„30. mars – 12. apríl. Páskar: ,Hann [mun] rísa … með lækningarmátt í vængjum sínum,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)
„30. mars – 12. apríl. Páskar,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020
30. mars – 12. apríl
páskar
„Hann [mun] rísa … með lækningarmátt í vængjum sínum“
Á þeim dögum er líða tekur að páskum, íhugið þá að leggja áherslu á máttugan vitnisburð Mormónsbókar um líf, dauða, upprisu og friðþægingarkraft Jesú Krists í einka- og fjölskyldunámi ykkar.
Skráið hughrif ykkar
Hinir fornu postular voru hugdjarfir í vitnisburðum sínum um Jesú Krist og upprisu hans. Milljónir trúa á Jesú Krist og reyna að fylgja honum, vegna orða þeirra sem skráð eru í Biblíunni. Við gætum þó velt fyrir okkur afhverju sjónarvottar hans voru einungis takmarkaður hópur örfárra hræða sem bjuggu á einu afmörkuðu svæði, þar sem Jesús er frelsari alls heimsins.
Mormónsbók er annað, sannfærandi vitni um að Jesús er frelsari heimsins, „er opinberar sig öllum þjóðum“ (titilsíða Mormónsbókar) og býður öllum hjálpræði sem til hans koma. Auk þess útskýrir þetta annað vitni merkingu sáluhjálpar. Það er ástæða þess að Nefí, Jakob, Mormón og allir spámennirnir unnu svo „ötullega að því að letra þessi orð á töflurnar“ – til að greina kynslóðum framtíðar frá því að þeir „[þekktu líka] til Krists og [lifðu] í von um dýrð hans“ (Jakob 4:3–4). Ígrundið þessa páska vitnisburðina í Mormónsbók um að kraftur friðþægingar Krists er bæði altækur og persónulegur – að hann endurleysir allan heiminn sem og ykkur sjálf.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
2. Nefí 9:6–15, 22; Alma 11:41–45; 40:21–23; 3. Nefí 26:4–5
Allir menn munu rísa upp sökum upprisu Jesú Krists.
Á páskum er hefðbundið að hugleiða upprisu Jesú Krists, en hvað felst í raun í því að vera upprisinn? Hvaða skilning veitir Mormónsbók á upprisu? Þið gætuð ef til vill skráð sannleika um upprisu, sem hluta af páskanámi ykkar, er finna má í 2. Nefí 9:6–15, 22; Alma 11:41–45; 40:21–23; og 3. Nefí 26:4–5. Þið gætuð líka skráð afhverju mikilvægt er að þekkja hvern þann sannleika.
Þið gætuð hafa veitt athygli að sannleikur um upprisuna er oft kenndur í tengslum við sannleika um lokadóminn. Ígrundið hvað þið lærið af því um mikilvægi upprisunnar í áætlun sáluhjálpar.
Sjá einnig Lúkas 24:36–43; Postulasagan 24:15; 1. Korintubréfið 15:12–23.
Mósía 3:7; 15:5–9; Alma 7:11–13
Jesús Kristur tók á sig sjálfan syndir mínar, sársauka og misbresti.
Biblían kennir skýrt að Jesús Kristur friðþægði fyrir syndir okkar. Mormónsbók veitir okkur hins vegar mikilvægan skilning á fórn og þjáningum Krists. Þið getið fundið sumar þessara kenninga í Mósía 3:7; 15:5–9; og Alma 7:11–13. Eftir lestur þessara ritningaversa, íhugið þá að skrá það sem þið uppgötvið í töflu eins og hér er:
Hverjar voru þjáningar frelsarans? |
Afhverju þjáðist frelsarinn? |
Hver er merking þess fyrir mig? |
---|---|---|
Hverjar voru þjáningar frelsarans? | Afhverju þjáðist frelsarinn? | Hver er merking þess fyrir mig? |
Sjá einnig Jesaja 53; Hebreabréfið 4:14–16.
Mósía 5:1–2; 27:8–28; Alma 15:3–12; 24:7–19
Friðþæging Jesú Krists hreinsar mig og gerir mér kleift að fullkomnast.
Hægt væri að segja að Mormónsbók væri að stórum hluta frásögn um fólk sem breyttist sökum friðþægingar Jesú Krists. Í raun drýgðu sumir þar á meðal alvarlegar syndir og voru jafnvel óvinir fólks Guðs, áður en mikil breyting varð á þeim vegna áhrifa frelsarans, í samræmi við trú þeirra á hann. Þið getið lesið sumar þessara upplifanna í Mósía 5:1–2; 27:8–28; og Alma 15:3–12; 24:7–19; þið gætuð líka hugsað um fleiri dæmi til að læra um. Hvað sjáið þið sameiginlegt með öllum þessum upplifunum? Hver er munurinn þar á milli? Hvað kenna þessar frásagnir ykkur um hvernig friðþæging frelsarans megnar að breyta ykkur?
Sjá einnig Alma 5:6–14; 13:11–12; 18; 19:1–16; 22:1–26; 36:16–21; Eter 12:27; Moróní 10:32–33.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
Þegar þið fagnið páskum sem fjölskylda, leitið þá leiða til að læra saman um frelsarann og friðþægingu hans, þar með talið upprisuna. Hér eru nokkrar ábendingar.
3. Nefí 11; 17
Sumum fjölskyldum hefur fundist einkar mikilvægt á páskum að læra frásögnina um komu hins upprisna frelsara til Ameríku. Hvetjið fjölskyldumeðlimi til að ímynda sér að hvernig það hefði verið að þreifa á sárum hans (sjá 3. Nefí 11:14–15) eða vera eitt barnanna sem hann blessaði (sjá 3. Nefí 17:21). Hvernig gerir þessi frásögn okkur þakklátari fyrir upprisu frelsarans? Þessum drögum fylgir mynd af málverki sem lýsir þessum atburði; fleiri má finna á ChurchofJesusChrist.org. Fjölskyldumeðlimir gætu líka haft gaman að því að teikna sjálfir myndir af því sem þau lesa.
Boðskapur frá aðalráðstefnu
Aðalráðstefna aprílmánaðar þessa árs verður haldin helgina fyrir páska í mörgum heimshlutum. Ef til vill gæti fjölskylda ykkar hlustað á boðskap ráðstefnunnar, til að auðvelda henni að einblína á frelsarann þessa páska. Þið gætuð t.d. boðið fjölskyldumeðlimum að hlusta og gæta að þeim ráðstefnuboðskap sem vitnar um Jesú Krist og upprisu hans – einkum frá postulum, sem eru sérstök vitni Jesú Krists. Þið gætuð síðan rifjað upp þann boðskap í sameiningu og auðkennt kenningar sem styrkja vitnisburð ykkar um frelsarann.
„Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna“
Lesið saman sem fjölskylda „Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna“ (sjá churchofjesuschrist.org/bc/content/shared/content/icelandic/pdf/language-materials/36299_isl.pdf?lang=isl) og biðjið hvern fjölskyldumeðlim að velja páskaboðskap úr þessum vitnisburði, til að miðla öðrum. Þið gætuð t.d. búið til veggspjald til að sýna á samfélagsmiðlum, á útidyrum eða í glugga heimilis ykkar.
Myndbönd: Special Witnesses of Christ [Sérstök vitni Krists]
Á ChurchofJesusChrist.org og í smáforritinu Gospel Library eru myndbönd sem heita Special Witnesses of Christ [Sérstök vitni Krists]. Þar eru myndbönd þar sem hver meðlimur Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar ber vitni um Jesú Krist. Fjölskylda ykkar gæti horft á eitt eða fleiri þessara myndbanda og rætt hvað þau kenna um það sem frelsarinn hefur gert fyrir okkur.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.