Kom, fylg mér
13.–19. apríl Mósía 1–3: „Fyllast elsku til Guðs og allra manna“


„13.-19. apríl. Mósía 1-3: ‚Fyllast elsku til Guðs og allra manna,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„13.-19. apríl. Mósía 1-3,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Ljósmynd
Benjamín konungur kennir fólki sínu

Minerva K. Teichert (1888–1976), Kveðjuávarp Benjamíns konungs, 1935, olía á viði, 36 x 48 tommur. Listasafn Brigham Young háskóla.

13.–19. apríl

Mósía 1–3

„Fyllast elsku til Guðs og allra manna“

Benjamín konungur nefndi eina ástæðu þess að skrá niður andleg hughrif: „Því útilokað er, að faðir okkar, Lehí, hefði getað munað allt þetta og kennt börnum sínum, án þessara taflna“ (Mósía 1:4).

Skráið hughrif ykkar

Þegar þið heyrið orðið konungur, koma ef til vill kórónur, kastalar, þjónustulið og hásæti upp í hugann. Í Mósía 1–3 lesið þið um öðruvísi konung. Í stað þess að lifa af vinnu fólks síns, erfiðaði [Benjamín konungur] eigin höndum“ (Mósía 2:14). Í stað þess að láta aðra þjóna sér, þjónaði hann fólki sínu „af öllum þeim mætti, huga og styrk, sem Drottinn [hafði] léð [honum]“ (Mósía 2:11). Þessi konungur vildi ekki að fólkið sitt tilbæði sig; þess í stað kenndi hann þeim að tilbiðja æðri konung, því hann skildi að það er „Drottinn alvaldur, sem ríkjum ræður“ (Mósía 3:5). Eins og allir miklir leiðtogar í ríki Guðs, vísa orð og fordæmi Benjamíns konungs okkur á himneskan konung okkar, sem er frelsarinn Jesús Kristur. Benjamín konungur vitnaði að Jesús myndi „stíga niður af himni“ og „ferðast um meðal þeirra og gjöra máttug kraftaverk … Og sjá. Hann mun vitja sinna eigin, til að trúin á nafn hans færi mannanna börnum sáluhjálp“ (Mósía 3:5, 9).

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Mósía 2:1-9

Það krefst undirbúnings að meðtaka orð Guðs.

Þegar Benjamín konungur tilkynnti að hann vildi tala til fólksins, þá kom svo mikill mannfjöldi „að ekki var hægt að kasta á hann tölu“ (Mósía 2:2). Hann kom að hluta til sökum þakklætis og kærleika til leiðtoga síns. Það sem mikilvægara var, hann kom til að hljóta kennslu um orð Guðs.

Þegar þið lesið Mósía 2:1–9, athugið þá hvað fólkið gerði til að sýna að það mat orð Guðs mikils. Hvað bauð Benjamín konungur þeim að gera til að búa sig undir að heyra orð Guðs? (sjá vers 9). Hvernig getið þið búið ykkur betur undir að meðtaka orð Guðs í eigin námi, námi fjölskyldunnar og á kirkjusamkomum?

Sjá einnig Matteus 13:18–23; Alma 16:16–17.

Mósía 2:10–26

Þegar ég þjóna öðrum, er ég einnig að þjóna Guði.

Finnst ykkur erfitt að finna tíma til að þjóna eða viljið þið að þjónusta ykkar færi ykkur meiri gleði? Hvað haldið þið að Benjamín konungur myndi segja ef þið spyrðuð hann hvers vegna hann þjónaði af öllum „mætti, huga og styrk“? (Mósía 2:11). Þegar þið lesið Mósía 2:10–26, finnið þá þann sannleika sem Benjamín konungur kenndi um þjónustu og íhugið hvernig þið getið hagnýtt ykkur það í lífinu. Hvaða þýðingu hefur það t.d. fyrir ykkur að vita að þegar þið þjónið fólki, eruð þið einnig í þjónustu Guðs? (sjá Mósía 2:17). Finnið leið til að þjóna einhverjum í þessari viku!

Sjá einnig Matteus 25:40.

Ljósmynd
Tvær konur að faðmast

Þegar ég þjóna öðrum, er ég einnig að þjóna Guði.

Mósía 3:1–20

Ég get sigrast á hinum náttúrlega manni og orðið heilagur fyrir friðþægingu Jesú Krists.

Benjamín konungur vitnaði um Jesú Krist, eins og allir spámenn, svo að fólk hans gæti „fengið fyrirgefningu synda sinna og glaðst ákaft“ (Mósía 3:13). Hann kenndi einnig að frelsarinn hreinsar okkur ekki eingöngu með friðþægingunni, heldur veitir okkur einnig kraft til að losa okkur úr viðjum „hins náttúrlega manns“ og að verða „heilagur“ (Mósía 3:19; sjá Leiðarvísir að ritningunum, „Hinn náttúrlegi maður,” https://www.churchofjesuschrist.org/study/scriptures/gs/natural-man?lang=isl).

Öldungur David A. Bednar útskýrði: „Það er friðþæging Jesú Krists sem í fyrsta lagi hreinsar okkur og veitir okkur kraft til endurlausnar, er gerir okkur kleift að sigrast á synd, og í öðru lagi veitir okkur kraft til helgunar og styrktar er gerir okkur kleift að verða betri en við gætum orðið með því að reiða okkur aðeins á eigin styrk. Hin altæka friðþæging er bæði ætluð syndaranum og hinum heilaga í okkur“ („Hreinar hendur og hreint hjarta,“ aðalráðstefna, október 2007).

Hér eru nokkrar spurningar til íhugunar er þið lesið vitnisburð Benjamíns konungs um frelsarann í Mósía 3:1–20:

  • Hvað læri ég í þessum versum um frelsarann og ætlunarverk hans?

  • Hvernig hefur Jesús Kristur hjálpað mér að sigrast á synd? Hvernig hefur hann hjálpað mér að breyta eðli mínu og að verða heilagri?

  • Hvað læri ég um það að verða heilagur í Mósía 3:19?

Mósía 3:8

Hvers vegna sagði Benjamín konungur Jesú vera „föður himins og jarðar“?

Joseph F. Smith forseti útskýrði: „Elóhim, faðirinn, bauð Jesú Kristi, sem einnig er nefndur Jehóva, að hafa yfirumsjá með sköpunarverkinu. … Jesús Kristur er því ítrekað nefndur faðir himins og jarðar …; og þar sem sköpunarverk hans hefur eilíft gildi, er hann eðlilega nefndur eilífur faðir himins og jarðar“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph F. Smith [1998], 357).

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

Mósía 1:1–7

Hvernig voru látúnstöflurnar og töflur Nefís fólki Benjamíns konungs til blessunar? Hvernig eru ritningarnar fjölskyldu okkar til blessunar?

Mósía 2–3

Það gæti verið skemmtilegt fyrir fjölskyldu ykkar að skapa vettvanginn að ræðu Benjamíns konungs. Þið gætuð búið til lítinn turn og skipst á í fjölskyldunni að lesa orð Benjamíns konungs standandi á honum. Hinir í fjölskyldunni gætu hlýtt á í nokkurs konar tjaldi.

Mósía 2:9–19

Hvað lærum við um þjónustu af orðum og fordæmi Benjamíns konungs? Hvaða finnst ykkur þið hvött til að gera?

Mósía 2:15–25

Myndi fjölskylda ykkar hafa hag af því að ræða um auðmýkt? Hvers vegna miklaðist Benjamín konungur ekki af öllu því sem hann hafði gert? Hvað lærum við af orðum hans um samband okkar við Guð?

Mósía 2:36–41

Hvað kenndi Benjamín konungur um afleiðingar þess að þekkja sannleikann, en lifa ekki eftir honum? Hvað kenndi hann um það hvernig hljóta skuli sanna hamingju?

Mósía 3:19

Hvað verðum við að gera til að verða heilög? Hvaða eiginleika úr þessu versi getum við reynt að þróa með okkur sem fjölskylda?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta persónulegt nám

Setjið viðráðanleg markmið. Ritningarlestur, jafnvel aðeins fáeinar mínútur á dag, getur blessað líf okkar. Gefið ykkur að daglegu námi og finnið leiðir til að minna ykkur á skuldbindingu ykkar.

Ljósmynd
Benjamín konungur ávarpar þjóð sína

Benjamín konungur ávarpar þjóð sína, eftir Jeremy Winborg

Prenta