kennið – og lærið – hafið þá hugfast að ein besta leiðin til að efla trú á Krist er að einblína á ritningarnar og orð síðari daga spámanna (sjá Mósía 18:19).

Mósía 18:17–30

Guð býður fólki sínu að koma saman, skipuleggja sig og vera einhuga.

Sumir velta fyrir sér hvers vegna við þurfum kirkju? Kannið Mósía 18:17–31 og gætið að þeim gildum sem fólk Alma fann í því að koma saman í „kirkju Krists“ (Mósía 18:17). Hvað er líkt með kirkju Jesú Krists á tíma Alma og á okkar tíma?

Hvernig mynduð þið bregðast við vini eða fjölskyldumeðlim sem telur að ekki sé þörf fyrir skipulagða kirkju? Af hverju eruð þið þakklát fyrir að tilheyra kirkju Jesú Krists?

Íhugið hvað þið getið gert til að hjálpa meðlimum deildar eða greinar ykkar að „[tengjast] böndum einingar og elsku“ (Mósía 18:21).

Sjá einnig Dallin H. Oaks, „Þörfin fyrir kirkju,“ aðalráðstefna, október 2021; „Elskið hver annan,“ Sálmar, nr. 117.

Mósía 21–24

Guð hjálpar mér að bera byrðar mínar.

Bæði fólk Limís konungs og fólk Alma féll í ánauð, en þó við ólíkar aðstæður. Hvað getið þið lært af því að bera saman frásagnirnar af fólki Límís í Mósía 19–22 og fólki Alma í Mósía 18; 23–24? Gætið að boðskap sem gæti átt við um ykkur sjálf. Hvað felst t.d. í orðunum „smám saman tók þeim að vegna betur í landinu“? (Mósía 21:16). Hvernig getið þið tileinkað ykkur þessa reglu?

Mósía 23:21–24; 24:8–17

Ég get treyst Drottni.

Alma og fólk hans voru áfram í ánauð, jafnvel þótt þau hefðu iðrast synda sinna. Reynsla þeirra sýnir að þótt við setjum traust okkar á Drottin og lifum eftir sáttmálum okkar, þá hverfa áskoranir okkar ekki alltaf, en það hjálpar okkur við að sigrast á þeim. Þegar þið lesið Mósía 23:21–24 og 24:8–17, gætið þá að orðum og orðtökum sem gætu hjálpað ykkur að treysta Drottni, burtséð frá aðstæðum ykkar.

Sjá einnig David A. Bednar, „Bera byrðar þeirra léttilega,“ aðalráðstefna, apríl 2014.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Mósía 18:7–17

Þegar ég skírist geri ég sáttmála við Guð.

  • Ein mikilvæg leið til að hjálpa börnum ykkar að búa sig undir skírn er að kenna þeim um sáttmálann sem þau munu gera þegar þau eru skírð. Þetta gæti verið jafn einfalt og að sýna myndina aftast í lexíudrögum þessarar viku og lesa um sáttmálann fyrir þau í Mósía 18:9–10. Íhugið að bjóða barni sem þegar hefur verið skírt að kenna yngri börnunum þetta. Börn ykkar gætu haft gaman af að heyra um skírn ykkar. Hvernig hefur það blessað líf ykkar að halda sáttmála ykkar við Guð?

  • Börn sem hafa verið skírð gætu haft gott af tíðum áminningum um sáttmálana sem þau gerðu og endurnýja í hverri viku með sakramentinu. Börn ykkar gætu ef til vill borið skírnarsáttmálann sem lýst er í Mósía 18:8–10 saman við sakramentisbænirnar (sjá Kenning og sáttmálar 20:77, 79). Hvernig getum við gert sakramentið að sérstökum, lotningarfullum tíma, rétt eins og skírnir okkar voru?

Ljósmynd
ung telpa skírð

Við gerðum sáttmála við Guð þegar við skírðumst.

Mósía 18:17–28

Þegar ég læt skírast, verð ég meðlimur kirkju Jesú Krists.

  • Vita börn ykkar hvað það þýðir að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu? Íhugið að hjálpa þeim að finna myndir sem tákna það sem kirkjumeðlimir gerðu í Mósía 18:17–28. Dæmi: Myndirnar Vígsla til prestdæmisins og Greiðsla tíundar (Trúarmyndabók, nr. 106113) gætu staðið fyrir vers 18 og 27–28. Segið þeim hvers vegna þið eruð þakklát fyrir að vera meðlimir í kirkju Jesú Krists.

  • Að hjálpa börnum að finnast þau vera „[tengd] böndum einingar og elsku“ (Mósía 18:21), hjálpar þeim að vera tengd kirkjunni alla ævi. Íhugið að bjóða börnum ykkar að lesa Mósía 18:17–28. Hvað gerðu meðlimir kirkju Krists á tíma Alma til að elska og þjóna hver öðrum? Hvernig getum við gert þetta í deildum og greinum okkar eða í samfélagi okkar? Söngur um elsku, svo sem „Ég geng með þér“ (Barnasöngbókin, 78), gæti undirstrikað þennan boðskap.

Mósía 24:8–17

Guð getur gert byrðar mínar léttari.

  • Einföld sýnikennsla getur gert námið minnisstæðara. Íhugið að fylla poka af þungum hlutum (til að tákna byrðar) og bjóða barni að halda á pokanum. Þegar þið lesið Mósía 24:8–17 með börnum ykkar, skuluð þið biðja þau að taka hlut úr pokanum í hvert sinn sem þau heyra eitthvað sem Alma og fólk hans gerði til að leita liðsinnis Guðs með byrðar sínar. Þið gætuð síðan rætt við þau um það hvernig himneskur faðir getur létt byrðar okkar þegar við leitum hjálpar hans.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
fólk að skírast

Mormónsvötn, eftir Jorge Cocco

Prenta